Rósa Lúxembúrg

Ráðherrasósíalisminn

Vandkvæði sósíalista í Frakklandi

1901


Source: Die Neue Zeit (Stuttgart) 1900-1901 (I: bls. 495-9; II: bls. 516-525; III: bls. 548-558; IV: b1s. 619-631; V: bls. 676-688).
Translation: Örn Ólafsson
HTML Markup: Jonas Holmgren
Public Domain: Marxists Internet Archive (2008). You may freely copy, distribute, display and perform this work; as well as make derivative and commercial works. Please credit "Marxists Internet Archive" as your source.


I. Inngangur

Mál Millerands varð fyrsta innra málefni sósíalistahreyfingar ákveðins lands, sem vakti almennan áhuga alþjóðlega og var rætt á alþjóðlegri ráðstefnu sósíalista[1]. Því miður tók Parísarþingið fremur á hlutunum sem fræðimenn en sem virkir stjórnmálamenn. Níunda máli á dagskrá var gefið almennt fræðilegt svar, en ekki var hnýtt í það skýrri afstöðu til máls Millerands. Sérhver almenn ályktun gefur svigrúm fyrir túlkanir eftir því hve vel eða illa hún er orðuð. Óðara eftir þingið í París var útkoma þess túlkuð sem ávinningur fyrir Millerand af Jaurès í Frakklandi og Bernstein í Þýskalandi. Í desemberhefti Sósíalískra mánaðarrita dregur Vollmar loks í efa hæfni Kautskys til að túlka ályktunina sem hann þó samdi sjálfur, en Vollmar telur hana vera sigur Millerands. Það er svosem ekkert sérstakt þótt v. Vollmar látið í ljós hrifningu af ráðherradómi Millerands og hvílík blessun hann eigi eftir eftir að verða fyrir sósíalismann né þótt Vollmar andvarpi yfir vanþróun þýskra sósíalista andspænis framþróun franskra. Við höfum aldrei efast um að einnig í okkar röðum væru fagrar Helenur, sem væru tilbúnar að láta Paris nema sig á brott, liti hann bara til þeirra í náð, og við gætum sagt, eins og Itzig hinn vitri, þegar hann var spurður hvort Panamahneykslið franska gæti gerst í heimabyggð hans, Galisíu: "Það stæði svo sem ekki á fólkinu, það vantar bara skurðinn". Að þessu leyti er ekkert nýtt í grein Vollmars. Og hlutlæg rök hans með Millerand eru öll gamalkunn, Jaurès og aðrir hafa margsagt þau. Hér á eftir verður afstaða Jaurès tekin fyrir í nokkrum greinum. Þar með er ljósi varpað á afstöðu Vollmars, m.a. Grein hans þarf ekki sérstaks svars við, nema þegar hann auk þess að segja frá eigin skoðunum fer að fræða Þjóðverja um staðreyndir Frakklands og Frakka um afstöðu manna í Þýskalandi, hvorttveggja jafnranglega.

Tvennt skiptir mestu, þegar dæmt er um mál Millerands. Í fyrsta lagi hvort Millerand tók við ráðherradómi með leyfi franskra sósíalista eða án, og í öðru lagi hvaða dómur var lagður á stjórnarþátttöku hans af alþjóðlega þinginu almennt og sérstaklega af þýskum sósíalistum við samþykkt tillögu Kautskys.

Þýskur almenningur er einkum fræddur um, að Kautsky hafi óvart villt honum mjög sýn, í greininni í Neue Zeit nr 2, með því að lýsa inngöngu Millerands í borgaralega stjórn sem geðþóttaákvörðun hans, án vitneskju franska sósíalistaflokksins. Vollmar, sem ekki er vindbelgur einsog Kautsky, "kynnti sér málið mjög vel" í París og "fékk nákvæma frásögn eftir allrabestu heimildum" um inngöngu Millerands í stjórnina, og skilar henni nú frá sér með mikilli ánægju.

Samkvæmt henni birtist Millerand okkur sem góði drengurinn, sem lætur kveðja saman fund í þingflokki sósíalista þegar eftir að hann fékk tilboð Waldeck-Rousseau, og biður félaga sína um leiðsögn. Ekki er nóg með að stjórnarþátttaka hans fái almennt samþykki, heldur hlýtur hann sérstaka blessun Guesdista og Blanquista, einkum eru Vaillant og Sembat nánast með gleðitár í augum.

Væri þetta nú eins og Vollmar segir frá, þá breytti það svo sem engu um mat okkar á þátttöku sósíalista í borgaralegum stjórnum almennt. En það breytti gjörsamlega því mati sem hefur verið lagt á framgöngu Millerands hingaðtil, sem og á innri baráttu franskra sósíalista. Sé Millerand sannur fulltrúi sósíalistaflokksins og flokkurinn ábyrgur fyrir honum, þá verður hin ákafa andstaða franska verkamannaflokksins og flokksbrots Vaillants alveg óskiljanleg, og þeir eru þá raunverulega þau klofningsöfl meðal sósíalista, sem Vollmar reynir svo ákaft að láta vera. Til allrar hamingju þurfa sósíalistar um víða veröld ekki að hafa endaskipti á öllu sem rætt hefur verið og ritað um Millerandmálið. Því Vollmar hefur orðið fórnarlamb fransks grínista, sem hefur dregið hulu yfir augu honum "eftir allrabestu heimildum", vafalaust í besta tilgangi. Og getur þetta greinilega hent hina gætnustu menn. Bréf Vaillants frá 4. desember í fyrra, sem fer hér á eftir, sýnir ótvírætt hvernig í málinu liggur. Vaillant hefur leyft mér að birta bréfið. Þar segir:

"Oft hefi ég haft tækifæri til að segja opinberlega frá staðreyndum þessa máls. Á fundi þingflokks sósíalista, tveimur dögum fyrir stjórnarmyndunina, sagði Millerand "bara sem gamla sögu", að eftir fall stjórnar Dupuy hafi honum verið boðið að taka þátt í ríkisstjórn og hann hafi tekið þátt í viðræðunum upp á eigin ábyrgð, en alls ekki viljað blanda flokkinum í málið. Ég lýsti því þegar yfir að ég bókaði hjá mér þessi orð Millerands. Kæmi nokkurn tíma aftur til slíkra viðræðna og bæru þær árangur, myndi ég krefjast yfirlýsingar frá þingflokkinum og flokkinum um að hann þvægi hendur sínar af þvílíkri einstaklingsaðgerð, þarsem flokkurinn gæti ekki á nokkurn hátt átt hlut í miðstýringarvaldi borgarastéttarinnar, ríkisstjórn. Þegar ég hafði sagt þetta, gaf Millerand mér merki um samþykki, og við fórum síðan flestir á þingfund. Það flökraði ekki að neinum að efast um orð Millerands um að stjórnarmyndunarviðræðurnar væru "gömul saga".

Mér brá því mjög næsta dag þegar vinur minn, sem ég taldi þekkja vel til, sagði mér að Waldeck Rousseau hefði myndað stjórn sem Millerand og Galliffet væru í. Ég neitaði að trúa þessu og sendi Millerand þegar hraðbréf. Í því bað ég hann að bera þegar í stað til baka þennan orðróm, sem ég áleit róg, og ég bætti því við, að væri þetta satt, þá stæðu ekki lengur orð mín á þingflokksfundinum. Með því átti ég við, að í ljósi þess að Galliffet væri í stjórninni, nægði okkur ekki lengur að lýsa því yfir að stjórnarþátttaka Millerands væri hvorki á vegum flokksins, né gæti bundið hann á nokkurn hátt. Þar að auki yrðum við að mótmæla því af öllum kröftum að sósíalisti tæki höndum saman við slátrara Kommúnunnar.

Næsta dag fékk ég í senn blöðin með fréttum um að stjórn Waldeck, Millerand og Galliffet hefði verið mynduð, svo og hraðbréf Millerands, þar sem hann sagðist fá bréf mitt í hendur, er hann væri að koma af fyrsta ríkisstjórnarfundinum, málið sé útkljáð, hann álíti sig hafa gert skyldu sina og framtíðin muni skera úr. Þá flýtti ég mér á vit þingmanna, bæði úr mínum flokki (PSR) og vina okkar, og sama kvöld birtu blöðin mótmæli okkar. Við hertum enn á þeim með því að kljúfa okkur frá þingflokki sósíalista og mynda hóp byltingarsinnaðra sósíalista ...

Þegar ég les bréf yðar aftur, sé ég að helstu óvinir okkar saka okkur Sembat um að hafa staðið gegn ályktunartillögu um mál Millerands sem lögð var fyrir þingflokkinn og þeir bera þingmann fyrir þessu [sjá grein Vollmars. R. L.]. Það sem ég hefi skrifað yður hér að ofan, nægir til að hrinda þessari sögu, sem ég hefi áður heyrt, en er ekki síður röng þess vegna. Annaðhvort skjátlast þeim eða þeir ljúga (une contrevérité)"

Málið er því alveg ljóst. Millerand hefur hvorki kvatt saman þingflokk sósíalista né borið undir hann möguleikann á stjórnarþátttöku sinni, né fengið samþykki hans fyrir henni. Þvert á móti, einsog hann setti málin fram, gat þingflokkurinn ekki á nokkurn hátt gert ráð fyrir að þetta mál væri beinlínis á dagskrá, og það hvernig Vaillant og aðrir tóku þessum óljósu vísbendingum Millerands gat ekki látið hann í nokkrum vafa um að hann gæti ekki farið í ríkisstjórnina nema gegn óskum fulltrúa gömlu flokkssamtakanna.

Hefði nú Vollmar farið að safna upplýsingum af sömu samviskusemi og hann ráðleggur Kautsky svo ákaft að gera, þá hefði hann fundið þessa frásögn alla á prenti fyrir nokkrum mánuðum í Árbók Flokks byltingarsinnaðra sósíalista (1899-1900, bls. 39-53). Að því er ég best veit hefur enginn borið brigður á hana. Það hefði sparað honum ómakið við að breiða út rangar fréttir og vanda um við aðra fyrir það sama.

Áfram leiðréttir Vollmar hugmyndir Kautskys um merkingu ályktunartillögu hans sem alþjóðaþingið samþykkti. Nú byggir hann ekki lengur á einkaupplýsingum heldur á sínum eigin skarplegu athugunum og fíngerðu ályktunum. Með samþykkt ályktunarinnar tók mikill meirihluti Parísarþingsins nefnilega ekki afstöðu á móti Millerand, eins og Kautsky ímyndar sér, heldur með honum. Þessu til staðfestingar kemur nú mjög hugvitssamleg upptalning á einstökum ummælum og látbragði ýmissa flokksleiðtoga, á þinginu og utan.

Belginn Vandervelde, sem bar fram tillögu Kautskys sem framsögumaður, lýsti því raunar einfaldlega yfir, að hann væri andvígur ráðherradómi Millerands. En Vollmar veit af djúpri mannþekkingu sinni, að í þessu tilviki getur Vandervelde ekki talað af sannfæringu, því hann var einmitt framsögumaður og varð því að segja báðum aðiljum eitthvað í vil. Þótt Vandervelde hafi lýst sömu skoðun á máli Millerands fyrir heilu ári (í Petite République 21/9 1899), þá er Vollmar búinn að gleyma því, svo hann getur að sjálfsögðu ekki skýrt lesendum neitt frá því. Og jafnvel þótt Vandervelde hefði í rauninni verið á móti Millerand, þá talaði Anseele á eftir Vandervelde, og var "skilmálalaust" með ráðherranum. Og fyrst einn Belgi hefur talað fyrir Millerand og einn á móti honum, þá má ljóst vera að meirihluti Belga var með Millerand.

En Vollmar þarf ekki einu sinni að heyra í einum einasta fulltrúa til að hafa álit sendinefndarinnar á hreinu. Þannig létu t.d. Englendingar enga skoðun í ljós á máli Millerands, en Vollmar veit að einnig þeir voru sennilega með Millerand, en ekki móti. Því annars hefðu þeir ekki klappað meira fyrir Jaurès en fyrir Guesde og Vaillant og það sá Vollmar greinilega í ys og þys Parísarþingsins. Merkilegt hvað aðgætinn maður getur séð!

Hvað varðar þýsku sendinefndina, þá er Vollmar í "alls engum vafa" um að "yfirþyrmandi meirihluti" hennar er jafnheillaður af Millerand og Vollmar er sjálfur. Og fyrst Vollmar efast ekki, þá þarf lesandinn alls ekki að efast. Þarmeð er málið afgreitt.

Vollmar álítur að þetta samþykki þýsku sendinefndarinnar við inngöngu Millerand í stjórnina samsvari almennri afstöðu flokksmanna. Og það sanna skv. honum "hinar mörgu jákvæðu greinar" flokksblaðanna sem fjalla um "einstök verk Millerands", sem sé alls ekki um inngöngu hans í ríkisstjórnina.

Ítalir sleppa ekki heldur við niðursallandi röksemdafærslu Vollmars. Því Costa staðhæfði gagnvart Ferri að meirihluti ítölsku sendinefndarinnar fylgdi tillögu Kautskys. Og þarsem Ítalir greiddu atkvæði með tillögu Kautskys, getur þá nokkur efast um það lengur, að þeir skildu hana ekki einsog Kautsky, heldur einsog Volmar?

Já, meira að segja hatramasta andstæðing Millerands, Ferri, getur Volmar breytt í stuðningsmann. Til að fá fram rétta túlkun á atkvæðagreiðslunni á Parísarþinginu uppgötvar Volmar nefnilega að tveimur mánuðum síðar hafði Ferri "hugsað málið að nýju" og talað jákvætt um ráðherradóm sósíalista í Mantúa[2]. Og þannig breytist samþykkt ályktunar Kautskys á Parísarþinginu í áköf alþjóðleg fagnaðarlæti til heiðurs Millerand.

Af allri þessari úthugsuðu sannanakeðju er því miður aðeins hægt að álykta eitt: vér Þjóðverjar höfum að því leyti öðlast þroska til að taka við ráðuneytum, að ekki skortir oss málflutningshæfileika. En venjulegri skynsemi nægir eftirfarandi atriði til að komast að raunverulegri afstöðu meirihluta alþjóðlega þingsins í París.

Í ályktuninni, sem Kautsky samdi, segir:

"En altént getur þessi hættulega tilraun [innganga sósíalista í ríkisstjórnR. L.] því aðeins orðið að gagni, að hún sé samþykkt af einhuga flokksdeild og ráðherrann sósíalíski sé og verði fulltrúi flokks síns. Verði hann óháður flokki sínum, hætti hann að vera fulltrúi hans, þá verður innganga hans í ríkisstjórnina ekki til að styrkja öreigastéttina, heldur til að veikja hana, ekki til að flýta fyrir því að ná pólitískum völdum, heldur til að seinka því"[3].

Millerand tók ekki við ráðherradómi sem fulltrúi franska sósíalistaflokksins. Það leiðir ekki bara af því að ekki er til slíkur sameinaður flokkur í Frakklandi, heldur líka af hinu að hann fékk hvorki umboð frá einstökum flokksdeildum né frá þingflokkinum. Hin merkilegu leyndarmál "allrabestu heimilda", sem Vollmar var síðar trúað fyrir í París, hafði alþjóðlega þingið alls ekki hugmynd um. Þvert á móti, sósíalistar voru undantekningarlaust allir, og eru þeirrar skoðunar, að þátttaka Millerands í ríkisstjórninni sé alger geðþóttaákvörðun einstaklings. Meira að segja verjandi Millerands Jaurès, staðfestir þann skilning með því að hann notar einmitt þessa geðþóttaákvörðun Millerands hvað eftir annað sem rök fyrir nauðsyn einingar sósíalista.

Jafnvel þótt nafn Millerands væri ekki nefnt, hefur því meirihluti þingsins lýst því yfir með því að samþykkja tillögu Kautskys, að hann líti svo á að stjórnarþátttaka Millerands veiki frönsku öreigastéttina og tefji valdatöku verkalýðsstéttarinnar í Frakklandi. Og framhjá þessari staðreynd verður með engu móti komist

Þegar Vollmar því eftir á gerir grein fyrir atkvæði sínu á svo hagstæðan hátt fyrir Millerand, þá er það ekkert annað en nýtt dæmi um þá alkunnu aðferð, að maður undirritar sjálfur samþykkt, sem táknar ósigur skoðunar hans, til að geta síðan túlkað hana sem sigur sinn.

Af tilliti til franskra félaga okkar er mikilvægt að hafa það á hreinu sem hér varðar þýska flokkinn sérstaklega. Petite République lagði spurningar fyrir sósíalista víða um heim. Í Þýskalandi töluðu allir gömlu flokksforingjarnir, Liebknecht, Bebel, Singer, Kautsky, allir nema Vollmar, gegn ráðherradómi Millerands. En hvor aðilinn túlkar fremur skoðanir þýskra sósíalista, Vollmar eða fjórmenningarnir, það getur Vollmar auðveldlega séð sjálfur, ef hann minnist einstakra tilvika, þegar hann stóð gegn Liebknecht, Bebel, Singer og Kautsky um baráttuaðferðir, og hvernig fór.

 

II. Ríkisstjórn til varnar lýðveldinu

Jaurès og fylgismenn hans færa þrennskonar rök fyrir þátttöku Millerands í ríkisstjórninni: nauðsynina á að verja lýðveldið, möguleikana á félagslegum umbótum verkalýðsstéttinni í vil, og loks þá almennu skoðun að þróun auðvaldssamfélagsins til sósíalisma hljóti að skapa umbreytingaskeið, þarsem pólitískt vald verði í höndum borgarastéttar og öreiga sameiginlega, en það komi fram í stjórnarþátttöku sósíalista.

Fyrst komu fram þau rök, að verja þyrfti lýðveldið.

Lýðveldið er í hættu: Þessvegna var nauðsynlegt að sósíalisti gerðist borgaralegur viðskiptaráðherra. Lýðveldið er í hættu. Því varð sósíalistinn að vera kyrr í ráðuneytinu eftir að verkfallsmenn höfðu verið skotnir niður á Martinique-eyju og í Chalon. Lýðveldið er í hættu. Þarafleiðandi varð að hafna rannsókn á þessum fjöldamorðum, neita þingrannsókn á hryðjuverkum nýlendustjórnarinnar, samþykkja sakaruppgjöfina[4]. Allt sem ríkisstjórnin gerir og lætur ógert, sérhver atkvæðagreiðsla og afstaða sósíalista var rökstudd með því að lýðveldið væri í hættu og það þyrfti að verja. Það er tími til kominn að taka ástandið til greiningar, líta undir yfirborð daglegrar baráttu og slagorða hennar, og skoða sérstaklega hvað felst eiginlega í þessari hættu og þessari vörn.

Í Bandaríkjum Norðurameríku er þrátt fyrir ákafa innri baráttu stétta og flokka, ekkert talað um,.að hætta steðji að lýðveldisskipan ríkisins. Það er auðskilið, því Bandaríkin öðluðust lýðveldisskipanina um leið og sjálfstæðið, og sjálfstæð hafa þau aldrei lotið konungi. Hinsvegar virðist jafneðlilegt að óttast um lýðveldið í Frakklandi. Tvívegis hafði það komist á fyrir baráttu og í bæði skiptin var því eftir skamma hríð komið fyrir af konungsveldi. Hér kastar því fortíðin skuggum sínum á samtíðina, og hylur þá sögulegu þróun sem á milli liggur.

Enda þótt valdarán Napóleónanna beggja, 18. brumaire og 2. desember hafi verið nátengd ytri aðstæðum, þá voru þau alls engin uppákoma. Bæði fyrra og síðara keisaradæmið voru umfram allt bein afleiðing undanfarandi byltingar, hvíldarstaðan í útsogi byltingaröldunnar. Bæði voru þau borin uppi af tveim öflugum stéttum borgaralegs samfélags: stórborgarastétt og bændastétt.

Í fyrra tilvikinu sjáum við borgarastéttina reyna að stöðva byltingarölduna og þrengja henni niður í upphaflega stöðu. En þessi alda hafði ætt langt út í yfir það takmark sem henni var ætlað, að skapa borgaralegt réttarríki, nú var hún farin að grafa undan grundvelli þessa réttarríkis. Bændastéttin hafði frelsað sig skyndilega og eignast jarðnæði. Hún óttaðist nú allar frekari nýjungar jafnt og endurreisn fyrra stjórnarfars, og vildi tryggja ávinninga sína með ríkisstjórn sem væri jafnfjandsamleg byltingum og gamla konungdæminu. Hinsvegar er verkalýðsstéttin. Á sínum stutta valdatíma braut hún smáborgarastéttina á bak aftur og rak hana í arma afturhaldsins, en sannaði jafnframt að hún átti fyrir sitt leyti enga framkvæmanlega, sjálfstæða stefnuskrá. Hún hafði og gjöreyðst í byltingarbaráttunni. Og gegn þessu öllu stóð loks bandalag lénskra afla og afturhalds Evrópu. Gagnvart því hlutu allar innri andstæður og barátta að víkja, það skóp nauðsyn á sterku, samþjöppuðu valdi útávið.

Í seinna tilvikinu er borgarastéttin í fararbroddi. Einsog stórjarðeigendur skelfist hún byltingarframrás öreiga og smáborgarastéttar. Með hjálp smáborgarastéttarinnar ber hún fyrst verkalýðsstéttina niður í múgmorðunum í júní. Til þess síðan að losa sig við smáborgarastéttina styrkir hún smám saman framkvæmdavaldið á kostnað þingsins og stingur þannig loks sjálf höfðinu í snöruna. Hún tekur því með jafnaðargeði, enda var hún konungssinnuð fyrir, og hafði eiginlega það eitt út á konungdæmi Bonapartes að setja, að ekki ríkti Orleans-ættin né Bourbonar. Að auki er bændastéttin, sem hafði verið holl Napóleon allt frá fyrra keisaradæminu. Í seinna keisaradæminu hlaut hún að sjá leið til að halda órólegum borgarbúunum niðri með öflugri hermannshendi. Af borgarbúum vænti bændastéttin ekki lengur neins góðs, bara óróa, og hataði þá.

Þótt seinni byltingin gengi í grundvallardráttum öfugt til við þá fyrri[5], þá fylgdu bæði valdránin sömu meginlínum. Í báðum tilvikum ráða annarsvegar beinir efnahags- og stjórnmálahagsmunir mikilla samfélagsstétta sem eru bundnar konungdæminu, hinsvegar hefur hið raunverulega lýðveldisafl, verkalýðsstéttin áður verið sett úr leik. Loks hefur þróun gagnbyltinga í báðum tilvikum undirbúið jarðveginn fyllilega fyrir konungdæmið, þar sem eru embætti konsúls til lífstíðar og þjóðkjörins forseta sem eru alráðir yfirmenn hers og stjórnkerfis. Það sem því kom fram í valdráninu hverju sinni, var þegar fullþroskaður ávöxtur gagnbyltingarinnar í skauti lýðveldisins. Valdránið skóp ekki nýtt ástand, það viðurkenndi bara ríkjandi ástand og nefndi það réttu nafni.

Ástandið var í grundvallaratriðum ólíkt þessu í Frakklandi á tímum Dreyfusmálsins. Þeir sem sáu fyrirboða þriðja valdránsins eftir fyrirmynd hinna tveggja í yfirgangi óhlýðinna herforingja og þjóðernissinna, hafa vanrækt að gera sér grein fyrir útkomu þjóðfélagsþróunar Frakklands síðastliðin þrjátíu ár. Á þessum tíma hafa reyndar orðið miklar breytingar í skauti fransks samfélags. Afleiðingar þeirra má draga saman á þessa leið: Lýðveldið, sem var kæft í bæði fyrri skiptin, áður en það hefði hreinsað af sér líknarbelg byltingarinnar, hefur nú í fyrsta sinni staðið nógu lengi til að lifa eðlilegu lífi og sanna borgaralegu samfélagi að það getur lagað sig að þörfum þess betur en nokkurt konungsdæmi í heimi.

Meginhluti borgarastéttarinnar hefur í þriðja lýðveldinu í fyrsta sinn náð fullum völdum. Allt frá lokum áttunda áratugsins hefur hún þau með höndum í gegnum nær stöðugan þingmeirihluta og tækifærissinnaðar ríkisstjórnir. Nýlendustefna Frakklands og hernaðarstefna, svo og þær hrikalegu opinberu skuldir sem því fylgja, sýna að lýðveldið stenst samanburð við hvaða konungsríki sem er í þessum arðvænlegustu framkvæmdum borgarastéttarinnar.Panamahneykslið og Suðurbrautarmálið sönnuðu endanlega að þing og stjórnkerfi lýðveldisins eru hreint ekki óhentugri verkfæri fyrir gróðabrall auðvaldsins en stjórnmálakerfi konungsdæmis Orleansættarinnar.

Smáborgarastéttinni reyndist þriðja lýðveldið vera hinn ákjósanlegasti jarðvegur, því ríkisskuldabúskapurinn og sívaxandi skrifræðið skópu heilan her af minniháttar vaxtaþegum og embættismönnum, sem áttu alla tilveru sina undir því að lýðveldið stæði áfram með kyrrð og spekt.

En jafnvel sínum gömlu hatrömustu andstæðingum jós nægtabrunnur lýðveldisins gulli, bæði smájarðeigendum, en þó enn frekar stórjarðeigendum.

Hluti bændastéttarinnar hafði við valdrán Napóleons annars hlotið nægjanlegan þroska til að sýna konungdæminu hollustu sína í hverri uppreisninni eftir aðra, þær voru barðar niður af grimmd. En síðan hefur hún fengið yfrin tilefni tilað endurskoða hugmyndir sínar um lýðveldið. Síðustu tvo áratugi hefur verið framkvæmt heilt kerfi mikilvægra aðgerða sem koma einmitt einkum til góða efnuðum bændum, hinum gamla máttarstólpa Bonapartismans. Skattalækkun á jarðeignum nemur 25 milljónum franka, bara síðan 1897. Skattbyrði landareigna í heild hefur minnkað um sjöttung í beinum tölum síðan 1851, þrátt fyrir að hreinar tekjur hafi aukist mikið. Kerfi verndartolla, sérstaklega gagnvart kvikfénaði og korni, beinist einkum að því að auðga jarðeigendur. Við þetta bætast fjárveitingar hundraða milljóna franka til jarðarbóta, til að leggja sveitavegi, til að lækka flutningskostnað á jarðarafrakstri, sykurræktarverðlaun, o. s.frv.

Loks má nefna að í félagslegum umbótum hefur raunverulega ríkt nær alger kyrrstaða og að tekjur hins opinbera hafa að meginþunga flust yfir á óbeina skatta. Frá 1869-97 hækkuðu tolltekjur um 183%, tekjur af tóbakseinkasölunni um 49% og af drykkjarvörum um 84% og á þeim tíma stóð íbúatalan nokkurnveginn í stað. Allt þetta sannar að þriðja lýðveldið hefur mjög áþreifanlega efnislega kosti fyrir allar eignastéttir. Kostnaðurinn hvílir þyngst á einu eignalausu stéttinni, öreigunum.

Við allt þetta má svo bæta að lýðveldið hefur sýnt aðlögunarhæfni sína jafnglæsilega í utanríkismálum sem þróun innanlands. Með bandalaginu við ríki Zarsins, yfirboðara evrópsks afturhalds, hefur það gert fornan fjandmann að velviljuðum bandamanni.

Síðastliðin þrjátíu ár hafa því ekki gengið áhrifalaust yfir Frakkland. Félagslegt inntak þriðja lýðveldisins hefur þróast og í augum Frakka hefur það breyst úr skelfilegri vofu byltingarinnar í eðlilega mynd borgaralegs samfélags.

Nú standa að lýðveldinu þorri borgarastéttarinnar, "hinir söddu" og mikill fjöldi smáborgaranna. Það hefur slævt tortryggni helsta andstæðings síns fyrrum, bændastéttarinnar, því lýðveldið hefur reynst henni sem ástrík móðir. Og jafnvel sú stétt sem það reyndist stjúpmóðurlegast, hefur samt haldið fornri tryggð við það. Það er verkalýðsstéttin, hún stendur nú allt öðruvísi en á tímum valdránanna beggja. Pólitískt skóluð, upplýst, skipulögð, þótt klofin sé í fylkingar, þá er sósíalísk öreigastétt Frakklands nú traust brjóstvörn lýðveldisins. Flokkur hennar fékk nær milljón atkvæði í síðustu þingkosningum.

Í þvílíku félagslegu umhverfi hlýtur flokkur konungssinna greinilega allt annað hlutverk og minna en hann gegndi áður. Í Dreyfusmálinu höfðu vígorð daglegrar baráttu komið mönnum til að líta á flokk þjóðernissinna sem aðalstöðvar valdaráns; og á hvern afturhaldsmann svosem Méline, Barthou eða Ribot sem konungssinna. En þegar nánar er að gáð og rólega, er þetta síður en svo heilsteyptur hópur með sömu stjórnmálaafstöðu. Þvert á móti var þetta samsull margvíslegra afla með sundurleitustu stefnu og hagsmuni.

Í miðpunkti eru þar hneykslisflekkaðir herforingjar, herforingjaráðið með fylgdarliði. Þeir óttast að vísu að borgaralegt vald lýðveldisins krefji þá reikningsskila og það knýr þá auðvitað til uppreisnar gegn þessu valdi. En betur að gáð hafa þeir ekki raunverulegan hag af endurreisn konungdæmis. Þvert á móti, var það einmitt þriðja lýðveldið sem gerði herinn að þeim hjáguði, sem hann var aldrei áður, með allskyns endurbótum, fríðindum og brjálæðislegri dýrkun þjóðernishroka. Dreyfusmálið sýndi einmitt best að lýðveldið er háttsettum herforingjum sem paradís. Fullyrða má að hroki sá og geðþóttaákvarðanir, sem hafa einkennt herforingjana undir vængjum lýðveldis tækifærissinna, væri ekki auðvelt að hugsa sér undir konungsveldi. Það er því ómögulegt að herinn þrái raunverulega að konungsstjórn taki fastar í taumana. Andúð hans á lýðveldinu er því ekki annað en nauðvörn þorpara, sem lýðveldið stóð að verki og afhjúpaði.

Þarna eru líka klerkarnir sem raunar hafa alltaf setið um lýðveldið og beðið færis á að kyrkja það. Áreiðanlega hafa þeir feiknaleg áhrif á almenn viðhorf, en þeir geta ekkert gert sjálfir, heldur aðeins unnið í gegnum aðra, einungis verið leikstjóri og hvíslari, ekki leikarar.

Í þriðja lagi eru þarna smáborgarar, gripnir gyðingahatri, svo sem eðlilegt er í Frakklandi, landi smáatvinnureksturs þar sem gyðingar eru áhrifamiklir í fjármálum. Smáborgararnir eru opnir fyrir áróðri gegn "Dreyfusunum", einsog fyrir öllum afturhaldsstraumum. Þeir eru hinn ákjósanlegasti jarðvegur fyrir þjóðernislegt lýðskrum, en þeir þurftu alls ekki að fagna valdaráni keisaraspíru, né gerðu þeir það.

Loks eru þarna líka sannir konungssinnar: fulltrúar bænda í vanþróuðustu héruðum Frakklands, aðalsmenn sem á kyrrðartímum neyðast til að lifa í friði við þriðja lýðveldið, eða a. m. k. að una hlutskipti sínu í hljóði vegna þróunar mála í lýðveldinu. Ókyrrðin vekur þeim nú kjark til að birtast á yfirborði stjórnmálanna. Ennfremur er fylgilið þeirra, skjólstæðingar, blaðamenn og rithöfundar.

Það er auðskilið að þessir veikburða aðiljar skyldu strax taka höndum saman við klerkana, fylkja sér um aðþrengda hershöfðingja, ýta þeim á undan sér sem múrbrjót og reyna að nota upplausnarástandið í eigin þágu. Það er einnig auðskilið að þessar aðstæður, ásamt uppreisnarhneigð hneykslisflekkaðra hershöfðingjanna, hlutu að ljá þessu öllu svip keisaralegra valdræningja. En þessi utanaðkomandi hneigð til konungsveldis fann ekkert tangarhald efnislega. Ekki var nóg með að í engri samfélagsstétt væri alvarleg hreyfing í þessa átt, það var ekki einu sinni hægt að finna ytri viðmiðun, nokkurt konungsefni sem mark væri takandi á. Annað konungsefnið, ofursti í rússneska hernum, lítt áberandi í herbúðum útkjálkaborgar Zarríkisins, getur ekki einu sinni höfðað til Austurlitz og Jena, heldur aðeins til Metz og Sedan[6]. Hitt er algert núll sem dragnast um útlönd í fylgd um tvöhundruð niðurdrabbaðra karla og kvenna. Allur þeirra "áróður" er árleg hátíðarmáltíð eins og nú nýverið. Þar halda þau hefðbundnar ræður um þær vonir sem "þróunin" veki.

Við slíkar aðstæður gat hin sameiginlega aðgerð aðeins leitt til þjóðrembuæðis, herferðar gyðingahaturs, og dýrkunar á hernum, sem átti ekki sinn líka. Hinsvegar vantaði nánast allt til alvarlegra pólitískra aðgerða, til að kollvarpa lýðveldinu: til þess skorti innri samheldni, skipulag, stefnuskrá og sérstaklega innri þróun félagslegra aðstæðna, sem áður hafði borið konungdæmið í kviði sínum, svo að valdaránið gæti veitt fæðingarhjálpina. Dreyfusmálið gat æst upp öll fyrrtalin öfl, plægt jarðveginn fyrir áróður konungssinna, skapað kringumstæður valdráns en það gat ekki komið í stað raunverulegra hreyfiafla valdránsins, og þau voru ekki til. Konungsfylgið var ytri málning upplausnarástandsins að hluta, en ekki inntak þess.

Allt aðrar ástæður ullu upplausnarástandinu. Þriðja lýðveldið hefur þróast í fullkomið form pólitískrar drottnunar borgarastéttarinnar en jafnframt þroskað innri andstæður hennar. Grundvallarandstæður eru á milli lýðveldis sem byggist á borgaralegu þingræði, og mikils fastahers sem miðast við nýlendustefnu og heimspólitík. Í sterku konungsdæmi er herinn eðlilega ekkert annað en hlýðið verkfæri í höndum framkvæmdavaldsins. En gagnvart þingbundnu lýðveldi, þar sem sífellt skiptir um stjórn úr röðum óbreyttra borgara, þar sem þjóðhöfðinginn er kosinn og hvaða "hundspott" sem er getur náð þeirri tign, fyrrverandi sútunarsveinn eða kjaftagleiður málflutningsmaður, þá vekur vitund hersins um að vera úrvalssveit honum hneigð til að verða óháð afl, aðeins lauslega tengt ríkisheildinni.

Félagsleg þróun Frakklands hefur komið hagsmunahópum borgarastéttarinnar til þvílíks þroska að hún rennur sundur í aðskilda hópa sem nota þing og ríkisstjórn til framdráttar sérhagsmunum sínum án þess að finna til ábyrgðar á heildinni. Sama þróun hefur líka breytt hernum úr verkfæri ríkishagsmuna í sjálfstæðan hagsmunaaðilja sem er reiðubúinn að verja forréttindi sín án tillits til lýðveldisins, þrátt fyrir lýðveldið og gegn lýðveldinu.

Þessar andstæður milli þingbundins lýðveldis og fastahersins er einungis unnt að leysa með því að leysa herinn upp í borgaralegt samfélag og að skipuleggja borgaralegt samfélag sem her, með því að breyta varnarliðinu úr tæki til undirokunar og nýlendudrottnunar í tæki til að verja þjóðina, í stuttu máli sagt, með því að láta varnarsveitir koma í stað fastahersins. Á meðan þetta er ekki gert, brjótast þessar innri andstæður reglulega út í kreppum, í árekstri lýðveldisins við sinn eigin her. Þar birtast áþreifanlega afleiðingarnar af sjálfstæði hersins, spilling hans og agaleysi. Wilsonmálið, Panamahneykslið og Suðurbrautarmálið hlutu að finna samsvörun sína í Dreyfusmálinu.

Uppsteitur herforingjanna var því viðleitni til að halda sjálfstæðinu gagnvart borgaralegu valdi lýðveldisins, en ekki til að glata því algerlega til konungdæmis.

Af þeim aðstæðum sem hér hefur verið lýst, leiddi eðlilega trúðsbraginn á aðgerðum svokallaðra konungssinna. Tryllt pennastríð í blöðunum, ærandi hávaði dólgslegra gyðingafjenda, mannsöfnuður og húrrahnegg fyrir utan ritstjórnarskrifstofur þjóðernissinnaðra blaða, glerbrot hjá ritstjórnarskrifstofum Dreyfusvina, kássast upp á óviðkomandi vegfarendur, Guerin bjóst um í Rue Chabrol og pestaði loftið[7], gyllta æskan reyndi að berja forsetann á veðreiðunum. En í þessu rafmagnaða, taugastrekkjandi andrúmslofti kom ekki ein einasta alvarleg pólitísk aðgerð til að fremja valdrán. Hámark ólgunnar var hin mikla sögulega stund þegar móðursjúki vindhaninn Dérouléde greip í taumana hjá Roget hershöfðingja er hann fór fyrir liði sínu til herbúðanna. Dérouléde ætlaði að leiða hann með hetjulegum tilburðum til forsetahallarinnar Elysée, án þess að hann sjálfur hefði þó hugboð um hvað Roget ætti svo að gera í Elysée og hvað ætti eiginlega að koma út úr öllu ævintýrinu. Þorparinn í herfrakkanum reyndist líka vitrari trúðnum borgaraklædda, og eina svarið við "beau geste" [göfugri athöfn[8], þýð.] þessa höfðingja gyðingafjenda var að rýtingi var slegið á fingur Dérouléde. Þannig lauk einu tilrauninni til valdaráns konungssinna.

Af þessari stuttu lýsingu hér að framan sést, að ástandið var töluvert ólíkt því sem virðast mátti á yfirborðinu. Nú sem endranær voru örlög lýðveldisins ekki undir einstökum "bjargvættum" komin - og það í ráðherrastól - heldur undir öllu innra samhengi efnahagslegra og pólitískra aðstæðna í landinu. Það er skiljanlegt að hættan á valdráni í Frakklandi þætti mikil og alvarleg í ólgu daglegrar baráttu. Þá var mjög erfitt að rannsaka félagslegan bakgrunn fyrirbæranna, og næstum ógerlegt fyrir þátttakendur. Þá tóku fyrirbæri og staðreyndir á sig ýkta stærð. Og auðvitað var brýn nauðsyn á þróttmiklum aðgerðum lýðveldissinna, á þingi, og enn fremur utan þess, til að hafa taumhald á þjóðernissinnaskrílnum og herforingjaráðsmönnum.

En að tyggja nú upp úr fjarlægð þessa skoðun baráttustundarinnar, eftir að hið ótrygga ástand er liðið hjá, að hylla í alvöru sem "bjargvætti" franska lýðveldisins stjórn Waldeck-Rousseau og Millerand sérstaklega, í því birtist ekkert annað en söguskoðun lágkúrunnar. Sú söguskoðun er hliðstæða dólgahagfræðinnar og skilur atburðina eins og þeir birtast á yfirborði stjórnmálalífsins, sem aðgerðir ráðherra og annarra "aðalpersóna" sögunnar, í stað þess að skilja raunverulegt innra samhengi þeirra. Það verður að taka nákvæmlega jafnalvarlega að Millerand hafi bjargað lýðveldinu, og ógnina sem því stafaði af konungssinnunum Dérouléde og Guérin.

Og það verður að segja, að stæði vörn lýðveldisins og félli með aðgerðum ráðuneytis Waldeck Rousseau, þá væri það löngu liðið undir lok. Fíflalátum hins konungssinnaða valdráns samsvara fíflalæti varnar lýðveldisins.

Sjaldan hefur ríkisstjórn tekið við stjórnvelinum á alvarlegra augnabliki og sjaldan hafa menn bundið meiri vonir við ríkisstjórn. Þótt hættan af konungssinnum hafi fremur verið grýla en raunveruleiki, þá var hin raunverulega ógn sem steðjaði að Frakklandi ekki minni en hin ímyndaða

Alvarleg hætta var á því að lýðveldið sýndi vanmátt sinn i skærum við stjórnleysisöflin, óhlýðna hershöfðingja og presta sem espuðu til mótþróa. Það myndi gera óhjákvæmilegt að viðlíka ótryggt ástand kæmi upp aftur og aftur.

Augu alls hins siðmenntaða heims beindust að Frakklandi. Það þurfti að sýna lífsþrótt sinn sem skipulegt ríki. Það þurfti að sýna að hið borgaralega Frakkland ætti enn nægan þrótt til að losa sig sjálft við upplausnaröflin sem það elur af sér og gera þau óskaðleg.

Það sagði sig sjálft, af aðstæðunum, hvað þurfti að gera. Fyrst herinn hafði þróast yfir í sjálfstæða veru og snúist gegn líkama lýðveldisins, þá þurfti að reiða öxina að sjálfstæði hans og færa hann nær samfélagi óbreyttra borgara með því að afnema herréttinn og stytta herskyldu. Fyrst klerkar studdu uppreisnarhneigð hersins og espuðu hann gegn lýðveldinu, þá þurfti að eyða valdi þeirra með því að leysa upp klausturreglurnar, gera eignir þeirra upptækar, aðskilja skóla frá kirkjunni og kirkjuna frá ríkinu.

Og umfram allt, fyrst spillingin í hernum, alræmt dómsmorðið og allur rottuhalinn af lygum, falsi, meinsæri og öðrum glæpum hafði alveg farið með álit Frakklands innanlands og utan, þá þurfti að ávinna dómskerfi lýðveldisins aftur virðingu og viðurkenningu með því að refsa hinum seku, sýkna hinn saklausa og upplýsa málið fyllilega.

Ráðuneytið er búið að vera nítján mánuði við völd, það er búið að standa tvöfalda meðalævi franskra ríkisstjórna, þessa örlagaþrungnu níu mánuði. Hver eru afrek þess, hvað hefur það gert?

Ekki er hægt að hugsa sér meiri andstæður milli tækja og takmarks, verkefnis og framkvæmdar, undanfarandi auglýsingar og eftirfarandi framkvæmdar, en er á milli vonanna sem bundar voru við Waldeck Rousseau og þess sem hann hefur staðið við.

Af öllum endurbótunum á dómskerfi hersins höfum við hingað til aðeins fengið loforð hermálaráðherrans um að taka það inn í dómskerfi hersins að "aðstæður geti verið nokkur afsökun". Af öllum breytingum á hernum"í lýðræðisátt" varð aðeins ákvörðun um hvaða blöð liðsforingjar fái að lesa. Á þingfundi 27. desember í fyrra bar sósíalistinn Pastre fram tillögu um að herþjónusta yrði tvö ár. André hershöfðingi svarar, að hann, ráðherra róttækra til varnar lýðveldinu, geti ekki tekið neina afstöðu til þessara umbóta, sem þegar hafa komist á í Þýskalandi, sem er þó hálfgert einvaldsríki. Á sama fundi krefst sósíalistinn Dejeante þess að prestar verði fjarlægðir úr herskólum, leikir starfsmenn komi í stað geistlegra á hersjúkrahúsum og herinn hætti að greiða fé til kirkjunnar. Svar ráðherra til varnar lýðveldinu, sem átti að fjarlægja herinn frá kirkjunni, er að hafna tillögunum hryssingslega og lofsyngja herklerka undir dynjandi fagnaðarlátum þjóðernissinna. Á þingfundi í febrúar 1900 átelja sósíalistar ýmiskonar hróplega valdníðslu í hernum - ríkisstjórnin hafnar hverskyns þinglegri rannsókn á henni. Á þingfundi 7. desember í fyrra kom þingmaður róttækra, Vigné d'Octon með hrollvekjandi afhjúpanir á stjórn franska hersins á nýlendunum, á Madagaskar og Indókína - ríkisstjórnin hafnar þinglegri rannsókn sem "hættulegri og tilgangslausri". Eftir allt þetta fer hermálaráðherrann í ræðustól til að segja frá hetjulegri vörn sinni fyrir riddaraliðsforingja sem var sniðgenginn af félögum sínum, af því að hann hafði kvænst fráskilinni konu.

Þá kemur hin feiknlega barátta við drekann - prestastéttina. Stríðið við hana er eins og rauður þráður í sögu Frakklands undanfarna öld. Bara þriðja 1ýðveldið hefur afgreitt 33 lög gegn klerkum. Allar aðgerðir hafa hingaðtil reynst máttvana, því þær beinast ekki gegn kirkjunni í heild, heldur aðeins að óaðskiljanlegum hluta hennar, klausturreglunum. Og reglurnar eru ekki einu sinni bannaðar, heldur á að leggja þær undir ríkið með því að neyða þær til að fá starfsleyfi frá hinu opinbera. Þrátt fyrir alla lagasetninguna hefur fjölgað í reglunum uppí 200.000 undir þriðja lýðveldinu, og eignir þeirra hafa þrefaldast. Nú kemur axarhögg "ríkisstjórnar til varnar lýðveldinu". Frumvarp Waldeck Rousseau beinist eingöngu gegn óleyfðum reglum, og til að takmarka þær er lagasetning sem leggur munkareglur að jöfnu við opinber félög. Lögin geta svo góðar ríkisstjórnir notað gegn klerkum og vondar gegn sósíalistum. Lýðveldið býr eftir sem áður að leyfðum reglum með eignir uppá nær 400 milljón franka, og að geistlegri stétt á framfæri ríkisins: 87 biskupum, 87 prestaskólum, 42.000 prestum, opinber fjárveiting til trúmála er u.þ.b. 40 milljónir franka. Vald hinnar geistlegu stéttar felst einkum í áhrifum hennar á uppeldið. Nú er verið að eitra tvær milljónir franskra barna í skólum kirkjunnar og gera þau að fjendum lýðveldisins. Ríkisstjórnin tekur á honum stóra sínum og bannar kennslu óleyfðra reglna. En nær öll kennsla geistlegra er í höndum leyfðra reglna og við þessar róttæku umbætur eru af nær tveimur milljónum barna heil fimmtán þúsund tekin undan vígða vatninu. Uppgjöf ríkisstjórnarinnar fyrir kirkjunni hefst með því að Waldeck-Rousseau hyllir páfann í ræðu, og hún er innsigluð með traustsyfirlýsingu sem þjóðernissinnar bjóða stjórninni.

Hápunktur lýðveldisvarnar stjórnarinnar eru loks lög um sakaruppgjöf frá því í desember í fyrra. Í tvö ár engdist Frakkland af þrá eftir sannleikanum, ljósi og réttlæti. Í tvö ár var samviska þess þrúguð af óbættu dómsmorði. Samfélagið var að kafna í pestinni af lygum, meinsæri og falsi.

Og loksins var komin ríkisstjórn til varnar lýðveldinu. Heimurinn stóð á öndinni. Nú skyldi "sól réttlætisins" rísa.

Og hún reis. 19. desember lét stjórnin þingið samþykkja lög sem tryggja öllum glæpamönnum refsileysi, neita öllum fórnarlömgum um uppreisn fyrir dómstólum, kæfa öll réttarhöld sem hafin voru. Þeir sem í gær voru kallaðir hættulegustu óvinir lýðveldisins, þá tekur það nú sem glataða syni í kærleiksríkan faðminn. Til að verja lýðveldið er öllum árásarmönnum þess veitt allsherjarsakaruppgjöf, til að endurreisa dómskerfi lýðveldisins er fórnarlömbum dómsmorðs neitað um uppreisn æru.

Róttækni smáborgaranna er söm við sig. Róttækir borgarar sem mynduðu stjórn Ribot 1893 til að gera upp Panamá hneykslið, slepptu öllum ákærðum þingmönnum við réttarrannsókn og létu málið renna útí sandinn af því að lýðveldið væri í hættu. Waldeck-Rousseau, sækjandi Dreyfusmálsins, gerir úr því fullkomna sneypuför til að reisa skorður við hættunni af konungssinnum. Þetta fer eftir gamalkunnum leiðum:

"Glymjandi forleikur, sem boðaði baráttuna, hnígur niður í lágvært muldur þegar hún á að hefjast, leikararnir hætta að taka sig alvarlega og atburðarásin lyppast niður eins og þanin blaðra væri stungin með nál". (Marx, 18. brumaire. Úrvalsrit II, 146).

Og til að framkvæma þessa afkáralegu, smáu aðgerð, sem er hlægileg, ekki aðeins frá sjónarmiði sósíalista, ekki aðeins frá sjónarhóli hálfvegis lífvænlegs flokks róttækra, nei, hlægileg líka frá sjónarmiði tækifærissinnaðra lýðveldissinna níunda áratugsins, Gambetta, Jules Ferry, Constans, Tirard; þurfti til þess sósíalista, þarf fulltrúi alls afls verkalýðshreyfingarinnar að vera í ríkisstjórn til þess?

Tækifærissinninn Gambetta og hófsamir lýðveldissinnar hans kröfðust þess 1879 að allir konungssinnar yrðu reknir úr opinberri þjónustu og það varð til þess að MacMahon hrökklaðist úr forsetastóli. 1880 ráku þessir"heiðvirðu" lýðveldissinnar jesúíta úr landi og komu á ókeypis skðlaskyldu. Með endurbótum á dómskerfinu 1883 rak tækifærissinninn Jules Ferry sex hundruð konungssinna úr dómaraembættum og galt prestum þungar búsifjar með skilnaðarlögunum. Tækifærissinnarnir Constans og Tirard styttu herskylduna úr fimm árum niðurí þrjú, til að grafa undan Boulangistum[9].

Og róttækt ráðuneyti Waldeck-Rousseau stóð þessum allrahófsamlegustu lýðveldisaðgerðum tækifærissinnanna að baki; eftir að hafa boxað nokkuð út í loftið í nítján mánuði gerði það ekkert, bara alls ekkert, ekki minnsta endurskipulagning herréttar, ekki allraminnsta stytting herskyldu, ekki ein einasta ákveðin aðgerð gegn konungssinnum í her, dómskerfi og stjórnkerfi, ekki nein marktæk aðgerð gegn klerkastéttinni. Eftir langvarandi vafninga og múður lýsti stjórnin því svo yfir - enn í stellingu æðruleysis, ósveigjanleika og stöðuglyndis, sígildri stellingu smáborgara þegar pólitísk smán þeirra er mest, að lýðveldið ráði ekki við þennan þorparaflokk hersins og það sé nauðsynlegt að láta þá sleppa. Þurfti sósíalista í ráðuneytið til þessa?

Það hefur verið fullyrt, að Millerand hafi verið persónulega nauðsynlegur í ráðuneytið, því ella hafi verið allsendis óvíst um myndun þess. Ekki er nú vitað til þess að í Frakklandi skorti menn með ráðherrametnað og fyrst Waldeck-Rousseau gat fundið í uppreisnargjörnum hernum tvo hershöfðingja nothæfa í hermálaráðuneytið, þá stóð honum áreiðanlega til boða hálf tylft viðskiptaráðherra í sínum eigin flokki. En eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar urðu mönnum kunnar er hiklaust hægt að segja: Waldeck-Rousseau gat ótrauður valið sér hvaða Róttækan sem var til samstarfs - þetta afstyrmi varnarstjórnar hefði áreiðanlega ekki orðið vitund verra þessvegna. Róttækir hafa hingað til alltaf getað orðið sér eftirminnilega til skammar einir, án aðkomandi hjálpar. Við höfum nú séð að hættan af konungssinnum, sem menn þóttust sjá meðan Dreyfusólgan stóð, var fremur vofa en raunveruleiki. Og það er líka fullnægjandi skýring á því að "vörn" Waldeck-Millerand hefur ekki enn ofurselt lýðveldið valdráni. En þeir sem enn tala af sömu sannfæringu um hættuna af konungssinnum og fyrir tveimur árum, og rökstyðja aðgerð Millerands statt og stöðugt með þessari hættu, þeir stunda hættulegan leik. Þeim mun alvarlegar sem ástandinu er lýst, því vesælli virðast aðgerðir ráðuneytisins og þeim mun vafasamara hlutverk sósíalistans í þessu ráðuneyti. Hafi hættan af konungssinnum verið lítil, einsog ég hefi reynt að sýna fram á, þá var björgunaraðgerð ríkisstjórnarinnar sem hófst með brauki og bramli og reyndist fýluför, hlægileg. Hafi þessi hætta hinsvegar verið mikil og alvarleg, þá eru sýndaraðgerðir ríkisstjórnarinnar svik við lýðveldið og flokkana sem settu traust sitt á hana. Og í báðum tilvikum hefur ráðherradómur Millerands ekki veitt verkalýðsstéttinni þann "large part de responsabilités", ekki þann mikla hlut í ábyrgð á lýðveldinu, sem Jaurès og vinir hans hrósa sér svo mjög af, heldur hlut í æpandi "lýðveldislegri" smán róttækra smáborgara.

 

III. Baráttuaðferð Jaurès og stefna Róttækra

Andstæðan milli vonanna sem voru bundnar við vörn lýðveldisins af hálfu stjórnar Waldeck-Rousseau og raunverulega afreka hennar hefur sett þeirri fylkingu franskra sósíalista sem studdi stjórnarþátttöku Millerands tvo kosti. Annaðhvort varð hún að viðurkenna vonbrigði sín og að þátttaka Millerands í stjórninni væri tilgangslaus, krefjast þess að hann segði af sér, eða gera sig ánægða með stefnu stjórnarinnar, lýsa því yfir að hún samræmist vonum manna og slá þarafleiðandi af vonum sínum og kröfum eftir því sem í ljós kemur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða engar. Jaurès og vinir hans hafa tekið seinni kostinn.

Á meðan ríkisstjórnin veigraði sér við meginmálið og hélt sig við bráðabirgðadútl - og það skeið stóð í heila átján mánuði - gat ríkt óvissa um stefnu hennar og þarafleiðandi um afstöðu sósíalista til hennar. En fyrsta afgerandi ákvörðunin, lög um sakaruppgjöf, komu málinu umsvifalaust á hreint.

Einmitt fyrir hóp Jaurès hlaut afgreiðsla Dreyfusmálsins að vera afgerandi. Öll barátta þeirra undanfarin tvö ár hefur byggst á þessu eina spili. Í tvö ár var baráttan um Dreyfus öxullinn í stefnu þeirra, hún var þeim "ein mesta orrusta aldarinnar, ein hin mesta í sögu mannkynsins" (Jaurès, Petite République, 12/8 1899), göfugasta verkefni verkalýðsstéttarinnar, að vanrækja það væri "hinn mesti ósigur og auðmýking, afneitun sjálfs hins mikla stéttarhlutverks öreiganna" (P.R. 15/7 1899). "Toute la vérité: La pleine lumière": Allan sannleikann, algera afhjúpun. Það var markmið baráttu sósíalista. Ekkert gat stöðvað Jaurès og vini hans á miðri leið, ekki brösur og undanbrögð þjóðernissinna, ekki mótmæli hinnar fylkingar sósíalista, undir forystu Guesde og Vaillant. "Við höldum baráttunni áfram", hrópar Jaurès af göfgu stolti, og þótt dómararnir í Rennes, blekktir af viðbjóðslegum klækjum afturhaldsins fórnuðu enn sakleysingjanum til að bjarga glæpsamlegum herforingjunum, þá rísum við enn upp, þegar á morgun, þrátt fyrir bannfæringar, þótt menn breiði út þann misskilning að við séum að falsa stéttabaráttuna, smækka hana og afbaka, þrátt fyrir allar hættur, köllum við enn til hershöfðingjanna og dómaranna: þið eruð böðlar og glæpamenn:" (P.R. 15/7 1899).

Meðan réttarhöldin stóðu í Rennes, hrópaði Jaurès, geislandi af sigurvissu: "Hvernig sem fer, skal réttlætið sigra: Stund frelsunar nálgast fyrir píslarvottinn, stund refsingar fyrir glæpamennina" (P. R. 13/8 1899).

Enn í nóvember í fyrra, rétt fyrir lagasetninguna um sakaruppgjöf, gaf hann yfirlýsingu í Lille: ]Hvað mig varðar, þá vildi ég halda áfram, ég vildi þrauka þangað til eitruð skepnan neyddist til að spýja út öllu eitrinu. Já, það verður að elta uppi alla falsara, alla lygara, böðla og svikara, það verður að elta þá út á ystu nöf sannleikans eins og út á hnífsbrodd, þangaðtil þeir neyðast tilað játa glæpi sína, smán glæpa sinna fyrir öllum heiminum". (Les deux Méthodes, Lille 1900, bls. 5).

Og þetta var rétt hjá Jaurès. Dreyfus-málið hafði vakið upp öll leynd öfl afturhaldsins í Frakklandi. Hinn forni fjandi verkalýðsstéttarinnar, hernaðarstefnan, var afhjúpuð, og nú varð að beina öllum spjótum að brjósti hennar. Í fyrsta sinn var komið að verkalýðsstéttinni að heyja mikla stjórnmálabaráttu. Jaurès og vinir hans leiddu hana í baráttu og hófu þannig nýtt skeið í sögu franskra sósíalista. Þegar því tillagan um sakaruppgjöf var lögð fyrir þingið, voru sósíalistum hægra arms skyndilega settir úrslitakostir. Ljóst var að ríkisstjórnin, sem átti umfram allt að leiða Dreyfus-málið til lykta, ætlaði ekki að bregða upp "skæru ljósi", leiða "allan sannleikann" í ljós og svínbeygja þorparana í hernum, heldur ætlaði hún að byrgja ljós og sannleika og beygja sig sjálf fyrir þorpurunum. Frá sjónarmiði Jaurès og vina hans voru þetta svik við þær vonir sern þeir höfðu bundið við stjórnina. Ráðuneytið reyndist ónothæft verkfæri fyrir stefnu sósíalista og vörn 1ýðveldisins, tækið snerist gegn smiðinum. Ef flokksbrot Jaurès vildi halda tryggð við afstöðu sína í Dreyfusmálinu og vörn lýðveldisins, þá varð það þegar að beina spjótinu í aðra átt og reyna með öllum ráðum að hindra lögin um sakaruppgjöf. Ríkisstjórnin hafði loksins sýnt lit, nú varð að grípa inn í spilið.

En ákvörðunin um sakaruppgjöf varð þegar að ákvörðun um tilveru ráðuneytisins. Þar sem þjóðernissinnar lýstu yfir andstöðu við sakaruppgjöfina og stjórnin bað um traustsyfirlýsingu, þá gat auðveldlega myndast meirihluti gegn frumvarpinu, og ráðuneytið hefði þá fallið.

Jaurès og félagar hans urðu því að velja, annaðhvort að falla frá markmiði tveggja ára Dreyfus-baráttu sinnar eða frá stjórn Waldeck-Rousseau, annaðhvort frá "skæru ljósi" eða ráðuneytinu, annaðhvort að sleppa vörn lýðveldisins eða Millerand. Vogin sveiflaðist aðeins fáeinar mínútur. Waldeck-Millerand reyndust þyngri á metunum en Dreyfus, úrslitakostir stjórnarinnar áorkuðu því sem bannfæringar náðu ekki fram: Jaurès og hópur hans fórnuðu Dreyfus-herferð sinni til að bjarga ríkisstjórninni og tóku afstöðu með sakaruppgjöf.

Teningunum var kastað. Með því að samþykkja sakaruppgjöfina byggði hægri armur sósíalista starf sitt ekki lengur á stjórnmálahagsmunum sjálfs sín, heldur á því að halda ríkisstjórninni við völd. Atkvæðagreiðslan um sakaruppgjöfina var Waterloo Dreyfus-herferðar Jaurès; á einu augnabliki eyðilagði hann allt sem hann hafði afrekað á tveimur árum.

Eftir að baráttuaðferð Jaurès hafði þannig verið svipt pólitísku megininntaki sínu, þróaðist hún áfram, leikandi létt og hratt.

Til að bjarga ríkisstjórninni fórnuðu menn fyrst, tregir og andlega timbraðir, hinu dýrmætasta, markmiði tveggja ára feiknabaráttu, "öllum sannleikanum og skæru ljósi". Til þess svo að réttlæta þessa fastheldni við ríkisstjórn fullkominna ófara verður að afneita óförum ríkisstjórnarinnar. Næsta skrefið er þá að réttlæta uppgjöf hennar.

Kæfði hún Dreyfusmálið í stað þess að leiða það til lykta? En það var nauðsynlegt "til að losna við þessi réttarhöld, sem nú eru orðin tilgangslaus og leiðinleg, til að forðast að almenningur ofmettist svo að hann myndi brátt loka eyrunum fyrir sannleikanum". (Jaurès, Petite République, 18/ 12 1900).

Fyrir tveimur árum var reyndar "hver trúr og heiðarlegur Frakki" hvattur til að hrópa: Ég sver að Dreyfus er saklaus, að hinn saklausi skal endurreistur og glæpamönnunum refsað". (Jaurès, P.R., 9/8 1899).

En nú væri "allur þessi réttarlegi fyrirgangur hlægilegur. Hann myndi einungis þreyta þjóðina, án þess að upplýsa hana, og skaða sjálfan málstaðinn, sem við viljum þjóna. Raunveruleg afgreiðsla Dreyfusmálsins" felst nú í "heildarstarfinu fyrir lýðveldið" (Jaurès, Petite République, 18/12 1900).

Enn eitt skref, og fyrrum hetjur Dreyfusbaráttunnar virðast uppáþrengjandi vofur, sem losna þarf við sem fyrst.

Zola, hinn "mikli verkamaður réttlætisins", "stolt Frakklands og mannkynsins", maður hins þrumandi "J'accuse;" (ég ákæri), mótmælir sakaruppgjöfinni, hann vill enn sem fyrr "allan sannleikann og skært ljós", hann ákærir enn. Hvílík blinda: Sér hann þá ekki, hrópar Jaurès, að nú er komið "nóg ljós" til að upplýsa alla anda? Þótt Zola hafi mistekist að réttlæta sig fyrir dómstólunum getur hann huggað sig við það, að "dómarinn mikli, mannkynið allt" tignar hann, og láti hann okkur svo í friði með sitt eilífa "J'accuse:". "Bara ekkert kvabb, engar innantómar endurtekningar." (P.R. 14/12 1900). "Heildarstarfið fyrir lýðveldið" er aðalatriðið.

Hinn hetjudjarfi Picquart, "heiður og djásn franska hersins", hinn "hreini riddari sannleikans og réttlætisins", vísar því á bug sem móðgun, þegar honum er boðið að ganga aftur í herinn við sakaruppgjöfina - hvílíkur hroki. Veitir stjórnin honum ekki "fullkomna uppreisn æru" með því að vilja kveðja hann aftur í herinn? Það sem Picquart sækist eftir er raunar að dómstólarnir kveði uppúr um sannleikann, en vinur vor Picqart má bara ekki gleyma því, að sannleikurinn er ekki bara hans mál heldur "alls mannkynsins" og að mál Picquarts er einungis sáralítill hluti af málefnum mannkynsins í heild. "Og í eftirsókn okkar eftir réttlæti getum við svo sannarlega ekki takmarkað okkur við einstök tilfelli". (Gérault-Richard, Petite république 30/12 1900). "Heildarstarfið fyrir lýðveldið" er aðalatriðið.

Dreyfus, "þetta dæmi mannlegrar þjáningar eins og hún getur orðið verst", þessi "líkamningur mannkynsins sjálfs á tindi ógæfu og örvæntingar" (Jaurès í P. R., 10/8 1898), Dreyfus verst af örvæntingarafli gagm gegn sakaruppgjöfinni, sem rænir hann hinstu voninni um endurreisn - hvílíkur óseðjanleiki: Þjást böðlar hans ekki nóg þegar? Esterhazy dragnast "tötralegur og soltinn" um götur London, Boisdeffre "varð að flýja" úr herforingjaráðinu, Gonse er horfinn af vígvellinum og "gengur um niðurdreginn", de Pellieux "dó í ónáð", Henry "varð að skera sig á háls, du Paty de Clam "var leystur frá herþjónustu", hvað vilja menn frekar? Er samviskubit glæpamannanna þeim ekki næg refsing? Og: geri Dreyfus sig ekki ánægðan með þennan dóm örlaganna, heldur þráist við að heimta að mennskir dómstólar veiti refsingu - þá bara þolinmæði! "Einhverntímann fellur refsingin á þessa vesalinga". (Jaurés, P.R., 5/1 1901). Einhverntímann! En núna verður Dreyfus okkar góður að skilja að til eru mikilvægari mál í heiminum en "gagnslaus og þreytandi málaferli" hans (Jaurès, P.R., 5/1 1901). "Við eigum annað og betra að vinna á Dreyfus-málinu en þennan æsing og þessar hefndaraðgerðir". (Gérault-Richard, P. R., 15/ 12 1900). "Heildarstarfið fyrir lýðveldið" er aðalatriðið.

Næsta skref er að dæma gagnrýni á þá stjórnarstefnu sem Dreyfus-herferðinni var fórnað fyrir, sem léttúðarleik með ríkisstjórn "varnar lýðræðisins".

Í búðum Jaurès sjálfs hefjast smám saman raddir algáðra um aðgerðir stjórnarinnar til að gera herinn lýðræðislegan" og "lýðveldið veraldlegt" hvílík 1éttúð: Hve hættulegt að vera "kerfisbundið og af taugaveiklunaróþreyju [eftir átján mánuði! R. L.] að sverta fyrstu ávinninga sameiginlegs erfiðis": "Til hvers að draga kjarkinn úr öreigunum?" (Jaurès, P.R., 5/1 1901). Segið þið að stjórnarfrumvarpið um trúarreglurnar sé uppgjöf fyrir kirkjunni? Svoleiðis segja bara "fúskarar og þeir sem þykjast snillingar". Í rauninni er þetta "mesta orrusta sem háð hefur verið milli kirkjunnar og borgaralegs samfélags síðan lögin voru sett um veraldlega skóla". (Jaurès, P. R., 12/1 1901).

Og almennt talað, fari allt í handaskolum hjá stjórninni, hvað eftir annað, má þá ekki hugga sig við "örugga sigra framundan"? (P.R. 5/1). Einstök lög skipta hvort eð er ekki máli, "heildarstarfið fyrir lýðveldið" er aðalatriði.

Hvað felst, eftir allar þessar tilfæringar í "heildarstarfinu fyrir lýðveldið"? Ekki lengur að leiða Dreyfus-málið til lykta, ekki að endurskipuleggja herinn, ekki að brjóta kirkjuna á bak aftur. Óðara en hætta er á að stjórnin falli er öllu fórnað, og við hvaða aðgerð sem er, nægir stjórninni að fara fram á traustsyfirlýsingu til að beygja Jaurès og félaga hans undir ok sitt. Áður þurfti varnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bjarga lýðveldinu, en nú þarf að bjarga ríkisstjórninni með því að fórna vörn 1ýðveldisins. "Heildarstarfið fyrir lýðveldið", það merkir núna að safna öllum lýðveldisöflum um það að halda stjórn Waldeck-Millerand við stjórnvölinn.

Afstaða Jaurès-hópsins til stefnu núverandi ríkisstjórnar stendur vissulega í skarpri andstöðu við stefnu hans í Dreyfus-málinu. Hinsvegar er hún einungis beint framhald þeirrar stefnu. Það er nefnilega sama grundvallarregla um einingu með borgaralegum lýðræðissinnum, sem fyrir tveimur árum var grundvöllur skefjalausrar baráttu sósíalista fyrir endanlegri lausn Dreyfus-málsins og sem er grundvöllur stefnu þeirra nú. Fyrst borgaralegir 1ýðræðissinnar hlaupast frá verki sínu, þá fellur Jaurès-hópurinn fyrir sitt leyti frá því að gera málið upp, frá rækilegum endurbótum á hernum og á sambandi lýðveldisins við kirkjuna.

Þetta sannar að í baráttuaðferð Jaurès er ekki sjálfstæð, pólitísk barátta sósíalistaflokksins hið varanlega grundvallaratriði, og einingin með róttækum hið tilfallandi, breytilega, heldur þvert á móti, bandalag við borgaralega lýðræðissinna er stöðugt meginatriði stefnunnar, og pólitísk stefna hverju sinni er tilviljanakennd afleiðing þess. Þegar í Dreyfus-málinu fór flokksbrot Jaurès yfir markalínuna milli borgaralegra afla og öreiganna. Það sem borgaralegir vinir Dreyfusar sóttust eftir var að sníða vankantana af hernaðarstefnunni, að halda niðri spillingu í hernum, hreinsa hann. En barátta sósíalista hlaut að beinast að rótum meinsins, gegn sjálfum fastahernum. Fyrir Róttæka var endurreisn Dreyfus og refsing hinna seku þungamiðja áróðursins. En sósíalistum gat Dreyfus-málið einungis verið tilefni áróðurs fyrir her varnarsveita. Einungis þannig hefði Dreyfus-ólgan og aðdáanlegar fórnir Jaurès og félaga hans getað orðið sósíalismanum að því geysilega áróðursgagni sem tækifæri var til. En fyrir utan einstök ummæli, sem lögðust djúpt í eðli málsins, fór áróður sósíalista eftir sömu brautum og borgaralegra endurskoðunarsinna. Barátta sósíalista sýndi ólíkt meiri þolgæði, mátt og glæsibrag en borgaralegra afla. En pólitískt séð voru þeir ekki róttækari hluti hreyfingarinnar og leiðandi, heldur voru þeir nú þegar meðreiðarsveinar Róttækra og attaníossar. Með inngöngu Millerands í ráðuneyti Róttækra tóku þeir sér algerlega stöðu á grundvelli borgaralegra bandamanna sinna.

Munurinn á sósíalískri stefnu og borgaralegri er sá, að þar sem sósíalistar eru andstæðingar alls hins ríkjandi kerfis, þá eru þeir í grundvallaratriðum bundnir við stjórnarandstöðu á borgaralegu þingi. Mikilvægasta verkefni sósíalista á þingi er að upplýsa verkalýðsstéttina. Og það leysa þeir fyrst og fremst af hendi með kerfisbundinni gagnrýni á ríkjandi stefnu. En það er svo langt í frá að stjórnarandstaða í grundvallaratriðum útiloki hagnýta, áþreifanlega ávinninga, beinar umbætur, framfarasókn, að hún er einmitt eina virka leiðin til að ná slíkum hagnýtum ávinningum, almennt talað fyrir sérhvern minnihlutaflokk, og þó gildir þetta alveg sérstaklega fyrir sósíalista.

Sósíalistar eiga ekki möguleika á að láta samþykkja stefnu sína beinlínis af þingmeirihluta. Því eiga þeir ekki um annað að velja en að neyða hinn borgaralega meirihluta til tilslakana í stöðugri baráttu. Með gagnrýni stjórnarandstöðu ná þeir þessu fram á þrjá vegu: Þeir veita borgaralegum flokkum hættulega samkeppni með því að ganga lengst allra í kröfugerð, og ýta þeim þannig áfram með þrýstingi kjósendafjöldans, einnig með því að afhjúpa ríkisstjórnina fyrir þjóðinni og orka þannig á stjórnina með almenningsálitinu, loks dregur gagnrýni þeirra, innan þings og utan, stöðugt meiri alþýðufjölda að þeim, þannig verða þeir að afli, sem ríkisstjórn og borgarastétt verða að taka tillit til.

Þeir frönsku sósíalistar sem lúta forystu Jaurès hafa lokað sér allar leiðirnar þrjár með stjórnarþáttöku Millerands. Umfram allt er skefjalaus gagnrýni á stjórnarstefnuna orðin þeim ómöguleg. Vildu þeir hýða hana fyrir veikleika hennar, hálfvelgju og hugleysi, þá féllu höggin á bök þeirra sjálfra. Því hafi starf þessarar stjórnar í þágu lýðveldisins farið í handaskolum, þá vaknar óðar spurningin, hvaða hlutverki sósíalisti þá gegni í þessari rÌkisstjórn. Til þess því að fletta ekki ofan af vesæld ráðherradóms Millerands neyðast þeir Jaurès og félagar til að þegja yfir öllu sem gæti opnað augu verkalýðsins fyrir ágöllum ríkjandi stefnu. Og frá því að stjórn Waldeck-Millerands var mynduð hefur reyndar öll gagnrýni á stjórnaraðgerðir horfið úr málgagni hægra arms sósíalista, Petite République, og sérhver tilraun til slíkrar gagnrýni er tafarlaust barin niður af Jaurès sem "taugaóstyrkur", "svartsýni", "ýkjur". Fyrstu afleiðingar ráðherradóms sósíalista eru þá að sósíalistar falla frá fremsta verkefni sínu almennt, og þó sérstaklega á þingi: pólitískri upplýsingu og uppeldi alþýðunnar.

Og jafnvel þótt fylgismenn Millerands gagnrýni störf stjórnarinnar, þá hafa þeir gert slíka gagnrýni áhrifalausa. Viðbrögð þeirra við frumvarpinu um sakaruppgjöf sýndu, að til þess að geta haldið ríkisstjórninni við völd er þeim engin fórn of mikil. Miði ríkisstjórnin byssunni á brjóst þeirra með því að biðja um traustsyfirlýsingu, þá eru þeir fyrirfram ákveðnir í að greiða henni atkvæði, hvernig sem á stendur. Og þar með eru þeir ofurseldir ríkisstjórninni. Reyndar eru sósíalistar í þingræðislandi ekki eins frjálsir gerða sinna og á t.d. þýska þinginu þar sem þeir geta hvenær sem er sýnt skefjalausa andstöðu sýna með því að greiða atkvæði vantrausti á ríkisstjórnina. Af tilliti til hins "illskárra" neyðast franskir sósíalistar þvert á móti oft til að bjarga ríkisstjórn frá falli með atkvæðum sínum. En einmitt með þingræðinu fá sósíalistar hinsvegar hvasst vopn í atkvæðum sínum. Þeim geta þeir haldið eins og sverði Demoklesar yfir höfði ríkisstjórnarinnar og aukið þannig gagnrýni sinni og kröfum þunga. Með ráðherradómi Millerands gerðust Jaurès og félagar háðir ríkisstjórninni og gerðu þar með ríkisstjórnina óháða sér. Þegar þeir fórnuðu þeirri aðferð að hóta stjórnarkreppu og neyða ríkisstjórnina þannig til eftirgjafar, þá gerðu þeir stjórnarkreppu að Demoklesarsverði yfir sér sjálfum, með hótunum um hana getur stjórnin þvingað þá til eftirgjafar hvenær sem er. Sláandi dæmi um hvernig hópur Jaurès hefur komið sér sjálfum fyrir í stöðu hins fjötraða Prómeþeifs eru viðræðurnar núna um samtakalöggjöf[10]. Raunar tætti Viviani, vinur Jaurès, stjórnarfrumvarpið í sig í glæsilegri þingræðu og setti fram gegn því raunverulega lausn verkefnisins. Jaurès lofsöng þessa ræðu daginn eftir, hástemmdum orðum. En jafnframt lagði hann stjórninni orð í munn til að hafna þessari gagnrýni[11]. Áður en umræðurnar hefjast, áður en reynt er að bæta tillögurnar leggur hann fyrir sósíalista og Róttæka að tryggja samþykkt stjórnarfrumvarpsins, hvað sem það kosti. Þannig er búið að eyðileggja öll pólitísk áhrif yfirlýsingar Vivianis. Önnur afleiðing ráðherradóms Millerands er að breyta sósíalískri gagnrýni vina hans á þingi í innantómar skrautsýningar, í að birta "víðan sjóndeildarhring" sósíalismans, án nokkurra áhrifa á raunverulega stefnu ríkisstjórnarinnar. Að sósíalistar reki borgaralega flokka áfram reynist líka draumur einn við þessar aðstæður. Til að tryggja framhaldslíf ríkisstjórnarinnar virðist fylgismönnum Millerands nauðsynlegt að gæta sem nánastrar samheldni við aðra vinstrihópa. En þar sem þeir eru þá ekki að sækjast eftir ákveðnum pólitískum áhrifum hverju sinni, heldur eftir tryggð sameinaðra vinstrihópa við ríkisstjórnina, þá sjá þeir sig tilneydda að leggja áherslu á, ekki það sem greinir þá frá öðrum borgaralegum hópum, heldur þvert á móti það sem þeim er sameiginlegt. Meginstefna Jaurès er að halda saman almennu "lýðveldis"samsulli vinstriaflanna, og því hverfur hópur hans sjálfs algerlega í því. Í þjónustu Millerands gegna sósíalískir vinir hans nú hlutverki borgaralegra róttæklinga. Já, hinsvegar eru það Róttækir sem ganga lengst í núverandi meirihluta lýðveldissinna, sýna af sér andstöðu. En hægri sósíalistar eru hið hófsama, stjórnartrygga afl. Það voru Róttæklingarnir d 'Octon og Pelletan, sem kröfðust þess ákaft á þingfundi 7/12 í fyrra að þingrannsókn færi fram á hryðjuverkum nýlendustjórnarinnar, en tveir þingmenn úr hægra armi sósÌalista greiddu atkvæði gegn því. Það var Róttæklingurinn Vazeille, sem beitti sér gegn því að Dreyfus-málið yrði kæft með sakaruppgjöf, en sósíalistar greiddu loks atkvæði gegn Vazeille. Loks var það sósíalíski Róttæklingurinn Pelletan sem veitti sósíalistum eftirfarandi uppfræðslu í Dépèche (Toulouse 29/12):

"Það, sem þarf að komast á hreint, er hvort ríkisstjórn er til þess að þjóna hugmyndum flokksins sem styður hana, eða til þess að leiða flokkinn til að svíkja hugmyndir sínar. Ó, mennirnir sem við höldum við stjórnvölinn, dekra ekki við okkur. Fyrir utan tvo eða þrjá ráðherra stjórna þeir allir nokkurn veginn einsog stjórn Méline myndi gera. Og þeir flokkar sem sjálfra sín vegna ættu að vara stjórnina við og halda henni uppréttri, þeir liggja á kviðnum fyrir henni. Ég fyrir mitt leyti er einn þeirra, sem álitu það prýðilegt að flokkur sameignarsinna [sósíalista - R. L.] skyldi ekki einangra sig með aðferð kerfisbundinnar andstöðu, heldur komst einn þeirra til valda. Já, mér fannst þetta prýðileg hugmynd. En til hvers? Til þess að framsækin stefna fái þeim mun meiri þrótt og öryggi í stjórninni, en ekki til þess að verstu vanrækslusyndir stjórnarinnar fái gísl, sem nægir að nefna til að leiða fulltrúa sósíalista á villigötur. Núna er Waldeck-Rousseau ekki bandamaður framsæknu flokkanna, einsog við sóttumst eftir, heldur stjórnandi samvisku þeirra. Og mér virðist hann leiða þá heldur langt af leið. Honum nægir að draga grýlu stjórnarkreppunnar úr vasanum til að gera menn hlýðna. Gætið að: stjórnmál landsins missa mikils ef menn okkar og yðar eru gerðir að nýrri tegund undirtækifærissinna".

Sósíalistar sem reyna að telja smáborgaralega lýðræðissinna af andstöðu, og borgaralegir lýðræðissinnar, sem saka sósíalista um að skríða fyrir ríkisstjórninni og svíkja hugmyndir sjálfra sín það er mesta niðurlæging sem sósíalisminn hefur nokkurntímann orðið að þola og jafnframt lokaafleiðing ráðherradóms sósíalista.

Þannig hefur baráttuleið Jaurès, að fórna andstöðunni tilað ná hagnýtum árangri, reynst hin allra óhagnýtasta.

Í stað þess að auka áhrif sósíalista á ríkisstjórnina og hið borgaralega þing, hefur hún gert sósíalista að viljalausu verkfæri ríkisstjórnarinnar og að óvirkum taglhnýtingi róttækra smáborgara. Í stað þess að örva framsækna stefnu á þingi, hefur hún útrýmt eina hreyfiaflinu sem hefði getað orkað á þing og stjórn til ákveðinnar og djarfrar stefnu, en það afl var stjórnarandstaða sósíalista.

Og það er það versta við þessa baráttuleið. Björgun lýðveldisins, sem menn vonuðust eftir af Waldeck-Millerand, varð erindisleysa. En það er engin tilviljun, heldur rökrétt afleiðing vanmáttarins sem einkenndi Róttæka á þingi fyrir, og vanmáttarins sem sósíalistar dæmdu sig til sjálfir með því að taka þátt í ríkisstjórn róttækra.

Óhlutdrægur maður teldi að hinar vesældarlegu "aðgerðir" stjórnar Waldeck-Rousseau tákni endalok lýðveldisaðgerðar hennar. En þótt Jaurès geti ekki alveg neitað öllum hennar veikleika, gagnvart þrýstingi gagnrýnenda í eigin röðum, þá telur hann að hún sé gleðilegt upphaf mikils skeiðs lýðræðislegrar endurreisnar í Frakklandi, en grundvöllur þess verði traust bandalag sósíalista við smáborgaralega lýðræðissinna.

"Einmitt þessvegna", skrifar Jaurès "er svo mikilvægt í mínum augum að mynda vinstri meirihluta, hversu óframfærinn sem hann er, sem traustan grundvöll vinstri stjórnar, hversu reikul og veik sem hún kann að vera. Þetta er að vísu óburðugt, enda fóstur enn. En þetta þroskast til þess löggjafar- og framkvæmdavalds, sem mun leiða samfélag okkar til hins æðsta jafnréttis, sem er takmark okkar (P. R., 8/1 1901).

Til þess er þá stjórn Waldeck-Millerands haldið við völd, til þess er fórnað beinum pólitískum markmiðum, þessvegna þarf að halda bandalagi við borgaraleg vinstriöfl, þótt það kosti sjálfstæða stjórnarandstöðu sósíalista: að nú gefur víða sýn yfir þetta komandi skeið pólitískrar samstjórnar sósíalískra öreiga og róttækra smáborgara. En við þessar stórfenglegu hugarsmíðar hefur Jaurès sést yfir það að smáborgaraleg róttæknin, sem hann vill nú láta sósíalista styðja til valda, er löngu hrunin, og það einmitt vegna baráttuaðferðar sem á örlagaríkan hátt líkist þeirri sem Jaurès beitir nú.

Allt frá byltingunni miklu hefur pólitískt hlutverk smáborgara í Frakklandi byggst á lýðveldisstefnunni. Svo lengi sem stórborgarastéttin bjóst um á bak við konungsveldið, gátu smáborgararnir gengið fram sem leiðtogar lýðsins, því andstæðan á milli verkalýðsstéttar og borgarastéttar birtist að verulegu leyti sem andstæður milli lýðveldis og konungveldis, og var burðarásinn í andstöðu smáborgaranna.

Þessar aðstæður breyttust við þróun þriðja lýðveldisins. Þar sem obbi borgarastéttarinnar breyttist úr fjendum lýðveldisins í máttarstólpa þess, og meginatriði stefnu smáborgaranna voru framkvæmd; lýðveldi, fullveldi þjóðarinnar" í formi þingræðis, prentfrelsi, félagafrelsi og skoðanafrelsi, þá hvarf grundvöllur stjórnmálahlutverks smáborgara og broddurinn úr andstöðu þeirra við borgarastéttina. Fyrir stefnuskrá róttækra var aðeins eftir minniháttar skraut borgaralegs lýðveldis: stighækkandi skattar, endurbætur á almenningsmenntun, barátta gegn klerkastéttinni. En á meðan pólitískar andstæður smáborgara og borgarastéttar hurfu, þróuðust félagslegar andstæður milli borgarastéttar og verkalýðs. Jafnframt því sem smáborgarastéttin missti kjarnann úr stefnuskrá sinni, hvarf henni einnig mikill hluti fylgismannanna. Öreigarnir komu fram sem sérstakur flokkur í eindreginni andstöðu við bæði Róttæka og hentistefnuflokka, og Róttækir greindust sundur sjálfir. Hluti þeirra fann að hann átti helstu hagsmuni sameiginlega með borgarastéttinni og dróst að henni, en annar hluti neyðist til að taka á sig sósíalískan litblæ. "Hreinir" róttækir tálguðust þannig niður í veikan miðflokk lýðveldishentistefnu. Hann átti því um tvennt að velja til að koma á stjórnmálastefnu sinni, annaðhvort að halda sig í andstöðu á þingi og ljá henni þunga með aðgerðum alþýðunnar utan þings, eða þá að takmarka sig við bandalög á þingi og vonina um að komast til valda við hlið tækifærissinnaðra borgaranna.

Fyrri kosturinn, að vinna fjöldafylgi alþýðu við hlið sósíalíska verkalýðsflokksins, var róttækum ómögulegt af tveimur ástæðum. Það var ekki bara að þeir hefðu lítið að bjóða verkalýðnum. Smáatvinnurekstur er svo fyrirferðarmikill og tiltölulega stöðugur í Frakklandi, að félagsleg barátta öreiganna hlaut að hræða smáborgarana meira þar en í nokkru öðru landi. Fyrst róttækir héldu sig við sína rýru stefnu, bundu þeir sig við þingið eitt, að stjórna þar með tækifærissinnaðri borgarastéttinni. Og þarmeð hófst hrun þeirra.

Við venjulegar aðstæður lenda róttækir í hlutverki hins óvirka, sem er meðsekur tækifærissinnum í "blönduðum" ríkisstjórnum. Annað veifið tekst þeim þó að sýnast ómissandi. En það er í hvert sinn sem tækifærissinnuð borgarastéttin hefur orðið sér verulega til skammar í einhverju hneykslinu, og lýðveldið er í upplausn. Þá er tækifærið komið fyrir Róttæka að draga fram gömlu duluna með "vörn lýðveldisins" og komast að stjórnvelinum smátíma. En þá kemur ævinlega á daginn sú staðreynd sem var ljós fyrir, og sem láðist bara að draga ályktanir af, nefnilega að róttækir hafa ekki meirihluta á þingi til að framkvæma sínar róttæku umbætur. Til að stjórna, til að haldast við stjórnvölinn, neyðast þeir því til að víkja frá stefnu sjálfra sín og gera annað tveggja: fela aðgerðaleysið undir sýndarvirkni eða reka beina hentistefnu. Hvort heldur sem er, eru þeir skjótt búnir að sanna þinginu hve óþarfir þeir séu, en þjóðinni hve óáreiðanlegir þeir eru. Því verða þeir æ meir vanmegna taglhnýtingar tækifærissinnaðrar borgarastéttarinnar. Starfsemi stjórnar Waldeck-Rousseau er sönn spegilmynd af þessari stefnu róttækra. Líti menn á "hin sameinuðu vinstriöfl", sem Jaurès vill nú byggja alla baráttu sósíalista á, sem pólitískt samhentan hóp, er sameinist um hreinsun lýðveldisins og endurbætur, þá sýnir það sama ofmatið og þegar þjóðernissinnar voru taldir samhent hreyfing með ákveðna stefnu um konungsdæmi. Þvert á móti eru hér hin sundurleitustu öfl, sem sýna öll litbrigði frá sósíalisma yfir til afturhalds. Þeir sem yst eru til hægri, framvarðarsveit Isembére-hópsins, strjúkast við ermarnar á varðsveitum Mélines. Sundruð innbyrðis gátu vinstriöflin aðeins náð saman um sameiginlega þörf fyrir ró og reglu á ytra borðinu. Að leystu þessu verkefni - og sakaruppgjöfin fræga virðist við ríkjandi aðstæður sígild lausn - þá hverfa sameiginlegir hagsmunir í bakgrunn, vinstriöflin renna sundur og ríkisstjórnin til bjargar lýðveldinu svífur í loftinu. Sú staðreynd, að stjórn Mélines átti upphaflega meirihluta á þessu sama þingi, sannar að núverandi meirihluti er tilfallandi. Og kjör Deschanels til þingforseta nýlega var einungis mögulegt vegna svika hluta vinstrimanna við frambjóðanda þeirra sjálfra, Brissons. Þetta sýnir að sundrung vinstriaflanna hlýtur að koma á daginn fljótlega. Af þessu ástandi leiðir rökrétt afstöðu stjórnar Waldeck-Rousseau. Þar sem hún á ekki möguleika á að framkvæma neinar róttækar aðgerðir, neyðist hún til að takmarka sig við að slæva andstæður þær sem skerptust í upplausnarástandinu, og gefst því upp hvað eftir annað. Hún fylgir því dyggilega hefðum róttækra með því að taka við ríkisstjórn án þess að hafa forsendur til að framkvæma stefnuskrá sína og svíkur þannig stefnuskrá sjálfrar sín. Ríkisstjórn Waldeck-Millerands er því ekki, einsog Jaurès telur, upphaf nýs tímabils, þegar lýðræðið drottnar á grundvelli bandalags Róttækra og sósíalista. Hún er einmitt framhald fyrri sögu rótttækra smáborgara, sem eru tilkvaddir, ekki til að framkvæma sína eigin lýðræðisstefnu, heldur með reglubundnu millibili til að hreinsa burt pólitíska skítinn eftir tækifærissinnaða borgarastéttina. Þannig tryggja þeir áframhaldandi borgaralegt afturhald í lýðveldismynd. Hið nýja skeið, sem hófst með ríkisstjórn Waldeck-Rousseau, felst bara í því að sósíalistar eiga nú í fyrsta sinni hlut í þessari sögulegu köllun smáborgaralegra lýðræðissinna. I þeirri blekkingu að þeir séu að vinna að sósíalískri stefnu, beita þeir sér í rauninni fyrir vagn Róttækra, sem hafa aftur ævinlega beitt sér fyrir tækifærissinnuðu borgarana og jafnframt talið sér trú um að þeir væru að framkvæma lýðræðisstefnu.

Baráttuaðferð Jaurès reynist því byggja á sandi. Upprisa smáborgaralegra lýðræðissinna, sem stjórnarþátttaka Millerands átti að stuðla að, og andstöðu sósíalista á þingi var fórnað fyrir, reynist draugagangur. Þvert á móti, með því að hlekkja sósíalíska öreigastétt við lík smáborgaralegrar róttækni fjötraði Jaurès eina lifandi aflið í Frakklandi, sem gat varið lýðveldið og lýðræðið.

 

IV. Félagslegar umbætur Millerands

Önnur ástæða er færð fyrir stjórnarþáttöku Millerands, en að ráðuneyti Waldeck-Rousseau "bjargi lýðveldinu. En það er félagsleg umbótastarfsemi Millerands.

Raunar er í engu landi eins brýn þörf á því og í Frakklandi að færa félagsmálastefnuna í nútímalegt horf. Fyrstu úrslitaskref byltingarinnar 1848 (að vinnudagur var almennt lögbundinn við ellefu stundir, en tíu í París, og bann við Marchandage - að veita milliliðum framkvæmdir) voru gerð að engu eftir að verkalýðurinn var brotinn á bak aftur. Síðan var ekki hafist handa um verkalýðsverndarlöggjöf (fyrren á miðjum áttunda áratuginum, enda þótt borgaralegir könnuðir félagslegra aðstæðna hefðu þegar á fimmta áratuginum fundið hræðilegar afleiðingar af "frumupphleðslu" auðvaldsins. Þá hefjast hinar furðulegu félagslegu umbætur þriðja lýðveldisins, sem eiga ekki sinn líka í nokkru landi. Árum saman flækist hvert lagafrumvarp milli ýmislegra undirbúnings- og ráðgefandi nefnda, er varpað frá neðri deild til Öldungadeildar, frá Öldungadeild aftur til neðri deildar, samþykkt hér, hafnað þar, samþykkt þar og loks fellt hér. Eftir að það hefur loks verið klippt af báðum, lagfært og breytt, kemur fram klastur sem hlýtur blessun neðri deildar og Öldungadeildar, og reynist frá fyrsta lífdegi sínum vera algert afstyrmi. Þegar á öðrum degi er því farið að undirbúa endurskoðun laganna, sem eftir annan áratug til fæðir af sér nýjar andvana félagsmálaumbætur, o. s. frv. Fyrstu lög lýðveldisins, um vinnuvernd kvenna og barna, 1874, reynast þegar ónothæf, og eftir margra ára undirbúning sem hófst 1883, eru þau lagfærð með lögum 1892. En þau útheimta þegar 1894 nýtt frumvarp í Öldungadeild og frekari endurskoðun sem stendur allt til ársins 1900. Fyrstu lög um heilsugæslu verkalýðsins voru afgreidd, eftir sjö ára endurskoðun stjórnarfrumvarpsins, árið 1893. Lágmarkskauptrygging komst ekki á fyrren 1895. Fyrstu lög um almennar slysatryggingar komu 1898 eftir tuttugu ára undirbúning. Loks eru lög um elli- og örorkutryggingar, sem hafa verið "í undirbúningi" í tuttugu og fimm ár, tíu sinnum hefur verið lagt fram frumvarp, og enn eru þau ekki tilbúin. Fyrir utan endalaust fúskið við umbótalöggjöfina og meðfætt gagnsleysi hennar er mjög ófullkomin framkvæmd hennar einkennandi fyrir Frakkland. Grófgert skriffinnskukerfið sem gert var til að fylgjast með framkvæmd laganna, héraðsnefndir, hverfanefndir, barnaverndarnefndir, o. s. frv. hefur að hluta ekki einu sinni verið stofnsett, Það var ekki fyrr en 1892 að verksmiðjueftirlitið var tekið undan geðþóttavaldi héraðsráðanna og endurskipulagt af ríkinu. Eftirlitsmennirnir eru hirðulausir og óreyndir, eftirlitsstofnanir ónothæfar, og þar við bætist ódulin vinsemd stjórnstofnana og dómstóla í garð atvinnurekenda. Ennfremur er almenningsálitið einstaklega vanþróað í félagsmálum. Það sýnir ljóslega hvernig franska borgarastéttin er í þessu efni, að ennþá á árinu 1888 vildu 171 þingmenn leggja alveg niður verksmiðjueftirlitið sem var í reifunum 1874. Og 1891 kom fram tillaga um að fela verksmiðjueftirlitið í sveitum - akurgæslumönnum. Í samanburði við þá félagsmálastefnu sem lengi hefur ríkt í Englandi, samanborið við hina þýsku, svissnesku og austurrísku, er hið kalkaða franska fyrirbæri einstakt.

Stjórn Waldeck-Rousseau hafði ærnar ástæður tilað vera framkvæmdasöm á þessu sviði. Franskir Róttæklingar, sem hafa enn fáránlegri félagsmálastefnu en tækifærissinnarnir, höfðu gert sig ómögulega í augum verkalýðsins með framferði sínu hingað til. Það var þeim mun brýnna að leita eftir stuðningi öreiganna, sem sjálft kjarnalið róttækra - smáborgarar Parísar, hafði reynst afar ótraust í öllu Dreyfusmálinu og svo aftur í kosningum til héraðsþinga.

En meginmáli skiptu hinar undarlegu aðstæður núverandi stjórnar. Stjórn Waldeck-Rousseau átti eins og róttækir fyrirrennarar hennar, líf sitt undir stuðningi sósíalista, og eins og fyrirrennarar hennar, hóf hún starf sitt með því að svíkja pólitíska stefnu og vonir sósíalista, sem og stjórnmálastefnu sjálfrar sín.

Sósíalistar hafa aldrei fyrr átt eins mikið beinlínis undir pólitísku starfi ríkisstjórnarinnar og verkalýðsstéttin hefur aldrei fylgst með henni af jafnvakandi áhuga og eftir Dreyfus-málið. Á meðan það var í sviðsljósinu gegndi mikill hluti sósíalista mjög áberandi hlutverki í dægurbaráttu landsins og stjórn Waldeck-Rousseau reis beinlínis af því máli. Aldrei hefur því getuleysi Róttækra staðið í svo skarpri andstöðu við vonir sósíalísks verkalýðs eins og undir stjórn Waldeck-Rousseau. Eftir almenna spennu og æsing Dreyfus-ólgunnar í tvö ár hefði átján mánaða aðgerðarleysi stjórnarinnar og sakaruppgjöfin þar á eftir getað ofboðið jafnvel þrautreyndri þolinmæði sósíalista. Stjórn Róttækra var því miklu örðugra nú en áður að halda stuðningi sósíalista. Eitthvað varð óhjákvæmilega að bjóða verkalýðnum fyrirfram í staðinn fyrir vonbrigði hans. Og af sjálfu sér leiddi að það hlutu að verða félagslegar umbætur. Lög sem væru vinsamleg verkalýðnum voru eina leið stjórnarinnar til að fá sósíalista til að umbera pólitíska sneypuför hennar. Væru ekki umbæturnar til að blinda verkalýðsstéttina og halda sósíalistum í bið, þá hefði ekki einu sinni dáleiðsla Jaurès getað komið liðsmönnum hans til að trúa á "lýðveldisvörn" stjórnarinnar. Einungis lög og tilskipanir um félagslegar umbætur gátu ruglað pólitíska dómgreind sósíalista svo að þeir sæju síðar "mikið starf í þágu lýðveldisins" þar sem jafnvel borgaralegir lýðræðissinnar sjá einungis svik og smán. Sakaruppgjöf og frumvarp um trúarreglur var ekki þorandi að leggja fram fyrr en eftir lagafrumvarp um lengd vinnudags og frumvarp um aukinn verkfallsrétt. Félagslegar umbætur Millerands leystu stjórn Waldeck-Rousseau undan refsingu fyrir hina pólitísku uppgjöf. Verkalýðsvinsemd stjórnarinnar var verðið sem hún galt fyrir að gera hluta verkalýðsstéttarinnar meðsekan um þessa uppgjöf.

Mönnum sést því yfir innra samhengi alls stjórnmálaástandsins þegar þeir halda því fram að ráðherra sósíalista sé einasti upphafsmaður félagsmálastarfs ríkisstjórnar róttækra, sem annars væri óhugsandi. Þvert á móti, jafnvel þótt andi þessa starfs, eðli þess og umfang sé sett á reikning þessa sérstaka ráðherra þá er starfsemin sjálf grundvöllur stjórnar Waldeck-Rousseau, tryggir þingstyrk hennar, úr því hún hefur varpað alveg fyrir róða pólitískum verkefnum sínum.

Við fyrstu sýn virðist ofanskráð baráttuleið stjórnar Róttækra standa á haus. Fórnaði hún efnahagslegum hagsmunum afturhaldsins til að geta hlíft pólitískum hagsmunum þess ? Vill hún draga fram félagslegar andstæður borgarastéttar og öreiga til að breiða yfir pólitískar andstæður innan borgarastéttarinnar? Skyssan í þessari baráttuleið er aðeins á yfirborðinu. Við nánari rannsókn á félagslegum umbótum Millerands kemur í ljós að þær eru ekki afneitun pólitískra aðgerða stjórnarinnar, þegar allt kemur til alls, heldur beint framhald þeirra.

Það einkennir allar helstu umbætur Millerands í félagsmálum, að þær hafa í senn vakið yfirgengilegan fögnuð og eindregna andstöðu. Í Frakklandi og utan hafa hinir sundurleitustu dómar verið felldir um þær. Annarsvegar hafa þær verið taldar beinlínis sósíalískar aðgerðir, fyrirboðar þess að verkalýðsstéttin taki völdin, áfangar nýrrar félagsmálastefnu. En hinsvegar tæta menn þær niður sem svik við verkalýðsstéttina, a. m. k. sem algerlega misheppnaðar tilraunir til félagslegra umbóta. Ástæða þessa er einföld. Hún liggur ekki í því að menn hafi svo ólíka afstöðu til þess að sósíalisti sé ráðherra, eins og virðast mætti á yfirborðinu, heldur í hinu, hve einkennilegar sjálfar aðgerðir Millerands eru. Því þær einkennast allar af innri tvíræðni, mótsögnum. Þó gildir þetta alveg sérstaklega um þær þrjár aðgerðir, sem eru kjarninn í verki Millerands og áhugi almennings beinist alveg sérstaklega að: lögin um lengd vinnudagsins, frumvarp um verkalýðsfélög og hugmyndin um verkfallsskyldu.

Frakkland sem í félagsmálum stendur Englandi að baki, Þýskalandi, öllum auðvaldsheiminum, Frakkland fær nú allt í einu almennan ellefu stunda vinnudag í fjölþættum fyrirtækjum, og innan fárra ára á að koma á tíu stunda vinnudegi. Í einu stökki er land Manchesterástands í félagsmálum komið í fararbrodd framfara, franska verkalýðsstéttin, sem var Öskubuska í gær, stendur skyndilega frammi fyrir okkur sem stolt prinsessa. Augljóslega getur einungis ráðherra sósíalista galdrað fram þvílík undur. En einsog félagi Jaurès sagði svo heimspekilega eftir sakaruppgjöfina, óflekkaður sigur er ekki til í sögunni. Það sem flekkar þessi tímamótalög Millerands er að tíu stunda vinnudagur á ekki að komast á fyrr en fjórum árum eftirað hann er boðaður (1. april 1904). Á fjórum árum rennur mikið vatn niður hina gruggugu Signu, og mörg frönsk ráðuneyti falla í Lethe[12]. Hafi löggjöf um vinnuvernd í Frakklandi hingað til einkum verið til skrauts í Lögbirtingablaðinu, þá stafaði það af sameinaðri andstöðu atvinnurekenda, stjórnstofnana og dómstóla. Hörmulega ólíkt "flögri, síbreytileika", dægurflugulífi ráðuneytanna eru þessi andstöðuöfl í Frakklandi fastur, óbifanlegur múr. Lög, sem eru ofurseld baráttu óþekktra, ókominna ríkisstjórna við þennan vegg félagslegs afturhalds, eru sannarlega víxill á framtíðarbankann.

En svartsýni á seinni framkvæmd er ekki eini skugginn sem fellur á þessi björtu lög Millerands. Stytting vinnutíma fullorðinna niður í ellefu stundir núna og tíu síðar, er keypt fyrir þá fórn að um sinn lengist vinnutími barna um eina klukkustund.

Satt er það, að tíustunda vinnudagur barna, sem komið var á 1892, var jafnlítt haldinn í raun, sem önnur lög um vernd verkalýðs. Franskir atvinnurekendur voru útundir sig einsog enskir stéttabræður þeirra á fimmta áratuginum og svöruðu með því að innleiða flókið vaktakerfi, þar sem vinnandi hendur voru, með orðum Marx, stokkaðar einsog spil, og nær ómögulegt að fylgjast með framkvæmd laganna. Þegar því lögleyfður vinnudagur barna var lengdur um klukkustund, þá var það ímynduð fórn, einsog "raunsæir stjórnmálamenn" fullvissa fólk um. Hvíldarstund barna, sem aðeins er til á pappírnum mátti með hugarró fórna fyrir styttingu á lögleyfðum vinnutíma fullorðinna og jöfnun á vinnutíma þeirra og barna, en einungis hún gerir mögulegt að því er Millerand fullyrðir að fylgjast með framkvæmd laganna um lengd vinnutíma. Í rauninni sýnir samþykkt einmitt þessa lagaákvæðis þvílíkt fúsk í félagsmálum að jafnvel frönsk löggjöf hefur aldrei komist á þetta stig áður.

Sérstök vernd barna og unglinga í verksmiðjuvinnu, að hafa vinnutíma þeirra styttri en fullorðinna, er frumatriði laga um vernd verkalýðsins í öllum auðvaldslöndum. Þetta er grundvallaratriði allrar félagsmálastefnu, hversu frumstæð og borgaraleg sem hún kann að vera. Þetta er frumkrafa heilbrigðrar skynsemi, bein afleiðing eðlilegs aldursmunar og loks er þetta öruggasta leiðin til að takmarka tölu barna í verksmiðjum. Þegar lög Millerands lengja vinnutíma barna að sinni um klukkutíma, eru þau ekki fyrst og fremst að fórna raunverulegri hvíldarstund þeirra, ekki formlegu lagaákvæði, heldur því sem er óendanlega mikilvægara: sjálfri reglunni um sérstaka barnavernd.

Það þarf hina grófu nauðhyggju "raunsærra stjórnmálamanna" hrossakaupanna til að álíta að lenging vinnutíma barna um sinn bætist upp við fljótlega lækkun niður í fyrra algert hámark, tíu stundir. Frá félagslegu sjónarmiði er vinnutími barna afstæður, og eðlilega breytilegur eftir vinnutíma fullorðinna. Að gera vinnutíma barna og unglinga jafnan fullorðinna er því óskapnaður í félagsmálum. Það er ekki fyrirsjáanlegt í Frakklandi fremur en annars staðar að lögleyfður vinnutími fullorðinna fari niður fyrir tíu tíma. Í þessari nýjung felst því í rauninni ekkert annað en að dæma 12 til 16 ára öreigabörn til tíu tíma nauðungarvinnu fyrir auðvaldsarðrán áratugum saman.

En fórnarlömbin eru ekki einungis börn, heldur einnig fullorðnir. Með nokkurnveginn virku eftirliti er sérstök vinnuvernd barna engin hindrun fyrir framkvæmd lagaákvæða um vinnutíma. Þessi ákvæði eru framkvæmd í öllum löndum, enda þótt börn hafi hvarvetna styttri vinnutíma. Hvergi nema í franska þinginu gat ráðherra haldið hinu gagnstæða fram, án þess að vekja almennan hæðnishlátur. Sérstök barnavernd er þar að auki afar mikilvæg fullorðnum til verndar. Því saga allra iðnaðarlanda, sérstaklega Englands, sýnir að stytting barnavinnu leiðir sjálfkrafa til takmörkunar á vinnu fullorðinna. Aukin barnavernd er hreyfiafl þróunar og framfara í vinnuvernd almennt.

Þegar því Millerand hlekkjar saman vinnutíma barna og fullorðinna og afmáir öll eðlileg skil innan verkalýðsins með einu flottu pennastriki skriffinnsins, þá er hann ekki aðeins að færa franska löggjöf urn vinnuvernd aftur fyrir ástand allra annarra landa í félagsmálum, heldur hefur hann fryst hana á upphafsstigi þróunarinnar. Hvort sem almennt hámark vinnudags verður notað og hvernig, þá er það nú regla fyrir franskan iðnað, að allir hópar verkalýðsins hafi sama vinnutíma. Áætlaður tíu tíma vinnudagur fullorðinna er hið óvissa við endurbætur þessar, breytilegt eftir stefnu ríkisstjórnar og stofnana hennar hverju sinni. Grundvallaratriði endurbótanna, hið varanlega, það er að vinnutími barna verði jafnlangur og fullorðinna[13].

Þessi fyrsta mikilvæga aðgerð Millerands sýnir því tvíeðli endurbóta hans í sérstöku ljósi: Ávinningar verkalýðsins af þeim eru hæpnir, blekking. En fórnirnar sem þær leggja á verkalýðinn eru ótvíræðar og áþreifanlegar.

Og söm verður raunin af öðru mikilvægu frumvarpi Millerands, um verkalýðsfélögin.

Samtakaréttur sá sem verkamenn fengu 1884 hefur framá þennan dag verið án lögverndar. Skipulagðir verkamenn eru ofurseldir geðþótta atvinnurekenda og tilneyddir að verja frumréttindi sin í örvæntingarbaráttu. Mestu verkföll 1 Frakklandi, í Norðurhéraðinu 1885, í Carmaux, verkfall strætisvagnastarfsmanna í París og nú nýverið í Creusot, hófust vegna aðgerða gegn verkamönnum.

Frumvarp Millerands skapar þessum samtakarétti lagalegan grundvöll. Verði verkamaður fyrir aðgerðum vegna þess að hann er í verkalýðsfélagi, fær hann nú rétt til að kæra atvinnurekandann og krefjast skaðabóta. Beiti atvinnurekandi ógnunum eða ofbeldi, varðar það nú við refsirétt. En ekki nóg með það. Lögin eiga þar að auki að veita verkalýðsfélögum og sambandi þeirra fullan rétt lögformlegs aðilja, þ. e. þau fá nú ótakmarkaðan rétt til eigna- og viðskiptalegrar ábyrgðar.

Við fyrstu sýn eru hér aftur djarfar umbætur í félagsmálum, sem ná langt fram yfir það sem gerist í öðrum löndum. En einnig í þessu dýrlega blómi leynist ormur.

Að einkarétti gátu verkamenn nefnilega þegar kært ofsóknir atvinnurekenda einfaldlega samkvæmt almennum borgaralegum lögum (1780. og 1382. grein). En í ljósi þess að verkamenn gátu ekki staðið í kostnaðarsömum málaferlum, sem og þess hve erfitt var að sanna það fyrir rétti að atvinnurekandi hefði ætlað sér að beita verkamenn gagnaðgerðum, og vegna þess loks að sektirnar skiptu atvinnurekendur engu máli, í ljósi alls þessa reyndist þessi trygging samkvæmt einkarétti algerlega áhrifalaus. Það sem þurfti, var að veita verkfallsréttinum, sem er að opinberum rétti, samsvarandi ábyrgð að refsirétti. Og neðrideild hafði líka þrívegis samþykkt lög um það (1890, 1892 og 1895), en þau strönduðu jafnan á andstöðu Öldungadeildar. Í stað þess að knýja fram vilja verkalýðsins í Öldungadeild, beygir Millerand sig fyrir henni. Með því að innleiða einkaréttarkæru sem tryggingu samtakaréttarins býður hann verkalýðnum, í mynd nýs réttaröryggis, einungis gamla öryggisleysið gegn yfirgangi atvinnurekenda.

Jafnmikil blekking er hin gjöfin: ótakmarkaður réttur til fasteigna og viðskiptareksturs. Fyrir áttu verkalýðsleiðtogar rétt til að fara með bæði fasteignir og lausafjármuni í þessu hlutverki sínu. Einnig gátu þeir stofnað samvinnufélög framleiðenda og neytenda, reyndar óháð verkalýðsfélögum. Raunar hefur u.þ.b. fjórðungur franskra samvinnufélaga sprottið upp úr verkalýðsfélögunum. Í fyrirhuguðum endurbótum felst einungis það að verkalýðsfélögin sjálf fá nú rétt tilað stofna samvinnufélög. En í ljósi reynslunnar hingað til og sambands þessara tveggja samtaka hlýtur að teljast mjög vafasamur velgerningur að samtvinna þau svona beint. Án þess að samsvara raunverulegum þörfum verkalýðsfélaga eða samvinnufélaga eru þessar áætluðu nýjungar í mesta lagi til þess fallnar að verða sífelld uppspretta árekstra og sundrungar þeirra[14].

Ímynduðum ávinningi samsvarar hér hinsvegar mjög raunverulegur og ótvíræður missir. Jafnframt því að veita verkamönnum rétt á að kæra aðgerðir atvinnurekenda gegn sér, veitir það atvinnurekendum líka rétt á að kæra verkamenn fyrir að stöðva fyrirtæki þeirra. En ekki nóg með það. Frumvarpið lætur standa í fullu gildi hin hötuðu ákvæði refsilaga gegn "skerðingu á vinnufrelsi". Ennfremur skapar það sérstaka refsiréttarvernd fyrir atvinnurekendur og "vinnufúsa" menn þeirra gegn "ógnunum eða ofbeldi verkfallsmanna. Þegar árið 1884 voru ákvæði gegn verkfallsmönnum afnumin, 1890 lögðu afturhaldsmenn fram tillögu þessa efnis í þinginu og nú á hún að verða að veruleika. Óvart breytast allar þessar umbætur frá því að vera sú útvíkkun og trygging verkfallsréttar, sem haldið var fram, í það að verða takmörkun verkfallsréttar.

Loks er það frumvarp sem mesta athygli vakti, um að vinnudeilur verði að leggja fyrir félagsdóm, og frumvarp um verkfallsskyldu. Hafi nokkur enn efast um sósíalískt tímamótaeðli fyrri umbóta Millerands, hljóta honum nú að opnast augun við þetta frumvarp. Því hafi hinar aðgerðirnar farið eftir kunnum leiðum laga um verkalýðsmál um víða veröld, þá koma þessar með algerlega nýja reglu,verkfallsskyldu. Greinilega geta umbætur ómögulega gengið lengra en þetta. Stökkið frá "tugthúsfrumvarpinu"[15] yfir í verkfallsfrumvarp Millerands er svo feiknalegt, að við það birtist heill tindur framtíðarríkisins. Og hafi fyrrnefnda frumvarpið verið hnífur að barka verkalýðsins, þá er þetta vopn sem gerir út af við efnahagslegt alræði auðvaldsins. "Atvinnurekendur hætta að vera húsráðendur hjá sjálfum sér" það sáu líka nokkur flokksblöð okkar samstundis.

Við svolítið nánari skoðun frumvarpsins koma reyndar upp alvarlegar efasemdir. Framkvæmd laganna er einungis tryggð í ríkisfyrirtækjum, í einkafyrirtækjum er hún ævinlega háð mati atvinnurekenda. Hinu banvæna vopni gegn auðmagninu er semsé stungið inn í skáp auðherrans. Ennfremur á minnihluti verkamanna að beygja sig fyrir meirihlutaákvörðun verkamanna um verkfall, samkvæmt skýrum ákvæðum laganna, en í þeim eru ekki nefnd nein viðurlög við því að hann geri það ekki, heldur vinni áfram. Hinn skarpi hnífur, sem atvinnurekendum var fenginn til að fremja sjálfsmorð með, hefur eiginlega ekkert blað, þegar nánar er að gáð. Hafi loks samningar reynst árangurslausir, hafa verkamenn reyndar rétt til að boða verkfall með meirihlutaákvörðun. En atvinnurekendur geta þá eftir sem áður, án nokkurra undanfarandi helgisiða samninga, rekið hvaða verkamann sem er, eða alla í senn til andskotans og ráðið aðra í miðju verkfalli eða eftir verkfall. Þegar allt kemur til alls, vantar ekki bara blaðið á hinn hættulega hníf, heldur líka skaftið.

En einsog aðrar umbætur Millerands veita þessar verkalýðnum ekki bara blekkingar með annarri hendi, með hinni taka þær frá honum efnismikinn veruleika.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er ákvörðun um verkfall hverju sinni, og þá einnig um kröfugerð, einungis í höndum verkamanna eins fyrirtækis eða vinnustaðar. Viðsemjandi atvinnurekanda er því ekki verkalýðsfélag, heldur verkamenn á ákveðnum vinnustað. En þannig verður útilokað að verkalýðsfélag hefji einstaka verkamannahópa upp með því að útbreiða þann árangur og kröfugerð sem lengst nær. Einnig útilokar þetta almennt verkfall á tilteknu starfssviði og út fyrir takmörk þess, sérstaklega pólitísk verkföll og samúðarverkföll, sem hafa verið svo algeng í Frakklandi[16]. Með því að gera vinnustað en ekki verkalýðsfélag að aðilja í kjarabaráttunni, er baráttan svipt þeirri stoð sem felst í samstöðu innan starfsgreinarinnar og alls verkalýðsins, sem og afli til framsóknar þar sem er stjórn verkalýðsfélagsins á einstakri baráttu hér og þar.

Eins og lögin um vinnutíma gengu gegn eðlilegri þróun vinnuverndar, þannig gengur frumvarpið um verkföll þvert gegn eðlilegri þróun verkalýðsfélaga. Einsog hið fyrrnefnda lagði að jöfnu verndarþurfi hópa verkalýðs með skriffinnslegu pennastriki, þannig setur þetta síðarnefnda tilbúnar markalínur þvert á eðlilega skipulagningu verkalýðsins í efnahagslífinu. Óheillavænleg áhrif þessa á þróun verkalýðsfélaganna réðu líka úrslitum um úrskurð dómbærustu manna verkalýðsforystunnar. Í Frakklandi, Þýskalandi og Austurriki hafa þeir í flestum þekktum tilvikum hafnað frumvarpi Millerands í grundvallaratriðum[17].

En annað úrslitaatriði er að mínu viti bindandi vald félagsdóms. Samkvæmt frumvarpinu verður að leita til hans og þar virðist sá möguleiki útilokaður að félagsdómur verði ekki sammála. Ennfremur er úrskurður hans greinilega ekki háður samþykki verkfallsmanna, heldur er löglega bindandi án frekari umsvifa. Sé hér ekki bara um að kenna óljósu orðalagi frumvarpsins, þá verður einfaldlega óskiljanlegt, hvaða hlutverki verkföll eiga að gegna. Verkamenn hafa greinilega enga möguleika á að hafna úrskurðinum, halda áfram verkfalli og neyða atvinnurekendur þannig til að gefa eftir, eða til að hafa óbeint áhrif á úrskurð félagsdóms sér í vil með verkfalli. Úrskurður félagsdóms verður því ekki nú eins og hingað til, þegar hann var viðurkenndur af frjálsum vilja, mælikvarði á styrk beggja aðilja, sem þeir höfðu sýnt í baráttu. Gangur verkfallsins, hvort menn geta staðið í því lengur eða skemur, hefur alls engin áhrif á úrskurð félagsdóms, því hann er endanlega bindandi.

Hvaða hlutverk hafa þá verkföll samkvæmt frumvarpi Millerands? Bara þann að gefa félagsdómi merki um að hefja störf og sá árangur næðist alveg eins með því t.d. að reka fána útum glugga á vinnustað.

Nú fyrst, í ljósi bindandi úrskurðar dóms, sést tímamótavelgerningur skylduverkfallsins í sinni fullu dýrð: Verkamenn fá vernd gegn verkfallsbrjótum, en jafnframt eru verkföll svipt öllum tilgangi. Í þessu ljósi fá líka sérstætt gildi hin nákvæmu og flóknu fyrirmæli um hvernig eigi að greiða atkvæði fyrir verkfall, meðan á því stendur og eftir það, um hvernig verkamenn eigi að haga sér fyrir verkfall, meðan á því stendur, o. s. frv. Það eina, sem hefur raunverulegt inntak í þessum kínversku helgisiðum þegar allt kemur til alls, eru hinar ströngu varúðarráðstafanir gegn því að "utanaðkomandi persónur hafi áhrif" á verkfallsmenn. Þar sem framámenn sósíalísta stjórna yfirleitt meiriháttar verkföllum í Frakklandi, sérstaklega þó þingmenn sósíalista, þá þýða þessar varúðarráðstafanir frumvarpsins ekkert annað en að sósíalískum "æsingamönnum og óróaseggjum" skuli bolað burt af vígvelli efnahagslífsins.

Í frumvarpi Millerands eru verkföll líka aðeins innantómt form, sem eins og segir hreint út í greinargerð ráðherrans, er haldið við í bili, einungis af virðingu fyrir verkalýðsstéttinni ef svo mætti segja og af tilliti til hleypidóma hennar. Frumvarpið gengur allt í þá átt að afnema verkföll endanlega, en það hefur þegar orðið í Nýja-Sjálandi, skipan mála þar er fyrirmynd frumvarps Millerands.

Umbæturnar nýju fela því í sér að rjúfa einingu öreiganna í kjarabaráttu, bæði innan starfsgreina og sem stéttar og sundra þeim í vinnustaðaeiningar. En einnig stefna þær að því að útrýma kjarabaráttu, jafnvel þessara vinnustaðaeininga. Hlutverk verkalýðsfélaga verður eiginlega aðeins að kjósa til verkalýðsmálaráða, eina hlutverk verkfalla að kveðja þau til kjaraúrskurðar, og öll hin efnahagslega stéttabarátta fer að dómsköpum í einkarétti.

Og eftir að Millerand hefur skorið sundur líftaug verkalýðsfélaganna með frumvarpi sínu, prédikar hann verkamönnum mælskur í greinargerð hve nauðsynlegt sé að skipulaggja sig í verkalýðsfélög.

Þegar nánar er að gáð reynast mikilvægustu umbætur Millerands vesællegt stagl. En það er ekki af því að ráðherra sósíalista vilji illa. Þvert á móti sýnir atorkan og andlitssvitinn sem fylgir hinum flóknu áætlunum af skrifborði ráðherrans ótvírætt ákafa hins besta vilja. Best birtist hann á því sviði starfssemi Millerands þar sem viðskiptaráðherrann er ekki beinlínis bundinn löggjöf þingsins, það er í tilskipunum hans, svo sem að koma á átta stunda vinnudegi póstmanna. Gallarnir á lagasetningu ráðherrans og áætlunum eru samt engin tilviljun, heldur ganga einsog rauður þráður í gegnum allt umbótastarf hans í félagsmálum.

Ég hefi sýnt framá að megineinkenni þessa starfs er þetta annarsvegar - hinsvegar, að gefa með annarri hendi og taka með hinni, í stuttu máli að samtengja tilslakanir til verkamanna og atvinnurekenda. Þetta er nákvæmlega sama rólukerfið og einkennir allar pólitískar aðgerðir ráðuneytisins. Hér einsog þar byggist rólustefnan á viðleitni til að láta andstæðurnar sem fyrir verða ekki skerpast, heldur að slæva þær. Til þess er reynt að koma ytri reglu á andstæðurnar, sem standa djúpum rótum í þjóðfélaginu, með því að reisa þeim lagaskorður. Í þeim virðist hinum andstæðu öflum veitt visst svigrúm og þannig á að hindra skyndileg umbrot. Sakaruppgjöfin var lögfræðileg afhleðsla árekstrarins milli borgaralegs samfélags og fastahersins, lög um trúarreglur tilraun til að breiða yfir átök lýðveldis og kirkju, í félagslegu umbótunum er barátta auðmagns og vinnuafls upphafin lögfræðilega.

En "lýðveldissinnameirihlutinn", sem stefna ríkisstjórnarinnar verður að laga sig eftir, er ekki frekar fulltrúi hagsmuna verkalýðs en lýðræðis. Sakaruppgjöfin í Dreyfus-málinu virðist fullkomlega óhlutdræg, en í reynd ofurselur hún fórnarlömbin afturhaldinu í hernum. Þannig er það með hinar félagslegu umbætur, þær veita formlegt jafnræði í öllum atriðum, en í rauninni er hagsmunum verkamanna fórnað. Millerand veitir verkamönnum margvíslegan kosningarétt til allskyns stofnana sem fjalla um málin á jafnréttisgrundvelli (svosem Æðsta atvinnuráðið, verkalýðsmálaráðin). Þær eru í mesta lagi hjálpartæki fyrir sjálfstæða verkalýðsbaráttu. En jafnframt sjáum við að hann lokar fyrir lifandi uppsprettu þessarar baráttu: þróun löggjafar um vinnuvernd, tryggingu verkfallsréttar, frjálsa þróun faglegrar baráttu. Og þótt segja megi um félagsmálastörf stjórnarinnar einsog um pólitískt starf hennar, að þau miði eingöngu að því að slæva andstæðurnar og milda ytri mynd þeirra, þá verður að bæta því við að þetta gerir hún á kostnað verkalýðsstéttarinnar eins og hitt var á kostnað lýðræðisins.

Það er því hvorki af tilviljun né neitt undur, að verkfallsmenn eru strádrepnir ( í Chalon og á Martinique-eyju) á sama tíma og gengið er frá lögum "um vernd verkfallsmanna"; og samtímis og verkamenn eru hvattir af hinu opinbera til ,,að skipuleggja sig, skuli hermenn notaðir til verkfallsbrota (nú í Montceau-les-Mines[18], sbr. Petite République 7/2 1901). Þetta er ekki í mótsögn við félagslegt umbótastarf Millerands, heldur bara eðlileg uppfylling þess. Grundvallarhugmynd þess starfs, að vernda í senn hagsmuni verkamanna og atvinnurekenda, hinna fyrrnefndu með ímynduðum tilslökunum, en hinna siðarnefndu með raunverulegum, hún kemur áþreifanlega fram í að útbúa á pappír leið verkalýðsins til lífshamingju á sama tíma og hagsmuna auðmagnsins er gætt með járnhörðum raunveruleika byssustingjanna.

Endanleg skýring á göllum félagslegra umbóta Millerands er þá sú, að þessar umbætur eru aðeins trú útfærsla í félagsmálum á meginstefnu pólitískra aðgerða stjórnarinnar, m. ö. o. að Millerand starfar í rauninni ekki sem sósíalískur ráðherra, heldur sem róttækur.

Og þetta er kjarni málsins. Innganga Millerands í ráðuneytið er m. a. réttlætt með tilvísun til félagslegra umbóta hans. Í rauninni er Millerand ekki upphafsmaður félagslegra umbóta ríkisstjórnarinnar, einsog við sáum eru þær forsenda tilveru stjórnarinnar sjálfrar. En ekki nóg með það, hann réð ekki heldur eðli umbótanna. Aðstæður reyndust sterkari en einstaklingar, og sósíalistinn sem gekk inn í borgaralega ríkisstjórn gerði ekki félagsmálastefnu ríkisstjórnarinnar að verkfæri sósíalískrar baráttu, heldur varð hann þvert á móti í félagsmálastefnu sinni að verkfæri borgaralegrar ríkisstjórnar.

Félagslegar umbætur i borgaralegu ríki burfa ekki endilega að vera svo vesællegar sem umbætur Millerands eru einmitt, þrátt fyrir góðan vilja hans í hvívetna. En þær hljóta alltaf að vera hálfkarað verk, staglað í götótta flík. Og það er ósköp eðlilegt. Upphaf löggjafar um vinnuvernd var hvarvetna knúið fram af tilliti til endurnýjunar þjóðarinnar. En þar fyrir utan er hún einungis árangur harðrar, langvarandi baráttu milli verkalýðs og ríkjandi stétta. Tilslakanir eru aðeins gerðar þegar það er algerlega nauðsynlegt, af pólitísku tilliti til verkalýðsins sem sósíalistaflokkurinn hefur espað upp. Þátttaka sósíalista í ríkisstjórninni breytir ekki hinu allraminnsta um að svona er málum háttað. Því sé sósíalískur ráðherra í borgaralegri ríkisstjórn, þ.e. drottni hagsmunir auðmagnsins í ríkinu en ekki verkalýðsstéttarinnar, þá er hann bundinn við samþykki borgaralegs meirihluta í ríkisstjórn og á þingi.

Vonin um að ná ófyrirséðum framförum í félagslegum umbótum með sósíalískum ráðherra var því alla tíð draumórar, sem litu hjá raunverulegum aðstæðum. Með því á hinn bóginn að vekja tilhæfulausar vonir og blekkingar, getur sósíalískur ráðherra orðið hindrun fyrir eðlilega þróun félagslegra umbóta.

Aðalaðferðin til að knýja félagsmálastefnu ríkjandi stétta framávið, skefjalaus gagnrýni sósíalistaflokksins á hana, verður enn síður möguleg en gagnrýni á heildarstefnu ríkisstjórnarinnar, þegar sósíalisti verður fulltrúi opinberrar félagsmálastefnu. Heildarstefnan kemur fram í aðgerðum sem sósíalistinn þarf a. m. k. ekki að eiga beinan þátt í. En gagnrýni á félagsmálastefnu stjórnarinnar beinist gegn ráðherra sósíalista og verki hans sjálfs beinlínis.

Og reyndar reyna fylgismenn Millerands í Frakklandi að slá ofbirtu í augu fólks og dáleiða það með því að dásama fyrirfram hverja aðgerð ríkisstjórnarinnar í félagsmálum sem sósíalískt tímamótaverk.

Lögin um vinnutíma, einu lög í veröldinni sem hafa það að grundvallarreglu að tólf ára börn skuli vinna jafnlengi og fullorðnir, þessi lög eru skv. Jaurès "einhverjar mestu framfarir sem verkalýðsstéttin fær notið, einhver mesti ávinningur öreigastéttarinnar". (Petite République 16/1 1900), já " endurreisn einingar verkalýðsstéttarinnar með lögum[19] (P. R. 20/1 1900).

Umburðarbréf viðskiptaráðherra til eftirlitsmanna í verksmiðjum, sem hvetur þá til að ná samkomulagi við verkalýðsfélögin eru "djarfasta verk", "eftirminnilegur viðburður í annálum skipulagðra öreiga" (Gérault-Richard, P.R. 21/1 1900).

Yfirlætislaus tilskipun um að vinnuskilyrði sem tíðkast á hverjum stað skuli ráða við opinberar framkvæmdir, er "sósíalísk aðgerð Millerands" (P. R. 7/8 1899).

Verkalýðsfélögin kjósa að hluta til í Æðsta atvinnuráðið. Napoleon III kom því á stofn. Eftir umbætur Millerands skal kosið til þess á átta mismunandi vegu. Það tekur venjulegan dauðlegan mann a. m. k. fjórar vikur að skilja reglur um það, en hlutverk allrar þessarar stofnunar eru umræður, tvær vikur á ári. Að mega kjósa þriðjung félaga þessarar brautryðjandi stofnunar myndar ásamt tilskipuninni sem áður var rætt um, "sósíalíska græðlinga, sem plantað í jarðveg auðvaldsins, munu bera dásamlega ávexti" (P. R. 21/1 1900).

Þessi lofsöngur fylgismanna Millerands um hvert hans verk leiðir þá beint til að afneita eigin skoðunum. Jaurès sem hafði mælt fyrir allherjarverkfalli kerfisbundið við hvert tækifæri, telur nú frumvarp um skylduverkföll, sem útilokar allar almennar aðgerðir og þá sérstaklega allsherjarverkfall, hið dásamlegasta "upphaf sameiginlegra aðgerða öreigastéttarinnar" (P. R. 20/ 12 1900).

Já, meira að segja einstök orð Millerands og athafnir eru flutt verkalýðnum sem mesti sigur sósíalismans. Þannig er til dæmis ferð viðskiptaráðherrans til samsætis iðnskólans í Lille og borðræða hans þar, "eitthvert mesta og frjóasta augnablik, sem skráð verður í sögu sósíalismans og lýðveldisins". (Jaurès, P.R. 18/10 1899). Samkvæmt því ber að leiðrétta þann misskilning að mesta augnablik í sögu sósíalismans í Frakklandi sé Parísarkommúnan.

Það er ekki bara vegna vanþróunar borgaralegs samfélags Frakklands, efnahagslega og pólitískt, sem ástand félagsmála þar dragnast aftur úr næstum öllum auðvaldslöndum. Skeytingarleysi verkalýðsstéttarinnar á líka mikla sök á því. Það er arfur eftir allar byltingarnar að franskir öreigar hneigjast til öfga á tvær hliðar; annarsvegar til að ofrneta einhliða pólitískar aðgerðir og setja allar vonir sínar á pólitískar umbyltingar, hinsvegar að vanmeta einhliða pólitískar aðgerðir og treysta eingöngu á "sjálfsbjörgina". Af báðum öfgum hlaust í sama mæli að vanrækja daglega kjarabaráttu sem hefði pólitísk áhrif á umbótalöggjöf.

Félagatala franskra verkalýðsfélaga er býsna tilkomumikil, a.m.k. á pappírnum (493.000 á árinu 1899). En þau eru samt mjög veikburða. Sundrungin er óskapleg - á hverjum stað eru nokkur félög í nánast hverri grein. Við það bætist féleysið - stjórn Alþýðusambandsins (CGT), t.d., víðfemt samband með yfir 100.000 félagsmenn, hafði á tveimur árum (1898-1900) 2.100 mörk í tekjur! Loks er að hálfgerður stjórnleysisbragur drottnar í verkalýðsfélögunum, þar drottnar hugrnyndin um allsherjarverkfall.

Þegar svona er ástatt um verkalýðsfélögin, hljóta jafnvel hinar bestu félagslegu umbætur að verða eintómt pappírsgagn. Í Frakklandi komast þær ekki út fyrir stagl tækifærissinna og róttækra, af því að verkalýðsstéttin hirðir ekki um þróun slíkra umbóta. Það sést best á drottnandi einkennum franskra laga um vinnuvernd hingað til, á dútlinu, tilraunum án áætlana, að þetta umbótastarf vantar samband við markvissa og öfluga verkalýðshreyfingu, við starfið í daglegri baráttu.

Til að breyta þessu þyrfti umfram allt að knýja frönsk verkalýðsfélög til sjálfstæðra aðgerða, til öflugrar baráttu fyrir bættum vinnuskilyrðum að lögum og í kjörum. En félagslegar umbætur Millerands hafa þveröfug áhrif. Efnislega beinast þær að því að taka lífsinntakið frá verkalýðsfélögunum, óhindraða kjarabaráttu, og breyta þeim úr baráttusamtökum í hluta tilbúins kerfis til friðargæslu í þjóðfélaginu. Formlega útiloka þær þar að auki gagnrýni og sjálfstæða árás verkalýðsins á stefnu hins opinbera í félagsmálum.

Það er því langt frá því að ráðherradómur Millerands hefji nýtt skeið félagslegra umbóta í Frakklandi. Svo langt, að í rauninni táknar hann að verkalýðsstéttin skuli hætta baráttu fyrir félagslegum umbótum, áður en hún hafði hafist. Og það er að kæfa eina aflið, sem hefði getað blásið nýju lífi í kalkaða félagsmálastefnuna í Frakklandi.

 

V. Mál Millerands og flokkar sósíalista

Í greinunum hér á undan höfum við eingöngu haldið okkur á grundvelli hagnýtra stjórnmála og fengist við ráðherradóm sósíalista eingöngu með tilliti til nærtækra markmiða, sem hann átti að leiða til samkvæmt Jaurès.

Það hefur sýnt sig að framkvæmdin leiðir hér sem ævinlega til sömu niðurstöðu og sjá mátti fyrir af fræðikenningu sósíalista og meginreglum. Baráttuaðferð Jaurès dugir ekki á þau hagnýtu viðfangsefni sem liðsmenn hans settu sér. En það er bara rökrétt afleiðing af þeirri staðreynd að með því að breyta ráðherradómi sósialista úr undantekningu í reglu, í eðlilega baráttuaðferð verkalýðsstéttarinnar, þá afneituðu þeir undirstöðuatriðum sósíalista.

Sósíalistar eru kallaðir til þess að afnema einkaeign á framleiðslutækjunum og drottnun borgarastéttarinnar - þeir taka nú þátt í stjórn borgaralegs ríkis. Slík ríkisstjórn hefur það hlutverk að varðveita einkaeign og drottnun borgarastéttarinnar ævinlega. Sósíalistar eru kallaðir til þess að skipuleggja öreigana í sérstakan stéttarflokk og leiða hann til baráttu gegn öllum borgaralegum stéttum, - þeir gera verkalýðsstéttina að taglhnýting lýðveldissinnaðra borgara.

Þátttaka í kúgun öreiganna sem aðferð til að frelsa öreigana, pólitískir hlekkir við borgaralega flokka sem baráttuaðferð gegn borgarastéttinni - mótsagnir í þessu virðast augljósar.

Jaurès neitar því reyndar. Í þátttöku sósíalista í borgaralegri ríkisstjórn sér hann einungis rökrétt framhald viðurkenndra leiða: þátttöku í löggjafarþingi og bæjarstjórnum. Þetta væri næsta skref í þróun sósíalískra baráttuaðferða frá einangrunarkreddum til virkrar þátttöku í stjórnmálum. Bandalagið við borgaralega lýðveldissinna álítur hann rökrétta afleiðingu af þeirri reglu að verkalýðsstéttin eigi að styðja framsækinn hluta borgarastéttarinnar gegn afturhaldssömum, og nota sér þær andstæður.

Ég álít að tilvisun Jaurès til viðurkenndra baráttuaðferða sósíalista byggi í báðum tilvikum á misskilningi á eðli ríkisins og á þróun borgaralegs samfélags.

Löggjafarþing og ríkisstjórn nútímaríkis eru gjörólíkar stofnanir að eðli og hlutverki, miðað við verkefni sósíalista.

Þingið er vígvöllur borgaralegs samfélags fyrir baráttu stétta og flokksbrota. Það er því hinn ákjósanlegasti vettvangur fyrir kerfisbundna andstöðu sósíalista gegn drottnun borgarastéttarinnar. En það er fyrirfram útilokað að fulltrúar verkalýðsins geti gegnt slíku hlutverki í ríkisstjórn. Hlutverk hennar er að koma því í framkvæmd, sem varð ofan á í baráttu andstæðra flokka á þingi og í þjóðlífinu. Ríkisstjórnin er því framkvæmdaaðilji og á líf sitt undir því að vera samstæð hið innra. Í hagkerfi auðvaldsins er náið samhengi einstakra greina, framleiðslu, verslunar, banka og flutningakerfis. Á sama hátt væri heimsverslun stóriðnaðar óhugsandi með samgöngutækjum miðalda, sósíalísk vörudreifing óhugsandi við framleiðslu í einkarekstri. Í borgaralegu ríki sem er einungis pólitísk skipulagning hagkerfis auðvaldsins, verður á sama hátt að vera fullkomið samræmi starfsemi á ýmsum sviðum.

Nýlendustefna nútíma stóriðnaðar byggist á viðeigandi gerð hernaðarstefnu sem standi undir heimspólitík. Verslunarstefna yfirgangs og verndartolla leiðir eðlilega til að reyna að leggja undir sig nýlendur. Nútíma hernaðarstefna er óhugsandi án fjármálastefnu sem getur kreist það fé sem þarf úr alþýðu manna með óbeinum sköttum. Fjármálastefnan, það er skatta -, ríkisskulda- og einkasölukerfið, er nátengd iðnaðarstefnunni, beinlínis og í gegnum kauphöllina. Hernaðarstefna, verslunar- og nýlendustefna ákvarða í heild inntak utanríkisstefnunnar og markmið hennar.

Þannig er þá ríkisstjórn nútímaríkis gangvirki, einstakir hlutar þess tengjast á allar hliðar, ákvarða og jafna hreyfingar hver annars. Borgaralegt þingið flytur hreyfinguna og kemur öllu gangvirkinu af stað. En hreyfiaflið er fyrst og fremst afstæður stétta og flokka í landinu og endanlega framleiðslu- og dreifingarafstæður efnahagslífs samfélagsins. Einingu hagkerfis auðvaldsins annarsvegar samsvarar borgaraleg eining stjórnarstefnunnar hinsvegar.

Tvennt leiðir af þessu.

Í fyrsta lagi, að neiti menn ábyrgð hvers ráðherra á stjórnarstefnunni í heild og 1íti á hvert ráðuneyti sem sérstaka, óháða valdamiðstöð, þá byggist það á algerlega vélrænum skilningi á ríkinu. Af innra samhengi ýmislegrar starfsemi ríkisstjórnarinnar leiðir eðlilega gagnkvæma ábyrgð einstakra ráðherra. Og ákvæði stjórnarskrár Frakklands, eins og allra landa sem hafa þingræði, um að allir ráðherrar í heild séu ábyrgir fyrir stefnu stjórnarinnar, það er hvorki tilviljun né einhverjar krúsidúllur ríkisréttar, heldur viðeigandi lögfræðilegt orðalag fyrir þá einingu í starfi sem er lífsskilyrði borgaralegrar ríkisstjórnar.

Jaurès lítur raunar á gagnkvæma ábyrgð ráðherranna frammi fyrir þjóðinni, sem innantómt formsatriði, kínverska helgisiði[20]. Ábyrgð sósíalísks ráðherra á athöfnum borgaralegrar ríkisstjórnar telur hann vera aðeins "í sjón", en ekki í raun, sambærilegt við þá trúnaðareiða sem sósíalistar urðu að sverja konungi og stjórnarskrá er þeir tóku sæti á saxneska þinginu. Hann vitnar til Liebknecht sem hafi stigið yfir þennan "pappírsgarð" með upphafinni lítilsvirðingu.

Jaurès sést þarna yfir grundvallarmun sem er á þessum tveimur tilvikum. Eftir að sósíalistar voru komnir inn í þingið, hindraði þessi eiður þá ekki á nokkurn hátt í fullkominni andstöðu við ríkisstjórnina og meirihluta þingsins. En sósíalisti í borgaralegri ríkisstjórn neyðist til að taka þátt í störfum hennar. Þessu tvennu væri þá fyrst jafnandi saman, ef eiður sósíalískra þingmanna hefði neytt þá til að setjast á bekk með hinum borgaralega meirihluta og greiða atkvæði með honum. Reyndar stenst hér ekki samjöfnuður, heldur er þetta algerlega andstætt: sósíalistar fara á þing til að berjast gegn drottnun borgarastéttarinnar, en í borgaralega ríkisstjórn til að taka á sig ábyrgð á gerðum þessarar stéttardrottnunar.

Í öðru lagi kemur í ljós að það eru fullkomnir draumórar að halda að eitt ráðuneyti ríkisstjórnar geti fylgt borgaralegri stefnu en annað sósíalískri, og verkalýðurinn geti þannig náð undir sig ríkisvaldinu í áföngum, einu ráðuneyti eftir annað.

Þegar sósíalískir fylgismenn Millerands reyna af öllum mætti að afneita ábyrgð hans á gerðum annarra ráðherra og takmarka hana við athafnir hans sjálfs, þá er það af því að þeir þykjast geta sýnt að a.m.k. þær sérstaklega fylgi " sósíalískri stefnu". Þessari blekkingu ná þeir aðeins - fyrir utan gagnrýnislausa dýrkun á félagslegum umbótum Millerands - með því að líta á þær sem eina viðfangsefni viðskiptaráðherrans og steinþegja um önnur störf hans. En rétt eins og verkamenn eru aðeins einn þáttur framIeiðsluskilyrða efnahagslífs auðvaldsins af mörgum, þannig er félagsleg umönnun verkalýðs aðeins einn þáttur, og hann minniháttar, í störfum hins borgaralega viðskipta- og iðnaðarráðuneytis. Þau störf beinast öll að því að láta framleiðslu og viðskipti auðvaldskerfisins dafna. Þar skiptir viðskiptastefnan mestu máli. Hefði Millerand viljað ná fram lágmarkskröfum sósíalista á þessu sviði, þá þurfti hann greinilega að grafa undan hinu mikla sjálfstæða verndartollakerfi hámarks- og lágmarksgjalda, sem Méline kom á 1892 og sérstaklega þurfti hann að afnema tolla á matvælum. En hvað gerir hann í rauninni? Það sést á samningi Millerands við Bandaríkin 1899. Ekki var Méline í ráðuneytisgirnd sinni fyrr búinn að úthrópa þennan samning sem svik við áunnin réttindi verndartollamanna í sveitum, en sósíalískir vinir Millerands gátu vísað því á bug sem lágkúrulegum rógburði. Með stolti gátu þeir bent á "að í verslunarsamninginum eru landbúnaðarafurðir undanþegnar tollaívilnunum, ... að verslunarsamningurinn nái ekki til matvæla, sérstök lög stjórni innflutningi þeirra, ... að hann gæti hagsmuna kvikfjárbænda betur en tillaga Mélines, því bandarískar skinn- og leðurvörur séu ekki í lágmarksflokkinum." (Fournière, P.R. 17/8 1899).

Þar með hafði tekist að sýna, að sem viðskiptaráðherra kom Millerand fyllilega í stað Méline, "père famine" [þ.e.:hungurvalds. Þýð], og sanna um leið að sósíalisti getur aðeins starfað í borgaralegri ríkisstjórn að því marki sem hann sýnir getu sína til að annast borgaralega stefnu og afneita sósíalískri.

Umsvif Millerands í viðskiptamálum varpa nýju ljósi á allt þetta mál með ráðherradóm sósíalista. Það er ekki nóg með að sósíalisti í ríkisstjórn nú á tímum neyðist til að fylgja borgaralegri stefnu á meðan grundvöllur borgaralegs samfélags stendur, einkaeignarréttur og stéttarveldi. Á grundvelli nútímasamfélags getur ekki verið um að ræða neina aðra stefnu en borgaralega. Og þótt ráðherrann framkvæmdi allar þær kröfur í stefnuskrá sósíalista sem miðast við ríki nú á dögum, þá væri hann engu að síður borgaralegur ráðherra. Starfsemi hans þjónaði þá í mesta lagi framsæknum hneigðum borgaralegrar þróunar. En ekki nóg með það. Það kemur á daginn, að ráðherra í ríkisstjórn núna er ekki bara bundinn við borgaralega samfélagsskipan almennt, heldur einnig við þá hagsmuni hópa og klíkna sem drottna hverju sinni, að hann er ekki bara þjónn borgaralegrar þróunar, heldur líka borgaralegs afturhalds.

Einsog getið var um áðan, hefur Jaurès lagt að jöfnu eið Liebknechts við saxnesku stjórnarskrána og ábyrgð Millerands á almennri stefnu stjórnarinnar sem innantóm formsatriði. Ég hefi sýnt framá, að þessi skoðun byggist á algerlega vélrænni túlkun á eðli borgaralegs ríkis. En ég skal gjarnan takmarka mig við ábyrgð Millerands á sínu eigin ráðuneyti. Þá á Jaurès bara eftir að sanna að eiðurinn sem Liebknecht vann konungi Saxlands hafi haft sömu afleiðingar fyrir verkalýðsstétt Saxlands og viðskiptastefna Millerands hafði fyrir franska alþýðu. (Þá fengi hann líka ótvírætt svar við spurningunni sem hann bar fram í Lille, hvort við myndum þá tvístíga ef málstaður okkar krefðist þess að kasta nokkrum okkar manna í virki borgaralegrar ríkisstjórnar (Les deux méthodes, bls. 8). Þessi áætlun leiðir bara til hess að "okkar menn" skjóta úr hinu borgaralega virki, ásamt borgarastéttinni, á raðir okkar sjálfra.

Allt annað mál er þátttaka í bæjarstjórnum. Satt er það að bæjarstjórnir og borgarstjórar hafa meðal annars það hlutverk að stjórna og að sjá um framkvæmd borgaralegra laga. En sögulega séð eru bæjarstjórnir og ríkisstjórn algerlega andstæð fyrirbæri.

Ríkisstjórnin er líkamningur miðstýrðs ríkisvalds, en bæjarstjórn vex upp úr sjálfsstjórn á staðnum á kostnað miðstýringarinnar, sem frelsun undan miðstýringunni. Eiginlegt eðli ríkisstjórnarinnar eru sérstök tæki drottnunar borgarastéttarinnar: málefni hers, kirkju, viðskiptamál, utanríkismál. En bæjarstjórn er sérstaklega tilkvödd að fást við menningar- og efnahagsmál, þ.e. þau málefni sem verða viðfangsefni sósíalísks samfélags, eftir að stéttaskipting hverfur. Sögulega séð eru því ríkisstjórn og bæjarfélag andstæðir pólar í nútímasamfélagi. Stöðug barátta milli þeirra, milli borgarstjóra og héraðsstjóra í Frakklandi sýnir þessa sögulegu mótsetningu áþreifanlega.

Baráttuaðferðir sósíalista gagnvart þessu tvennu verða því gerólíkar: Ríkisstjórn nútímaríkis er líkamningur drottnunar borgarastéttarinnar, og það er óhjákvæmileg forsenda sigurs sósíalista að ryðja henni úr vegi. Sjálfstjórnin er framtíðarafl, sem sósíalísk bylting kemur til með að tengjast á jákvæðan hátt.

Vissulega setja borgaralegu flokkarnir stéttarlegt inntak sitt einnig í efnahagslega og menningarlega starfsemi bæjarfélagsins. En hér lenda sósíalistar aldrei í þeirri aðstöðu að þurfa að bregðast eigin stefnu. Á meðan þeir eru í minnihluta bæjarstjórna, miða þeir athafnir sínar við andstöðu á nákvæmlega sama hátt og á þingi. En komist þeir í meirihluta, þá breyta þeir bæjarfélaginu sjálfu í baráttutæki gegn miðstýrðu valdi borgaranna. Bandalagið við borgaralega 1ýðveldissinna rökstyður Jaurès með ummælum Marx í þá veru að sósíalistar eigi að berjast með borgarastéttinni gegn afturhaldinu (s. r. bls. 4). Greinilega á hann við lokaorð Kommúnistaávarpsins, en þar segir: "Í Þýskalandi berjast kommúnistar með borgarastéttinni, jafnskjótt og hún rís byltingarsinnuð gegn einveldinu, jarðeignavaldi aðalsins og smáborgaraskapnum. Í stuttu máli, kommúnistar styðja hvarvetna sérhverja byltingarhreyfingu gegn ríkjandi þjóðfélags- og stjórnmálaháttum". (M/E Úrvalsrit I, bls. 53). En þessi tilvitnuðu orð byggjast á sérstöku sögulegu inntaki.

Þessi orð Kommúnistaávarpsins visa nefnilega til baráttunnar á fyrri hluta síðustu aldar fyrir því að setja drottnun borgarastéttarinnar í stað lénsveldisins. Þá átti öreigastéttin að styðja stétt á uppleið, pólitískur sigur hennar á afturhaldinu var efnahagsleg nauðsyn. Nú er ástandið gerólíkt. Borgarastéttin hefur allsstaðar náð markmiði sínu, og nú berst hún ekki lengur gegn afturhaldinu, heldur hefur hún sameinast leifum lénsveldisins í opinberan fulltrúa afturhaldsins.

Það sem nú má kalla borgaralega lýðræðissinna í auðvaldslöndunum, er næstum eingöngu smáborgarastéttin. En smáborgaralegir lýðræðissinnar eru ekki fulltrúar stéttar á uppleið, sem reyni að leysa borgarastéttina af. Við erum ekki frekar að nálgast pólitíska drottnun smáborgarastéttar en efnahagslegan sigur smáiðju á stóriðju. Inntak þjóðfélagsþróunarinnar núna er, hliðstætt baráttu borgarastéttarinnar við lénsveldið, ekki andstæður smáborgarastéttar og borgarastéttar, heldur andstæður öreigastéttar og borgarastéttar.

Þar sem smáborgarar standa á milli þessara stétta skapast vissulega á stundum sameiginleg barátta þeirra og verkalýðsstéttarinnar. En nú á tímum hlýtur öreigastéttin að vera hið drottnandi afl, leiðandi, og smáborgarastéttin taglhnýtingur þegar svo ber undir, og ekki öfugt. Það er að segja, einnig þegar sósíalistaflokkurinn á um hríð samleið með borgaralegum lýðræðissinnum, má hann ekki takmarka baráttu sína við það svið sem hann á sameiginlegt með smáborgarastéttinni. Þvert á móti verður hann að fara kerfisbundið fram úr viðleitni smáborgaralegu flokkanna, til hins ítrasta.

Þegar í Kommúnistaávarpinu, sem Jaurès byggir á, er verkalýðsstéttinni hreint ekki ráðlagt að renna pólitískt saman við byltingarflokka borgarastéttarinnar. Þvert á móti. Ávarpið setur fram þá meginreglu að kommúnistaflokkur eigi að styðja byltingarsinnaða borgarastétt, en bætir óðara við: "Hann vanrækir ekki eitt augnablik að vekja verkamönnum sem skýrasta meðvitund um ósættanlegar andstæður milli borgarastéttar og öreiganna.". (s. r. s. st. ).

En vilji Jaurès prófa hvernig baráttuleið hans kemur heim við kenningar Marx, þá þarf hann umfram allt að líta til leiðbeininganna sem Marx gaf öreigastéttinni eftir byltinguna 1848, það er eftir aðalorrustu borgarastéttarinnar gegn lénsveldinu. Upphaflega voru leiðbeiningarnar raunar miðaðar við áframhald byltingarinnar, en sósíalistar hafa síðan farið eftir þeim einnig á friðartímum. Í fyrsta ávarpi miðstjórnar til Kommúnistabandalagsins, 1850, segir Marx við verkalýðinn:

"Kröfur lýðræðissinna verða ekki byltingarkenndar, heldur beinast einvörðungu að umbótum. Þið verðið að teygja þær til hins ítrasta og breyta þeim í beinar árásir á einkaeignarréttinn. Kröfur verkamanna" segir hann að lokum eftir að hafa komið með nokkur bein dæmi, "verða því hvarvetna að laga sig eftir tilslökunum og viðmiðunum lýðræðissinna", og þá í þeim skilningi, að verkamenn verða skilyrðislaust að ganga lengra í öllu en smáborgararnir" [auðkennt af R. L.].

En hver er afstaða flokksbrots Jaurès til bandalagsins við franska Róttæklinga? Við höfum séð að tryggðin við ráðherradóm Millerands hefur neytt sósíalista til að gera bandalagið við Róttæka að grundvelli allrar baráttuaðferðar sinnar, og því þrengja þeir æ meir að byltingarsinnaðri stéttabaráttu og afneita henni.

Fyrst var fallið frá sósíalískri gagnrýni á ríkisstjórnina og pólitískri upplýsingu almennings, stjórnmálabaráttan beindist aðallega að þinginu. Síðan var fórnað sjálfri andstöðunni á þingi. Atkvæðagreiðslan um sakaruppgjöf sýndi loks að hægriarmur sósíalista gafst upp við sjálfstæða baráttu gegn ríkisstjórninni.

En skriðan heldur áfram. Og þegar fjallað var um trúreglulögin, stigu félagar Jaurès enn eitt skref. Þegar ríkisstjórnin hafnaði frumvarpi sem allt þinglið sósíalista hafði undirritað, og átti að tryggja samtakarétt verkamanna, höfðu 10 þingmenn sósíalista það af á þingfundi 4. febrúar, að greiða atkvæði gegn eigin frumvarpi: Hér sjáum við sósíalista breytast úr flokki, sem rækir stéttabaráttu um fram allt og á að veita öllum andstöðuöflum landsins forystu, í ístöðulaust flokksbrot þinglegra stundarbandalaga, í fuglahræðu sem feykist til eftir vindum borgaralegra flokka, í hóp "Mamelúka"[21] einsog róttæklingurinn fyrrverandi, Urbain Gohier, kallaði þá í Aurore með botnlausri fyrirlitningu.

Tilvísun Jaurès í Kommúnistaávarp Marx og Engels er því jafntilhæfulaus og tilvísun hans til reynslu þýskra sósíalista. Hvergi í sögu flokks vors né starfi hans nú er neitt sambærilegt við ráðherradóm sósíalista, né neitt sem hann gæti stuðst við.

Vissulega hefur þýski sósíalistaflokkurinn þróast einsog aðrir, og baráttuaðferðir hans breyst í samræmi við það. En drottnandi hneigð í sögu hans var og er stöðug útvíkkun og efling stéttabaráttunnar, aldrei að fórna henni. Það er því svo langt frá því að baráttuaðferðin sem Jaurès boðar, sé rökrétt framhald af aðferðum þýskra sósíalista, að hún er alveg "ný aðferð", í þýskri verkalýðshreyfingu rétt einsog franskri.

Þá fyrst er menn gera sér grein fyrir öllum afleiðingum aðferða Jaurès, skilst hinn djúpi ágreiningur sem er milli fylkinga franskra sósíalista.

Undanfarið hefur sú skoðun rutt sér til rúms, sérstaklega eftir Dreyfus-málið og einnig í blöðum okkar, að franska bræðradeilan stafaði af kredduofstæki byltingarsinnanna, gömlu flokkarnir þeirra Guesde og Vaillant fylgdu ófrjórri einangrunarstefnu og væru lokaðir fyrir þeim hagnýtu aðgerðum sem veruleikinn krefðist hversdagslega. Hinsvegar væri það flokksbrot Jaurès, sem hefði baráttuaðferð sósíalista í lifandi þróun, lagaði sig að margbreytileika lífsins í stjórnmálum og félagsmálum og tæki mið af nærtækustu hagsmunum verkalýðsstéttarinnar.

Þessi skoðun sýnir algert þekkingarleysi á högum franskra sósíalista. Það voru einmitt gömlu samtökin Verkamannaflokkurinn (svokallaðir Guesdistar) og Byltingarflokkur sósíalista (svokallaðir Blanquistar) sem ruddu allar brautir hagnýtrar baráttu sem sósíalistar í Frakklandi nota sér, og þeir sköpuðu baráttuaðferð sem í meginatriðum fellur saman við aðferð þýskra sósíalista, enda þótt menn greini mjög á um eitt mikilvægt mál í Frakklandi og Þýskalandi, svo sem alkunna er, það er um landbúnaðarmál.

Verkamannaflokkurinn varð fyrstur til þess í Frakklandi að breyta þinglegri baráttu "úr tæki borgaralegs svindls í tæki frelsunar öreigastéttarinnar", einsog Marx orðaði það í stefnuskrá flokksins. Og þá ekki einungis til upplýsingar og áróðurs, heldur einsog til baráttu fyrir nærtækum endurbótum.

Lítum á þingið 1889-1893, því þá tóku bestu öfl fylkingar Jaurès enn ekki þátt í hreyfingu sósíalista. Fulltrúar franska verkamannaflokksins báru þá fram þessi mál á þingi og beittu sér fyrir:

1. Fulla vinnuvernd, samkvæmt tillögum Alþjóðlegs þings sósíalista 1889.

2. Bann við fésektum í verksmiðjum og endurskoðun reglugerða verksmiðjanna af samráðsnefndum á hverjum stað.

3. Allir tryggingasjóðir verkalýðsins verði undir stjórn hans eingöngu.

4. Bannað verði að beita hernum við vinnudeilur.

5. Atvinnurekendur sem gangi á samtakarétt verkamanna verði lögsóttir.

6. Æðsta verkalýðsráðið verði endurskipulagt þannig að helmingur þess verði kjörinn af verkalýðsfélögunum.

7. Komið verði á átta stunda vinnudegi, sömu lágmarkslaunum fyrir verkamenn og verkakonur og bannað verði að láta börn innan sextán ára vinna í eldspýtnaverksmiðjum ríkisins.

8. Kolanámur verði þjóðnýttar.

9. Vinnuvernd verði látin ná til verslana og heimilisiðnaðar, loks verði verkstjórar kjörnir af verkafólki. Hér sést þinglegt endurbótastarf sem fer út í ystu æsar og samsvarar nákvæmlega starfi fylkingar sósíalista í Þýskalandi.

Sömu mynd fáum við af starfi beggja flokkanna á þingi núna. Hvort sem um er að ræða vinnuvernd eða skatt af drykkjarvörum, um utanríkisstefnu eða félagsdóm, um að verja eftirlits- og fjárveitingavald þingsins, eða lýðveldið gegn klerkunum, alltaf barðist hinn frábæri flokkur blanquískra þingmanna í fremstu röð ásamt með félögum sínum í "Kommúnistabandalaginu" og Franska verkamannaflokkinum Breton, Dejeante, Groussier, Sembat, Vaillant, Zévaés.

Á sama hátt hafa þessir tveir flokkar hafið starf í bæjarstjórnum Frakklands, sem mætti verða sósíalistum allra annarra landa til fyrirmyndar. Franski verkamannaflokkurinn einn, sem er í meirihluta í meira en hundrað bæjarstjórnum, og sterkur minnihluti í mörgum hundraða, er árið um kring óþreytandi í smágerðu uppbyggingarstarfi á ólíkustu sviðum: í skólamálum, heilsugæslu og umönnun fátækra, gatnalýsingu, vatnsveitu, þetta starf nær meira að segja til leikhúss og lista. Og vel að merkja, heyrir þetta starf ekki fortíðinni til, heldur hefur stöðugt verið að vaxa fram á þennan dag[22].

Loks hafa flokkar Guesde-Lafargue og Vaillant unnið stórkostlegt starf á sviði faglegrar baráttu.

Þegar árið1882 hafði Franski verkamannaflokkurinn viðurkennt nauðsyn verkalýðsfélaga og mikilvægi. Og 1890 bauð hann því öllum félögum sínum að ganga í viðeigandi verkalýðsfélög, það er ákvörðun sem samsvarar alveg óskum þýskra verkalýðsfélaga. 1895 bar flokkurinn fram frumvarp til laga um að allir verkamenn í öllum starfsgreinum verði að greiða til verkalýðsfélaga. Með eigin óþrotlegum áróðri kemur flokkurinn á stofn Landssambandi vefiðjumanna, sjómanna, leðuriðjumanna, mörgum staðbundnum félögum námumanna, o. s. frv. Flokkurinn leiðir öll mikilvæg verkföll, í Roanne 1882, Decazeville 1885, Calais 1890, Carmaux 1892 og 1895, nú er hann að í Chalon og í Montceau-les-Mines. Loks má nefna, að á sama tíma og Jaurès og félagar ýta á allan hátt undir firru franskra verkalýðsleiðtoga - allsherjarverkfall, reynir verkamannaflokkurinn að koma verkalýðshreyfingunni á raunhæfan grundvöll með kerfisbundinni baráttu gegn þessari hugmynd. Og þarsem fylking Jaurès vill innlima verkalýðsfélögin í sósíalistaflokkinn, pólitískum hagsmunum sínum til framdráttar, þá boða Guesde og Vaillant að verkalýðsfélögin skuli vera skipulagslega óháð sósíalistaflokkinum, svo að þau geti þróast frjálst.

Eftir allt þetta er ljóst að deilan á milli svokallaðrar "andráðherralegrar" fylkingar sósíalista og "ráðherralegrar", stendur ekki um það hvort stunda skuli hagnýtt starf eða "byltingarfrasa". Þegar fylgismenn Millerands saka andstæðinga sina um að vanrækja hagnýtar umbætur, þá er það einungis af því að hagnýt störf merkir fyrir þeim skilyrðislausan stuðning við núverandi ríkisstjórn í öllu sem hún gerir og lætur ógert.

Sá sem er á móti lögum Millerand-Colliard, það er, á móti því að dæma börn til sama vinnutíma og fullorðna, hann er - á móti vinnuvernd! Sá sem kallar stjórnarfrumvarpið um trúreglur hálfkák og getuleysi, hann vinnur að sigri klerklegs afturhalds! Sá sem afhjúpar "lýðveldislega" vesöld stjórnar Waldeck-Rousseau frammi fyrir þjóðinni, hann er - á móti vörn lýðveldisins!

Þessar fullyrðingar standa á sama grunni og hið fræga slagorð afturhaldsmanna á þýska þinginu, að fyrst þýskir sósíalistar hafi á sínum tíma hafnað verkalýðstryggingum Bisrnarcks, þá séu þeir á móti félagslegum umbótum.

Í rauninni stendur deila frönsku sósíalistanna ekki um hagnýt störf, heldur hvernig eigi að vinna þau, um "aðferðirnar tvær". Andstæður þeirra koma ekki fyllilega fram fyrr en litið er til sérstakra pólitískra aðstæðna í Frakklandi, þá fyrst er hægt að skilja þær og meta.

Í löndum undir konungsstjórn, einsog Þýskalandi, er það einungis sósíalísk verkalýðsstétt sem krefst lýðveldis, og því er lýðveldið mjög nátengt sósíalismanum. Í Frakklandi var lýðveldið hinsvegar áþreifanleg mynd drottnunar borgarastéttarinnar. Og sósíalistar hlutu að beina gagnrýni sinni og andstöðu að því frá fyrstu stundu. Aðeins í þeim mæli sem sósíalistum tókst að rjúfa blekkingarnar um lýðveldismynd ríkisins, sýna félagslegt inntak hennar, gátu þeir losað verkalýðsstéttina úr herbúðum borgaranna og skipulagt hana í sérstökum stéttarflokki. Tilvera sósíalismans var frá upphafi bundin óþrotlegri baráttu gegn borgaralegum lýðveldissinnum. Og það er ógleymanlegt sögulegt afrek gömlu flokkanna, Guesdista og Blanqista (einnig svonefndra Allemanista að nokkru og á annan hátt, þ.e. með öfgafullri afneitun pólitískrar baráttu) að hafa klofið verkalýðsstéttina frá borgaralegum lýðveldissinnum.

Guesde, Lafargue, Vaillant og félagar hafa unnið þrotlaust í nær tuttugu og fimm ár að því að dýpka þessa gjá milli öreigastéttarinnar og lýðveldissinnaðra smáborgara. En baráttuaðferð Jaurès beinist hlutlægt að því að moka yfir gjána aftur. Þessi hneigð kemur að vísu ekki fyllilega fram í afstöðu þingliðsins, en skýringin er sú, að auk félaga Jaurès eiga ákveðnir andstæðingar hans, Vaillant, Zévaés og félagar, þátt í að móta afstöðu þingflokksins og þeir upphefja áhrif tilskipana Jaurès í verulegum mæli.

Vissulega rekur hópur Jaurès einnig sósíalískan áróður, og trúir því fastlega að hann geti einmitt unnið sósíalismanum geysilegt gagn með sinni "nýju aðferð". Meira að segja hefur Jaurès sjálfur lýst því yfir í erindi í París,10/2 1900,að í öllum meginatriðum væri hann sammála hinum fræðilega sósíalisma. En flokkur er ekki það sem hann segir um sig og trúir, heldur það sem hann gerir. Þrátt fyrir einlæga sósíalíska sannfæringu og hina mestu hollustu við málstað öreigastéttarinnar, leiðir úrslitaatriði starfsins, pólitísk baráttuaðferð fylkingar Jaurès, til þess að bræða verkalýðsstéttina aftur inn í lýðveldisflokk borgarastéttarinnar, þ.e. að eyðileggja allt það starf sem sósíalistar hafa unnið á aldarfjórðungi.

Það er einmitt óttinn við að falla þannig aftur í hlutverk taglhnýtings borgaralegra flokka, sem hefur stundum leitt gömlu sósíalísku félögin til þess að ganga of langt í því að gæta sjálfstæðra hagsmuna sósíalismans á kostnað dægurmála, og hvetja verkalýðsstéttina til að sitja hjá á örlagastundum lýðveldisins. Þannig ber áreiðanlega að harma það óskaplega, að Franski verkamannaflokkurinn og Byltingarflokkur sósíalista skyldu sitja hjá Dreyfus-málinu í stað þess að taka forystu hreyfingarinnar og ákvarða þarmeð stefnu hennar.

En það er alrangt að vilja skýra þessa afstöðu með hirðuleysi um pólitísk form. Þegar á árinu 1889 sögðu Guesdistar og Blanquistar skýrt og ótvírætt í yfirlýsingu sinni í tilefni Boulanger-ólgunnar: Lýðveldi er sú pólitíska skipan sem verkalýðsstéttin þarf sér til frelsunar. Það verður fyrir alla muni að varðveita".

Einnig nú styðja báðir flokkar á þingi stjórn "varnar lýðveldisins" sem illskárri kost, þrátt fyrir alla hennar vesæld.

Málið er ekki hvort eigi að verja lýðveldið eða ekki, heldur hvort verkalýðsstéttin eigi að mynda sjálfstæðan stjórnmálaflokk í andstöðu við allar borgaralegar stéttir eða hvort hún eigi aðeins að vera óvirkur hluti lýðveldisarms borgarastéttarinnar. Kautsky sagði fyrir tveimur árum að Jaurès hefði bjargað heiðri franskra sósíalista með Dreyfusherferð sinni. En nú verður að segja að með ósveigjanlegri andstöðu sinni við ráðherradóm sósíalista hafi Guesde og Vaillant bjargað, ekki aðeins heiðri sósíalismans, heldur hreint og beint sósíalismanum sjálfum.

Frá síðasta alþjóðlega þinginu í París hafa aðstæður franskra sósíalista breyst gersamlega, án þess að menn tækju eftir því erlendis og áttuðu sig á því hve mikil umskiptin eru.

Þegar þingið stóð naut fylking Jaurès mikils alþjóðlegs stuðnings af tveimur ástæðum: vegna djarflegrar Dreyfus-herferðar sinnar og vegna ákafrar baráttu hennar fyrir sameiningu sósíalista[23].

Síðan olli ráðherradómur Millerands því að samvinna sósíalista við borgaraleg öfl í Dreyfus-ólgunni hefur úrkynjast í hlýðni púlshests gagnvart ríkisstjórninni og Róttæka flokkinum. Það forystuhlutverk í pólitískri baráttu verkalýðsstéttarinnar, sem Jaurès og fylgismenn hans náðu um hríð í Dreyfus-ólgunni, hafa þeir þannig misst aftur til gömlu flokksfélaganna. Þau eru nú framsæknasta aflið í stjórnmálum landsins, sem jafnan áður.

Á sama hátt hefur ráðherradómur Millerands orðið einingu sósíalista örlagaríkur, vegna þeirrar afstöðubreytingar sem hann hefur valdið hjá armi Jaurès. Hafi mátt finna smávegis réttlætingu fyrir máli Millerands á meðan Dreyfus-ólgan var og lýðveldið virtist vera í andarslitrunum, ekki bara hlutaðeigendum í Frakklandi, heldur líka þeim sem fylgdust með erlendis, þá er engin afsökun til fyrir ráðherradómi Millerands eftir ófarir stjórnarinnar í varnaraðgerðunum. En nú er Jaurès hættur að líta á þátttöku sósíalista í ríkisstjórn sem undantekningu, og í ræðum sínum í Lille og í Bourges talaði hann þvert gegn samþykkt fyrsta franska einingarþingsins sem hann hafði þó sjálfur greitt atkvæði. Einnig gengur hann þvert gegn tillögu Kautskys, sem samþykkt var á alþjóðlega þinginu í París, þegar hann lýsir því yfir að ráðherradómur sósíalista sé eðlileg baráttuaðferð verkalýðshreyfingarinnar, "ný aðferð". Þar með hefur hann skapað starfsemi hóps síns grundvöll sem gerir sameiningu við aðra sósíalíska hópa óskaplega erfiða. Með því að halda fast við baráttuaðferð sem sósíalískir andstæðingar hans hafa ekki aðeins rétt til að berjast gegn, heldur er þeim það skylt, þá er það nú einmitt Jaurès, óþreytandi baráttumaður fyrir einingu, sem grefur undan eigin verki og veldur sundrungu.

Ástandið hefur sem sé snúist um 180 gráður frá Alþjóðlega þinginu, og það gerir sósíalistum um heim allan nauðsynlegt að endurskoða rækilega viðhorf sín gagnvart málum franskra sósíalista

Þetta á sérstaklega við okkur í Þýskalandi. Við höfum að mínu áliti alls enga ástæðu til að berjast gegn flokki í öðru landi, sem í öllum meginatriðum stendur á sama grundvelli og við, né heldur ástæðu til að dásama stefnu í öðru landi sem hefur aðeins látið á sér kræla hjá okkur líka, og flokkur okkar berst gegn, hvar sem á reynir í starfi.

Í baráttuaðferð Jaurès birtast raunar öll megineinkenni endurskoðunarstefnu sósíalista, einsog við höfum kynnst henni í Þýskalandi. Kenningin um endurvakningu smáborgaralegrar róttækni í Frakklandi er einungis pólitísk hliðstæða kenningarinnar um að smáiðjan se ódrepandi[24]. Að takmarka stefnu sósíalista við aðgerðir sameiginlegar með borgaralegum lýðveldissinnum, þannig er í verki sigrast á "sósíalistagrýlunni". Að afnema alla gagnrýni á hina "lýðveldislegu" stjórn meðan beðið er eftir blessunarríku starfi hennar - það er framkvæmd reglunnar: "Sláið ekki á framrétta hönd". Stefnulausar aðgerðir frá degi til dags, sem fara eingöngu eftir stundarbandalögum á þingi - þannig holdgast stefnan "frá einu tilviki til annars!" Og sósíalískur ráðherra sem okrar á brauðinu - það er mesti sigur "hagnýtra stjórnmála" á hinum gráu "fræðum".

Það verður því skiljanlegt að ráðherradómur Millerands og baráttuleiðin sem tengist honum hefur hlotið ákafan stuðning hentistefnumanna hjá okkur eins og annarsstaðar. Af sömu ástæðu er það sem mál Millerands hefur svo geysimikla þýðingu alþjóðlega og sögulega fyrir sósíalíska hreyfingu.

Í Frakklandi verðum við nú vitni að mjög áhrifamikilli tilraun með hentistefnu sósíalismans, sem allar forsendur vantar fyrir annarsstaðar. Vegna pólitískra aðstæðna í Þýskalandi og hins, að hreyfing sósíalista er þar lífræn heild, einhuga fræðilega, virðist útilokað að fylgismenn þessarar stefnu þar komist í þá aðstöðu að móta verkalýðshreyfinguna eftir kenningum sínum og framkvæma svo stefnu sína. Þeir geta ekki annað gert en tönnlast á frasanum "hagnýtt starf" án þess að ná umtalsverðum áhrifum á hvernig það er gert.

Í Frakklandi sjáum við nú hentistefnuna í framkvæmd. Á einstæðan hátt mættust sérstæðir þættir í þróun verkalýðshreyfingarinnar og borgaralegs samfélags, og því komst hún skyndilega til valda. Frasinn um "hagnýtt starf" er að verki, spilakóngur er orðinn að raunverulegum konungi.

Hann hefur veldissprotann í hendi, hann getur sýnt hvað hann getur.

Og hann sýnir það.

Að hálfu er hann búinn að verða sér til háðungar, brátt ætti það verk að verða fullkomnað. Reynslan af ríkisstjórn Waldeck-Millerand er til þess fallin að fæla sósíalista í heild um allan heim frá tilraunum með hentistefnu.

Ég óska henni því langra lífdaga!

 


Athugasemdir:

[1] Þátttaka sósíalistans Millerandí borgaralegri ríkisstjórn Waldeck-Rousseau olli miklum umræðum á alþjóðlegu þingi sósíalista í París, 23.-27. sept. 1900. Loks var samþykkt tillaga frá Kautsky um að hafna slíkri stjórnarþátttöku ekki í grundvallaratriðum, heldur bæri að taka afstöðu til hennar frá einu tilviki til annars.

[2] Ég neyðist til að leiðrétta einnig þessa fullyrðingu Vollmars um staðreyndir. Í bréfi 12/12 þ.á. sem Kautsky hefur fengið mér, skrifar Enrico Ferri: "Ég er á móti, nú sem þá. Í Mantua sagði ég einungis að eigi nýja konungdæmið í rauninni að leggja inn á umbótaleiðina (einsog stjórnmálamenn okkar segja enn, eftir konungsmorðið og eftir að málþófsaðgerðirnar hafa sýnt þeim framá vanmátt afturhaldslaganna), þá verði að velja menn sem eru færir um að gera umbætur og ekki gamla afturhaldsmenn (af tagi Sonninos) sem tala nú um umbætur til þess eins að komast í stjórnina. Og þar sem öflin yst til vinstri eru sósíalistar, lýðveldissinnar og Róttækir, þá sagði ég að kalla bæri Róttæka flokkinn í ríkisstjórn (leiðtogi þeirra, Sacili, aðhyllist konungdæmi opinberlega). Öfugt við það sem á mig er borið hefi ég ævinlega sagt að þátttaka sósíalista eða lýðveldissinna í ríkisstjórn ítalska konungsríkisins væri ómöguleg eða hlægileg. Ég endurtók þetta nýlega í þingræðu (3.des.) um stefnuskrá nýja konungdæmisins. Skoðanir mínar hafa því í engu breyst frá því í París. " RL.

[3] Alþjóðlegt þing sósíalista í París ... Berlín 1900, bls. 17.

[4] 19. des. 1900 sambykkti franska þingið sakaruppgjöf á öllum pólitískum dómum undangenginna ára með fáeinum undantekningum. Allt refsivert athæfi tengt Dreyfus-málinu skyldi þar að auki skoðast sem óframið.

[5] Sjá Marx: 18. brumaire Lúðvíks Napóleons í Úrvalsrit II, bls. 137-8. Þýð.

[6] Við tvær fyrrnefndu borgirnar vann Napoleon Bonaparte frægan sigur, en við hinar síðarnefndu beið her Napoleons III afgerandi ósigur 1870. Þýð.

[7] Þegar Dreyfus-málið var tekið til endurskoðunar, 12/8 1899, voru nokkrir andstæðingar endurskoðunarinnar handteknir. Leiðtogi gyðingafjenda, Guérin, bjóst þá um í húsi við Rue Chabrol. Hann hótaði skothríð ef reynt yrði að brjótast inn. Stjórnin lét þá setjast um húsið og svelti hann út, hann gafst upp 19/9 og var dæmdur í 10 ára fangelsi 4/1.

[8] "beau geste" merkir: óvænt, tíguleg athöfn, eða e-ð þ.u.l. Paul Déroulède var framámaður meðal franskra þjóðrembumanna. 23/2 1899, í hita Dreyfusmálsins, hvatti hann Roget hershöfðingja opinberlega til að fremja valdrán. Dérouléde var handtekinn og 4/1 1900 var hann dæmdur í 10 ára útlegð.

[9] fasísk fjöldahreyfing á s. hl. 9. áratugsins. Þýð.

[10] Rædd í franska þinginu jan.-mars 1901 og samþykkt, sjá bls. 96-8 hér.

[11] "Stjórninni verður raunar mjög auðvelt að svara því til, að þótt hún uppfylli ekki grundvöll lýðveldisins, þótt hún nái nú einungis til trúarreglanna, þá geri hún þetta til að forðast mestu hætturnar. Hlutverk hennar er að gera frelsið fært um að verjast sjálft (Pétite République, 17/1, 1901) RL.

[12] Fljót undirheimanna í grískri goðafræði, táknar gleymsku. Þýð.

[13] Merkilegt, nýtt " atriði var að koma fram um þessi lög. Í Petite République 9/2 er uppkast að tilskipun Millerands um undantekningar frá lögleyfðum vinnutíma; lengingu vinnutíma fullorðinna (um 1-2 tíma) í margþættum fyrirtækjum. Í framkvæmd vinnuverndar eru stöðugt undantekningar frá lögleyfðum vinnutíma. En eftir að Millerand hefur gert jafnlangan vinnutíma barna og fullorðinna að grundvelli laga sinna, lengir hann vinnutíma fullorðinna aftur með tilskipun. Það sannar að annaðhvort er honum ekki alvara með framkvæmd laganna eða rökunum sem hann færði fyrir þeim. Hvort heldur sem er, hefur verksmiðjubörnunum verið fórnað til einskis. RL.

[14] Þannig hafa bæði franska alþýðusambandið og þing frönsku ráðningarskrifstofanna í París 1900 lagst gegn þessum umbótum. Um lagalega hlið frumvarpsins, sjá hina prýðilegu grein Marius Moutet í Mouvement socialiste nr. 30. RL.

[15] Frumvarp þýsku stjórnarinnar 20/6 1899, átti að hamla gegn sívaxandi verkfallsöldu með því að svipta verkamenn samtakarétti og verkfallsrétti. Geysilegar fjöldaaðgerðir leiddu til þess að frumvarpið var fellt á þingi 20/11 1899.

[16] Ábending Hirsts (Deutsche Worte nr. 1. í ár) um að í hverri atvinnugrein séu vinnudeilur leystar af sama félagsdómi og því jafnist vinnuskilyrðin, stenst ekki. Félagsdómur dæmir einungis um þær kröfur sem verkamenn á tilteknum vinnustað gera hverju sinni, og má ekki fara út fyrir þær. En sömu kröfur þarf að setja fram, og það getur aðeins verkalýðsfélag. RL.

[17] Sjá hina prýðilegu umfjöllun Legiens í Vorwärts 25/ 12 19009, greinar í Correspondenzblatt der Generalkommission der Gewerkschaften Deutschlands" nr. 47 og 51 í fyrra; Österreichischer Metallarbeiter 29/11, 1900 og Voix du peuple 3.-10/2, 1900. Eindregin andstaða mikils hluta franskra verkalýðsleiðtoga byggist m. a. á alkunnum draumórum þeirra um allsherjarverkfall. RL.

[18] Í feb. 1901 hófu námumnenn í Montceau-les-Mines verkfall fyrir launahækkun og styttingu vinnutíma. Skömmu síðar voru 3000 hermenn fluttir til borgarinnar og undir vernd þeirra hófu félagar sk. gulra verkalýðsfélaga vinnu. Í maí 1901 hættu námumenn verkfallinu, sem varð árangurslaust.

[19] Jaurès dregur meira að segja upp litríka mynd af því hvernig allir verkamenn þysja af vinnustað samtímis - stúlkurnar til að gleðjast yfir óskertri fegurð sinni, mæður flýta sér að vöggu brjóstmylkinga sinna, karlar til að menntast sem verkamenn byltingarinnar við alvarlegt nám, og börnin í vímu ljósadýrðar og tónlistar skógarins. Jaurès hefur bara gleymt því,að um það leyti sem börnin þysja úr verksmiðjunum samkvæmt lögum Millerands, er orðið aldimmt í skóginum og fuglarnir löngu sofnaðir. RL.

[20] Sjá ræðu Jaurès i Lille, pr. í Les deux méthodes, bls. 8. RL.

[21] Svo hét riddaraliðssveit Napóleons I; í yfirfærðri merkingu: ofstækisfullir stjórnarsinnar. Þýð.

[22] Svo að við tökum nú aðeins sýnishorn úr Mánaðarriti fulltrúa verkamannaflokksins (Bulletin mensuel de la Federation Nationale des Élus du Parti Ouvrier) 1/11, 1900, þá ákváðu bæjarstjórnir flokksins um þetta leyti: í Vieux-Condé að öll barn fengju ókeypis skólavörur; í Armentières að dreifa þrjátíu miðum á hverja leiksýningu meðal verkamanna; í Lille að veita nokkrum verkalýðsfélögum 100-259 franka fyrir ferðakostnaði fulltrúa á þing verkalýðsfélaga, ennfremur ellilaun handa bæjarstarfsmönnum eftir sjötugt, 150-300 franka á ári; í Roubaix var gerður samningur við sporvagnafélagið, sem tryggir starfsmönnum félagsins átta stunda vinnudag, fjögurra franka lágmarkslaun, full laun til varaliðsmanna við heræfingar, veikindasjóð undir stjórn starfsfólksins. Hann verði fjármagnaður með 1% launa og að öðru leyti af fyrirtækinu, og tryggir veikum verkamönnum full laun í tvo mánuði, ennfremur ellilaun, og fastanefnd skipuð af báðum aðiljum ræði ágreiningsefni; í Hem ókeypis útför; í Issoudun verða tryggingafélögin að halda uppi slökkviliðinu; og loks er ókeypis þvottahús bæjarins í Saint-Pourcain. RL.

[23] Ólíkt öðrum hópum sósíalista í Frakklandi, háðu Jean Jaurès og fylgismenn hans samræmda baráttu gegn hernaðarstefnunni meðan á Dreyfus-málinu stóð og beittu sér fyrir sameiningu hinna ýmsu hópa.

[24] Sjá Félagslegar umbætur eða bylting, lok 2. kafla. Þýð.

 


Last updated on: 10.03.2008