Rósa Lúxembúrg

Og í þriðja sinn um belgísku tilraunina[1].

1902


Source: Die neue Zeit (Stuttgart). 20. árg. 1901-2, II bindi. I-II: bls. 203-210, III: bls. 274-280.
Translation: Örn Ólafsson
HTML Markup: Jonas Holmgren
Public Domain: Marxists Internet Archive (2008). You may freely copy, distribute, display and perform this work; as well as make derivative and commercial works. Please credit "Marxists Internet Archive" as your source.


I

Félaga E. Vandervelde svarað

Ég vil ekki fresta ekki gagnrýni á síðustu herferð belgískra félaga okkar fyrir auknum kosningarétti, þangað til linnir árásum borgaralegra andstæðinga sósíalista í Belgíu á þá. Það er af tveimur gildum ástæðum. Í fyrsta lagi veit ég að sannur baráttuflokkur einsog bróðurflokkur okkar belgíski hættir aldrei að verða skotspónn andstæðinganna, og í öðru lagi veit ég af reynslunni að Vandervelde og félagar létu slíkar árásir aldrei ýkjamikið á sig fá, heldur greiddu borgaralegum árásarmönnum sínum aðeins nokkur vel velin högg og gengju síðan leiðar sinnar. Loks fannst belgísku félögunum sjálfum svo brýnt og mikilvægt að vega og meta síðustu baráttuaðferð sina, að þeir héldu aukaflokksþing[2] í því skyni.

Félagi Vandervelde sakar mig nú um að lýsa atburðum í Belgíu alrangt. Frjálslyndir hefðu alls engin áhrif haft á framgöngu leiðtoga sósíalista, og leiðtogar verkalýðsins hefðu haft sínar eigin ástæður fyrir því hvernig þeir höguðu baráttunni hverju sinni.

Vissulega gleddist enginn meira en ég yfir því ef fundnar yrðu villur í dapurlegum ályktunum mínum, og það af dómbærasta aðilja, fremsta leiðtoga belgískra félaga okkar. En því miður virðast mér útlistanir félaga Vandervelde gera málið einungis myrkara og erfiðara.

Frjálslyndir hagnast sjálfir á því hve ranglát kosningalöggjöfin er. Í baráttunni fyrir umbótum á henni þurfti að draga þá einsog að slátrunarbekk. Í rauninni voru þeir ekki bandamenn sósíalista, heldur andstæðingar. Hvernig fer saman við þetta, að af tilliti til þessara svokölluðu vina sinna takmarkaði verkamannaflokkurinn baráttuna við kosningarétt karla, afsalaði sér opinberri afmörkun á kosningarétti (við 21. aldursár) og féllst á að hlutfallskosningar yrðu settar í stjórnarskrá, svo lítið sem belgísku félögunum var um þær gefið?

Hvernig fer það ennfremur saman við það að belgísku verkalýðsforingjarnir lofsungu bandalag sitt við frjálslynda allan tímann sem herferðin stóð og fyrsta hróp þeirra eftir ósigurinn var, innan þings og utan, til alþýðunnar: Bandalag okkar við frjálslynda er traustara en nokkru sinni fyrr!

Það er alveg rétt hjá félaga Vandervelde að Frjálslyndi flokkurinn belgíski er í rauninni andstæðingar kosningaréttarhreyfingarinnar, ekki fylgismenn hennar, enda kom það í ljós. En það afsannar ekki þá staðreynd að belgísku félagarnir voru í bandalagi við þá í síðustu orrustu, heldur skýrir einungis hversvegna baráttan hlaut við slíkar aðstæður að leiða til hins herfilegasta ósigurs.

Og það staðfesta allar frekari útskýringar félaga Vandervelde. Eftir að frjálslyndir höfðu svikið verkamannaflokkinn þegar í upphafi herferðarinnar, hlaut að vera ljóst, finnst mér, að þingsalabaráttan var vonlaus, og einungis aðgerðir utan þings, á götum úti, gætu borið einhvern árangur. Félagi Vandervelde ályktar þvert á móti, að götuaðgerðir hafi orðið vonlausar um leið og frjálslyndir snerust gegn sósíalistum. Aframhald allsherjarverkfallsins hefði þá ekki getað orðið til neins annars en að fá konung til að leysa upp þingið. Þegar konungurinn brást, var ekki annað að gera en fara heim. Með þessu væri búið að afskrifa allsherjarverkfall, ekki bara í þessu síðasta tilviki, heldur almennt í Belgíu. Því það nægir að frjálslyndir taki afstöðu gegn fjöldahreyfingunni, að Cléopold biðji hana að fara til andskotans - á þetta tvennt má treysta fullkomlega framvegis - til þess að aðgerðir verkalýðsfjöldans séu lýstar tilgangslausar. Í ljósi þessa vantar okkur bara skýringu félaga Vandervelde, til hvers hafi eiginlega verið lýst yfir allsherjarverkfalli, nema þá til að leyfa öllum heiminum að horfa á þann dásamlega sjónleik að menn leggja einhuga niður vinnu og snúa jafneinhuga aftur til vinnu.

Mikilvægust í þessari röksemdafærslu félaga Vandervelde er þó hin óhjákvæmilega ályktun að almennur kosningaréttur verði yfirleitt aðeins unninn eftir þinglegum leiðum og til þess þurfi klerklegir að sigrast hetjulega á sjálfum sér. Því félagi Vandervelde vitnar í fullri alvöru til ummæla leiðtoga belgískra hægrimanna, herra Woeste, þar sem hann tjáði sig fúsan til hvaða svindls með kosningaréttinn sem vera skyldi, að undanskildum aðeins almennum, ófölsuðum kosningarétti, sem var þó kjarni málsins. Alveg er hætt að vonast eftir aðgerðum almennings og eingöngu treyst á þingstarf, það er að streitast við að telja andstæðinginum trú um að hann hafi eiginlega beðið ósigur, þegar hann þó var að lemja mann í hausinn. Leitað er að tylliástæðum ósigurs meðan baráttan stendur og þegar eftir ósigurinn hugga menn sig með óljósu trausti á komandi sigra. Trúað er á allskyns kraftaverk í stjórnmálum, eins og að konungur muni grípa í taumana, andstæðingarnir fremja pólitískt sjálfsmorð. - Þetta er allt svo dæmigert fyrir baráttuaðferðir frjálslyndra smáborgara, að enda þótt ég geri ekki ráð fyrir þinglýstum sáttmála sósíalista og frjálslyndra, þá hlýtur röksemdafærsla félaga Vandervelde að styðja þá skoðun mina að frjálslyndir hafi haft andlega forystu í síðustu herferð.

Hefði ég annars verið í nokkrum vafa um að skoðanir mínar stæðust hlutlægt, þarsem þær mynduðust fjarri atburðum í Belgíu, þá hefði sá vafi horfið við nýafstaðið aukaþing belgísku félaganna. Ályktunartillaga sósíalista í Charleroi um að harma að aðalráðið skyldi beina mönnum aftur til vinnu og um að fordæma alla málamiðlun við borgaralega flokka; útlistanir fulltrúa námumannafjöldans, elstu og mikilvægustu liðssveita belgísku verkamannahersins, sanna að úr næstu nálægð mátti komast að sömu niðurstöðu og ég gerði.

Vissulega lauk þinginu með traustsyfirlýsingu til aðalráðs verkamannaflokksins og það sannar, að til allrar hamingju hafa aginn og traustið til foringja okkar belgíska flokks enn ekki beðið alvarlegan hnekki. En þessi fyrsta tilraun með að laga sig eftir aðferðum frjálslyndra hefur þegar leitt til ákafra deilna, hún þyrfti að verða hin síðasta, eigi ekki verra af að hljótast.

Þar með er félaga É. Vandervelde svarað.

Við þetta tækifæri finnst mér hinsvegar nauðsynlegt að koma með nokkrar almennar hugleiðingar um atburðina í Belgíu.

Geti öreigar í öðrum löndum dregið einhvern lærdóm skýrt og greinilega af belgísku tilrauninni, þá er það að mínu áliti allavega sá, að vonir sem eru bundnar einhliða við þinglegar aðgerðir og borgaralegt lýðræði geta aðeins leitt okkur til niðurdrepandi pólitísks ósigurs, hvað eftir annað. Í þessum skilningi ætti að líta á atburðina í Belgíu sem prófstein raunveruleikans á kenningar endurskoðunarstefnunnar og þarafleiðandi ættu þeir að leiða áhangendur hennar til að endurskoða þessar kenningar rækilega.

Að hluta gerist alger andstæða þessa. Bæði í belgískum flokksblöðum og þýskum, í undarlegum samhljómi við frjálshyggju Mosse[3] og séra Naumann, er þvert á móti reynt að hagnýta ósigurinn í Belgíu til að endurskoða baráttuaðferðir byltingarsinna. Það á að hafa sannast í Belgíu að allsherjarverkfall og útiaðgerðir almennt talað séu úreltar og ónothæfar. Í blaðinu Peuple í Brussel dregur félagi nokkur, Franz Fischer einkanlega þann lærdóm af nýjustu reynslu, að nú sé nauðsynlegt að hverfa frá "aðferð byltingarfrasa Frakkanna" til hinnar "ígrunduðu aðferðar skipulagningar og upplýsingar sem einkennir þýska sósíalista, framverði sósíalista í heiminum". Hann vitnar í grein í Hamburgar Echo um að fall Parísarkommúnunnar hafi verið lokasönnun þess að byltingaraðferðin sé ónothæf.

En annarsstaðar í þýskum flokksblöðum mátti líka lesa, þegar eftir lok allsherjarverkfallsins í Belgíu, að "baráttuaðferðin sem belgísku félagarnir fylgi núna sé engin önnur en aðferð þýskra sósíalista". Þýskir sósíalistar hafi ævinlega barist gegn allsherjarverkfalli sem "ónothæfu og óþörfu", þeir hafi ævinlega lýst því yfir að "pólitísk skólun og skipulagning verkalýðsstéttarinnar sé eini undirbúningur pólitískrar valdatöku sem raunverulega stefni að markinu".

Röng endurskoðun baráttuaðferðar Belga af tilefni siðustu atburða gerist þá á vissan hátt undir forystu þýskra sósíalista sérstaklega. Athugum nú í stuttu máli hvað má leiða af baráttuaðferð þýskra sósíalista um allsherjarverkfall, og síðan almennt um hlutverk valdbeitingar í baráttu öreigastéttarinnar.

 

II

Allsherjarverkfall

Allsherjarverkfall er tvímælalaust eitt af elstu vígorðum verkalýðshreyfingar nútímans og alltént eitt þeirra sem hvað tíðast hefur valdið ákafri baráttu meðal sósíalista. En láti menn ekki ærast af orðinu einu, hljóðunum, heldur rannsaki fyrirbærið, þá hljóta þeir að sjá að nafnið allsherjarverkfall hefur í mismunandi tilvikum merkt alveg mismunandi fyrirbæri, og dómarnir um það hafa verið mismunandi eftir því. Ljóst er, að hið fræga allsherjarverkfall í stríði sem Nieuwenhuis boðaði, er annað en alþjóðlegt allsherjarverkfall námumanna sem var skipulagt í upphafi tíunda áratugsins í Englandi. Á þingi franskra sósíalista í Lille (október 1890) bar Eleanor Marx upp tillögu um stuðningsyfirlýsingu við það. Jafnmikill munur er greinilega á allsherjarverkfalli allra greina til að styðja járnbrautarmenn, sem reynt var í Frakklandi í október 1898 og mistókst hörmulega, og mjög vel heppnuðu allsherjarverkfalli járnbrautarmanna við norðausturbrautina í Sviss: Sigursælt allsherjarverkfallið í Carmaux 1893 sem var mótmæli gegn refsingum gegn námumannninum Calvignac, er hafði verið kosinn borgarstjóri, það átti greinilega ekkert sameiginlegt með "hinum helga mánuði", sem chartistar höfðu ákveðið þegar í febrúar 1839, o. s. frv. Í stuttu máli, fyrsta skilyrði þess að hægt sé að fella ígrundaðan dóm um allsherjarverkföll, er að aðgreina allsherjarverkföll á eins ríkis frá alþjóðlegum, pólitísk frá faglegum, verkföll í einstökum starfsgreinum frá almennum, þau sem rísa af einstökum atburði frá þeim sem koma til af almennri viðleitni öreigastéttarinnar, o. s. frv. Það nægir að átta sig á allri fjölbreytninni í því hvernig allsherjarverkföll gerast, hve margvísleg reynslan er af þessu baráttutæki, til að sjá að það er tómt hugsunarleysi að leggja þetta allt að jöfnu og hafna þessu vopni einfaldlega eða dýrka það.

Lítum nú hjá allsherjarverkfalli verkalýðsfélaga í ákveðinni grein. Það er löngu orðið hversdagslegt fyrirbæri í flestum löndum og þarf engar fræðikenningar um það. Ef við snúum okkur sérstaklega að pólitísku allsherjarverkfalli, þá verður að minni hyggju, vegna eðlis þessarar baráttuaðferðar, að aðgreina tvennt: annarsvegar allsherjarverkfall stjórnleysingja og hinsvegar pólitískt fjöldaverkfall við tækifæri, einsog ég vil nefna það til bráðabirgða. Af fyrra tagi er einkum allsherjarverkfall sem á að ná til allrar þjóðarinnar tilað koma á sósíalísku skipulagi. Frönsk verkalýðsfélög, Broussistar og Allemanistar hafa alla tíð haft þetta á heilanum. Þessi afstaða kom til dæmis skýrt fram í blaðinu L'Internationale 27/5 1869: "Þegar verkföllin breiðast út, tengjast, eru þau mjög nálægt því að verða að allsherjarverkfalli, og við þær frelsishugmyndir sem nú drottna, getur allsherjarverkfalli aðeins lokið með miklu hruni sem myndi framkvæma félagslega umbyltingu". Í sömu veru samþykkti þing franskra verkalýðsfélaga í Bordeaux 1888: "Einvörðungu allsherjarverkfall eða bylting geta leitt til frelsunar verkalýðsstéttarinnar". Það er dæmigert að þessari samþykkt fylgdi önnur frá sama þingi, þar sem verkamenn eru hvattir til að "aðgreina sig skýrt frá stjórnmálamönnum, því þeir svíki þá". Á sama grundvelli er loks franska tillagan, sem Briand bar fram og Legien barðist gegn, á síðasta alþjóðlega þingi sósíalista í Paris, sumarið 1900, sem hvatti "verkamenn alls heimsins til að skipuleggjast með allsherjarverkfall fyrir augum. Bæði gæti þetta skipulag orðið einfalt tæki í höndum þeirra, vogarstöng til að þrýsta svo á auðvaldssamfélagið sem með þarf, til að koma á nauðsynlegum umbótum pólitískt og efnahagslega, og líka gæti hist svo vel á, að allsherjarverkfallið mætti nýtast þjóðfélagsbyltingu"[4]. (auðkennt af R. L )

Af sama tagi er ennfremur hugmyndin um að beita allsherjarverkfalli gegn auðvaldsstríði: Þing alþjóðasambandsins lét þá hugmynd í ljós í ályktun, þegar í Brüssel 1868, og Nieuwenhuis tók hana upp og barðist fyrir henni á alþjóðlegum þingum sósíalista á 10. áratuginum í Brüssel, Zürich og London.

Í báðum tilvikum einkennist viðhorfið af trú á allsherjarverkfall sem allsherjarmeðal gegn auðvaldssamfélaginu í heild, eða, sem kemur í sama stað niður, gegn einstökum lífsnauðsynlegum þáttum þess. Það einkennist af trú á óbreytanlega hugmynd, allsherjarverkfall sem aðferðina við stéttabaráttu, sem sé ævinlega og í öllum löndum jafnnothæf og sigursæl. Bakararnir skila engum bakstri, ekki er kveikt á götuljósunum, járnbrautir ganga ekki né sporvagnar, hrunið er hafið! Þegar búið var að setja leiðina svona niður á blað dugði hun öllum tímum og öllum löndum einsog hvert annað pauf í þoku. Svona var litið hjá staðbundnum og tímabundnum aðstæðum, hjá beinum pólitískum aðstæðum stéttabaráttu í hverju landi, og hjá lífrænu sambandi úrslitaorrustu sósíalista við hversdagslega baráttu öreiganna, við upplýsingu þeirra og skipulagningu stig af stigi. Þetta olli stjórnleysiseinkennum viðhorfanna. Þar með var kenningin orðin draumsýn og því þurfti að berjast gegn hugmyndinni um allsherjarverkfall með öllum ráðum.

Því hafa líka sósíalistar barist gegn draumsýninni um allsherjarverkfall áratugum saman. Óþrotleg barátta franska verkamannaflokksins við frönsku verkalýðsfélögin var hér á nákvæmlega sama grunni og reglubundnar sviptingar þýsku sendinefndanna við Nieuwenhuis á alþjóðlegum þingum. Þar unnu þýskir sósíalistar sér sérstaklega til ágætis, ekki bara fræðilega röksemdafærslu gegn draumsæiskenningunni, heldur sérstaklega hitt, að gegn því að hugleiða "með krosslagða arma", hina einu, endanlegu orrustu gegn borgaralegu ríkinu, settu þeir starfið, daglega pólitíska baráttu á grundvelli þingræðisins.

Svo langt, en aðeins svo langt, nær það sem oft er kallað barátta sósíalista gegn allsherjarverkfalli. Gagnrýni fræðilegs sósíalisma beindist raunar eingöngu gegn þessari skilyrðislausu kenningu stjórnleysingja um allsherjarverkfall. Og hún gat líka aðeins beinst gegn henni.

Hinsvegar er pólitískt allsherjarverkfall við tækifæri, einsog franskir verkamenn hafa beitt hér og þar í ákveðnum, pólitískum tilgangi, svo sem í umræddu tilviki í Carmaux. Sérstaklega hafa belgískir verkamenn oft beitt því í baráttunni fyrir almennum kosningarétti. Það á ekki nema nafnið og tæknilegt form sameiginlegt með hugmynd stjórnleysingja um allsherjarverkfall. En pólitískt eru þetta andstæð hugtök. Hið síðarnefnda byggir á almennri, sértekinni kenningu. En pólitísk verkföll af hinu taginu koma upp í ákveðnum löndum eða bara í einstökum borgum og héruðum sem afleiðing sérstaks stjórnmálaástands, sem tæki til að ná tilteknum pólitískum áhrifum. Almennt og fyrirfram er ekki hægt að neita því að þetta vopn hafi áhrif, þegar vegna þess að staðreyndirnar sanna að það gerir það, það eru unnir sigrar í Frakklandi og Belgíu. Ennfremur er það að röksemdafærslan sem var svo áhrifarík gegn Nieuwenhuis eða gegn frönsku stjórnleysingjunum, hittir ekki á nokkurn hátt þessi staðbundnu pólitísku allsherjarverkföll. Þar á ég við fullyrðinguna um að til þess að allsherjarverkfall verði framkvæmt, þurfi öreigastéttin að hafa náð þvílíkri skipulagningu og meðvitund, að allsherjarverkfallið sjálft verði óþarft, verkalýðsstéttin geti bara tekið pólitísk völd án frekari undirbúnings. Þetta meistaralega sverðshögg Liebknechts gamla gegn Nieuwenhuis nær ekki til staðbundinna pólitískra allsherjarverkfalla við tækifæri. Því til þeirra þarf aðeins pólitískt baráttumál sem hlýtur mikið fylgi og góðar aðstæður efnislega. Það er einmitt vafalaust að belgísku allsherjarverkföllin fyrir kosningarétti virkja reglulega miklu meiri mannfjölda en sem svarar sósíalískri vitund í eiginlegum skilningi. Á sama hátt olli pólitíska verkfallið í Carmaux svo mikilli og örri vitundarvakningu að meira að segja hægri þingmaður sagði sósíalistum eftir lok herferðarinnar: "Ef þið vinnið enn nokkra sigra einsog í Carmaux, þá náið þið allri sléttunni, því bændurnir fylgja alltaf hinum sterkari, og þið hafið sannað að þið eruð sterkari en námufélagið, ríkisstjórnin og þingið"[5]. Hugmynd Nieuwenhuis eða frönsku stjórnleysingjanna um allsherjarverkfall hringsnerist á milli þeirrar sósíalísku vitundar sem er nauðsynleg forsenda þess, og viðburðarins sem á svo aftur að vekja sósíalíska vitund. Í stað þess tengist þetta pólitíska allsherjarverkfall aðeins þeim stundum pólitískrar dægurbaráttu sem rista djúpt og grípa hugi manna. Sjálft er það jafnframt áhrifamikið áróðurstæki sósíalista.

Á sama hátt er út í bláinn að búa til andstæður milli pólitískrar dægurbaráttu, sérstaklega þingsalabaráttu annarsvegar og allsherjarverkfalls af þessu tagi hinsvegar. Því fer svo fjarri að pólitískt allsherjarverkfall eigi að koma í stað þingstarfa og annarrar þolinmæðisvinnu, að það á bara að bætast við aðrar áróðurs- og baráttuaðferðir, og þjónar raunar beint undir þingsalabaráttuna. Enda hafa öll pólitísk allsherjarverkföll hingað til verið til að verja þingræðisrétt eða vinna hann, í Carmaux kosningarétt til bæjarstjórnar en í Belgíu almennan, jafnan kosningarétt.

Þegar því pólitísk allsherjarverkföll koma enn ekki fyrir í Þýskalandi og annars bara stöku sinnum í fáeinum löndum, þá er skýringin alls ekki sú að þau séu í mótsögn við einhverja "þýska aðferð" sósíalískrar baráttu, heldur einfaldlega sú að ákveðnar félagslegar og pólitískar forsendur eru fyrir því að allsherjarverkfall geti verið pólitískt tæki. Í Belgíu veldur því mikil iðnþróun ásamt með litlu flatarmáli landsins að það breiðist út hratt og auðveldlega að leggja niður vinnu, og að það þarf ekki neinn óskapafjölda verkfallsmanna til að lama efnahagslíf landsins, um 300.000 nægja. Þýskaland er víðáttumikið, iðnaðarsvæði eru dreifð hingað og þangað á milli mikilla sveitahéraða, og verkamenn í heild eru mikill fjöldi. Að þessu leyti eru aðstæður þar ólíkt óheppilegri. Og sama gildir um Frakkland í heild og raunar almennt um stór lönd þar sem iðnaður hefur ekki þjappast saman.

Enn eitt úrslitaatriði er að náðst hafi visst stig samtakafrelsis og lýðræðis. Í landi einsog Suður-Slésíu[6], þar sem verkfallsmenn eru einfaldlega reknir til vinnu af her og lögreglu, þar sem áróður verkfallsmanna meðal "vinnufúsra" leiðir þá beinlínis í tugthús, ef ekki fangelsi, þar getur auðvitað ekki verið um pólitískt allsherjarverkfall að ræða. Það er því allsekki hægt að skýra með einhverjum yfirburðum þýskra sósíalista og stundarvillu rómanskra þjóða að allsherjarverkfalli hefur hingað til aðeins verið beitt í Belgíu og að hluta í Frakklandi. Það er öllu heldur - auk vöntunar á vissum skilyrðum félagslega og landfræðilega - enn einn vitnisburðurinn um hálfasíska vanþróun okkar í stjórnmálum.

Í Englandi eru í ríkum mæli allar forsendur, efnahagslega og pólitískt, fyrir sigursælu allsherjarverkfalli. Þó hefur þessu mikla vopni aldrei verið beitt þar í pólitískri baráttu. Það sýnir enn eina mikilvæga forsendu þess, þ.e. að verkalýðsfélög séu nátengd stjórnmálahreyfingu verkalýðsins. Í Belgíu mynda kjarabarátta og pólitísk barátta lífræna heild. Í öllum meiriháttar aðgerðum hafa verkalýðsfélögin og flokkurinn náið samstarf. En verkalýðsfélögin í Englandi sinna ekki öðru en faglegri baráttu í þröngum skilningi. Þau eru því mjög sundruð í sérhagsmunastefnu, og í Englandi vantar sterkan, sósíalískan flokk. Því er ekki hægt að virkja verkalýðsfélögin saman í allsherjarverkfalli.

Við nánari athugun sannast þá að allir endanlegir dómar og fordæming á allsherjarverkfalli án tillits til sérstakra aðstæðna hvers lands og sérstaklega með tilvísun til starfsins í Þýskalandi, eru ekkert annað en þjóðremba og hugsunarlaus stimplunarafgreiðsla. Og aftur kemur hér fram, að þegar talað er um það af mælsku að sósíalistar þurfi að hafa "frjálsar hendur" í baráttuaðferð sinni, ekki að "festa sig", þegar lofsungið er að aðlaga sig að fjölbreytni raunverulegra aðstæðna, þá er í rauninni alltaf verið að tala um frelsi til að daðra við borgaralega flokka. Sé hinsvegar um að ræða fjöldaaðgerð, einhverja baráttuaðferð sem minni hið allraminnsta á byltingarleið, þá reynast aðdáendur "frjálsra handa" þegar vera hinir þröngsýnustu kreddumenn, sem vilja keyra stéttabaráttu um heim allan í spennitreyju svokallaðrar þýskrar leiðar.

Þegar nú allsherjarverkfallið í Belgíu varð árangurslaust, þá gefur það ekki tilefni til að "endurskoða" belgísku leiðina, þegar af þeirri alkunnu ástæðu að verkfallið var hvorki undirbúið, né var því eiginlega beitt pólitískt. Það var lamað af leiðtogunum og því aflýst, áður en það gæti nokkru áorkað. Þar sem pólitísk, eða réttara sagt, þingleg forysta hreyfingarinnar hafði alls ekki gert ráð fyrir fjöldaaðgerðunum, þá stóð verkfallsfjöldinn úrræðalaus á baksviðinu, án nokkurra tengsla við hinar eiginlegu aðgerðir á framsviðinu, loks var þeim vísað af sviðinu. Árangursleysi síðustu herferðar í Belgíu sannar því ekki frekar gagnsleysi allsherjarverkfalla en það, þegar Bazaine gaf upp virkið í Metz, ætti að sanna gagnsleysi virkja í hernaði, eða hnignun þingstarfs frjálslyndra í Þýskalandi ætti að sanna gagnsleysi þinglegrar baráttu.

Þvert á móti. Ófarir belgíska verkamannaflokksins í síðustu aðgerðum hljóta að sannfæra hvern þann, sem þekkir til atburðanna, um að einungis allsherjarverkfall sem beitt væri af alvöru hefði getað áorkað einhverju. Og þurfi að endurskoða baráttuaðferð belgísku félaganna, þá virðist mér það aðeins geta verið í þá átt sem ég benti á í fyrri grein minni hér. Aprílherferðin sannaði nefnilega eitt ljóslega: högg sem beinist óbeint gegn hinum klerklegu, en beint gegn borgarastéttinni, verður vindhögg ef stríðandi öreigar eru tengdir pólitískt við borgarastéttina. Í stað þess að miðla pólitískum þrýstingi á ríkisstjórnina, verður þá borgarastéttin að kúlu, hlekkjaðri við fætur verkalýðsins og lamar hann. Mikilvægasti lærdómurinn af belgísku tilrauninni er því ekki í andstöðu við allsherjarverfall í sjálfu sér, heldur þvert á móti gegn þinglegu bandalagi við frjálshyggjumenn. Það gerir hvert allsherjarverkfall óumflýjanlega ófrjótt.

Það verður hinsvegar að snúast harkalega gegn þeim viðbrögðum við orðinu "allsherjarverkfall" einu, að þylja gömlu, útþvældu slagorðin, sem hafði verið beitt gegn brjálæðislegum hugmyndum Nieuwenhuis og stjórnleysingjanna, en þessi slagorð eru nú gatslitin. Eins ákaft verður að berjast gegn "endurskoðun" á baráttuaðferð Belga á grundvelli yfirborðslegasta misskilnings á atburðum í Belgíu eingöngu, enda halda ekki bara belgískir verkamenn þessari baráttu áfram, einnig sænskir verkamenn eru farnir að munda vopn allsherjarverkfalls í baráttunni fyrir almennum kosningarétti. Þótt ekki nema hið minnsta brot baráttumanna i þessum löndum léti villast af talinu um hve framúrskarandi góðar svokallaðar "þýskar" baráttuaðferðir væru, þá væri það mjög miður.

 

III

Valdbeiting og löggengi

Mikið hefur verið talað um það undanfarið, að "gamlar byltingaraðferðir" væru orðnar ónothæfar með öllu. Samt hefur aldrei verið sagt skýrt hvaða aðferðir menn ættu við, né hvað ætti að koma í stað þeirra. Venjulega, og þá einnig í tilefni belgíska ósigursins, setja menn gegn "byltingaraðferðum", þ.e. í meginatriðum byltingu með valdbeitingu úti á götum, daglega skipulagningu og upplýsingu verkalýðsfjöldans. En það er villandi af þeirri einföldu ástæðu, að skipulagning og upplýsing eru í sjálfu sér engin barátta, heldur einungis undirbúningur undir baráttu og þá nauðsynleg jafnt fyrir byltingu sem aðrar tegundir baráttu. Skipulagning og upplýsing gera pólitíska baráttu ekki fremur óþarfa en myndun verkalýðsfélaga og söfnun framlaga gerir kjarabaráttu og verkföll óþörf. Það sem menn eiga í rauninni við þegar þeir lofsyngja skipulagningu og upplýsingu, andstætt "byltingaraðferðum" er að andstæðurnar séu ofbeldi og bylting annarsvegar, en umbótalöggjöf, þingræði, hinsvegar. "Það er mögulegt að komast frá auðvaldskipan til kommúnisma um nokkur stig félagslegra forma, með lagasetningu og efnahagsaðgerðum, og því er það skylda okkar að setja þessa rökréttu röð fram fyrir þingið". Í þessum orðum Jaurès (Petite République 11/2 1902 kemur ofangreind skoðun skýrt og greinilega fram, einsog í annarri yfirlýsing hans: "eina aðferðin sem öreigastéttin getur gripið til, er lögleg skipulagning og löglegar aðferðir" (P.R. 15/2 1902).

Til að átta sig á málinu er afar mikilvægt að hafa þetta á hreinu frá upphafi, svo við getum rutt burt af vettvangi umræðnanna sjálfsögðum hlutum um gagnsemi skipulagningar fjöldans og upplýsingar og einbeitt athyglinni að eina raunverulega deilumálinu. Það sem mér finnst langmerkilegast við ákvörðunina um að setja þingstarf í stað hverskyns valdbeitingar í baráttu öreiganna, er hugmyndin um að menn geri byltingu þegar þá langi til. Samkvæmt þessari skoðun eru byltingar greinilega gerðar eða ekki gerðar, undirbúnar eða lagðar á hilluna, allt eftir því hvort þær teljast gagnlegar, óþarfar eða skaðlegar. Hvort byltingar verða framvegis í auðvaldslöndum eða ekki, fer þá bara eftir því hvaða skoðun verður nú ofan á meðal sósíalista. En svo mjög sem kenningin um löglega leið sósíalismans vanmetur mátt verkamannaflokka á öðrum sviðum, svo mjög ofmetur hún hann á þessu sviði.

Saga allra byltinga hingað til sýnir að því fer víðsfjarri að ofsafengnar alþýðuhreyfingar komi upp að meðvituðum vilja svokallaðra "leiðtoga" eða "flokka", einsog lögreglumenn og opinberir, borgaralegir sagnfræðingar ímynda sér. Þetta eru einskonar höfuðskepnur samfélagsins sem brjótast fram einsog náttúruöfl, og uppspretta þeirra er stéttareðli nútíma samfélags. Þessar aðstæður hafa enn ekkert breyst við tilkomu sósíalista, og hlutverk þeirra er heldur ekki að leggja sögulegri þróun stéttabaráttunnar lög, heldur þvert á móti að þjóna þessum lögmálum og taka þau þar með í þjónustu sína. Vildu sósíalistar beita sér gegn byltingu öreiganna, sem væri söguleg nauðsyn, þá myndi það einungis leiða til þess að sósíalistar breyttust úr leiðtoga stéttabaráttunnar í eftirbát hennar eða lémagna hindrun. Með góðu eða illu, án þeirra og gegn þeim, hlyti hún loks að brjótast fram að marki nú þegar tími yrði til kominn.

Það nægir að átta sig á þessum einföldu staðreyndum tilað skilja að spurningin: Bylting eða lögleg þróun til sósíalisma? er ekki spurning um baráttuaðferð sósíalista, heldur fyrst og fremst spurning um sögulega þróun. Með öðrum orðum: Þegar hentistefnumenn okkar útrýma byltingu úr stéttabaráttu öreiganna, skipa þeir jafnframt svo fyrir, hvorki meira né minna, en að valdbeiting hætti að vera þáttur í nútíma sögu.

Þetta er kjarni málsins, fræðilega. Það er nóg að setja ofangreinda skoðun skýrt fram, til að það verði augljóst hve fáránleg hún er. Það er ekki nóg með að valdbeiting hafi ekki hætt að gegna sögulegu hlutverki við uppkomu borgaralegs "lagastjórnkerfis", þingræðisins, heldur er hún nú, alveg einsog á öllum fyrri söguskeiðum, grundvöllur ríkjandi stjórnmálaskipanar. Allt auðvaldsríkið byggist á valdbeitingu, og skipan hermála er fullnægjandi, áþreifanleg sönnun þess. Það er hreint afrek kreddubundinna endurskoðunarsinna að láta sér sjást yfir það. En einnig á sviði "lagastjórnkerfisins" sjálfs eru nægar sannanir fyrir þessu, þegar betur er að gáð. Eru Kínafjárveitingarnar[7] ekki tæki til valdbeitingar, sem sjálft "lagastjórnkerfi" þingræðisins veitir? Eru dómar einsog í Löbtau[8] ekki "lögleg" valdbeiting? Já spyrjum fremur: Hvað felst eiginlega í allri hinni borgaralegu lögstjórn?

Sé "frjáls borgari" neyddur af öðrum, gegn vilja sínum, til að gista um hríð lítið, óvistlegt herbergi, þá skilja allir að það er ofbeldi. En um leið og þetta gerist á grundvelli prentaðrar bókar sem heitir Refsilög, og vistarveran heitir "konunglegt, prússneskt tugthús" eða fangelsi, þá breytist þetta í aðgerðir friðsamlegrar lögstjórnar. Sé maður neyddur af öðrum, gegn vilja sínum, til að drepa meðbræður sína kerfisbundið, þá er það ofbeldisaðgerð. En heiti hið sama "herþjónusta", ímynda heiðvirðir borgarar sér að þeir lifi og hrærist í friðsælli lögstjórn. Sé maður gegn vilja sínum sviptur hluta eigna sinna eða ávinnings, þá efast enginn um að það sé ofbeldisaðgerð, en heiti þetta "hækkun óbeinna skatta", þá er aðeins verið að beita ríkjandi lögum.

Í stuttu máli: Það sem okkur birtist sem borgaralegt lagastjórnkerfi, er ekkert annað en valdbeiting ríkjandi stéttar, fyrir fram upphafin til skuldbindandi reglu. Þegar einstök ofbeldisverk eru einu sinni orðin skuldbindandi viðmiðun, þá getur ferlið snúist við í heila borgaralegra lögfræðinga og ekki síður endurskoðunarsinnaðra sósíalista; "lögleg skipan" virðist þá sjálfstætt sköpunarverk "réttlætisins" og kúgunarvald ríkisins einungis afleiðing þess, "staðfesting" laganna. Í rauninni eru þvert á móti borgaraleg lögstjórn (og þingræði sem afkvæmi hennar) sjálf einungis viss félagsleg mynd pólitísks valds borgarastéttarinnar, sem óx upp af efnahagslegum grundvelli.

Þetta er nú mælikvarði á hvílíkir hugarórar öll kenningin um löglega leið til sósíalismans er. Hvað sem ríkjandi stéttir gera eða láta ógert, byggist fyllilega á valdbeitingu. En í baráttu gegn þessum stéttum á öreigastéttin að afsala sér valdbeitingu, fyrirfram, í eitt skipti fyrir öll. Og hvaða ógnarlegt sverð á þá að duga henni til að svínbeygja drottinvaldið? Sú hin sama lögstjórn sem valdbeiting borgarastéttarinnar íklæðist sem drottnandi samfélagsviðmiðun!

Vissulega er borgaraleg lögstjórn, þingræði, ekki einungis svið drottnunar auðvaldsstéttarinnar, heldur einnig vígvöllur þarsem mætast andstæðurnar öreigastétt og borgarastétt. En eins og réttarkerfið er borgarastéttinni einungis tjáning drottinvalds hennar, þá getur þingræðisleg barátta ekki verið öreigastéttinni annað en viðleitni til að koma sínu valdi á. Standi ekki á bak við löglegt þingstarf okkar vald verkalýðsstéttarinnar, ávallt reiðubúið að grípa til aðgerða, ef nauðsyn krefur, þá verða þingsalaaðgerðir sósíalista ámóta andríkt dund og til dæmis vatnsaustur með síu. "Raunsæir stjórnmálamenn" sem sífellt benda á "jákvæðan árangur" þingstarfs sósíalista, sem rök gegn nauðsyn og gagnsemi valdbeitingar í verkalýðsbaráttu, taka alls ekki eftir því, að svo lítilfjörlegur sem þessi árangur er, þá er hann þó einungis afurð ósýnilegra áhrifa þeirrar valdbeitingar sem er til reiðu.

En ekki nóg með það. Staðreyndin er sú að á grundvelli borgaralegrar lögstjórnar stendur aftur ekkert annað en valdbeiting. Þetta kemur fram í sögu þingræðisins sjálfs, þegar eitthvað kemur fyrir.

Þetta kemur fram í þeirri áþreifanlegu staðreynd að gætu ríkjandi stéttir einhverntímann trúað því í alvöru að á bakvið þingmenn okkar stæði ekki alþýðufjöldi, reiðubúinn til aðgerða ef með þyrfti, að byltingarsinnuð höfuð og byltingarsinnaðar tungur væru ekki fær um að stýra byltingarsinnuðum hnefum þegar svo stæði á, eða teldu það ekki hagkvæmt; ef svo bæri undir, þá yrði þingræðinu sjálfu og allri lögstjórninni kippt undan fótum okkar, sem grundvelli pólitískrar baráttu. Þetta sanna beinlínis örlög kosningaréttar í Saxlandi og óbeint örlög kosningaréttar til þýska þingsins. Almennum kosningarétti í Þýskalandi er oft ógnað. Varla getur nokkur maður efast um, að það, að honum er ekki útrýmt, er ekki vegna tillitssemi við þýska frjálshyggjumenn, heldur einkum af ótta við verkalýðsstéttina, vegna þeirrar sannfæringar að þetta létu sósíalistar ekki bjóða sér. Yrði almennur kosningaréttur til ríkisþings þrátt fyrir allt einhverntímann afnuminn, þá þyrfti verkalýðsstéttin ekki að vonast til að ná neinu með "löglegum mótmælum einum saman. Hún gæti aðeins náð grundvelli löglegrar baráttu aftur, fyrr eða síðar, með valdbeitingu. Og jafnvel ofstækisfyllstu stuðningsmenn löglegra leiða myndu ekki dirfast að bera á móti þessu.

Þannig verður kenningin um löglega leið til sósíalismans fáránleg í ljósi raunverulegra möguleika. Því fer svo fjarri að "lögstjórnin" hafi steypt valdbeitingu af stóli, að valdbeiting er eiginlegur verndardrottinn lögstjórnar, réttara sagt grundvöllur hennar bæði af hálfu borgarastéttar og öreigastéttar.

Og á hinn bóginn reynist lögstjórnin vera síbreytileg afurð hlutfallslegs styrks stéttanna sem berjast hvor gegn annarri. Bayern, Saxland, Belgía og þýska ríkið eru öll nýleg dæmi um að þingræðisleg skilyrði pólitískrar baráttu eru veitt eða synjað er um þau, þeim viðhaldið eða þau tekin aftur, allt eftir því hvort þau tryggja hagsmuni ríkjandi stéttar í meginatriðum eða ekki, ennfremur eftir því hvort valdbeitingin sem alþýðufjöldinn býr yfir, nýtist sem múrbrjótur eða nægileg hlíf.

Fyrst ekki er hægt að vera án valdbeitingar sem varnartækis, til að verja þingræðislega ávinninga þegar sérstaklega stendur á, þá er hún í vissum tilvikum ekki síður ómissandi sóknartæki þar sem enn er eftir að vinna lagalegan vettvang stéttabaráttunnar.

Tilraunirnar til að endurskoða "byltingaraðferðirnar" vegna síðustu atburða í Belgíu eru e.t.v. merkilegasta dæmi um pólitíska samkvæmni sem komið hefur frá endurskoðunarstrauminum árum saman. Jafnvel þótt tala mætti um ófarir "byltingarleiðarinnar", í merkingunni valdbeiting, í belgísku herferðinni, þá væri því aðeins hægt að fordæma þá leið á grundvelli eins belgísks ósigurs, að gengið sé út frá því að valdbeiting í verkalýðsbaráttu eigi skilyrðislaust að tryggja sigur, ævinlega og við allar aðstæður. Ljóst er, að mætti álykta svona, þá hefðum við til dæmis fyrir löngu orðið að leggja baráttu verkalýðsfélaga, kjarabaráttuna, á hilluna, því hún hefur ótal sinnum kostað okkur ósigur.

Merkilegast er þó, að í belgísku baráttunni, sem á að hafa sannað hve áhrifalaus valdbeiting sé, beittu verkamenn ekki valdi á nokkurn hátt nema menn vilji taka undir með lögreglunni og kalla rólegt verkfall "ofbeldisaðgerð". Hvorki stóð til að gera byltingu úti á götum, né var það á nokkurn hátt reynt. Og einmitt þessvegna sannar belgíski ósigurinn algera andstæðu þess sem menn hafa reynt að sýna fram á. Hann sannar að nú eru í Belgíu, í ljósi svika frjálslyndra og einbeitni klerklegra mjög litlar líkur á að almennur, jafn kosningaréttur náist án valdbeitingar. Já, hann sannar meira en það: Slík grundvallaratriði þingræðis sem jafn kosningaréttur nást ekki friðsamlega, enda þótt þetta séu borgaraleg atriði, sem ekki fara á nokkurn hátt út fyrir ríkjandi skipulag. Ríkjandi stéttir verjast algerlega borgaralegum umbótum, þótt þær séu sjálfsagðar í auðvaldsríki, með því að höfða til nakins ofbeldis fyrir sitt leyti. Í ljósi þessa eru þá allar hugleiðingar um friðsamlegt, þingræðislegt afnám ríkisvalds auðvaldsins, stéttardrottnunarinnar í heild, ekkert annað en hlægilegir órar úr barnaherbergi stjórnmálanna.

Og belgíski ósigurinn sannar enn eitt: Hann sannar enn einu sinni að þegar sósíalistar löglegrar leiðar líta á borgaralegt lýðræði sem form, sögulega útvalið til að framkvæma sósíalismann smámsaman, þá eru þeir ekki að fást við tiltekið 1ýðræðisskipulag, tiltekið þingræði, sem lifi dapurlegu og breytilegu lífi hér á jörðu niðri, heldur fást þeir við ímyndað, sértækt lýðræði ofar öllum stéttum, í eilífum framförum og vald þess vex stöðugt.

Fáránlegt vanmat á vaxandi afturhaldi og jafnfáránlegt ofmat á ávinningum lýðræðis á hér saman og uppfyllir hvort annað hið besta. Jaurès tekur andköf yfir örsmáum endurbótum Millerands og smásæjum ávinningum lýðveldissinna. Hann úthrópar hvert frumvarp um umbætur á menntaskólakennslu, sérhverja áætlun um skráningu atvinnulausra sem hornsteina sósíalísks skipulags. Hann minnir þá alveg á landa sinn, Tartarin frá Tarascon. En hann stóð í annarlegum "undragarði" sínum, innanum fingurstór banana- og baobabtré og kókóspálma i blómapottum, og ímyndaði sér að hann væri á skemmtigöngu í svölum skugga hitabeltisskógar.

Og hentistefnumenn okkar fá þvílík slög frá raunveruleikanum sem síðustu svik frjálslyndra í Belgíu og segja svo: Ceterum censeo[9], sósíalisma er aðeins hægt að koma á við lýðræði borgaralegs ríkis.

Þeir taka alls ekki eftir að þeir eru ekki að gera neitt annað en að endurtaka með öðrum orðum gömlu kenningarnar um að borgaraleg lögstjórn og lýðræði muni koma á frelsi, jafnrétti og almannahamingju. Þetta eru ekki kenningar frönsku byltingarinnar miklu. Slagorð hennar lýstu bernskri trú áður en á reyndi. Nei, þetta eru kenningar blaðrara, rithöfundanna og lögmannanna frá 1848, Odilon Barrot, Lamartine, Garnier-Pagés, þeir reyndu að framkvæma fyrirheit byltingarinnar miklu með eintómu blaðri í þinginu. Og þess þurfti þá, að þessar kenningar færu ófarir daglega í tæpa öld, að sósíalistar, sem spruttu upp af þessum kenningum, græfu þær svo rækilega að sjálf minningin um þær, upphafsmenn þeirra og sögulegan bakgrunn hyrfi gjörsamlega, til þess að þær gætu nú risið upp sem alveg nýjar hugmyndir um hvernig sósíalistar geti náð takmarki sínu. Grundvöllur kenninga endurskoðunarsinna er því greinilega ekki þróunarkenningin, einsog menn hafa ímyndað sér, heldur endurtekning sögunnar hvað eftir annað, sem verður leiðinlegri og útþvældari með hverri nýrri útgáfu.

Þýskir sósíalistar hafa ótvírætt gert mjög mikilvæga endurskoðun á baráttuaðferð sósíalista fyrir tugum ára, og unnið þannig mikið gagn öreigum um allan heim. Þessi endurskoðun fólst í því að hverfa frá gömlu trúnni á blóðuga byltingu sem einu leiðina í stéttabaráttu og sem aðferð er alltaf dygði tilað koma á sósíalískri skipan. Nú er það ríkjandi skoðun, einsog kemur fram í ályktun Parísarþingsins eftir Kautsky, að verkalýðsstéttin geti þá fyrst tekið ríkisvaldið, að hún hafi staðið í reglulegri, daglegri stéttabaráttu um langan eða skamman tíma. Þá er viðleitni til að gera ríkið og þingræðið lýðræðislegra mjög áhrifamikil aðferð til að hefja verkalýðsstéttina á æðra stig andlega, og að hluta til efnalega.

En þá er líka allt upptalið, sem þýskir sósíalistar hafa sýnt framá raunhæft. Þarmeð er hvorki búið að útrýma valdbeitingu úr mannkynssögunni í eitt skipti fyrir öll, né blóðugum byltingum sem baráttuaðferð öreigastéttarinnar, né hefur þingræðisleg barátta verið gerð að einu aðferð stéttabaráttunnar. Þvert á móti, valdbeiting er og verður úrslitaúrræði verkalýðsstéttarinnar, ekki síður en annarra. Hvort sem valdi er beitt eða ekki, þá vita menn af möguleikanum á því og því er valdbeiting æðsta lögmál stéttabaráttunnar. Og þegar við gerum höfuðin byltingarsinnuð með þingstarfi eins og með öllu öðru starfi, þá er það til að byltingarhugurinn nái niður í hnefana, þegar nauðsyn krefur.

Þegar viðleitni okkar rekst á lífshagsmuni ríkjandi stétta, verða sósíalískir flokkar að búast við blóðugum árekstrum við borgaralegt samfélag. Ekki af því að við séum sérstaklega hneigð fyrir ofbeldisverk eða byltingarrómantík, heldur vegna biturrar sögulegrar nauðsynjar. Að líta á þingræðisbaráttu sem einasta sáluhjálparatriði í baráttu verkalýðsstéttarinnar, er jafn fáránlegt, og að lokum jafnafturhaldssamt og hugmyndin um allsherjarverkfall eða bardaga á götuvígjum sem hið einasta sáluhjálparatriði. Við ríkjandi aðstæður er blóðug bylting vissulega mjög vandmeðfarið, tvíeggjað vopn. Og við megum búast við því að öreigastéttin noti því aðeins þessa aðferð að hún sé eina færa leiðin. Auðvitað yrði það einungis við þau skilyrði að pólitískt ástand í heild og styrkleikahlutfallið gerðu árangur nokkuð líklegan. En það er fyrir fram óhjákvæmilegt að hafa skýran skilning á nauðsyn valdbeitingar, bæði í einstökum tilvikum, eins og til lokasigurs á ríkisvaldinu. Það er sá skilningur sem tryggir áherslu og virkni friðsamlegs, löglegs starfs okkar.

Tækju sósíalistar einhverntímann upp á því að afsala sér valdbeitingu fyrir fram og í eitt skipti fyrir öll, einsog endurskoðunarsinnar leggja til, færu þeir að sverja trúnað verkalýðsins við borgaralega lögstjórn, þá myndi allt þingstarf þeirra og önnur pólitísk barátta fyrr eða síðar hrynja niður í vesaldóm og víkja fyrir óskertu alræði afturhaldsins.

 


Athugasemdir:

[1] Fyrst skrifaði RL greinina: Belgiska tilraunin (apríl 1902), henni svaraði E. Vandervelde: Enn um belgísku tilraunina (Neue Zeit, 1901-2, II. bindi, bls. 166-9). Þeirri grein er svarað með þessari. Þýð.

[2] Haldið í Brüssel, 4/5, 1902. Þar var gagnrýnd sú ákvörðun Aðalráðs flokksins að hætta allsherjarverkfalli fyrir almennum kosningarétti. Flokksþingið samþykkti þó þá ákvörðun.

[3] Rudolf Mosse gaf út Berliner Tageblatt sem stóð nærri Félagi frjálslyndra (Die Freisinnige Vereinigung), bæði pólitískt og í ritstjórnarstefnu, einnig gaf hann út Berliner Volkszeitung, sem var á sömu línu í innanríkismálum og sá flokkur.

[4] Alþjóðlegt þing sósíalista í Paris ... Berlin 1900, bls. 32. RL.

[5] Almanach du Parti Ouvrier 1893. RL.

[6] Þar starfaði Rosa Luxemburg sem áróðursmaður þýskra sósíalista frá 1898. Þýð.

[7] Í lok okt. 1901 samþykkti franska þingið lánsheimild til ríkisstjórnarinnar til að kosta leiðangur franskra hermanna til að berja niður þjóðfrelsishreyfinguna í Kína árið 1900, þegar stjórn Waldeck-Millerands var við völd.

[8] 3/2 1899 voru níu verkamenn frá Löbtau dæmdir fyrir litlar sakir í samanlagt 53 ára fangelsisvist, 8 ára tugthúsvist og 70 ára ærumissi.

[9] Þ. e.: "Ennfremur álít ég", tilvitnun í sögu Rómarveldis. Cicero endaði allar þingræður sínar með orðunum "Ennfremur legg ég til að Kartagó verði rústuð" (Ceterea censeo Cartaginem delendam esse).

 


Last updated on: 10.03.2008