Rósa Lúxembúrg

 

"Röð og regla ríkja í Berlín"'

 


Skrifaður: í 14-1-1919.
Fyrstur útgefandi: .
Þýða við: Örn Ólafsson, Rósa Lúxembúrg á íslensku, 2007.
Stafrænn texti við: Örn Ólafsson.
This edition: Marxists Internet Archive, 2008.


 

"Röð og regla ríkja í Varsjá", sagði Sebastiani ráðherra á þingingu í París, 1831...

"Röð og regla ríkja í Berlín"' tilkynna borgarablöðin sigri hrósandi, tilkynna Ebert og Noske, tilkynna foringjar hinna "sigursælu sveita", sem smáborgaraskríllinn í Berlín veifar til klútum á götunum og hrópar húrra fyrir. Heiðri og æru þýska hersins hefur verið borgið í mannkynssögunni. Þeir sem biðu smánarlegan ósigur í Flandern og Argonne, hafa reist við hróður sinn með glæsilegum sigri á 300 Spartakistum sem tóku Vorwärts1). Hróður fyrstu innrásar þýskra hersveita í Belgíu, sigur von Emmich hershöfðingja í Liege, bliknar fyrir dáðum þeirra Reinhardt á götum Berlínar. Meðalgöngumenn, sem ætluðu að semja um að fólkið sem tók Vorwärtshúsið yfirgæfi það, voru strádrepnir af hermannaskríl stjórnarinnar, barðir með byssuskeftum svo að líkin voru óþekkjanleg, föngum stillt upp við vegg og myrtir þannig að heilar og hauskúpubrot slettust yfir allt - hver getur andspænis svo dýrlegum dáðum minnst hraksmánarlegs ósigurs fyrir Frökkum, Englendingum og Bandaríkjamönnum? "Spartakus" heitir andstæðingurinn og Berlín staðurinn, þar sem herforingjar vorir kunna að sigra. "Verkamaðurinn" Noske er hershöfðinginn sem getur skipulagt sigur þar sem Ludendorff mistókst.

Hver getur nú annað en minnst sigurvímu "reglu'' múgsins í París, svallveislu borgarastéttarinnar á líkum baráttumanna Kommúnunnar ? Þessi sama borgarastétt var nýbúin að gefast vesællega upp fyrir Prússum, ofurselja höfuðborg landsins ytri fjendum, en flýði sjálf af hinu mesta hugleysi. En gegn illa vopnuðum og hungruðum öreigum Parísar, gegn varnarlausum konum þeirra og börnum, hve karlmannlega blossaði þá upp hugrekki sonakríla borgarastéttarinnar, "gylltu æskunnar", herforingjanna: Þessir synir stríðsguðsins höfðu oltið um koll fyrir ytri fjendum, nú braust hreysti þeirra út í dýrslegum grimmdarverkum á varnarlausum, á föngum, á föllnum!

"Röð og regla ríkir í Varsjá!" "Röð og regla ríkir í París!" "Röð og regla ríkir í Berlín!" Þannig hljóða tilkynningarnar frá vörslumönnum "reglu" á hálfrar aldar fresti, frá einni þungamiðju heimssögulegrar baráttunnar til annarrar. Og hlakkandi "sigurvegararnir" taka ekki eftir því, að "regla", sem ekki er hægt að halda uppi nema með síendurteknu blóðbaði, er óstöðvanlega að nálgast söguleg örlög sín, tortímingu. Hvað var þessi síðasta "Spartakus-vika" í Berlín, hvað hafði hún í för með sér, hvað er af henni að læra? Mitt í baráttunni, mitt í siguröskri gagnbyltingarinnar, verða byltingarsinnaðir öreigar að gera reikningsskil um það sem gerðist, mæla atburðina og afleiðingar þeirra miklum, sögulegum mælikvarða. Byltingin má engan tíma missa, hún stormar áfram mót sínu mikla markmiði, -yfir grafir sem enn standa opnar, yfir "sigra” og "ósigra". Fremsta hlutverk baráttumanna alþjóðlegs sósíalisma er að fylgja meðvitað stefnu hennar, leiðum hennar.

Var hægt að vænta endanlegs sigurs byltingarsinnaðra öreiga í þessum átökum, falls Ebert-Scheidemann, og þess að sósíalísku alræði yrði komið á? Vissulega ekki, ef vandlega er gætt að öllum þeim þáttum sem þarna réðu. Veiki bletturinn á byltingaröflunum núna: pólitískur vanþroski hermannafjöldans, sem enn lætur herforingjana misnota sig til alþýðufjandskapar og gagnbyltingar, er einn sér fullnægjandi sönnun bess að varanlegur sigur byltingarinnar var ekki mögulegur í þessum átökum. Hinsvegar er þessi vanþroski hersins fyrir sitt leyti bara einkenni á almennum vanþroska þýsku byltingarinnar.

Mikill hluti hermannanna er frá norðurþýsku sléttunni, og hún má heita ósnertin af byltingunni, enn sem fyrr. Berlín hefur verið nokkurnveginn einangruð innan ríkisins. Vissulega hefur byltingin gripið ýmsa staði utan hennar - í Rínarlandi, á ströndinni, í Braunschweig, Saxlandi og Württemberg standa menn af lífi og sál með öreigum Berlínar. Enn skortir þó fyrst og fremst það, að framrásin verði beinlínis samstillt, aðgerðirnar beinlínis sameiginlegar. En það myndi gera framrás verkalýðs Berlínar og snarræði ólíkt virkari. Dýpra samhengi pólitísks ófullkomleika byltingarinnar birtist í því að kjarabaráttan er rétt á byrjunarstigi. En hún er hin eiginlega eldsuppspretta, sem stöðugt glæðir byltingarsinnaða stéttabaráttu.

Af öllu þessu leiðir, að ekki var að búast við endanlegum, varanlegum sigri á þessari stundu. Var þá barátta síðustu viku "mistök"? Já, ef þar hefði verið um að ræða "árás" af yfirlögðu ráði, svokallað "valdrán". En hvert var tilefni síðustu baráttuviku? Eins og ævinlega hingað til, eins og 6. desember, eins og 24. desember: gróf ögrun ríkisstjórnarinnar. Fyrrum var orsök allra frekari viðburða blóðbaðið, þegar ráðist var á varnarlausa andófsmenn í Chaussestrasse og slátrunin á sjóliðunum, en núna árásin á lögreglustjóra Berlínar2). Byltingin fer nefnilega ekki að vild, á opnum vígvelli, eftir klókindalegri áætlun "herfræðinga". Andstæðingar hennar eiga líka frumkvæðið, já, þeir taka það yfirleitt miklu oftar en byltingarmenn sjálfir. Frammi fyrir ósvífnum ögrunum Ebert-Scheidemann neyddist byltingarsinnaður verkalýður til að grípa til vopna. Hér var um heiður byltingarinnar að tefla. Strax varð að verjast árásinni af fullum þrótti, ætti ekki að örva gagnbyltingarmenn til frekari árása, og drepa þannig niður dug byltingarsveita öreiganna og siðferðislegu áliti þýsku byltingarinnar innan alþjóðasambandsins.

Umsvifalaus andstaða alþýðufjöldans í Berlín kom sjálfkrafa af svo sjálfsögðum þrótti, að þegar í fyrstu atrennu vann "gatan" siðferðislegan sigur.

Það er nú innra lífslögmál byltingarinnar að stöðvast aldrei við það sem náðst hefur, óvirk og aðgerðalaus. Besta vörnin er bylmingshögg. Þessi frumregla hverrar baráttu mótar sérstaklega öll stig byltingarinnar. Það þarf engrar skýringar við, sýnir enda heilbrigða eðlisávísun öreiga Berlínar og innri þrótt, að þeir létu sér ekki nægja að Eichhorn var aftur settur í embætti sitt, sjálfkrafa fóru þeir að taka aðrar valdastöðvar gagnbyltingarmanna: borgaraleg blöð, hálfopinbera fréttastofuna, Vorwärts. Allar þessar aðgerðir fjöldans hlutust af eðlislægum skilningi hans á því að gagnbyltingaröflin myndu fyrir sitt leyti ekki sefast við ósigurinn, heldur leita eftir almennum átökum.

Og hér rekumst við á annað mikið sögulegt lögmál byltingarinnar. Á því splundrast öll klókindi og beturviska þessara litlu "byltingarsinna" af tagi USPD3), sem leita í hverri baráttu bara að tylliástæðum til að hörfa. Um leið og grundvallarviðfangsefni byltingarinnar hefur verið sett skýrt fram - og í þessari byltingu er það að steypa ríkisstjórn Ebert-Scheidemann, sem er fyrsta hindrunin fyrir sigur sósíalismans - þá kemur þetta grundvallarviðfangsefni sífellt upp aftur, ævinlega jafnbrýnt, og hvert einstakt tilvik baráttunnar leggur allt viðfangsefnið fyrir, óumflýjanlega eins og náttúrulögmál réði, hversu óviðbúin sem byltingin er því að leysa það, hversu mikið sem skortir á þróun aðstæðna. "Niður með Ebert-Scheidemann!" - Þetta kjörorð kemur óhjákvæmilega upp í hverri byltingarólgu, eina kjörorðið sem nær yfir öll takmörkuð átök. Þannig leiðir það kjörorð af sjálfu sér, vegna eigin innri raka, hverja einstaka baráttu til hins ítrasta, hvort sem menn vilja eða ekki.

Þessar andstæður, milli þess hve aðkallandi verkefnið verður, og hins hve ófullnægjandi forsendur eru fyrir lausn þess á upphafsstigi byltingarþróunarinnar, leiða til þess að einstökum orrustum byltingarinnar lýkur formlega með ósigri. En það er annað sérstakt lífslögmál byltingarinnar, að hún er eina "stríðið" þar sem endanlegur sigur verður einungis undirbúinn með röð ósigra!

Hvað sýnir öll saga nútíma byltinga og sósíalisma? Fyrst gaus stéttabaráttan upp í Evrópu með uppreisn silkivefaranna í Lyon 1831, henni lauk með miklum ósigri. Chartistahreyfingin í Englandi - ósigur. Uppreisn öreigalýðsins í París í júni 1848 lauk með yfirþyrmandi ósigri. Parísarkommúninni lauk með hræðilegum ósigri. Hvað byltingarbaráttu varðar, er allur vegur sósíalismans varðaður tómum ósigrum.

Og þó leiðir þessi sama saga skref fyrir skref, óstöðvanlega til endanlegs sigurs! Hvar stæðum við núna án þessara "ósigra", sem hafa fært okkur sögulega reynslu, skilning, mátt og hugsjónir! Nú erum við komin beint að lokaorrustu stéttarbaráttu öreiganna og stöndum þá beinlínis á þessum ósigrum, við hefðum ekki mátt missa neinn þeirra, hver þeirra er hluti af afli okkar og markvissu.

Þannig er byltingarbarátta bein andstæða þingræðisbaráttu. Í Þýskalandi unnum við á fjórum áratugum tóma þingræðis"sigra", við unnum beinlínis sigur eftir sigur. Og afleiðingin varð, við hina miklu prófraun sögunnar, 4. ágúst 1914: gereyðandi ósigur, pólitískt og siðferðilega, einstakt hrun, dæmalaust gjaldþrot4). Byltingarnar hafa hingað til fært okkur eintóma ósigra, en þessir óhjákvæmilegu ósigrar eru hver öðrum betri trygging fyrir komandi endanlegum sigri.

Reyndar með einu skilyrði! Spurningin er, við hvaða aðstæður ósigurinn varð hverju sinni: hvort hann varð vegna þess að baráttuþróttur fjöldans, sem stormaði fram, rakst á þær skorður að sögulegar forsendur höfðu ekki þróast nóg, eða vegna þess að byltingaraðgerðirnar sjálfar voru lamaðar af hálfvelgju, hiki, innri veikleikum.

Sígild dæmi um hvorttveggja eru annarsvegar franska febrúarbyltingin, hinsvegar þýska marsbyltingin. Hetjulegar aðgerðir öreigalýðs Parísar árið 1848 eru lifandi uppspretta stéttarlegs máttar öreigalýðsins um heim allan. Vesæld þýsku marsbyltingarinnar hefur verið allri nútímaþróun í Þýskalandi fjötur um fót. Hún hefur haft áhrif, gegnum sérstaka þróun hins opinbera þýska sósialistaflokks, allt til síðustu atburða þýsku byltingarinnar - allt til nýliðinnar spennu og ólgu.

Hvernig lítur þá ósigur þessarar svokölluðu "Spartakusviku" út i ljósi ofangreindrar sögulegrar spurningar? Var þetta ósigur stormandi byltingarmáttar og ófullnægjandi þroska aðstæðna, eða var hann vegna þess að aðgerðirnar væru veiklulegar og hálfvolgar?

Hvort tveggja! Tvíbent eðli þessarar ólgu var sérstakt einkenni þessa nýliðna atviks: andstæður á milli máttugrar, einbeittrar sóknar fjöldans í Berlín annarsvegar, og hinsvegar var forystan í Berlín óákveðin, hikandi og hálfvolg.

Forystan brást. En forystuna getur fjöldinn skapað að nýju, og verður að gera það, úr fjöldanum sjálfum. Fjöldinn ræður úrslitum, hann er það bjarg, sem lokasigur byltingarinnar verður reistur á. Fjöldinn var vandanum vaxinn, hann breytti þessum "ósigri" í hlekk í þá keðju sögulegra ósigra, sem er stolt og afl alþjóðlegs sósíalisma. Og þessvegna mun af þessum "ósigri" blómstra komandi sigur.

"Röð og regla ríkir í Berlín!” Sljóu böðulsþjónar! Regla ykkar er á sandi byggð. Á morgun mun byltingin "rísa glymjandi aftur upp"5) og ykkur til skelfingar kunngjörir hún með lúðraþyt:
ég var, ég er, ég verð!

Rauði fáninn 14/1 1919.

Athugasemdir

1) Hópur fólks lagði undir sig ritstjórnarskrifstofur blaðs sósíalistaflokksins, Vorwärts, 6/1 1919, og gaf út byltingarsinnað tölublað. Noske ráðherra lét herinn taka bygginguna með áhlaupi, 13/1, þótt samningaviðræður stæðu þá yfir.
2)Ríkisstjórninni þótti hann of vinstrisinnaður, vildi reka hann og ná valdi á embætti þessu. Þýð.
3) USPD: Óháði sósíalistaflokkurinn, stofnaður 1917 af þingmönnum sem áður voru miðja þýska sósíalistaflokksins, en voru hraktir úr honum fyrir andstöðu við stríðsreksturinn. Þessi flokkur sameinaðist kommúnistaflokkinum í lok árs 1920.
4) Þann dag greiddu þingmenn sósíalista atkvæði með hernaðarfjárveitingu allir nema Karl Liebknecht. Þýð.
5) Þessi tilvitnun, og síðasta línan eru teknar úr kvæðum þýska byltingarskáldsins Freiligrath.