Rósa Lúxembúrg

Þjóðfélagsumbætur eða bylting?

með viðauka: Varnarsveitir og hernaðarstefna

1899


Published: -
Translation: Örn Ólafsson
HTML Markup: Jonas Holmgren
Public Domain: Marxists Internet Archive (2008). You may freely copy, distribute, display and perform this work; as well as make derivative and commercial works. Please credit "Marxists Internet Archive" as your source.


Formáli

Heiti þessa rits kann að vekja furðu við fyrstu sýn. Þjóðfélagsumbætur eða bylting? Geta þá sósíalistar verið á móti þjóðfélagsumbótum? Eða geta þeir litið svo á að þær séu í mótsögn við þjóðfélagsbyltinguna, umbyltingu ríkjandi skipulags, sem er lokatakmark sósíalista? Vissulega ekki. Sósíalistum er dagleg barátta fyrir þjóðfélagsumbótum, fyrir bættri stöðu vinnandi fólks á grundvelli ríkjandi skipulags, fyrir auknu lýðræði þvert á móti eina aðferðin til að leiða stéttabaráttu öreiganna og stefna að markinu: að ná stjórnmálavöldum og afnema launavinnukerfið. Í augum sósíalista er samhengi þjóðfélagsumbóta og[1] byltingar órjúfanlegt, því baráttan fyrir þjóðfélagsumbótum er aðferð þeirra, en þjóðfélagsbylting markmiðið.

Þessir tveir þættir verkalýðsbaráttu eru fyrst settir fram sem andstæður í fræðum Eduard Bernstein, eins og hann rekur þau í greinum sínum: Viðfangsefni sósíalista í Nýrri tíð 1897-8, og sérstaklega í bók sinni: Forsendur sósíalisma og verkefni sósíalista. Í öllum þessum fræðum felst í rauninni ekkert annað en ráðlegging um að gefa þjóðfélagsbyltinguna, takmark sósíalista, upp á bátinn, og á hinn bóginn að gera þjóðfélagsumbætur að takmarki stéttabaráttunnar í stað þess að þær séu tæki hennar. Bernstein hefur sjálfur orðað skoðanir sínar skýrast og skarpast er hann reit: "Þetta takmark, hvað svo sem það kann að vera, er mér alls ekki neitt, hreyfingin allt".

En lokatakmark sósíalista er eina mikilvæga atriðið sem greinir þá frá borgaralegum lýðræðissinnum og borgaralegri róttækni; það eina sem breytir allri verkalýðshreyfingunni úr því að stagla lítilþæg bætur á auðvaldsskipulagið, og bjarga því þannig. Í staðinn leiðir þetta lokatakmark til stéttabaráttu gegn þessu skipulagi, til að afnema það. Því er spurningin: Þjóðfélagsumbætur eða bylting, í skilningi Bernsteins, jafnframt fyrir sósíalista spurningin: Að vera eða ekki vera. Allir flokksfélagar verða að gera sér ljóst, að ágreiningurinn við Bernstein og félaga hans snýst ekki um eina eða aðra baráttuaðferð, ekki um þessa herstjórnarlist eða hina, heldur hreint og beint um tilveru sósíalískrar hreyfingar.

Við fyrstu sýn rits Bernsteins mega þetta virðast ýkjur. Er ekki Bernstein sífellt að tala um sósíalista og takmark þeirra, endurtekur hann ekki oft og greinilega að einnig hann stefni að lokatakmarki sósíalista, aðeins í annarri mynd, leggur hann ekki sérstaka áherslu á að hann viðurkenni núverandi starf sósíalista nær algerlega? Vissulega er þetta allt satt. En jafnsatt er hitt, og hefur alltaf verið í þróun fræðikenninga og stjórnmála, að hver ný stefna fylgir framan af þeirri stefnu sem áður réði, einnig þegar hún er henni í rauninni alveg andstæð. Hún lagar sig í upphafi að því formi sem hún finnur fyrir, talar málið sem var talað áður en hún kom til. Það er ekki fyrr en með tíð og tíma að nýji kjarninn kemur fram úr gömlu umbúðunum og stefnan nýja finnur sín eigin form, sitt eigið mál.

Það væri að vanmeta afl fræðilegs sósíalisma að vænta þess af andstöðunni gegn honum að hún setti innsta eðli skýrt og ótvírætt fram frá fyrstu tíð, af algerri samkvæmni, að hún afneitaði opinberlega og skilmálalaust fræðilegum grundvelli sósíalista. Sá sem nú vill heita sósíalisti, en samt berjast gegn kenningum Marx, stórkostlegasta afreki mannsandans á þessari öld, hann verður að veita þeim þá ómeðvituðu hyllingu að segja sig sjálfan fyrst og fremst vera fylgismann þessara kenninga, og leita svo í þeim sjálfum að fótfestu til að berjast gegn þeim. Þá baráttu gegn þeim verður hann að kalla hreina framþróun þessara kenninga. Við megum því ekki láta þessi ytri form blekkja okkur, við verðum að leiða í ljós kjarnann í kenningum Bernsteins, og það er einmitt brýn nauðsyn fyrir hinn mikla fjölda iðnverkafólks í flokki okkar.

Ekki er til grófari móðgun, meiri lítillækkun við verkalýðinn, en sú fullyrðing að fræðilegar deilur seu bara fyrir "menntamenn". Fyrir löngu sagði Lasalle: Þá fyrst þegar vísindi og verkalýður, þessir andstæðu pólar samfélagsins, sameinast, munu þeir brjóta niður allar menningarlegar hindranir með járnsterkum örmum sínum. Gjörvallt afl verkalýðshreyfingar nútímans hvílir á fræðilegum skilningi.

En þessi skilningur er verkalýðnum hálfu mikilvægari í því efni sem hér ræðir, því það snýst beinlínis um hann og áhrif hans á hreyfinguna, því það er hann sem hér er ógnað. Fræðileg útgáfa Bernsteins á hentistefnustraumnum í flokki okkar er ekkert annað en ómeðvituð tilraun til að tryggja sigur þeirra smáborgaralegu hópa sem komið hafa í flokkinn, til að móta starf og markmið flokksins í þeirra anda. Spurningin um þjóðfélagsumbætur og byltingu, um takmarkið og hreyfinguna er, frá annarri hlið séð, spurningin um hvort verkalýðshreyfingin skuli hafa smáborgaralegt eðli eða öreigaeðli.

Því er það einmitt í hag öreigafjöldans í flokkinum að fást sem ákafast og nákvæmast við þær fræðilegu deilur sem nú standa gegn endurskoðunarstefnunni. Svo lengi sem fræðilegur skilningur er bara forréttindi fáeinna "menntamanna" í flokknum, er hann stöðugt í þeirri hættu að lenda á villigötum. Þá fyrst þegar hin mikla verkalýðsstétt sjálf tekur sér í hönd hvasst og traust vopn fræðilegs sósíalisma, þá munu allar smáborgaralegar hneigðir, allir hentistefnustraumar renna út í sandinn. Þá verður líka hreyfingin komin á öruggan, fastan grundvöll. "Fjöldinn sér um það".

Berlin 18. apríl 1899
Rósa Luxemburg.

 


Fyrri hluti

1. Aðferð Bernsteins

Séu fræðikenningar endurspeglun mannsheilans á fyrirbærum umheimsins, þá verður andspænis nýjustu kenningum Eduard Bernsteins að bæta við við: oft eru þær spéspeglun. Kenning um að sósíalisminn komist á fyrir þjóðfélagsumbætur - á skeiði Stumm-Posadowsky[2], - eftir að þjóðfélagsumbætur hafa endanlega lognast út af í Þýskalandi, kenning um að verkalýðsfélögin nái valdi á framleiðsluferlinu - eftir ósigur ensku vélsmiðanna, kenning um þingmeirihluta sósíalista - eftir stjórnarskrárbreytinguna í Saxlandi og árásirnar á almennan kosningarétt til ríkisþingsins! En þungamiðja skýringa Bernsteins liggur að minni hyggu ekki í skoðunum hans um nærtæk verkefni sósíalista, heldur í því sem hann segir um hlutlæga þróun auðvaldssamfélagsins, en vissulega er það í nánu sambandi við aðrar skoðanir hans.

Samkvæmt Bernstein gerir þróun auðvaldskerfisins æ ólíklegra að það hrynji. Það sýni stöðugt meiri aðlögunarhæfni, auk þess sem framleiðslan verði sífellt margbrotnari. Aðlögunarhæfni auðvaldskerfisins birtist samkvæmt Bernstein í fyrsta lagi í því, að almennar kreppur hverfi vegna þróunar lánakerfisins, atvinnurekendasambanda, samgangna og fréttaþjónustu. Í öðru lagi birtist þessi aðlögunarhæfni í varanleika millistéttanna vegna þess að framleiðslugreinar verða sífellt margbrotnari og stórir hópar öreigastéttar hefjist upp í miðstéttina. Í þriðja lagi loks, batni staða öreigastéttarinnar efnahagslega og pólitískt, vegna baráttu verkalýðsfélaganna.

Af þessu leiðir þá almennu viðmiðun fyrir beina baráttu sósíalista að þeir eigi ekki að vinna að því að taka pólitískt ríkisvald, heldur að því að bæta stöðu verkalýðsstéttarinnar og að koma á sósíalisma, ekki við félagslega og pólitíska kreppu, heldur með því að auka smám saman samfélagslegt eftirlit og með því að framkvæma hugsjónir samvinnuhreyfingarinnar smám saman.

Bernstein sjálfur sér ekkert nýtt í skilgreiningum sínum, hann álítur öllu heldur að þær séu í samræmi við einstakar athugasemdir Marx og Engels sem og við almenna stefnu sósíalista hingað til. En að mínu áliti er naumast hægt að neita því við nánari athugun skoðana hans að þær eru raunverulega í grundvallarandstöðu við hugsanagang fræðilegs sósíalisma.

Fælist það eitt í endurskoðun Bernsteins að þróun auðvaldskerfisins yrði miklu hægari en við höfum almennt vænst, þá þýddi það í rauninni aðeins frestun á pólitískri valdatöku öreigastéttarinnar, og af því leiddi aðeins eitthvað hægari gang baráttunnar.

En svo er ekki. Það sem Bernstein dregur í efa, er ekki hraði þróunarinnar, heldur sjálf þróunarleið auðvaldssamfélagsins og þar með umskiptin til sósíalisma.

Kenning sósíalista hefur hingað til gert ráð fyrir að sósíalísk umbylting myndi hefjast við almenna, eyðileggjandi kreppu. En hér verður að aðgreina tvennt: meginhugsunina í þessu og ytra form hennar.

Hugsunin er að auðvaldskerfið sjálft muni á vissum tímamótum liðast sundur vegna eigin mótsagna, verða ómögulegt. Gildar ástæður voru fyrir því að mínu áliti að menn skyldu hugsa sér þessi tímamót í mynd almennrar, lamandi viðskiptakreppu. Það er þó aukaatriði, snertir ekki grundvallarhugmyndina.

Því fræðileg skilgreining sósíalismans byggist sem kunnugt er, á þrennskonar afleiðingum auðvaldsþróunar: fyrst og fremst á vaxandi stjórnleysi efnahagslífs auðvaldsins sem leiðir óhjákvæmilega til tortímingar þess, í öðru lagi á því að framleiðsluferlið verður æ félagslegra, en það leggur beinlínis grunninn að samfélagsskipan framtíðarinnar, og í þriðja lagi á vaxandi skipulagningu öreigastéttarinnar og stéttarvitund hennar, en það er virkur þáttur í komandi byltingu.

Fyrstnefndur burðarás fræðilegs sósíalisma er sá sem Bernstein fjarlægir. Því hann staðhæfir, að þróun auðvaldsins stefni ekki að almennu hruni efnahagslífsins.

En með þessu afneitar hann ekki bara ákveðinni mynd tortímingar auðvaldsins, heldur sjálfri tortímingunni. Hann segir berum orðum: "Því mætti nú til svara, að þegar talað er um hrun nútímasamfélags sé átt við meira en almenna viðskiptakreppu, meiri en áður hefur verið, nefnilega algert hrun auðvaldskerfisins, vegna eigin mótsagna þess". Og því svarar hann: "Algert hrun nútíma-framleiðslukerfis, nokkurnveginn samtímis, verður ekki líklegra við vaxandi þróun samfélagsins, heldur ólíklegra, því við hana eykst aðlögunarhæfni þess annarsvegar, en hinsvegar eða samtímis þessu gerir hún iðnaðinn margbrotnari".

En þá vaknar spurningin mikla: Hversvegna og hvernig komust við þá að takmarki viðleitni okkar? Frá sjónarhorni fræðilegs sósíalisma birtist söguleg nauðsyn á sósíalískri umbyltingu umfram allt í vaxandi stjórnleysi auðvaldskerfisins, sem þrengir því í algerar ógöngur. En fallist menn á það hjá Bernstein að þróun auðvaldsins stefni ekki að hruni þess, þá hættir sósíalisminn að vera hlutlægt nauðsynlegur. Af burðarásum fræðilegrar skilgreiningar hans verða þá aðeins eftir hinar tvær afleiðingar auðvaldsskipulagsins; félagslegt framleiðsluferlið og stéttarvitund öreiganna. Þetta hefur Bernstein líka í huga þegar hann segir:

"Hugmyndaheimur sósíalista missir alls ekkert í sannfæringarkrafti [þegar kenningunni um hrun er rutt frá; R.L]. Því nánar að gætt, hvað felst í þeim öflum sem ég hefi talið að útrýmdu gömlu kreppunum eða umbreyttu þeim mjög? Þau eru öll forsendur þess að framleiðsla og dreifing verði félagsleg, og að nokkru leyti upphaf þess."

Við athugun kemur fljótlega i ljós, að einnig þetta er ranglega ályktað. Hvaða þýðingu hefur það sem Bernstein kallar aðlögunartæki auðvaldsins: sölusambönd, lánakerfi, bætt samgöngukerfi, bætt kjör verkalýðsstéttarinnar o. s. frv. ? Augljóslega þá að afnema innri andstæður efnahagslífs auðvaldsins eða slæva þær a.m.k., hindra að þær þróist og skerpist. Útrýming kreppu þýðir þannig afnám andstæðna milli framleiðslu og dreifingar á auðvaldshátt. Bætt staða verkalýðsstéttarinnar, a.n.l. sem slíkrar, a.n.l. að hún færist upp í millistétt, þýðir að andstæðurnar milli auðmagns og vinnuafls slævist. En ef sölusambönd, lánakerfi, verkalýðsfélög o. s. frv. upphefja andstæður auðvaldsins, þ.e. bjarga auðvaldskerfinu frá hruni, viðhalda því - þessvegna kallar Bernstein þau "aðlögunartæki"- hvernig geta þau þá jafnframt verið forsendur sósíalismans og að nokkru leyti upphaf"hans? Greinilega aðeins þannig að þau auki félagslegt eðli framleiðslunnar. En þar sem þau viðhalda henni í auðvaldsmynd, gera þau þvert á móti óþarft að gera þessa félagslegu framleiðslu sósíalíska. Upphaf sósíalisma og forsendur hans geta þessi öfl því einungis verið hugmyndalega, en ekki sögulega. Þ. e. á grundvelli þeirra hugmynda sem við gerum okkur um sósíalisma vitum við að þau eru skyld honum, en í rauninni er ekki nóg með að þau leiði ekki til byltingar, heldur gera þau hana óþarfa. Eina forsenda sósíalismans yrði þá stéttarvitund öreiganna. En einnig hún væri þá ekki einfaldlega andleg endurspeglun andstæðna auðvaldsins sem skerpast æ meir, og komandi hruns þess, því aðlögunartækin hindra það. Sósíalisminn kemst þá á af hreinni hugsjón, sannfæringarkraftur hennar felst þá í þeirri fullkomnun sem menn hugsa sér að búi í honum.

Í stuttu máli sagt, eftir þessari leið öðlumst við rök fyrir stefnu sósíalista í "hreinum skilningi" það er, einfaldar sagt, hughyggjurök, en hlutlæg nauðsyn, þ.e. tilvísun til gangs efnislegrar, samfélagslegrar þróunar fellur brott. Kenning endurskoðunarsinna stendur frammi fyrir vali. Annað hvort verður sósíalísk umbylting eftir sem áður vegna innri andstæðna auðvaldskerfisins, þá þróast þessar andstæður með kerfinu og óhjákvæmileg afleiðing þess verður hrun, einhvern tíma í einni eða annarri mynd. En þá eru "aðlögunartækin" óvirk og hrunkenningin rétt. Eða þá "aðlögunartækin" nægja raunverulega til að hindra hrun auðvaldskerfisins, gera því fært að lifa af, upphefja þá andstæður þess, en þá hættir sósíalisminn að vera söguleg nauðsyn og hann getur þá verið hvað sem vera skal, nema afleiðing af efnislegri þróun samfélagsins. Þessi vandi leiðir til annars: annað hvort hafa endurskoðunarsinnar rétt fyrir sér hvað varðar þróunarleið auðvaldsins og þá breytist sósíalísk umbylting samfélagsins í draumsýn, eða þá að sósíalisminn er engin draumsýn, en þá fær kenningin um "aðlögunartækin" ekki staðist. That is the question, það er spurningin.

 

2. Aðlögun auðvaldskerfisins

Mikilvægustu tækin til að laga efnahagslíf auðvaldsins að þörfum þess samkvæmt Bernstein eru lánakerfið, bætt samgöngutæki og samtök atvinnurekenda.

Ef við nú hugum fyrst að lánakerfinu, þá hefur það margskonar hlutverk í efnahagslífi auðvaldsins en mikilvægast er, eins og alkunna er, að auka útþenslumöguleika framleiðslunnar, að annast dreifingu og auðvelda hana. Auðvaldsframleiðsla hefur innbyggða hneigð til takmarkalausrar útþenslu, en hún rekst á takmörk einkaeignarréttarins, tiltölulega þröng mörk einkaauðmagnsins. Þá birtist lánakerfið sem tæki til að yfirvinna þessi takmörk á auðvaldshátt, að sameina margskipt einkaauðmagn í eitt, - hlutafélög og veita einum auðherra vald yfir auðmagni annarra - iðnlán. Sem viðskiptalán hraðar það hinsvegar vöruskiptum, sem sé straumi fjármagnsins aftur inn í framleiðsluna, það hraðar allri hringrás framleiðsluferlisins. Auðséð er hvaða áhrif þessi tvö mikilvægustu hlutverk lánakerfisins hafa á kreppumyndun. Alkunna er, að kreppur stafa af andstæðunum milli útþenslugetu og útþensluhneigðar framleiðslunnar annarsvegar og takmarkaðrar neyslugetu hinsvegar. Því er lánakerfið, samkvæmt ofansögðu, hreint úrvalstæki til að magna þessar andstæður sem oftast í sprengingu. Framar öllu eykur það útþenslugetu framleiðslunnar óskaplega og myndar innra hreyfiafl til að reka hana sífellt út yfir takmörk markaðsins. En það er tvíeggjað sverð. Sem þáttur í framleiðsluferlinu, magnaði það upp offramleiðslu. En í kreppunni þegar það er notað til vöruskipta slær það þeim mun betur niður þau framleiðsluöfl, sem það sjálft vakti upp. Við fyrstu merki stöðnunar skreppa lánsmöguleikar saman, bregðast dreifingarkerfinu þegar þeirra þyrfti nauðsynlega, reynast sem sagt áhrifalausir og tilgangslausir þar sem þá er enn að hafa og skerða þannig neyslugetuna niður í lágmark meðan kreppan stendur.

Fyrir utan þessar tvær mikilvægustu afleiðingar hefur lánakerfið enn margvísleg áhrif á kreppumyndun. Það er ekki einungis tæki til að veita auðherra umráð yfir auðmagni annarra, heldur rekur hann líka til að fara djarflega og tillitslaust með eignir annarra, semsagt í hæpið gróðabrall. Ekki aðeins skerpir þessi ótrúi hringrásarhvati kreppuna, heldur vekur hana einnig og útbreiðir, þar sem hann breytir hringrásinni í afar margbrotið og tilbúið kerfi, sem hefur sem minnst af málmpeningum að grundvelli og leiðir því til truflunar hennar af minnsta tilefni.

Því fer þá svo víðsfjarri að lánakerfið dugi til að milda kreppur, hvað þá útrýma þeim, að það er þvert á móti sérlega sterkur þáttur í myndun kreppu. Og þetta getur ekki öðruvísi verið. Almennt talað er sérstakt hlutverk lánakerfisins ekkert annað en að reka hinn minnsta stöðugleika burt úr hverjum krók og kima auðvaldskerfisins og koma alls staðar inn sem mestum sveigjanleika, gera öll auðvaldsöfl sem mest teygjanleg, afstæð og næm. Það er augljóst að við þetta verður hættara við kreppum, og þær örðugri, þær eru ekkert annað en endurtekinn árekstur andstæðra afla í efnahagslífi auðvaldsins.

En þetta leiðir okkur þegar að hinni spurningunni, hvernig lánakerfið getur yfirleitt birst sem aðlögunartæki auðvaldskerfisins. Í hvaða sambandi og hvaða mynd sem menn hugsa sér "aðlögun" með hjálp lánakerfisins, getur hún aðeins falist í því að einhverjar andstæður efnahagslífs auðvaldsins séu jafnaðar, einhverjar andstæður þess upphafnar eða slævðar og hinum heftu öflum þannig einhvers staðar veitt útrás. En í efnahagslífi auðvaldsins nú á tímum er það einmitt lánakerfið sem magnar allar andstæður þess sem mest. Það magnar andstæður framleiðsluhátta og dreifingarhátta, því það spennir framleiðsluna til hins ítrasta, en lamar dreifinguna af minnsta tilefni. Það magnar andstæður framleiðsluhátta og eignunarhátta, því það aðskilur framleiðslu frá eign, því það gerir framleiðsluauðmagnið félagslegt, en hluta gróðans breytir það í vexti af auðmagni, semsagt í hreina eignakröfu. Það magnar andstæður eignar og framleiðsluhátta, því með ofríki sviptir það marga smáa auðherra eignum þeirra og sameinar óskapleg framleiðsluöfl á fáar hendur. Það magnar andstæður milli félagslegs eðlis framleiðslunnar og einkaeignar auðvaldsins, því það gerir ríkinu nauðsynlegt að grípa inn í framleiðsluna (hlutafélög).

Í stuttu máli sagt, lánakerfið endurskapar allar helstu andstæður auðvaldsheimsins, leiðir þær út í öfgar, afhúpar ófullkomleika hans, eykur hraðann á leið hans til eigin tortímingar, hrunsins. Fyrsta aðlögunartæki auðvaldsins hvað lánakerfið varðar, þyrfti þessvegna að vera að afnema lánakerfið, hverfa aftur fyrir upphaf þess. Eins og það er, er það ekki aðlögunartæki, heldur mjög byltingarsinnað eyðileggingartæki. Einmitt þetta byltingareðli lánakerfisins, að það yfirstígur auðvaldið, hefur leitt til áætlana um endurbætur með sósíalískum blæ, og valdið því að miklir talsmenn lánakerfisins hafa virst ýmist spámenn eða ræflar, svo sem Marx orðaði það.

Sama blekkingin reynist við nánari skoðun annað "aðlögunartæki" auðvaldsframleikslunnar, samtök atvinnurekenda. Með því að koma reglu á framleiðsluna eiga þau samkvæmt Bernstein að stöðva stjórnleysið og komast hjá kreppum. Þróun samsteypna og sambanda hefur margvísleg hagfræðileg áhrif, og hefur raunar ekki verið rannsökuð. Þetta vandamál verður aðeins leyst með aðferðum Marx. En svo mikið er alltént ljóst að aðeins yrði hægt að segja að sambönd atvinnurekenda reistu skorður við stjórnleysi auðvaldsins i þeim mæli sem samsteypur, auðhringir o. s.frv. yrðu almennt drottnandi mynd framleiðslunnar. En einmitt það er útilokað af sjálfu eðli samsteypnanna. Efnahagslegur megintilgangur atvinnurekendasambanda og áhrif felast í því að auka hlut einnar iðngreinar í þeim gróða sem er að hafa á vörumarkaðinum, með því að útiloka samkeppnisaðilja innan greinarinnar. Samtökin geta aukið gróðahlutfallið í einni iðngrein einungis á kostnað annarra, og því geta þau einmitt með engu móti orðið almenn. Yrðu þau þanin út á allar helstu framleiðslugreinar, misstu þau marks.

En einnig innan raunverulegra marka atvinnurekendasambanda eru áhrif þeirra þveröfug við að útrýma stjórnleysi í iðnaðinum. Umræddri hækkun gróðahlutfallsins ná samsteypurnar venjulega þannig á innra markaði að þann hluta auðmagnsins, sem þær þurfa ekki heima fyrir, láta þær framleiða fyrir útlönd með miklu lægra gróðahlutfalli, þ.e. selja vörur sínar ódýrar. Afleiðingin er harðari samkeppni erlendis, aukið stjórnleysi á heimsmarkaðinum, þ.e. einmitt andstæða þess sem stefnt var að. Dæmi þessa er ástandið í sykuriðnaðinum núna.

Loks eru atvinnurekendasambönd aðeins millibilsástand framleiðsluhátta auðvaldsins, ákveðið stig auðvaldsþróunar. Svo sannarlega! Þegar allt kemur til alls eru samsteypur eiginlega tæki framleiðsluhátta auðvaldsins til að halda aftur af hinni örlagaríku lækkun gróðahlutfallsins - í einstökum framleiðslugreinum. En hvaða aðferð nota samsteypurnar í þessum tilgangi? Í rauninni er aðferðin einungis að láta hluta upphlaðins auðmagns ónotaðan, þ, e. sama aðferð og notuð er í annarri mynd í kreppum. En þvílíkt lyf líkist sjúkdómnum einsog einn regndropi líkist öðrum, og getur aðeins talist illskárra að vissu tímamarki. Fari nú sölumarkaðurinn að þrengjast þegar heimsmarkaðurinn hefur verið ræktaður til hins ítrasta og gjörnýttur af auðvaldslöndum í samkeppni og greinilega er ekki hægt að neita því að fyrr eða síðar kemur að þeim tíma, þá neyðast menn tilað láta svo stóran hluta auðmagnsins ónotaðan, að lyfið sjálft breytist í sjúkdóm og það auðmagn sem samtökin höfðu gert svo félagslegt, breytist aftur í einkaauðmagn. Þegar orðið er mun erfiðara en áður að finna sér svolítið olnbogarými á sölumarkaðinum, þykir hverjum sem eitthvert auðmagn á, betra að freista gæfunnar á eigin spýtur, Samtökin hljóta þá að springa einsog sápukúlur og víkja fyrir frjálsri samkeppni í öflugri mynd[3].

Á heildina litið birtast þá einnig samsteypurnar einsog lánakerfið sem sérstök þróunarstig, sem endanlega magna einungis stjórnleysi auðvaldsins, leiða innbyggðar andstæður þess fram í dagsljósið og þroska þær. Samsteypurnar skerpa andstæður framleiðsluhátta og dreifingarhátta með því að magna baráttu framleiðenda og neytenda til hins ítrasta, einsog sést nú best í Bandaríkjunum. Þær skerpa ennfremur andstæður framleiðslu- og eignunarhátta, er þær stilla verkalýðnum upp andspænis ofurvaldi skipulagðs auðmagns og efla þannig andstæður auðmagns og vinnuafls eins og mögulegt er.

Þær skerpa loks andstæður efnahagslífs auðvaldsins á heimsmælikvarða og þjóðareðlis auðvaldsríkja, þarsem þeim fylgir almennt tollastríð, og þannig magna þær úlfúð milli einstakra auðvaldsríkja til hins ítrasta. Við bætast feiknleg byltingaráhrif samsteypnanna á samþjöppun framleiðslunnar, tæknilega fullkomnun o.s.frv.

Þannig koma fram endanleg áhrif samsteypna og samlaga á efnahagslíf auðvaldsins. Ekki aðeins eru þær ekkert "aðlögunartæki", sem þurrki út andstæður þess, heldur eru þær eitt þeirra tækja sem það hefur sjálft skapað til að auka á eigið stjórnleysi, til að skera úr milli andstæðra afla þess, til að flýta fyrir eigin endalokum.

En ef lánakerfið, samsteypurnar og því um líkt ekki útrýmir stjórnleysi efnahagslífs auðvaldsins, hvernig stendur þá á því að síðastliðna tvo áratugi, síðan 1873 hafa ekki orðið neinar almennar viðskiptakreppur? Er það ekki til marks um að framleiðsluhættir auðvaldsins hafi a.m. k. í aðalatriðum raunverulega "aðlagast" þörfum samfélagsins og að skilgreining Marx sé úrelt?

Svarið kom beint á eftir spurningunni. Ekki var Bernstein fyrr búinn að varpa kreppukenningu Marx á haugana, 1898, en heiftúðug almenn kreppa braust út, árið 1900, og 1907 kom önnur kreppa frá Bandaríkjunum yfir Evrópu. Háværar staðreyndirnar slógu þannig niður kenninguna um "aðlögun" auðvaldskerfisins. Jafnframt sannaðist, að þeir sem fórnuðu kreppukenningu Marx, einungis af því hún hafði brugðist á tveimur áætluðum "gjalddögum", höfðu villst á kjarna þessarar kenningar, og óverulegu, ytra formeinkenni, að hún kæmi á tíu ára fresti. En þegar Marx og Engels töluðu um tíu ára hringrás nútímaiðnaðar auðvaldsins á 7. og 8. áratuginum, þá voru þeir aðeins að geta staðreyndar, sem byggðist alls ekki á neinum náttúrulögmálum, heldur á vissum sögulegum aðstæðum, sem tengdust því að ungt auðvaldskerfið þandi út áhrifasvæði sitt í stökkum[4]. Og reyndar var kreppan 1825 afleiðing hinna miklu framkvæmda við gatnagerð, skipaskurði og gasstöðvar næsta áratug á undan, einkum í Englandi þar sem kreppan varð. Næsta kreppa, 1836-9 var einnig afleiðing stórkostlegra framkvæmda við ný samgöngutæki. Kreppan 1847 stafaði einsog alkunna er af óskaplegum járnbrautarframkvæmdum í Englandi (1844-47 þ. e. á einungis þremur árum veitti þingið leyfi fyrir nýjum járnbrautum fyrir 11/2 milljarð Taler!). Í öllum þremur tilvikum voru það þá ýmsar myndir nýskipanar efnahagslífs auðvaldsinssem leiddi til kreppu, vegna þess að nýr grundvöllur hafði verið lagður undir auðvaldsþróunina. 1857 hlýst kreppan af því að skyndilega opnaðist nýr markaður fyrir evrópskan iðnvarning í Ameríku og Astralíu þegar þar fundust gullnámur. Í Frakklandi hlaust hún af járnbrautarframkvæmdum, er það fylgdi Englandi ( 1852-6 voru lagðar nýjar járnbrautir í Frakklandi fyrir 11/4 milljarð franka). Kreppan mikla 1873 er loks, einsog alkunna er, bein afleiðing nýskipanar, fyrstu stökkþróunar stóriðnaðarins í Þýskalandi og Austurríki, sem leiddi af stjórnmálaviðburðunum 1866 og 1871.

Það var því ævinlega skyndileg víkkun á leiksviði efnahagslífs auðvaldsins sem olli umliðnum viðskiptakreppum og ekki þrenging þess, ekki að þetta efnahagslíf væri komið í þrot. Það reynist þá vera yfirborðsleg tilviljun að umliðnar alþjóðlegar kreppur urðu einmitt á tíu ára fresti. Yfirlit Marx um uppkomu kreppna, einsog hann setti það fram í I. og III. bindi Auðmagnsins og Engels í Anti-Dühring, á aðeins að því leyti við umliðnar kreppur, að það sýnir innri hreyfiöfl allra kreppna, djúpar, almennar orsakir þeirra, hvort sem þær svo koma á 10, 5, 20 eða 8 ára fresti. En það sannar best ágalla kenninga Bernsteins, að síðasta kreppan, 1907-8, geisaði mest, einmitt í því landi þar sem hin frægu "aðlögunartæki" auðvaldsins hafa best þróast, lánakerfi, fréttaþjónusta og auðhringar[5]. Sú hugmynd að auðvaldsframleiðslan geti "aðlagast" dreifingunni byggist annaðhvort á þeirri forsendu að heimsmarkaðurinn vaxi takmarkalaust og óendanlega, eða hinsvegar þeirri að vöxtur framleiðsluaflanna verði heftur, svo að þau æði ekki útyfir takmörk markaðsins. Hið fyrra er efnislega ómögulegt, gegn hinu síðara mælir sú staðreynd að tæknibyltingar verða stöðugt á öllum sviðum framleiðslunnar og vekja hvern dag ný framleiðsluöfl til lífsins.

Bernstein telur enn eitt fyrirbæri brjóta í bág við þessa mynd auðvaldsins. Hann beindir á "alveg óhagganlega breiðfylkingu" meðalstórra fyrirtækja. Þau eru honum til marks um að þróun stóriðju sé ekki sú umbylting og samþjöppun, sem búast hefði mátt við samkvæmt "hrunkenningunni". En einnig hér er hann fórnarlamb eigin misskilnings. Það væri sannarlega misskilningur á þróun stóriðju að vænta þess af henni að meðalstór fyrirtæki hyrfu smám saman af sjónarsviðinu.

Í auðvaldsþróun almennt er hlutverk smáauðmagnsins einmitt að annast tæknibyltingu, svosem Marx ætlaði. Það er á tvo vegu, bæði að innleiða nýjar framleiðsluaðferðir í gömlum og rótgrónum iðngreinum, og einnig að skapa nýjar framleiðslugreinar, sem stórauðvaldið hefur enn alls ekki hagnýtt sér. Alrangt væri að líta svo á að hnignun meðalstórra auðvaldsfyrirtækja verði í beinni línu niður, fall niður tröppur. Raunveruleg leið þróunarinnar fer þvert á móti alveg eftir þráttarhyggju [díalektík, þýð.], einnig hér, og slæst sífellt á milli andstæðna. Auðvaldsmillistéttin er, rétt eins og verkalýðsstéttin, leiksoppur tveggja andstæðra hneigða. Önnur hefur hana upp, hin þrýstir henni niður. Sú síðarnefnda er auðvitað síendurtekin stækkun eininga framleiðsluþrepa. Með reglubundnu millibili fer hún fram úr umfangi meðalauðmagns og þeytir því þannig aftur og aftur úr samkeppninni. Hneigðin til upphafningar er, að auðmagnið sem til er hverju sinni, fellur í gildi með reglulegu millibili, framleiðsluþrepin lækka um stund, miðað við gildi nauðsynlegs lágmarksauðmagns og auðvaldsframleiðslan brýst inn á ný svið.

Baráttu meðalstórra fyrirtækja við stórauðvaldið má ekki hugsa sér sem reglulega orrustu þar sem liðsafli hins veikari minnkar beinlínis stöðugt. Réttari mynd er að smáauðvaldið sé slegið reglulega eins og gras, spretti svo ævinlega hratt aftur og sé slegið að nýju með ljá stóriðjunnar. Tvær hneigðir togast á um auðvaldsmillistétt, að lokum sigrar sú sem þrýstir henni niður, öfugt við þróun verkalýðsstéttarinnar. En það þarf alls ekki að birtast í því að meðalfyrirtækjum fækki beinlínis, heldur í fyrsta lagi í því, að stöðugt eykst það auðmagn sem þarf að minnsta kosti til atvinnurekstrar í gömlum iðngreinum, í öðru lagi að stöðugt skemmri tíma fær smáauðvaldið að sitja eitt að nýjum iðngreinum. Af þessu leiðir stöðugt styttra líf fyrir einstakt smáauðmagn, sífellt hraðari umskipti framleiðsluhátta og hvernig fjárfest er, og fyrir stéttina í heild sífellt hraðari félagsleg efnaskipti.

Það síðasttalda veit Bernstein mætavel og hann leiðir það sjálfur í ljós. En hann virðist gleyma, að þarmeð er komið lögmál auðvaldsþróunar meðalfyrirtækja. Fyrst smáauðvaldið er framvörður tækniframfara, og tækniframfarir eru hjartsláttur efnahagslífs auðvaldsins, þá er smáauðvaldið óaðskiljanlegur fylgifiskur auðvaldsþróunar og hverfur ekki fyrr en með henni. Ef meðalfyrirtæki hyrfu smám saman, reiknað í beinum hagtölum, eins og Bernstein segir, þá táknaði það ekki byltingarþróun auðvaldsins, eins og hann álítur, heldur þvert á móti stöðnun þess og dá. "Gróðahlutfallið, þ.e. hlutfallslegur vöxtur auðmagnsins, er sérlega mikilvægt fyrir alla nýja auðmagnssprota, sem eru að verða sjálfstæðir. Og um leið og auðmagnsmyndun kæmist algerlega í hendur fáeinna fullvaxinna stórauðhringa - væri lífsglóð framleiðslunnar slokknuð. Hún hnigi í dvala"[6].

 

3. Sósíalisma komið á með þjóðfélagsumbótum

Bernstein hafnar "hrunkenningunni" sem sögulegri leið til at koma á sósíalísku samfélagi. Hvaða leið er til þess frá sjónarmiði "aðlögunarhæfni auðvaldsins"? Bernstein hefur einungis gefið í skyn svarið við því, Konrad Schmidt hefur reynt að svara henni ítarlegar í anda Bernsteins[7]. Samkvæmt honum mun "barátta verkalýðsfélaga og pólitísk barátta fyrir félagslegum umbótum leiða til sífellt víðtækara félagslegs eftirlits með framleiðsluaðstæðum" og með löggjöf "verði réttindi auðmagnseigenda takmörkuð æ meir, uns þeir verði komnir niður í hlutverk ráðsmanna". "Niðurbrotnir auðherrarnir sjá eign sína verða þeim sjálfum æ minna virði, uns forstaða og stjórn fyrirtækjanna er loks af þeim tekin" og félagslegum rekstri þannig endanlega komið á.

Semsagt, tækin til at koma sósíalisma á, smátt og smátt, eru verkalýðsfélög, félagslegar umbætur og ennfremur, segir Bernstein, pólitísk lýðræðisþróun ríkisins.

Ef við lítum fyrst á verkalýðsfélögin, þá er mikilvægasta hlutverk þeirra að fullnægja launalögmáli auðvaldsins fyrir hönd verkamanna, þ. e. tryggja að vinnuaflið sé selt á markaðsverði þess á hverjum tíma. Enginn hefur sýnt þetta betur en einmitt Bernstein sjálfur árið 1891 í Neue Zeit. Gagnsemi verkalýðsfélaganna fyrir öreigastéttina felst í því at notfæra sér markaðsaðstæður á hverjum tíma. En þessar markaðsaðstæður sjálfar liggja utan við áhrifasvæði verkalýðsfélaganna. Annars vegar ákvarðast eftirspurn eftir vinnuafli af stöðu framleiðslunnar, hinsvegar ákvarðast framboð vinnuaflsins af eðlilegri tímgun öreigastéttarinnar og hve margir sökkva niður í hana úr millihópum. Sama gildir um framleiðni vinnuaflsins, verkalýðsfélögin ráða henni ekki. Þau geta því ekki kollvarpað launalögmálinu, þau geta í mesta lagi hamið arðrán auðvaldsins innan "eðlilegra" marka hverju sinni, en með engu móti afnumið sjálft arðránið skref fyrir skref.

Konrad Schmidt kallar núverandi verkalýðshreyfingu reyndar "veikburða byrjun" og staðhæfir að í framtíðinni muni "verkalýðsfélögin ná sífellt meiri áhrifum a stjórn framleiðslunnar sjálfrar". Stjórn framleiðslunnar getur aðeins merkt tvennt: annars vegar at hafa áhrif á tæknilega hlið framleiðsluferlisins og hinsvegar að ákveða umfang sjálfrar framleiðslunnar. Hver geta nú áhrif verkalýðsfélaganna orðið á þessum tveimur sviðum? Það er ljóst, at hvað snertir framleiðslutækni falla hagsmunir einstaks auðherra alveg að framförum og þróun efnahaglífs auðvaldsins innan vissra marka. Eigin neyð hans rekur hann til tæknilegra framfara. Aftur á móti er afstaða einstaks verkamanns alveg andstæð: sérhver tæknibylting stríðir gegn hagsmunum verkamannanna sem hún snertir beinlínis, staða þeirra verður verri, þar sem vinnuafl þeirra verður minna virði. Svo fremi að verkalýðsfélag geti haft áhrif á tæknilega hlið framleiðslunnar, getur það einungis starfað í þágu verkamannanna sem eiga beinlínis hlut að máli, þ.e. beitt sér gegn nýjungum. En þá starfar það ekki í þágu verkalýðsstéttarinnar sem heildar, og frelsunar hennar, því hún fer saman við tækniframfarir, þ. e. við hagsmuni einstakra auðherra, þvert á móti, það starfar þá í þágu afturhaldsstefnu. Og reyndar finnum við viðleitni til að hafa áhrif á tæknilega hlið framleiðslunnar, ekki í framtíð verkalýðsfélaganna, þar sem Konrad Schmidt leitar hennar, heldur í fortíð þeirra. Hún einkennir fyrra stig ensku verkalýðshreyfingarinnar (fram á sjöunda áratuginn). Hún tengdist þá enn gildum miðalda, byggðist enda á hinni úreltu stefnu um "áunninn rétt til viðeigandi vinnu"[8]. Viðleitni verkalýðsfélaga til að ákvarða umfang framleiðslunnar og vöruverð, er hinsvegar alveg nýtt fyrirbæri. Aðeins á allra síðustu tímum koma í ljós tilraunir til þess, og aftur, einungis i Englandi. (s. r., bls. 115 o. áfr. ). Þær eru hinum þó alveg jafngildar að eðli og stefnu. Því við hvað hlýtur virk þátttaka verkalýðsfélaga í að ákvarða magn og verð vöruframleiðslunnar að takmarkast? Við bandalag verkamanna við atvinnurekendur gegn neytendum, við kúgunaraðgerðir þessa bandalags gegn öðrum atvinnurekendum sem eru í samkeppni við þá fyrrnefndu, þær standa aðgerðum venjulegra atvinnurekendasambanda í engu að baki. Þetta er í rauninni ekki lengur nein barátta milli vinnuafls og auðmagns, heldur sameiginleg barátta þeirra gegn samfélaginu sem neytendum. Að félagslegu gildi er þetta upphaf afturhaldsstefnu og getur ekki verið liður i frelsisbaráttu öreigastéttarinnar af því að þetta er nánast andstæða stéttabaráttu. Að hagnýtu gildi er þetta skýjaborg. Ekki þarf lengi að hugsa málið til að sjá að þetta getur aldrei náð til meiri háttar iðngreina, sem framleiða fyrir heimsmarkað.

Starfsemi verkalýðsfélaga takmarkast þá einkum við launabaráttu og styttingu vinnutímans, þ. e. einungis við að stilla arðrán auðvaldsins eftir markaðsaðstæðum hverju sinni. Það liggur í hlutarins eðli að þau geta ekki haft áhrif á framleiðsluferlið. Já, ekki nóg með það, öll þróun verkalýðsfélaga stefnir í öfuga átt við það sem Konrad Schmidt telur, nefnilega að því að losa vinnumarkaðinn algerlega úr öllum beinum tengslum við vörumarkaðinn að öðru leyti. Best sést það á því, að það er jafnvel orðið úrelt að reyna að tengja vinnusamninga sjálfvirkt við stöðu framleiðslunnar, með breytilegum launastiga, og að ensku verkalýðsfélögin hverfa æ meir frá þessu.

En einnig innan raunverulegra marka áhrifavalds verkalýðsfélaganna stefnir þróun þeirra ekki á takmarkalausa útvíkkun, eins og kenningin um aðlögun auðvaldsins gerir ráð fyrir. Þvert á móti! Ef litið er yfir langt tímabil félagslegrar þróunar, þá er ekki hægt að loka augunum fyrir því að verkalýðsfélög stefna á - ekki mikla uppgangstíma - heldur á vaxandi örðugleika. Þegar iðnþróun nær hámarki og tekur að halla undan fæti fyrir auðmagninu á heimsmarkaðinum, þá verður verkalýðsbaráttan hálfu erfiðari. Í fyrsta lagi versna markaðsaðstæður fyrir vinnuaflið, því eftirspurn eftir því stígur hægar en nú er, en framboð þess hraðar. Í öðru lagi seilast auðherrarnir sjálfir eftir hlut verkamanna í afurðunum, harðsvíraðri en áður til að bæta sér upp tjónið á heimsmarkaðinum. Lækkun vinnulauna er ein hinna mikilvægustu aðferða til að stöðva lækkun gróðahlutfallsins[9]. Í Englandi birtist okkur þegar upphaf annars stigs í verkalýðsfélögunum. Þau eru tilneydd að takmarka sig æ meir við það eitt að verja það sem þegar hefur náðst, og einnig það verður sífellt erfiðara. Þetta er gangur mála almennt, en hin hliðin á honum er óhjákvæmilega uppgangur pólitískrar og sósíalískrar stéttabaráttu.

Þessa sömu villu - að snúa söguþróuninni við - fremur Konrad Schmidt er hann ræðir félagslegar umbætur. Hann staðhæfir að þær muni, "ásamt verkalýðsfélögum, setja auðstéttinni kosti um hvernig hún megi hagnýta sér vinnuafl." Með þvílíkum skilningi á félagslegum umbótum kallar Bernstein verksmiðjulögin áfanga í "félagslegu eftirliti" og sem slík áfanga í að koma á sósíalisma. Konrad Schmidt segir líka alltaf "samfélagslegt eftirlit" þegar hann er að tala um opinbera vinnuvernd, og eftir að honum hefur þannig tekist að breyta ríkinu í samfélag, getur hann hughraustur bætt við: "þ.e. verkalýðsstéttin í framsókn" og með þessum aðferðum breytast sakleysislegar reglur þýska sambandsráðsins um vinnuvernd í sósíalíska umbreytingu á vegum þýskrar öreigastéttar.

Augljóslega er verið að villa mönnum sýn. Ríkið sem við búum við er nefnilega ekkert "samfélag" i merkingunni "verkalýðsstétt í framsókn", heldur fulltrúi auðvaldssamfélagsins, þ. e. stéttarríki. Því eru líka félagslegar umbætur þess ekki "samfélagslegt eftirlit", þ.e. eftirlit frjáls, vinnandi samfélags með eigin vinnuferli, heldur eftirlit stéttarskipulags auðmagnsins með framleiðsluferli auðmagnsins. Þar eru félagslegum umbótum líka sett eðlileg takmörk, þ. e. þar sem hagsmunir auðvaldsins setja þau. En vissulega sjá Bernstein og Konrad Schmidt aðeins "veikburða byrjun" núna, einnig hvað þetta varðar og heita sér endalaust vaxandi félagslegum umbótum verkalýðnum til handa í framtíðinni. En þar gera þeir sömu skyssu einsog þegar þeir gerðu ráð fyrir að völd verkalýðshreyfingarinnar vaxi takmarkalaust.

Kenningin um að sósíalismi komist á við hægfara félagslegar umbætur hefur að forsendu ákveðna hlutlæga þróun bæði auðvaldseignar og ríkisins. Þetta er meginatriðið. Hvað hið fyrrnefnda varðar, verður framtíðarþróunin samkvæmt Konrad Schmidt að þrýsta auðherrum meira og meira niður á stig ráðsmanns með þvi að takmarka réttindi þeirra". Þar sem Konrad Schmidt heldur því fram að ómögulegt sé að taka framleiðslutækin eignarnámi skyndilega, í eitt skipti fyrir öll, smíðar hann sér kenningu um að taka þau eignarnámi skref fyrir skref. Sem nauðsynlega forsendu þess hlutar hann eignarréttinn sundur í "yfireignarrétt", sem hann úthlutar "samfélaginu" og sem hann vill láta þenjast æ meira út, og afneyslurétt í höndum auðherranna sem skreppur æ meira saman í hreina ráðsmennsku í fyrirtækjum þeirra. Nú má líta á þessa útlistun sem saklausan orðaleik sem engar mikilvægar hugsanir felast í. Þá eru engin rök fyrir kenningunni um hægfara eignarnám. Hinn kosturinn er að talað sé af alvöru um réttarþróun. En þá er þetta alrangt. Niðurhlutun eignarréttar í mismunandi réttindi, sú sem Konrad Schmidt treystir á fyrir "eignarnám auðmagnsins skref fyrir skref", er dæmigerð fyrir samfélag lénskipulagsins. Það einkenndist af frumframleiðslu, afurðunum var beinlínis skipt milli mismunandi þjóðfélagsstétta og eftir persónulegu sambandi lénsherra og þegna hans. Skipting eignarréttar í ýmsa hluta var fyrirfram gefinn háttur skiptingar samfélagseigna. Þegar vöruframleiðsla kom í stað þessa og öll persónuleg tengsl einstakra aðilja framleiðsluferlisins leystust upp, þróuðust í staðinn tengsl milli manns og hluta - einkaeignarrétturinn. Þar sem skiptingin byggist ekki lengur á persónulegu sambandi, heldur á vöruskiptum, byggjast hinar ýmsu kröfur um hlutdeild í samfélagseign ekki a hluta eignarréttar til sama hlutar, heldur á því verðmæti sem hver og einn ber á markaðstorg. Fyrstu breytingar á réttarsambandi, sem fylgdu því að vöruframleiðsla hófst í borgasamfélögum miðalda, var líka uppkoma algers, afmarkaðs einkaeignarréttar í skauti réttarkerfis miðalda með niðurskiptum eignarrétti. Þetta þróast svo áfram í auðvaldsframleiðslunni. Því félagslegra sem framleiðsluferlið verður, því meira byggist skipting jarðneskra eigna á hreinum vöruskiptum, og þeim mun ósnertanlegri og afmarkaðri verður einaeignarréttur auðvaldsins, því meir breytist eignaréttur á auðmagni úr rétti til afurðar eigin vinnu í rétt til að eigna sér afurðir vinnu annarra. Á meðan auðherra stjórnar verksmiðjunni sjálfur, tengist skiptingin enn að vissu marki persónulegri þátttöku í framleiðsluferlinu. Í þeim mæli, sem persónuleg stjórn verksmiðjueigandans verður óþörf, losnar auðmagnseign sem forsenda kröfu til hlutdeildar við skiptinguna alveg frá persónulegum tengslum við framleiðsluna og kemur fram í sinni hreinustu, afmörkuðustu mynd. Fullkomlega gerist þetta í hlutafélögum, Eignarréttur auðvaldsins nær fyrst fullum þroska i hlutafé og lánsfé til iðnaðar.

Það kemur þá í ljós að söguleg þróun auðherra samkvæmt Konrad Schmidt "frá eiganda til ráðsmanns eingöngu" er raunveruleg söguþróun, steypt á hausinn. Því hún lá frá eiganda og ráðsmanni til eiganda eingöngu. Hér fer fyrir Konrad Schmidt eins og Goethe:

Það sem hann á, það sér hann sem í fjarlægð
og hitt sem hvarf, nú virðist vera nálægt.

Efnahagslega fer söguþróun hans frá hlutafélögum nútímans aftur til handiðjuverksmiðju eða jafnvel til handverkstæðis. Og réttarlega vill hann troða auðvaldsheiminum aftur í eggjaskurn frumframleiðslu lénstímabilsins.

Frá þessu sjónarhorni birtist "samfélagslegt eftirlit" í öðru ljósi en Konrad Schmidt sér það í. Það sem nú gegnur undir nafninu "samfélagslegt eftirlit" - vinnuvernd, eftirlit með hlutaafélögum o.s.frv. - snertir satt að segja alls ekkert hlutdeild í eignarrétti, "yfireignarrétt". Þetta er ekki takmörkun á eignarrétti auðvalds, heldur þvert á móti verndun hans. Eða, efnahagslega séð, þetta skerðir ekki arðrán auðvaldskerfisins, heldur kemur á það fastri skipan. Og þegar Bernstein varpar fram spurningunni hvort mikill eða lítill sósíalismi sé í verksmiðjulögunum, þá get ég fullvissað hann um að jafnvel í hinum allra bestu verksmiðjulögum er nákvæmlega jafnmikill sósíalismi og í opinberum reglugerðum um sorphreinsun og ljósatíma götuljósa, það er einnig "samfélagslegt eftirlit".

 

4. Tollastefna og hernaðarstefna.

Önnur forsenda Ed. Bernstein fyrir hægfara þróun til sósíalisma er að ríkið þróist yfir í samfélag. Það er alkunna orðið að núverandi ríki er stéttarríki. En að minni hyggju verður að skilja þessa setningu, eins og allt sem varðar auðvaldssamfélagið, ekki sem kyrrstæðan, endanlegan sannleika heldur sem fljótandi þróun.

Með pólitískum sigri borgarastéttarinnar varð ríkið auðvaldsríki. Reyndar breytir sjálf auðvaldsþróunin eðli ríkisins verulega, því hún víkkar stöðugt áhrifasvæði þess, fær því sífellt ný verkefni, einkum hvað varðar efnahagslífið, afskipti ríkisins og eftirlit með því verða æ nauðsynlegri. Þannig fer fram hægfara undirbúningur þess að ríkið renni saman við samfélagið, að hlutverk ríkisins falli aftur til samfélagsins, ef svo mætti segja. Í þessum skilningi má líka tala um að auðvaldsríkið þróist yfir til samfélags, og í þessum skilningi er það vafalaust sem Marx segir að vinnuvernd sé fyrstu meðvituðu afskipti samfélagsins af félagslegu lífi sínu, en á þeim orðum byggir Bernstein.

En hinsvegar veldur sama auðvaldsþróun annarri breytingu á eðli ríkisins. Í fyrsta lagi er nútíma ríki skipulagning ríkjandi stéttar, auðherranna. Það tekur að sér ýmsa starfsemi í almannahag til að samfélagið þróist. En það rækir þessa starfsemi aðeins í þeim tilgangi og að svo miklu leyti sem almannahagur og samfélagsþróun fer saman við hagsmuni ríkjandi stéttar almennt. Vinnuvernd t.d. er jafnmikið beint hagsmunamál auðherranna sem stéttar eins og samfélagsins í heild. En þessi samstaða ríkir aðeins að vissu stigi auðvaldþróunar. Þegar þróunin hefur náð vissu hámarki, fara hagsmunir borgarastéttarinnar að aðgreinast frá því sem hentaði efnahagslegri þróun, jafnvel auðvaldskerfisins. Ég álít að þetta skeið sé þegar hafið og það sést á tveimur mikilvægurstu fyrirbærum nútímasamfélags; á tollastefnu og hernaðarstefnu. Hvort tveggja hefur þetta verið ómissandi í sögu auðvaldsins og að sama skapi framfaraafl, byltingarafl. Án tollverndar hefði stóriðnaður ekki getað komist á laggir í einstökum löndum. Nú er ástandið annað. Nú er tollvernd ekki til að koma ungum iðngreinum til þroska, heldur til að halda úreltum framleiðsluformum við lýði[10]. Frá sjónarhóli auðvaldsþróunar, þ. e. frá sjónarmiði efnahagslífs á heimsmælikvarða, skiptir nú engu máli hvort vöruflutningur er meiri frá Þýskalandi til Englands eða frá Englandi til Þýskalands. Frá þessu sjónarmiði þróunar hefur þá márinn unnið verk sitt og mætti fara. Já, hann þyrfti meira að segja að fara. Mismunandi iðngreinar eru hver annarri nú svo háðar að verndartollar á einhverjar vörur gera framleiðslu annarra vara innanlands dýrari, þ.e. þeir eru iðnaðinum til trafala. En ef litið er á málið frá sjónarmiði auðstéttarinnar verður annar uppi. Iðnaðurinn þarf ekki verndartolla til að þróast, en atvinnurekendur þurfa þá til að vernda sölumarkað sinn. Það er að segja, tollarnir eru nú ekki lengur til verndar uppvaxandi auðvaldsframleiðslu gegn annarri þróaðri, heldur eru þeir baráttutæki auðherrahóps einnar þjóðar gegn slíkum hópi annarrar. Ennfremur eru tollar ekki lengur nauðsynlegir til að vernda iðnaðinn, til að mynda innlendan markað og ná honum, en þeir eru ómissandi við að mynda hagsmunasamtök iðnaðarins, þ. e. fyrir baráttu auðvaldsframleiðenda við samfélagið sem neytendur. Það sem loks einkennir best eðli tollastefnunnar nú á tímum, er sú staðreynd, að nú er megintilgangur hennar hvarvetna alls ekki verndun iðnaðar heldur landbúnaðar, svo tollastefnan er eiginlega orðin tæki tilað setja auðvaldsmynd á lénska hagsmuni og gæta þeirra þannig.

Sama breyting hefur orðið á hernaðarstefnunni. Ef við skoðum söguna, ekki eins og hún hefði átt að verða eða hefði getað orðið, heldur einsog hún raunverulega varð, þá komumst við að þeirri niðurstöðu, að stríð voru óhjákvæmilegur þáttur auðvaldsþróunar. Um Bandaríki Norður-Ameríku og Þýskaland, Ítalíu og Balkanríkin, Rússland og Pólland verður að segja að forsenda auðvaldsþróunar þeirra allra eða það sem hratt henni af stað, voru stríð, hvort sem þau leiddu til sigur eða ósigurs. Á meðan til voru lönd þar sem þurfti að sigrast á innri sundrungu eða því að hagkerfi þeirra var takmarkað við sjálfsþurftabúskap, hafði einnig hernaðarstefnan byltingarhlutverk í auðvaldsátt. En nú er annar uppi, einnig hér[11]. Þegar nú er hætta á átökum út af heimsmálunum, þá er greinilega ekki svo mjög um að ræða að opna auðvaldinu ný lönd. Miklu fremur hafa fullmótaðar evrópskar andstæður flust til annarra heimshluta og brjótast fram þar. Það sem nú mætist, grátt fyrir járnum, hvort sem er í Evrópu eða öðrum heimshlutum, eru ekki annarsvegar auðvaldsríki, en hinsvegar ríki frumframleiðslu. Nei, það eru ríki, sem eru rekin til átaka hvert við annað einmitt vegna þess að þau eru komin á sama háa þróunarstig auðvaldskerfis. En fyrir þessa þróun sjálfa geta átökin einungis orðið banvæn, ef þau brjótast út. Því þau myndu leiða til hinna mestu áfalla og umbyltinga fyrir efnahagslífið í öllum auðvaldslöndum. En þetta horfir öðruvísi við auðstéttinni. Henni er hernaðarstefnan nú nauðsynleg á þrjá vegu: Ì fyrsta lagi sem baráttutæki "þjóðlegra" hagsmuna í samkeppni við auðherrahópa annarra þjóða, í öðru lagi sem mikilvægasta fjárfestingarsvið bæði fjármálaauðmagns og iðnaðarauðmagns, og í þriðja lagi sem tæki stéttardrottnunar yfir vinnandi alþýðu innanlands. Allt eru þetta hagsmunir, sem eiga ekkert sameiginlegt við þróun framleiðsluhátta auðvaldsins í sjálfu sér. Og það sem best sýnir þetta sérstaka eðli hernaðarstefnu nú á tímum, er í fyrsta lagi almennur vöxtur hennar í öllum löndum, vígbúnaðarkapphlaup sem segja má að magnist vélrænt af innri hreyfiöflum hennar sjálfrar. Þetta var enn alveg óþekkt fyrir fáeinum áratugum. Enn er það, hve komandi sprenging er óhjákvæmileg, örlögþrungin, en um leið er alveg á huldu hvert verður tilefnið, hvaða ríki dragast inn í hana, um hvað verður deilt, og allar nánari aðstæður. Einnig hernaðarstefnan hefur þannig breyst úr hreyfiafli auðvaldsþróunar í sjúkdóm auðvaldsins. Við þann klofning, sem hér hefur verið rætt um, milli samfélagsþróunar og drottnandi stéttarhagsmuna, tekur ríkið afstöðu með hinum síðarnefndu. Stjórnmálastefna þess, eins og borgarastéttarinnar beinist gegn samfélagsþróuninni. Það missir því æ meir þetta hlutverk að vera fulltrúi alls samfélagsins og verður í sama mæli æ meir að hreinu stéttarríki. Eða réttara sagt, þessir tveir eiginleikar þess aðgreinast og skerpast í andstæður innan eðlis ríkisins. Og raunar verða þessar andstæður skarpari með hverjum degi. Því annarsvegar vex almennt hlutverk ríkisins, afskipti þess af lífi samfélagsins, "eftirlit" þess með því. Hinsvegar neyðir stéttareðli þess það æ meir til að flytja starfsemi sína og valdatæki einkum yfir á svið sem gagnast aðeins borgarastéttinni, en eru neikvæð fyrir samfélagið. Þessi svið eru hernaðarstefna, tollastefna og nýlendustefna. Þannig verður einnig "samfélagslegt eftirlit" ríkisins æ gagnsýrðara af hagsmunum drottnandi stéttar (samanber framkvæmd vinnuverndar í öllum löndum).

Þessi breyting á eðli ríkisins er ekki í mótsögn við þróun lýðræðisins, heldur í fullkomnu samræmi við hana. En í þeirri þróun sér Bernstein líka tæki til að koma á sósíalisma, stig of stigi.

Þegar sósíalistar ná meirihluta á þingi á það samkvæmt Konrad Schmidt að verða bein leið til að gera samfélagið þannig sósíalískt, stig af stigi. Lýðræðislegt form stjórnmálalífsins er nú tvímælalaust það sem best sýnir þróun ríkisins til samfélags og er að því leyti áfangi á leiðinni að sósíalískri umbyltingu. En klofningurinn í eðli auðvaldsríkisins, sem ég var að lýsa, birtist í þeim mun skærara ljósi í nútímaþingræði. Formlega er aðalhlutverk þingræðisins að leiða hagsmuni samfélagsheildarinnar í ljós í ríkisskipaninni. Hinsvegar leiðir það þó aðeins auðvaldssamfélag í ljós, þ. e. samfélag þar sem auðvaldshagsmunir eru ráðandi. Stofnanir sem að formi til eru lýðræðislegar, verða þannig í raun verkfæri drottnandi stéttarhagsmuna. Þetta kemur áþreifanlegast fram í þeirri staðreynd, að óðara en lýðræðið sýnir tilhneiging til að afneita stéttareðli sinu og að ummyndast í tæki raunverulegra alþýðuhagsmuna, þá fórnar borgarastéttin og fulltrúar hennar í ríkisvaldinu hinum lýðræðislegu formum sjálfum. Í ljósi þessa sést að hugmyndin um þingmeirihluta sósíalista er útreikningur sem tekur aðeins tillit til einnar hliðar lýðræðisins, þ.e. formsins, en lætur hina lönd og leið, þ.e. raunverulegt innihald þess. Þetta er alveg í anda borgaralegrar frjálshyggju. Og í heild reynist þá þingræðið ekki vera hreint sósíalískt afl, sem gagnsýri auðvaldssamfélagið smám saman, einsog Bernstein telur, heldur er þingræðið þvert á móti sérstakt tæki borgaralegs stéttarríkis til að þroska andstæður auðvaldsins og leiða þær í ljós.

Frammi fyrir þessari hlutlægu þróun ríkisins breytast orð Bernsteins og Konrad Schmidts um vaxandi "samfélagslegt eftirlit" sem leiða muni beinlínis til sósíalisma, í orðaglamur sem með hverjum degi verður andsnúnara raunveruleikanum.

Kenningin um að koma á sósíalisma stig af stigi stefnir að hægfara umbótum á auðvaldseign og auðvaldsríki í sósíalískum skilningi. En vegna hlutlægra breytinga á núverandi samfélagi þróast hvort tveggja í þveröfuga átt. Framleiðsluferlið verður sífellt félagslegra og afskipti ríkisins og eftirlit með þessu framleiðsluferli verður sífellt víðtækari. En samtímis verður einkaeignarréttur sífellt afmarkaðri og ósnertanlegri, hann verður æ meira að ytri mynd ódulins auðvaldsarðráns á vinnu annarra, og opinbert eftirlit verður æ gagnsýrðara af hreinum stéttarhagsmunum. Ríkið, þ. e. pólitískt skipulag auðvaldsins, og eignarafstæður, þ. e. réttarlegt skipulag þess, verða þá með þróuninni sífellt auðvaldslegri og ekki sósíalískari. Þetta skapar tvær óyfirstíganlegar hindranir fyrir kenninguna um að koma sósíalisma á hægt og bítandi.

Hugmynd Fouriers um að breyta öllum höfum jarðarinnar í appelsín með Phanlanstère-kerfinu[12] var afar fjarstæðukennd. En hugmynd Bernsteins að breyta hafi auðvaldsbeiskju í haf sósíalísks sætleika, með því að hella í það, flösku fyrir flösku, appelsíni félagslegra umbóta, hún er aðeins smekklausari, en ekki vitund síður fjarstæðukennd.

Framleiðsluafstæður auðvaldssamfélags nálgast skipan sósíalísks samfélags æ meir. En pólítískar aðstæður þess og réttarlegar reisa hinsvegar æ hærri múr á milli auðvaldssamfélags og sósíalísks. Þegar þjóðfélagsumbætur eins og lýðræði þróast þá opnar það ekki múrinn, heldur styrkir hann bara og hækkar hann. Það eina sem getur rifið hann niður eru hamarshögg byltingarinnar, þ. e. að öreigastéttin grípi hið pólitíska vald.

 

5. Almenn einkenni endurskoðunarstefnunnar og beinar afleiðingar hennar

Í fyrsta kafla reyndi ég að sýna fram á að kenning Bernsteins færði stefnu sósíalista af efnislegum grundvelli yfir á grundvöll hughyggju. Þetta á við fræðilegar forsendur. En hvernig birtist nú kenningin í framkvæmd? Við fyrstu sýn, formlega, greinist hún alls ekki frá sósíalískri baráttu, eins og hún hefur tíðkast. Verkalýðsfélög, barátta fyrir félagslegum umbótum og fyrir að gera stjórnskipanina lýðræðislegri, þetta er aðalatriðið, hvað sem annars felst formlega í flokksstarfi sósíalista. Munurinn er þá ekki hvað er gert, heldur hvernig. Nú er litið á faglega baráttu og þinglega sem aðferð til að ala öreigastéttina upp og leiða hana til pólitískrar valdatöku. Samkvæmt endurskoðunarsinnum er þvílík valdataka ómöguleg og tilgangslaus. Því á barátta verkalýðsins eingöngu að vera fyrir beinum ávinningi, þ.e. að bæta efnahagslega stöðu verkalýðsins, að setja arðráni auðvaldsins skorður, stig af stigi, og að auka samfélagslegt eftirlit. Að slepptu því markmiði að bæta beinlínis efnahag verkalýðsins, sem er sameiginlegt báðum stefnum, þeirri sem hingað til hefur ríkt í flokkum og endurskoðunarstefnunni, þá er ágreiningurinn í stuttu máli aðeins þessi: Samkvæmt ríkjandi skoðun er mikilvægi faglegrar og pólitískrar baráttu fyrir sósíalismanum fólgið í því að undirbúa öreigastéttina undir sósíalíska umbyltingu, en stéttin er huglægt afl hennar. Samkvæmt Bernstein er það fólgið í því að fagleg og pólitísk barátta takmarkar sjálf arðrán auðvaldsins, stig af stigi, sviptir auðvaldssamfélagið æ meir auðvaldseðli sínu en gæðir það sósíalísku eðli, í einu orði sagt, hún á að leiða hlutlægt til sósíalískrar umbyltingar. Ef nánar er að gáð, þá eru þessar tvær skoðanir alveg andstæðar hvor annarri. Ríkjandi skoðun innan flokksins er að í faglegri og pólitískri baráttu muni öreigastéttin komast til þeirrar sannfæringar, að þessi barátta geti ómögulega ummyndað stöðu hennar í grundvallaratriðum og að óhjákvæmilegt sé að hún taki að lokum pólitísk völd. Bernstein hefur þá forsendu að þessi pólitíska valdataka sé ómöguleg og vill koma á sósíalískri skipan með faglegri og pólitískri baráttu eingöngu.

Sósíalískt eðli faglegrar og þinglegrar baráttu felst þá að skoðun Bernsteins í trúnni á sósíalísk áhrif hennar á hagkerfi auðvaldsins, stig af stigi. En slík áhrif eru raunar hrein ímyndun eins og ég hefi reynt að sýna. Eignarhald auðvaldsins og ríkisskipulag þess þróast í öfuga átt. En þar með missir dagleg hagsmunabarátta sósíalista öll tengsl við sósíalisma, þegar allt kemur til alls. Fagleg og pólitísk barátta er mjög mikilvæg fyrir sósíalismann, vegna þess að hún gerir skilning öreigastéttarinnar og meðvitund sósíalíska, skipuleggur hana sem stétt. En líti menn á þessa baráttu sem leið til að gera efnahagslíf auðvaldsins beinlínis sósíalískt, þá bregst hún ekki aðeins þessu skáldaða hlutverki, heldur líka eina mögulega félagslega hlutverki sínu. Hún hættir að vera uppeldistæki verkalýðsstéttarinnar fyrir öreigabyltingu.

Það stafar því af hreinum misskilningi þegar Eduard Bernstein og Konrad Schmidt róa sig með því að lokatakmarkið tapist verkalýðsstéttinni ekki við það að takmarka baráttuna við félagslegar umbætur og verkalýðsfélög, vegna þess að hvert skref á þessari braut leiði til annars, og því sé takmark sósíalista innifalið í hreyfingunni sjálfri. Svo er reyndar fyllilega við núverandi baráttuaðferð þýskra sósíalista, þ. e. þegar meðvituð og ákveðin tilraun til að ná pólitísku valdi er leiðarstjarna baráttunnar, bæði faglegrar og fyrir félagslegum umbótum. En sé þessi fyrirframgefna stefna tekin af hreyfingunni og samfélagsumbætur settar sem markmið í sjálfum sér, þá er ekki nóg með að hreyfingin leiði alls ekki til lokatakmarksins, sósíalisma, það verður þvert á móti. Konrad Schmidt treystir bara á svo að segja vélræna hreyfingu sem geti ekki stöðvast af sjálfri sér, þegar hún sé einu sinni komin af stað. Það gerir hann einfaldlega á grundvelli þess, að matarlystin komi við átið, og að verkalýðsstéttin geti aldrei gert sig ánægða með umbætur, á meðan sósíalísk umbylting sé ekki fullkomnuð. Síðarnefnda forsendan er reyndar rétt, vegna þess hve ófullnægjandi félagslegar umbætur hljóta að vera í auðvaldskerfinu. En ályktunin sem er dregin af þessu fengi því aðeins staðist ef hægt væri að smíða keðju stöðugra og sívaxandi félagslegra umbóta frá núverandi þjóðskipulagi beint til sósíalisma. En það eru hugarórar, það liggur í hlutarins eðli að keðjan slitnar mjög fljótlega og frá þeim stað getur hreyfingin farið margvíslegar leiðir.

Nærtækust og líklegust yrði sú að breyta baráttuaðferðinni til að reyna með öllu móti að tryggja hagnýtan ávinning baráttunnar, samfélagsumbæturnar. Eindregið og ósveigjanlegt stéttarsjónarmið stenst einungis ef stefnt er að pólitískri valdatöku. Það verður æ meir til trafala í þeim mæli sem beinn hagnýtur ávinningur verður aðaltilgangurinn. Næsta skref yrði þá stefna hrossakaupa og sáttfýsi viturra stjórnmálamanna. En ekki heldur þar getur hreyfingin haldið stöðugu jafnvægi. Þar sem félagslegar umbætur í auðvaldsheiminum eru og verða innantóm hnetuskurn, þá er alveg sama hvaða baráttuaðferð er beitt, næsta skref verður óhjákvæmilega vonbrigði með samfélagsumbætur einnig. Og þá er komið á þá kyrru höfn bar sem Schmoller og Co[13] liggja nú fyrir akkeri. Einnig þeir leituðu samfélagsumbóta um öll heimsins höf, en láta nú allt reka einsog drottinn vill. Sósíalisminn er því alls ekki innifalinn í daglegri baráttu verkalýðsins af sjálfu sér og við allar kringumstæður. Hann hlýst aðeins annarsvegar af hlutlægum andstæðum efnahagslífs auðvaldsins sem skerpast stöðugt meir, en hinsvegar af huglægum skilningi verkalýðsstéttarinnar á nauðsyn þess að hún upphefji sig í félagslegri byltingu. Afneiti menn öðru en hafni hinu, eins og endurskoðunarsinnar gera í kenningum sínum, þá hjaðnar verkalýðshreyfingin fyrst niður í faglegt stapp, umbótastúss og dregst síðan af eigin þunga í það að yfirgefa stéttarsjónarmiðið.

Allt verður þetta líka ljóst ef kenningar endurskoðunarsinna eru skoðaðar frá enn annarri hlið og spurt: Hver eru almenn einkenni þessa sjónarmiðs? Ljóst er að endurskoðunarstefnan stendur ekki á grundvelli auðvaldsaðstæðna né afneitar hún andstæðum þess einsog borgaralegir hagfræðingar gera. Öðru nær, kenningar hennar byggjast á því að andstæðurnar séu til, rétt eins og kenningar Marx. Það er hinsvegar kjarni þessarar afstöðu og aðalágreiningur við þá afstöðu sem hingað til hefur verið algengust meðal sósíalista, að kenningar endurskoðunarsinna byggjast ekki á því að upphefja þessar andstæður með því að láta þær sjálfar þróast rökrétt áfram.

Kenningar þeirra standa mitt á milli andstæðra póla, þeir vilja ekki láta andstæður auðvaldsins ná fullum þroska og upphefjast síðan með byltingu þegar í odda skerst, heldur vilja þeir brjóta af þeim broddinn, slæva þær.

Þannig segir Bernstein að andstæður milli framleiðslu og dreifingar slævist vegna þess að atvinnurekendur séu skipulagðir og kreppur komi ekki. Andstæður milli vinnuafls og auðmagns slævist vegna þess að millistéttin sé áfram til og staða öreigastéttarinnar batni. Aukið eftirlit og lýðræði slævi andstæður stéttarríkis og samfélags.

Viðtekin baráttuaðferð sósíalista felst raunar ekki í því að bíða eftir því að andstæður auðvaldsins magnist til hins ítrasta og síðan keyri um koll. Þvert á móti styðjumst við einfaldlega við þá stefnu sem þróunin hefur tekið, en mögnum síðan afleiðingar hennar til hins ítrasta í pólitískri baráttu[14]. Það er eðli hverrar byltingarsinnaðrar baráttuaðferðar. Þannig berjast sósíalistar t.d. gegn tollum og hernaðarstefnu, ævinlega, ekki aðeins þegar afturhaldseðli þeirra hefur komið fyllilega fram. En baráttuaðferð Bernsteins byggist alls ekki á frekari þróun andstæðna auðvaldsins og að þær skerpist, heldur á því að þær slævist. Sjálfur hefur hann lýst því best, þegar hann talar um "aðlögun" efnahagslífs auðvaldsins. Hvenær fengi slík skoðun staðist? Allar andstæður nútímasamfélags eru einfaldlega afleiðingar framleiðsluhátta auðvaldsins. Ef við gerum ráð fyrir að þessir framleiðsluhættir þróist áfram í sömu átt og hingað til, þá hljóta óhjákvæmilega allar afleiðingar þeirra að þróast áfram með þeim, andstæðurnar hljóta að magnast og skerpast í stað þess að slævast. Forsenda þess að það gæti orðið, væri þvert á móti að þróun framleiðsluhátta auðvaldsins heftist. Í einu orði sagt, almennasta forsenda kenninga Bernsteins er stöðnun auðvaldsþróunar.

Þannig ógildir kenningin sjálfa sig, raunar á tvo vegu. Í fyrsta lagi afhjúpar hún draumóraeðli sitt gagnvart takmarki sósíalista það er fyrirfram ljóst, að stöðnuð auðvaldsþróun getur ekki leitt til sósíalískrar umbyltingar. Þetta staðfestir það sem ég sagði um beinar afleiðingar kenninganna. Í öðru lagi afhjúpar hún afturhaldseðli sitt gagnvart auðvaldsþróuninni, sem í rauninni er mjög ör. Nú kemur upp spurningin: Hvernig á að skýra afstöðu Bernsteins eða öllu heldur lýsa henni, andspænis þessari raunverulegu auðvaldsþróun?

Ég þykist hafa sýnt fram á það í fyrsta kafla að ekki standast efnahagslegar forsendur Bernsteins fyrir greiningu hans á félagslegum aðstæðum nú á tímum - kenningunni um"aðlögun" auðvaldsins. Þar sást, að hvorki er hægt að líta á lánakerfið né sölusambönd sem "aðlögunartæki" efnahagslífs auðvaldsins, né heldur hitt, að kreppur koma ekki og að millistéttin helst við. En öllum þessum atriðum aðlögunarkenningarinnar er eitt einkenni sameiginlegt fyrir utan það að vera beinlínis röng. Öll fyrirbæri efnahagslífsins sem kenningin fjallar um, skoðar hún ekki í lífrænum tengslum þeirra við auðvaldsþróunina í heild, né í samhengi við allt efnahagskerfið, heldur rifin úr þessu samhengi, sjálfstæð, sem disjecta membra (aðskilda hluta) hræringarlausrar vélar. Þannig er t.d. kenningin um aðlögunaráhrif lánakerfisins. Ef litið er á lánakerfið sem eðlilegt, æðra stig vöruskipta, og í samhengi við allar þær andstæður sem felast í vöruskiptum auðvalds, þá er ómögulegt að sjá í því eitthvert vélrænt "aðlögunartæki", sem standi eins og utan við skiptaferlið. Það væri einsog að líta á peninga, vörur eða auðmagnið sem "aðlögunartæki" auðvaldsins. Lánakerfið er engu síður en peningar, vörur og auðmagn líkamshluti efnahagslífs auðvaldsins á vissu þróunarstigi þess. Á þessu stigi er það jafnómissandi í úrverki þess og hin fyrirbærin, og það er sama eyðingaraflið og þau, því það magnar og endurskapar innri andstæður þess.

Alveg sama gildir um sölusamböndin og fullkomnuð samgöngutæki.

Sama vélræna, ódíalektíska skoðunin liggur ennfremur í því að Bernstein skuli líta á það sem "aðlögun" efnahagslífs auðvaldsins, að kreppur komi ekki. Fyrir honum eru kreppurnar einfaldlega truflanir á efnahagskerfinu, og komi þær ekki getur kerfið greinilega gegnt sínu hlutverki vel. En í rauninni eru kreppurnar alls engar "truflanir" í eiginlegri merkingu, eða réttara sagt, þær eru truflanir sem efnahagslíf auðvaldsins í heild gæti alls ekki þrifist án. Hvað eftir annað þarf að leysa andstæðurnar á milli takmarkalausra þróunarmöguleika framleiðsluaflanna og þröngra takmarka sölumarkaðsins. Kreppur eru eina leiðin til að leysa þetta á grundvelli auðvaldskerfisins. Því eru kreppur eðlilegar í efnahagskerfi auðvaldsins, óaðskiljanlegur hluti þessa lífkerfis.

Í "ótrufluðum" gangi auðvaldsframleiðslunnar felast miklu meiri hættur fyrir hana en kreppurnar eru. Það að gróðahlutfallið minnkar stöðugt stafar ekki af andstæðum framleiðslu og dreifingar, heldur af aukinni framleiðni vinnuaflsins. En af því stafar sú mikla hætta, að lítið og meðalstórt auðmagn geti ekki tekið þátt í framleiðslunni. En þannig eru skorður settar við nýmyndun fjármagns og og vexti þess. Kreppurnar eru önnur afleiðing sama ferlis. Þær fella auðmagnið í gildi, aftur og aftur, gera framleiðslutækin ódýrari og setja hluta virks auðmagns úr leik. Þannig hækka þær einmitt gróðann og rýma til fyrir nýjum fjárfestingum og þar með fyrir framförum í framleiðslunni. Þannig reynast þær vera tæki til að skara í eld auðvaldsþróunar og blása hann upp, hvað eftir annað. Hyrfu þær, ekki aðeins á vissum stigum í myndun heimsmarkaðsins eins og ég geri ráðfyrir, heldur yfirleitt, þá kæmi það efnahagslífi auðvaldsins, ekki á græna grein, eins og Bernstein telur, heldur í fúafen. Af þeim vélræna skilningi sem einkennir alla aðlögunarkenninguna, lítur Bernstein framhjá því hve ómissandi kreppur eru, ómissandi eins og nýjar fjárfestingar lítils og meðalstórs auðmagns með reglubundu millibili. Því álítur hann að sífelld endurfæðing smáauðmagnsins sé merki um kyrrstöðu auðvaldsins, þótt hún sé í rauninni til marks um eðlilega auðvaldsþróun.

Nú er vissulega til sjónarhóll þaðan sem umrædd fyrirbæri birtast einmitt einsog "aðlögunarkenningin" setur þau fram. Það er sjónarhóll einstakra auðherra, eins og þeir skynja staðreyndir efnahagslífsins, afmyndaðar af lögmálum samkeppninnar. Einstakir auðherrar sjá reyndar hvern hluta hinnar lífrænu efnahagsheildar fyrst og fremst sem sjálfstætt fyrirbæri, þeir sjá hann líka aðeins frá þeirri hlið sem birtist einstökum auðherra, og því aðeins sem "truflanir" eða "aðlögunartæki". Einstökum auðherra eru kreppurnar í rauninni aðeins truflanir, komi þær ekki, tórir hann lengur. Honum er lánakerfið sömuleiðis tæki til að "aðlaga" ófullnægjandi framleiðslutæki sín kröfum markaðsins, gangi hann í sölusamband, upphefur það í rauninni stjórnleysi framleiðslunnar - gagnvart honum.

Í stuttu máli sagt er aðlögunarkenning Bernsteins ekkert annað en fræðileg alhæfing þess hvernig einstakur auðherra lítur á málin. En einmitt það er kjarni borgaralegrar dólgahagfræði. Allar hagfræðivillur þessarar stefnu byggjast einmitt á þeim misskilningi að líta á afleiðingar samkeppni, eins og þær birtast einstökum auðherra, og telja það vera einkenni efnahagslífs auðvaldsins í heild. Og einsog Bernstein lítur á lánakerfið, þannig lítur dólgahagfræðin meira að segja á peninga sem hugvitssamlegt "aðlögunartæki" fyrir þarfir vörudreifingar. Hún leitar móteiturs gegn meinum auðvaldsins í sjálfum fyrirbærum auðvaldsins. Eins og Bernstein trúir hún að hægt sé að stjórna efnahagslífi auðvaldsins. Loks er markmið hennar, þegar allt kemur til alls, að slæva andstæður auðvaldsins og berja í bresti þess, enn er það eins og kenning Bernsteins. Með öðrum orðum, þetta er afturhald en ekki byltingarstefna, og þessvegna draumórar.

Þegar á heildina er litið, er þá hægt að lýsa kenningu endurskoðunarsinna svo: Þetta er kenning um sósíalíska niðurdröbbun, rökstudd að hætti dólgahagfræði með kenningu um niðurdröbbun auðvaldsins.

 


Annar hluti

1. Efnahagsleg þróun og sósíalisminn.

Mesti ávinningur í þróun stéttarbaráttu öreiganna var að uppgötva að framkvæmd sósíalismans myndi rísa af efnahagslegum aðstæðum auðvaldsþjóðfélagsins. Þannig breyttist sósíalisminn úr "hugsjón", sem sveif fyrir hugskotssjónum mannkynsins árþúsundum saman, í sögulega nauðsyn.

Bernstein vill ekki viðurkenna að þessar efnahagslegu forsendur sósíalismans séu til í núverandi samfélagi. Röksemdafærsla hans sjálfs þróast merkilega við þetta. Fyrst, í Neue Zeit, dró hann aðeins í efa, að samþjöppun í iðnaði yrði hröð, og byggði það á samanburði á iðnhagtölum í Þýskalandi 1895 og 1882. Til að nota þetta sér í hag þurfti hann að gera þetta bæði yfirborðslega og vélrænt. En jafnvel þegar best lét, gat Bernstein ekki komið neinu höggi á greiningar Marx, með því að vísa til lífsseiglu meðalstórra fyrirtækja. Því greiningar Marx gera hvorki ráð fyrir ákveðnum hraða í samþjöppun iðnaðarins, þ.e. ákveðnum fresti fram að því að lokatakmark sósíalista komist á, né heldur er forsenda þess að sósíalisminn komist á að smáauðvaldið hverfi alveg eða smáborgarastéttin, eins og ég sýndi hér að framan (í lok 2. k. ).

Bernstein kemur með ný sönnunargögn í bók sinni, er skoðanir hans þróast áfram, og nú eru það staðtölur um hlutafélög. Þær eiga að sýna að hluthöfum fjölgi stöðugt, auðherrastéttin sé þá ekki að dragast saman, heldur sé hún þvert á móti sífellt að stækka. Það er furðulegt hve lítið Bernstein þekkir til málsins og hve lítt hann kann að notfæra sér það sem til er um það!

Vildi hann nota hlutafélög sem sönnunargögn gegn kenningum Marx um iðnþróun, þá hefði hann átt að koma með allt aðrar tölur. Því allir sem eitthvað þekkja til hvernig stofnun hlutafélaga hefur þróast í Þýskalandi, vita að stofnfé fyrirtækis að meðaltali hefur minnkað nánast reglulega. Þetta auðmagn var u.þ. b. 10,8 milljónir marka fyrir 1871; en einungis 4,01 milljón marka1871, fór niður í 3,8 millj. marka 1873, var undir einni milljón 1883-87, aðeins 0,56 milljónir 1891, og einungis 0,62 milljónir marka 1892. Síðan hefur þetta sveiflast um eina milljón marka, og raunar fell upphæðin frá l,78 milljónum 1895 niður í l,19 milljón marka á fyrra hluta ársins 1897[15].

Furðulegar tölur: Bernstein myndi sennilega smíða úr þeim heilmikla andmarxíska hneigð stórfyrirtækja til að þróast aftur yfir í smáfyrirtæki! En þá gæti hver og einn svarað honum: Ef þér ætlið að sanna eitthvað með þessum staðtölum, þá verðið þér fyrst að sanna að þær eigi við um sömu iðngreinar, að smáfyrirtækin komi nú í stað gömlu stórfyrirtækjanna, og séu ekki að koma upp þar sem áður var einstaklingsauðmagn eða bara handverk eða dvergfyrirtæki. En þá sönnun getið þér ekki lagt fram, því þróunina frá stofnun risavaxinna hlutafélaga til meðalstórra og lítilla, er einmitt aðeins hægt að skýra með því að hlutafélagakerfið er að ryðja sér til rúms í nýjum og nýjum greinum. Upphaflega hentaði það aðeins fáeinum risastórum fyrirtækjum en nú hefur það aðlagast meðalstórum fyrirtækjum æ meir, hér og þar meira að segja smáfyrirtækjum (við stofnun hlutafélaga kemur fyrir að stofnféð sé allt niður í 1000 mörk!) .

En hvað táknar það skv. þjóðhagfræði að hlutafélög breiðist æ meir út? Það táknar að framleiðslan verður æ félagslegri, á auðvaldshátt, ekki aðeins í stóriðju, heldur einnig í meðalframleiðslu og lítilli. Þetta brýtur ekki í bága við kenningar Marx, heldur staðfestir þær eins glæsilega og verið getur.

Reyndar! Hvað felst í stofnun hlutafélaga efnahagslega? Annars vegar er smáauðlegð margra sameinuð í framleiðsluauðmagn, í eina efnahagslega heild, hinsvegar er framleiðslan aðskilin frá eign auðmagns. Það merkir að framleiðsluhættir auðvaldsins eru yfirunnir á tvennskonar hátt en ævinlega á auðvaldsgrundvelli. Hvað tákna í ljósi þessa staðtölur Bernsteins um mikinn fjölda hluthafa hvers fyrirtækis? Ekkert annað en að nú samsvarar auðvaldsfyrirtæki ekki einum auðherra eins og áður, heldum heilum hópi, sívaxandi fjölda auðherra, að hagfræðihugtakið "auðherra" merkir ekki lengur einstakling, að iðnjöfur er nú safn persóna, hundraða, jafnvel þúsunda, að jafnvel innan ramma efnahagslífs auðvaldsins er sjálft hugtakið "auðherra" orðið félagslegt.

Hvernig getum við nú skýrt það, í ljósi þessarar þróunar, að Bernstein skuli lýsa hlutafélögum þveröfugt við hana, svo sem auðmagnið sé að kvarnast niður, en ekki að dragast saman, að hann skuli sjá auðmagnseign breiðast út, þar sem Marx sá hana upphafna? Það stafar af mjög einföldum misskilningi í anda dólgahagfræði: af því að Bernstein skilur orðið auðherra ekki sem framleiðsluaðilja, heldur aðilja að eignarrétti, ekki sem efnahagslega einingu, heldur skattalega. Orðið auðmagn skilur hann ekki sem einingu í framleiðslu, heldur sem peningaeign. Þessvegna sér hann í enska saumþráðarhringnum sínum ekki sameiningu 12.300 persóna í eina, heldur hvorki meira né minna en 12.300 auðherra. Þessvegna sér hann heldur ekki neinn auðherra í Schulze verkfræðingi sem fékk "allmörg hlutabréf" í heimanmund með konu sinni frá Müller sem lifir af hlutafjárarði (tilv. rit., bls. 54), þess vegna finnst honum allur heimurinn vera fullur af "auðherrum"[16].

En hér eins og endranær er dólgahagfræðileg skyssa Bernsteins einungis fræðilegur grundvöllur þess að draga sósíalismann niður í svaðið. Þegar Bernstein flytur hugtakið auðherra úr framleiðsluafstæðum til eignarafstæðna og "talar um fólk í stað þess að tala um atvinnurekendur" (bls. 53), þá flytur hann líka viðfang sósíalismans af sviði framleiðslunnar á svið eignaafstæðna, frá sambandi auðmagns og vinnuafls til sambands ríkra og fátækra.

Þannig erum við flutt aftur fyrir Marx og Engels til höfundar Guðspjalls hins vesæla syndara, þó með þeim mun að Weitling bar skynbragð öreigans á stéttaandstæður í þessum andstæðum ríkra og fátækra, þótt í frumstæðri mynd væri. Þær vildi hann gera lyftistöng sósíalískrar hreyfingar. Bernstein sér hinsvegar horfur á sósíalisma í því að breyta fátækum í ríka, þ. e. í því að afmá stéttaandstæður, sósíalisminn á að birtast í smáborgaraskap.

Raunar heldur Bernstein sig ekki við staðtölur um tekjur eingöngu. Hann kemur líka með staðtölur um fyrirtæki og það í mörgum löndum: Þýskalandi, Frakklandi, Englandi, Sviss, Austurríki og Bandaríkjunum. En hverskonar staðtölur eru þetta? Þetta eru ekki tölur frá mismunandi tíma í einu landi, heldur frá einum tíma í mismunandi löndum. Hann ber því saman ekki flokka fyrirtækja eins lands á mismunandi tímum heldur aðeins endanlegar tölur fyrir mismunandi lönd: (England árið 1891, Frakkland 1894, Bandaríkin 1890 o. s.frv. ). Um Þýskaland endurtekur hann þó sinn gamla samanburð á 1895 og 1882. Hann kemst að þeirri niðurstöðu "að enda þótt stórfyrirtæki séu vissulega orðin yfirgnæfandi í iðnaði, þá starfi í mesta lagi helmingur framleiðsluverkafólks í þeim eða í fyrirtækum háðum þeim, jafnvel í svo þróuðu landi sem Prússlandi", og svipaða sögu sé að segja af öllu Þýskalandi, Englandi, Belgíu, o. s. frv. (bls. 84).

Það sem hann sýnir fram á með þessu, er greinilega ekki hin eða þessi tilhneiging efnahagsþróunar, heldur einungis mismunandi styrkur hinna ýmsu rekstrarforma eða hinna ýmsu starfshópa. Eigi þetta að sanna að vonlaust sé að koma á sósíalisma, þá liggur að baki þessarar sönnunar sú kenning að tölulegur, efnalegur styrkur deiluaðilja ráði úrslitum um félagslega viðleitni, semsagt valdið eitt. Bernstein, sem sér blanquisma í hverju horni, hann fellur nú, eins og til tilbreytingar, sjálfur í blanquískan misskilning af grófasta tagi. Þó aftur með þeim mun að sem byltingarsinnar og sósíalistar litu blanquistar á það sem sjálfsagðan hlut að sósíalisminn væri efnahagslega framkvæmanlegur. Á því byggist sú skoðun þeirra að jafnvel lítill minnihluti gæti gert byltingu með valdbeitingu. En þetta er þveröfugt hjá Bernstein. Hann ályktar, að þar sem meirihluti alþýðunnar nægi ekki tölulega, muni efnahagslega séð vera vonlaust að koma á sósíalisma. Sósíalistar telja lokamarkmið sitt hvorki munu hljótast af sigursælli valdbeitingu minnihlutans, né af því að meirihlutinn yfirgnæfi tölulega, heldur af efnahagslegri nauðsyn, sem birtist fyrst og fremst í stjórnleysi auðvaldsins, ennfremur af því að alþýðufjöldinn skilji þessa nauðsyn og afnemi auðvaldskerfið.

Hvað varðar þetta úrslitaatriði, stjórnleysið í efnahagslífi auðvaldsins, þá afneitar Bernstein sjálfur aðeins hinum miklu og almennu kreppum, en ekki kreppum í einu ríki eða hluta efnahagskerfisins. Hann afneitar þannig aðeins mjög miklu stjórnleysi og viðurkennir um leið að til sé svolítið stjórnleysi. Hjá Bernstein fer þá auðvaldshagkerfinu eins og - svo ég vitni nú líka einu sinni í Marx - eins og fór vitlausu jómfrúnni, sem var "bara pínulítið" börnuð. Það hrapallega er að það er eins með stjórnleysið, lítið og mikið er jafnslæmt. Viðurkenni Bernstein svolítið stjórnleysi, sér hagkerfi vöruframleiðslu sjálft um að magna þetta stjórnleysi óskaplega, allt að hruni. En vonist Bernstein til þess að viðhalda vöruframleiðslu, en leysa þetta svolitla stjórnleysi smám saman upp í reglu og samræmi, þá fellur hann aftur í eina af grundvallarvillum borgaralegrar dólgahagfræði, að telja dreifingarhætti vera óháða framleiðsluháttum[17].

Hér er ekki nægjanlegt færi á að sýna fram á allan þann furðulega rugling í frumatriðum pólitískrar hagfræði sem Bernstein gerir í bók sinni. En eitt atriði skal tekið stuttlega fyrir, það leiðir af þessu meginmáli um stjórnleysi auðvaldsins.

Bernstein lýsir því yfir að vinnugildiskenning Marx sé hrein sértekning, en samkvæmt honum er það greinilega skammaryrði í pólitískri hagfræði. En sé gildi vinnuaflsins aðeins sértekning, "hugmynd" (bls. 44), þá á hver sómakær borgari, sem gegnt hefur herþjónustu og greitt skattana sína, jafnan rétt og Karl Marx til að ímynda sér hvaða vitleysu sem vera skal út af slíkri "hugmynd", þ.e. gildiskenningunni. "Í sjálfu sér er Marx alveg jafnleyfilegt að líta framhjá eiginleikum vöru í þeim mæli að hún felur loks ekkert í sér annað en magn einfaldrar mannlegrar vinnu, einsog fylgismönnum Böhm og Jevons að sértaka aðeins gagnsemi vöru og líta framhjá öllum öðrum eiginleikum hennar". (bls. 41-2).

Semsagt, félagsleg vinna hjá Marx og sértekin gagnsemi Mengers, það er honum sama tóbakið, allt eintóm sértekning. Bernstein hefur þá alveg gleymt því að sértekning Marx er ekki uppfinning, heldur uppgötvun, að hún er ekki bara til í höfði Marx, heldur líka í vöruhagkerfinu, lifir ekki ímynduðu lífi, heldur raunverulegu samfélagslífi, svo raunverulegu að hún er sniðin og hömruð, vegin og mótuð. Uppgötvun Marx, sértekin mannleg vinna, er nefnilega í þróuðustu mynd sinni ekkert annað en peningar. Og þetta er einmitt ein snjallasta hagfræðiuppgötvun Marx. En í gervallri borgaralegri hagfræði, frá upphafi kaupauðgisstefnu til loka hinnar klassísku hagfræði, hefur hið dularfulla eðli peninga verið bók með sjö innsiglum.

Hinsvegar er sértekin gagnsemi Böhm og Jevons raunverulega aðeins hugmynd, eða öllu heldur mynd umhugsunarleysis, einkafíflska sem hvorki er unnt að gera auðvaldssamfélagið ábyrgt fyrir, né neitt annað mannlegt samfélag, heldur einungis borgaralega dólgahagfræði. Með þessa "hugmynd" í höfði geta Bernstein og Böhm og Jevons ásamt öllum huglæga söfnuðinum staðið tuttugu ár enn frammi fyrir leyndardómi peninganna án þess að þeir komist að annarri lausn en þeirri sem hver skósmiður vissi án þeirrar hjálpar: að einnig peningar eru "gagnlegur" hlutur.

Bernstein hefur þannig misst allan skilning á gildiskenningu Marx. En þeim sem þekkir eitthvað hagfræðikerfi Marx, hlýtur að vera ljóst að án gildiskenningarinnar verður allt kerfið óskiljanlegt. Eða, hlutlægar orðað, skilji menn ekki eðli vöru og vöruskipta verður allt auðvaldshagkerfið og samhengi þess leyndardómur.

En hver var þessi töfralykill Marx sem opnaði honum innstu leyndardóma allra fyrirbæra auðvaldsins, sem dugði honum til að leysa leikandi léttilega vandamál sem mestu andar klassískrar borgaralegrar hagfræði, svo sem Smith og Ricardo vissu ekki einu sinni að væru til? Ekkert annað en skilningurinn á að allt efnahagslíf auðvaldsins væri sögulegt fyrirbæri, og það ekki bara aftur í tímann, eins og kom fram í klassískri hagfræði þegar best lét, heldur einnig fram í tímann, ekki aðeins í lénskri fortíð, heldur einnig og sérstaklega í sósíalískri framtíð. Kjarni gildiskenningar Marx, skilgreiningar hans á peningum, kenningar hans um auðmagnið, gróðahlutfallið og þannig um allt efnahagskerfið, er fallvaltleiki efnahagslífs auðvaldsins, komandi hrun þess og þar með hin hliðin á málinu - lokatakmark sósíalista. Einmitt af því að Marx leit á efnahagslíf auðvaldsins frá upphafi sem sósíalisti, þ.e. frá sögulegu sjónarmiði, gat hann ráðið rúnir þess. Og hinsvegar af því að hann hóf fræðilega greiningu á borgaralegu samfélagi frá sósíalísku sjónarmiði, gat hann grundvallað sósíalismann fræðilega.

Saman við þetta má bera orð Bernsteins í lok bókar hans, þar sem hann kvartar yfir þeirri "tvíhyggju sem gangi í gegnum allt hið stórfenglega verk Marx", "tvíhyggju sem felst í því að verkið á að vera vísindaleg rannsókn og þó að sanna kenningu sem var fullbúin löngu áður en það var hafið. Þróunarbraut þess liggur að niðurstöðu sem var fyrir fram ljós. Að snúa aftur til Kommúnistaávarpsins [þ. e. hér til lokamarkmiðs sósíalista; R. L] sýnir hér raunverulegar leifar af draumsæi ["útópisma", þýð.] í kerfi Marx" (bls. 177). En "tvíhyggja" Marx er ekkert annað en tvíhyggja sósíalískrar framtíðar og auðvaldssamtíðar, tvíhyggja auðmagns og vinnuafls, borgarastéttar og öreiga, hún er stórfengleg fræðileg endurspeglun tvíhyggjunnar sem býr í borgaralegu samfélagi, borgaralegra stéttaandstæðna.

Og sjái Bernstein "leifar draumsæis" í þessari fræðilegu tvíhyggju Marx, þá er það bara einfeldnisleg játning um að hann afneiti sögulegri tvíhyggju í borgaralegu samfélagi, afneiti stéttaandstæðum auðvaldsins, að honum sé sósíalisminn sjálfur orðinn "leifar draumsæis". Einhyggja Bernsteins felur í sér að auðvaldsskipulagið skuli vara að eilífu, þetta er einhyggja sósíalistans, sem hefur fallið fra lokatakmarki sínu og sér nú takmark mannlegrar þróunar í óbreytanlegu borgaralegu samfélagi.

En sjái Bernstein sjálfur ekki klofninginn í hagkerfi auðvaldsins, þróunina til sósíalismans, þá verður hann að grípa til hughyggjulegra útlistana utan við efnahagslega þróun til þess að bjarga stefnu sósíalista a.m.k. að formi til. Og hann verður að breyta sósíalismanum sjálfum úr ákveðnu sögulegu skeiði samfélagsþróunar í sértekna "grundvallarreglu".

"Félagsleg grundvallarhugsjón" Bernsteins, sem á að skreyta efnahagslíf auðvaldsins, þessi þynnsti "uppáhellingur" af lokatakmarki sósíalista, reynist í ljósi þessa vera tilslökun á borgaralegri kenningu hans, en ekki gagnvart sósíalískri framtíð samfélagsins, heldur gagnvart sósíalískri fortíð - Bernsteins.

 

2. Verkalýðsfélög, samvinnufélög og pólitískt lýðræði

Við höfum séð að sósíalismi Bernsteins felst í þeirri áætlun að láta verkalýðinn fá hlutdeild í auðlegð samfélagsins, að breyta fátæklingum í auðmenn. Hvernig á að koma því á? Í greinum sínum Viðfangsefni sósíalista í Neue Zeit lét Bernstein einungis glitta í torráðnar ábendingar, en í bók sinni gefur hann fullkomnar upplýsingar um þetta mál: Sósíalisma hans á að koma á eftir tveimur leiðum, með verkalýðsfélögum eða með orðum Bernsteins, atvinnulýðræði, og með samvinnufélögum. Með þeim fyrrnefndu vill hann ráðast á gróða iðnfyrirtækja, en á gróða kaupmanna með þeim síðarnefndu (bls.118).

Hvað varðar samvinnufélög og þá einkum samvinnufélög framleiðenda, þá eru þau í eðli sínu beggja handa járn, mitt í auðvaldshagkerfinu, félagsleg smáframleiðsla við vöruskipti auðvalds. En í auðvaldshagkerfi drottna vöruskiptin yfir framleiðslunni og valda því við samkeppni að hömlulaust arðrán verður forsenda þess að fyrirtæki lifi. Með öðrum orðum, auðvaldshagsmunir ráða framleiðsluferlinu gjörsamlega. Þetta kemur fram í nauðsyn þess að halda mönnum að vinnu eins ákaft og hægt er, að stytta vinnutíma eða lengja eftir markðsaðstæðum, að draga vinnuafl að eða hrinda því frá, allt eftir kröfum sölumarkaðsins. Í stuttu máli sagt, hér verður að beita öllum þeim aðferðum sem gera auðvaldsfyrirtæki samkeppnisfær. Í samvinnufélögum framleiðenda rís af þessu mótsagnakennd nauðsyn verkamanna á að stjórna sjálfum sér með öllu því gerræði sem til þarf, að leika hlutverk auðherra gagnvart sjálfum sér. Á þessari mótsögn liðast samvinnufélög framleiðenda í sundur. Annaðhvort þróast þau aftur til auðvaldsfyrirtækja, eða leysast upp, verði hagsmunir verkalýðsins ofan á. Þessar staðreyndir leiðir Bernstein sjálfur í ljós, en misskilur þær, þegar hann hefur eftir frú Potter-Webb, að samvinnufélögin í Englandi hafi liðið undir lok, vegna þess að "aga" hafi skort. Það sem hér er kallað agi, yfirborðslega og af grunnfærni, er ekkert annað en eðlilegt alræði auðvaldsins, sem verkalýðurinn getur reyndar alls ekki beitt sjálfan sig[18].

Af þessu leiðir, að samvinnufélög framleiðenda geta því aðeins tryggt tilveru sína í auðvaldshagkerfinu, að þau upphefji eftir krókaleiðum andstæðurnar sem felast í þeim milli framleiðsluhátta og dreifingarhátta. Það er að segja ef þau búa sér til leið framhjá lögmálum frjálsrar samkeppni. Það geta þau aðeins ef þau tryggja sér markað fyrirfram, fastan hóp neytenda. Þar koma einmitt neytendafélög að gagni. Í þessu liggur leyndardómurinn sem Bernstein fjallar um, hversvegna sjálfstæð samvinnufélög framleiðenda líða undir lok, en neytendafélög geta tryggt þeim líf. Skýringin felst ekki í skiptingu í samvinnufélög framleiðenda og neytenda, eða hvernig sem hugmynd Oppenheimers annars var.

Fyrst samvinnufélög framleiðenda eiga þá líf sitt undir tilverugrundvelli neytendafélaga í nútímasamfélagi, þá leiðir ennfremur af því, að samvinnufélög framleiðenda fá, þegar best lætur, lítinn, staðbundinn markað fáeinna vörutegunda fyrir nánustu þarfir, þá einkum matvæli. Allar mikilvægustu greinar auðvaldsframleiðslu, vefnaður, kolanám, málm- og ólíuiðnaður, vélsmíði, járnbrauta- og skipasmíði, eru fyrirfram lokaðar neytendafélögum og þarmeð einnig samvinnufélögum framleiðenda. Fyrir utan tvíeðli þeirra, geta þau því ekki orðið til almennra félagslegra umbóta, þó ekki væri nema vegna þess, að til þess að þau kæmust almennt á, þyrfti fyrst að afnema núverandi heimsmarkð, svo að í stað hans kæmu lítil, staðbundin framleiðslu- og dreifingarkerfi, þ.e. kjarni þess er að í stað stórauðvaldsins kæmi aftur vöruskiptakerfi miðalda.

En einnig innan marka hins mögulega, á grundvelli nútímasamfélags, geta samvinnufélög framleiðenda ekki orðið annað en taglhnýtingar kaupfélaga, sem stíga þá fram sem helsta afl þessara tilætluðu sósíalísku umbóta. Þær umbætur breytast þá úr baráttu gegn framleiðnu auðmagni þ. e. gegn meginás auðvaldshagkerfisins í baráttu gegn verslunarauðmagninu, reyndar í baráttu gegn smáverslunar- og milliliðaauðmagninu, þ.e. beinast aðeins gegn litlum greinum og kvistum auðvaldsstofnsins.

Hvað varðar verkalýðsfélögin sem Bernstein telur vera tæki gegn arðráni framleiðna auðmagnsins, þá hefi ég þegar (í upphafi 3.k.) sýnt fram á að verkalýðsfélögin eru ekki fær um að tryggja verkalýðnum áhrif á framleiðsluferlið, hvorki hvað snertir umfang framleiðslunnar né tæknina.

En hvað varðar efnahagshliðina,"baráttu launahlutfallsins við gróðahlutfallið", eins og Bernstein kallar það, þá er sú barátta, einsog ég sagði, ekki háð í lausu lofti, heldur innan ákveðinna marka launalögmálsins. Baráttan getur ekki sigrast á því, heldur aðeins raungert það. Þetta verður líka ljóst, ef litið er á málið frá annarri hlið og spurt um eiginlegt hlutverk verkalýðsfélaga.

Bernstein felur verkalýðsfélögum það hlutverk í frelsisbaráttu verkalýðsstéttarinnar að leiða hina raunverulegu árás á gróðahlutfall iðnaðarins og leysa það upp í launahlutfallið, stig af stigi. En þau eru einmitt ekki fær um að bera uppi árásarstefnu gegn gróðanum, því þau eru ekkert annað en skipulögð vörn vinnuaflsins gegn árásum gróðans, vörn verkalýðsstéttarinnar gegn hneigð auðvaldshagkerfisins til að þrýsta henni niður. Þetta er af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi er hlutverk verkalýðsfélaga að hafa með skipulagi sínu áhrif á markaðsstöðu vörunnar vinnuafls, en skipulagið er sífellt rofið af því að ný vara kemur sífellt á vinnumarkaðinn, þegar millistéttarfólk verður að öreigum. Í öðru lagi reyna verkalýðsfélögin að bæta lífsskilyrðin, að auka hlut verkalýðsstéttarinnar í samfélagslegri auðlegð. En hann þrýstist niður eins og fyrir náttúrulögmál, vegna aukinnar framleiðni vinnuaflsins. Til að skilja það þarf alls ekki að vera marxisti, heldur aðeins að hafa einhverntíma gripið í Til upplýsinga um félagsmálin eftir Rodbertus[19].

Vegna hlutlægrar þróunar í auðvaldssamfélaginu verður barátta verkalýðsfélaga nokkurskonar Sisiphosvinna [síendurtekið erfiði, þýð.] hvað snertir bæði helstu hlutverk þeirra í efnahagslífinu. Þessi Sisiphosvinna er raunar óhjákvæmileg til að verkalýðurinn nái því launahlutfalli sem hann getur náð við hverjar markaðsaðstæður, til að raungera launalögmálið, og til að lama, eða réttara sagt veikja hneigð efnahagsþróunarinnar til að þrýsta verkalýðnum niður. En ætli menn að breyta verkalýðsfélögum í tæki til að minnka gróðann stig af stigi, vinnulaunum til góða, þá eru félagslegar forsendur þess í fyrsta lagi að millistéttirnar hætti að verða öreigar og verkalýðsstéttin að vaxa, í öðru lagi að framleiðni vinnunnar hætti að vaxa. Í báðum tilvikum þýðir þetta, alveg einsog ef koma ætti á hagkerfi samvinnufélaga, afturhvarf til ástandsins fyrir tíð stórauðvaldsins.

Báðar leiðir Bernsteins til sósíalískra umbóta samvinnufélög og verkalýðsfélög, reynast þannig alveg óhæf til að ummynda framleiðsluhætti auðvaldsins. Í rauninni hefur Bernstein sjálfur óljósa meðvitund um þetta og lítur einungis á þau sem tæki til að höggva úr auðvaldsgróðanum og auðga þannig verkalýðinn. En þannig gefst hann sjálfur upp við baráttuna gegn framleiðsluháttum auðvaldsins og beinir hreyfingu sósíalista að baráttu gegn því hvernig lífsgæðum er skipt í auðvaldsskipulagi. Bernstein segir líka hvað eftir annað að sósíalismi hans sé eftirsókn eftir "réttlátri", "réttlátari", já "enn réttlátari" (Vorwärts 26/3 1899) skiptingu.

Fyrsti hvati til sósíalískrar hreyfingar, a.m.k. hjá almenningi, er líka einmitt "ranglát" skipting lífsgæða í auðvaldskerfisinu. Og þar sem sósíalistar berjast fyrir þjóðnýtingu alls efnahagslífsins, stefna þeir þar með auðvitað einnig að "réttlátari" skiptingu samfélagsverðmæta. En þar sem Marx hefur sýnt fram á að skiptingin hverju sinni er aðeins afleiðing framleiðsluhátta hverju sinni, einsog eftir náttúrulögmáli, þá beinist barátta sósíalista ekki gegn skiptingunni innan marka auðvaldsframleiðslunnar, heldur beinist hún að afnámi sjálfrar vöruframleiðslunnar. Í stuttu máli: sósíalistar vilja koma á sósíalískri skiptingu með því að útrýma framleiðsluháttum auðvaldsins. Aðferð Bernsteins er andstæð þessu, hann vill berjast gegn því hvernig lífsgæðum er skipt innan auðvaldskerfisins, og vonast til að geta þannig smám saman komið á sósíalískum framleiðsluháttum.

En á hverju grundvallast þá sósíalískar umbætur Bernsteins? Á tilteknum tilhneigingum auðvaldsframleiðslunnar? Engan veginn, því í fyrsta lagi afneitar hann því að þessar tilhneigingar séu til, og í öðru lagi er æskileg skipan framleiðslunnar afleiðing skiptingarinnar en ekki orsök, í hans augum, einsog áður sagði. Sósíalismi hans getur því ekki grundvallast efnahagslega. Eftir að hann hefur kollsteypt markmiðum sósíalismans og leiðum, og þarmeð efnahagslegum aðstæðum, getur hann ekki grundvallað stefnu sína á efnishyggju, hann neyðist til að grípa til hughyggju.

"Hvers vegna á að leiða sósíalismann af efnahagslegri nauðsyn?" heyrum við þá til hans. "Hvers vegna á að gera lítið úr skilningi, réttlætiskennd, og vilja mannanna" (Vorwärts 26/3 1899). Hin réttlátari skipting Bernsteins á þá að komast á vegna frjáls vilja mannanna, sem er óbundinn af efnahagslegri nauðsyn. Eða nánar tiltekið, þar sem viljinn sjálfur er aðeins tæki, vegna skilnings á réttlætinu, í stuttu máli, vegna réttlætishugmyndarinnar.

Þá erum við komin heilu og höldnu aftur að réttlætislögmálinu, að þessum gamla jálki, sem allir heimslausnarar hafa hökt á, árþúsundum saman, af því að þá skorti örugg hreyfiöfl sögunnar; komin að hinni hrörlegu Rosinante, sem allir Don Quixotar sögunnar hafa riðið út til að koma heiminum í lag, og komu loks heim með ekkert nema glóðarauga.

Afstæður fátækra og ríkra sem sögulegur grundvöllur sósíalismans, "lögmál" félagshyggjunnar sem innihald hans, "réttlátari skipting" sem tilgangur hans, og réttlætishugmyndin sem eina sögulega réttlæting hans - fyrir meira en fimmtíu árum boðaði Weitling svona sósíalisma af miklu meira afli, andríki og glæsibrag: Reyndar þekkti þessi snjalli skraddari þá ekki fræðilegan sósíalisma. Nú, eftir meira en hálfa ö1d, er afstaða hans, sem Marx og Engels höfðu tætt sundur í smábúta, nú er hún rimpuð saman og boðin þýskum öreigum sem nýjustu vísindi. Til þess þarf vissulega líka flikkara, en ekki er snilldinni fyrir að fara.

Svo sem verkalýðsfélög og samvinnufélög eru efnahagslegar stoðir endurskoðunarkenningarinnar, þannig eru mikilvægustu pólitísku forsendur hennar stöðug framþróun lýðræðis. Afturhaldsárásirnar nú um stundir eru í augum endurskoðunarsinna aðeins "fjörbrot", tilviljunarkennd og hverful, með þeim eigi ekki að reikna þegar línur séu lagðar fyrir verkalýðsbaráttu[20]. T.d. er lýðræði óhjákvæmilegt stig í þróun nútímasamfélags samkvæmt Bernstein, já, lýðræðið er í augum hans, alveg eins og borgaralegra boðbera frjálshyggjunnar, meginlögmál sögulegrar þróunar yfirleitt og öll öfl stjórnmálalífsins hljóta að stuðla að framkvæmd þess. En það er alrangt, sett fram svo afdráttarlaust, ekkert nema smáborgaraleg einföldun borgaralegrar þróunar undanfarin 25-30 ár, raunar er hún líka yfirborðsleg. Ef nánar er gáð að sögulegri þróun lýðræðis og jafnframt að pólitískri sögu auðvaldsins, þá kemur allt annað á daginn.

Hvað varðar hið fyrrnefnda, þá verður lýðræði fyrir við sundurleitustu samfélagskerfi: í frumkommúnískum samfélögum, í þrælaríkjunum fornu, í borgarsamfélögum miðalda. Á sama hátt verður fyrir einveldi og þingbundin konungsstjórn við sundurleitustu hagkerfi. Í upphafi kallar auðvaldskerfi - sem vöruframleiðsla - fram lýðræðislega stjórnarskrá í borgarsamfélögunum. Síðar, þegar það hefur þróast til handverks, finnur það sér samsvarandi pólitískt form í konungseinveldi. Þegar það hefur loks þróast til iðnaðarhagkerfis, elur það af sér í Frakklandi ýmist lýðræðislegt lýðveldi (1793), einveldi Napóleons I, aðalsháð konungdæmi Afturhvarfsins (1815-1830), þingbundið borgaralegt konungdæmi Louis-Philippe, aftur lýðræðislegt lýðveldi, aftur keisaradæmi Napoleons III og loks þriðja lýðveldið[21]. Eina raunverulega lýðræðisskipan Þýskalands, almennur kosningaréttur, er ekki ávinningur borgaralegrar frjálshyggju, heldur tæki til að sjóða saman smáríkin, og hefur aðeins þannig þýðingu fyrir þróun þýsku borgarastéttarinnar. Annars gerir hún sig ánægða með hálflénskt, þingbundið konungdæmi. Í Rússlandi þroskaðist auðvaldskerfið lengi undir austrænu alræði, án þess að borgarastéttin sýndi þess merki að þrá lýðræði. Í Austurríki varð almennur kosningaréttur einkum bjargráð gegn upplausn konungdæmisins[22]. Í Belgíu stendur loks lýðræðissigur verkalýðshreyfingarinnar - almennur kosningaréttur - í ótvíræðu samhengi við hve veikburða hernaðarstefnan er, hlýst semsé af sérstakri stöðu Belgíu, landfræðilega og pólitískt. Og umfram allt er þessi "lýðræðisbiti" ekki sigurvinningur borgarastéttarinnar, heldur unninn gegn borgarastéttinni.

Óslitin sigurganga lýðræðisins, sem endurskoðunarsinnar okkar og borgaralegir frjálshyggjumenn telja vera hið mikla undirstöðulögmál mannkynssögunnar, a. m. k. nú á tímum, reynist þá við nánari athugun vera hillingar. Milli auðvaldsþróunar og lýðræðis verður ekki fundið neitt almennt algert samræmi. Skipulag stjórnmála er hverju sinni útkoma alls samspils pólitískra þátta, innri og ytri, og innan marka þess rúmast allur tröppugangurinn frá konungseinveldi til hins lýðræðislegasta lýðveldis.

Ef við þá hverfum frá því að finna almennt sögulegt lögmál um þróun lýðræðisins, einnig innan nútímasamfélags og snúum okkur aðeins að núverandi skeiði borgaralegrar sögu, þá birtast einnig hér í stjórnmálaástandinu þættir, sem leiða ekki til að framkvæma kerfi Bernsteins, heldur gerist hið gagnstæða: borgaralegt samfélag gefur þessa ávinninga upp á bátinn.

Annarsvegar, og það er mjög mikilvægt, hefur lýðræðisskipanin lokið hlutverki sínu fyrir borgaralega þróun að verulegu leyti. Þar sem hún var nauðsynleg til að sjóða saman smáríki og koma upp nútímastórríkum (Þýskaland, Ítalía) hefur efnahagsþróunin leitt til innra, lífræns samruna[23].

Sama gildir um ummyndun alls stjórnkerfisins frá því að vera hálflénskt eða allénskt til auðvaldskerfis. Þessi ummyndun var óaðskiljanleg frá lýðræðinu sögulega. En einnig hún hefur nú náðst fram í svo miklum mæli, að afnema má lýðræðislega þætti ríkiskerfisins, almennan kosningarrétt, stjórnskipan 1ýðveldis, án hættu á að stjórnkerfið, fjárhagsmál, varnarmál, o. s. frv. þyrftu að falla í lénsk form.

Sé frjálshyggjan þannig orðin í meginatriðum óþörf borgaralegu samfélagi, þá er hún að öðru leyti orðin bein hindrun í mikilvægum málum. Hér er að líta á tvo þætti sem ráða beinlínis öllu pólitísku lífi nútímaríkja: alþjóðastjórnmál og verkalýðshreyfingu - hvort tveggja eru aðeins mismunandi hliðar þess skeiðs sem auðvaldsþróunin er nú á.

Myndun alþjóðlegs hagkerfis og það hvernig samkeppnin á heimsmarkaðinum hefur harðnað og breiðst út, hafa gert hernaðarstefnu á landi og legi, þetta tæki alþjóðastjórnmála, að leiðandi afli í ytra og innra lífi stórríkja. Alþjóðastjórnmál og hernaðarstefna eru örugglega vaxandi hneigð á núverandi skeiði[24].

Af því leiðir rökrétt að borgaralegt lýðræði er á niðurleið. Í Þýskalandi kostaði skeið hins mikla vígbúnðar (frá 1893) og heimsvaldastefnan sem hófst með Kjátsjú[25] óðar tvær fórnir borgaralegs lýðræðis, hrun Frjálslyndra og breytingu Miðflokksins úr andstöðuflokki í stjórnarflokk. Síðustu kosningar,1907, sem voru háðar undir merkjum nýlendustefnunnar, urðu jafnframt útför þýskrar frjálshyggju. Deilurnar um nýja hernaðarfjárveitingu klufu Deutschfreisinnige Partei í Freisinnige Vereinigung og Freisinnige Volkspartei. Sá flokkur og Zentrum (miðflokkur) greiddu ásamt sósíalistum atkvæði gegn hernaðarfjárveitingunni 15/7 1893. En Zentrum varði samt ákaft frumvarp um lög gegn uppreisn og aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem beindist gegn sósíalistum og verkalýðsstéttinni.

Reki þannig utanríkismálin borgarastéttina í arma afturhaldsins, þá ekki síður innanríkismálin, þar sem er verkalýðsstétt á uppleið. Bernstein viðurkennir þetta sjálfur, þegar hann kennir "sósíalistagrýlunni", þ.e. sósíalískri stefnu verkalýðsstéttarinnar um flótta borgarastéttarinnar undan fánum frjálshyggjunnar. Til þess að lokka dauðhrædda frjálshyggjumennina aftur út úr músarholu afturhaldsins, ræður hann því öreigastéttinni að hverfa frá sínu sósíalíska takmarki. En fyrst hann gerir það að lífsskilyrði og félagslegri forsendu borgaralegs lýðræðis nú á tímum, sannar hann sjálfur best að þetta lýðræði er í sama mæli í mótsögn við innri þróunarhneigð nútímasamfélags, sem sósíalísk verkalýðshreyfing er bein afurð þessarar hneigðar.

En hann sannar meira með þessu. Fyrst hann setur það sem forsendu fyrir endurlífgun borgaralegs lýðræðis að verkalýðsstéttin hverfi frá sósíalísku takmarki sínu, sýnir hann sjálfur hve fjarri því fer að borgaralegt lýðræði sé nauðsynleg forsenda sósíalískrar hreyfingar og sigurs sósíalista. Röksemdafærsla Bernsteins lokast hér í vítahring, þar sem lokaályktunin "étur" upp fyrstu forsenduna.

Leiðin út úr þessum vítahring er mjög einföld: Fyrst borgaraleg frjálshyggja dó úr hræðslu við verkalýðshreyfingu á uppleið og takmark hennar, þá er sósíalísk verkalýðshreyfing núna eina stoð lýðræðisins, og að um aðra getur ekki verið að ræða. Örlög sósíalískrar hreyfingar eru ekki undir borgaralegu lýðræði komin, heldur eru þvert á móti örlög lýðræðisþróunar undir sósíalískri hreyfingu komin. Lýðræðið verður ekki lífvænlegra í þeim mæli sem verkalýðsstéttin hverfur frá frelsisbaráttu sinni, heldur þvert á móti í þeim mæli sem hreyfing sósíalista verður nógu sterk til að berjast nú gegn afturhaldi, sem leiðir af heimsvaldastefnunni og af því að borgarastéttin skyldi svíkjast undan merkjum. Hver sem vill styrkja lýðræðið, hlýtur líka að vilja styrkja sósíalíska hreyfingu en ekki veikja, og verði stefna sósíalista gefin upp á bátinn, er bæði verkalýðshreyfing og lýðræði gefin upp á bátinn[26].

 

3. Valdatakan

Einsog við sáum eru örlög 1ýðræðisins bundin örlögum verkalýðshreyfingarinnar. En færi nú allt á besta veg, gerir þá lýðræðisþróun öreigabyltingu óþarfa eða ómögulega? Öreigabyltingu í merkingunni að ná ríkisvaldinu, að taka pólitísk völd ?

Bernstein sker úr þessari spurningu með því að vega og meta rækilega góðar og slæmar hliðar löglegra umbóta og byltingar, í ró og makindum, eins og hann væri að vega kanil og pipar í kaupfélaginu. Í löglegum gangi þróunar sér hann skynsemina að verki, en í byltingu tilfinningarnar. Í endurbótum sér hann hæga þróun sögunnar, en í byltingunni hraða, skipulegt afl sér hann í löggjöf, en frumkraft í umbyltingunni (bls. 183).

Það er gömul saga að smáborgaralegir umbótamenn sjá "góða" hlið og "slæma" á öllum hlutum og að þeir tína úr hverju blómabeði. En hitt er jafngömul saga að raunveruleg atburðarrás fer afar lítið eftir smáborgaralegum samsetningum. Þegar búið er að draga vandlega saman hrúgu "góðra hliða" á öllum mögulegum hlutum í veröldinni, þyrlar hún henni í loft upp með einum hnerra. Raunar sést á sögunni að löglegar umbætur og bylting fara eftir ástæðum sem liggja dýpra en kostir eða gallar þessarar aðferðar eða hinnar.

Það er nefnilega jafnan svo í sögu borgaralegs samfélags að löglegar umbætur voru til að styrkja smámsaman stétt á uppleið, uns hún þóttist nógu þroskuð til að grípa pólitísk völd og kollvarpa öllu hinu ríkjandi réttarkerfi, til að byggja upp nýtt. Bernstein hamast gegn pólitískri valdatöku sem blanqískri valdránskenningu. En honum verða þau mistök á, að kalla það blanqíska reikningsvillu, sem öldum saman hefur verið þungamiðja mannkynssögunnar og hreyfiafl. Allt frá því að stéttasamfélög urðu til og stéttabaráttan varð megininntak sögu þeirra, hefur pólitísk valdataka jafnan verið takmark allra stétta á uppleið, sem og upphaf og endir hvers söguskeiðs. Þetta sést á langvinnri baráttu bænda við fjármálamenn og aðal í Róm hinni fornu, í baráttu höfðingjanna (patrisía) við biskupa, í baráttu handverksmanna við höfðingja í borgum miðalda og í baráttu borgarastéttar gegn lénskerfinu á nýöld.

Umbótalöggjöf og bylting eru þá ekki mismunandi aðferðir sögulegrar framþróunar sem menn geta valið um að vild af veisluborði sögunnar eins og heitar pylsur eða kaldar, heldur eru þær mismunandi skeið í þróun stéttasamfélaga. Þær uppfylla hvor aðra og móta, en útiloka jafnframt hvor aðra, einsog t. d. suðurpóll og norðurpóll, borgarastétt og öreigastétt.

Og raunar er lagakerfið hverju sinni einungis afleiðing byltingar. Byltingin er pólitísk sköpun í sögu stéttanna, en í löggjöfinni drollar samfélagið áfram. Umbótalöggjöf hefur nefnilega ekkert eigið hreyfiafl, óháð byltingunni, á hverju söguskeiði fer hún einungis eftir ákveðinni braut. Hve langt hún nær, fer eftir sparkinu sem hún fékk við síðustu umbyltingu, eða hreint út sagt, hún er aðeins innan ramma samfélagsskipanarinnar sem varð til við síðustu umbyltingu. Það er einmitt kjarni málsins.

Það er alrangt og stangast á við mannkynssöguna, að líta á umbætur með löggjöf sem langdregna byltingu, og byltinguna sem samþjappaðar umbætur. A félagslegri umbyltingu og umbótum við löggjöf er eðlismunur, en ekki bara tímalengdar. Þannig veldur einmitt pólitísk valdbeiting sögulegum umbyltingum, þegar hreinar magnbreytingar slá yfir í eðlisbreytingar, hreint út sagt: þegar eitt söguskeið eða samfélagsskipan tekur við af annarri.

Sá sem kýs umbætur í stað þess að að grípa völd með byltingu, hann velur í rauninni ekki rólegri, öruggari og seinfarnari leið að sama marki, heldur velur hann þar með annað markmið, nefnilega óverulegar breytingar á gamla samfélaginu í stað þess að koma á nýju samfélagi. Þannig leiða pólitískar skoðanir endurskoðunarsinna til sömu niðurstöðu og kenningar þeirra um efnahagsmál: í rauninni beinast þær ekki að því að koma á sósíalískri skipan, heldur bara að bæta auðvaldskerfið, ekki að upphefja launakerfið, heldur snúast þær um það hvort arðránið verði meira eða minna. Í stuttu máli sagt, þær beinast að því að fjarlægja æxli auðvaldsins, en ekki auðvaldið sjálft.

En þessar setningar um hlutverk löglegra umbóta og byltingar gilda e.t.v. aðeins um stéttabaráttuna hingð til? Ef til vill hefur þróun borgaralegs réttarkerfis gert kleyft að leiða samfélagið af einu sögulegu skeiði á annað með löglegum umbótum, svo að það séu "orðin innihaldslaus orð" að verkalýðsstéttin taki ríkisvaldið í sínar heldur eins og Bernstein segir í riti sínu (bls. 183)?

Þessu er þveröfugt farið. Hvað greinir borgaralegt samfélag frá fyrri stéttasamfélögum í fornöld og á miðöldum? Einmitt það að stéttarveldið hvílir ekki lengur á "áunnum réttindum", heldur á raunverulegum efnahagsaðstæðum, að launakerfið er ekki réttarsamband, heldur eingöngu efnahagslegt. Í öllu réttarkerfi okkar er engin lagagrein fyrir því stéttarveldi sem nú er. Votti fyrir slíku, eins og í hjúalögum þá eru það bara leifar lénsskipulagsins.

Hvernig á þá að aflétta launaþrældóminum stig af stigi "með löggjöf", þegar hann birtist alls ekki í lögunum? Bernstein sem vill hefjast handa um umbótalöggjöf til að afnema auðvaldið, lendir í hlutverki rússneska lögreglumannsins, sem segir ævintýri sín hjá Uspenskí: "Strax greip ég í jakkakraga karlsins, og hvað kom á daginn? Að karlskrattinn var kragalaus". Þar liggur hundurinn grafinn.

Öll samfélög hafa hingað til byggst á ... "andstæðum drottnandi stétta og kúgaðra" (Kommúnistaávarpið. M&E: Úrvalsrit I, bls. 36). En á fyrri skeiðum nútímasamfélags birtust þessar andstæður í sérstöku réttarsambandi og einmitt þessvegna gátu þær veitt hinum nýju aðstæðum rúm innan hinna gömlu að vissu marki. "Ófrjálsir bændur miðalda unnu sér þegnrétt í griðaborgunum á dögum bændaánauðar." (s. r. s. st.) Hvernig? Við það að allskyns sérréttindi leysast upp í kviði borgarinnar: dagsverk, erfðatollur, reglur um klæðnað, kvikfjárafgjöld, hjúskaparnauðung, o. s. frv., o. s. frv., en í heild valda þessi sérréttindi ánauðinni.

Á sama hátt unnu "smáborgarar sig upp í að verða borgarar undir oki lénsbundins einveldis." (s. r. s. st.). Hvernig? Við það að hlekkir gildanna voru smám saman afnumdir formlega eða losað um þá, og smám saman ummynduðust stjórnkerfi og skipan fjármála og varnarmála, svo sem brýnust þörf var á.

Vilji menn þá fjalla um málið óhlutbundið frekar en sögulega, þá er að minnsta kosti hægt að ímynda sér breytingu frá lénssamfélagi til borgaralegs við umbótalöggjöf, einsog stéttaafstæður voru þá. En hvað gerðist í raun? Einnig þá komu löglegar umbætur ekki í staðinn fyrir pólitíska valdatöku borgarastéttarinnar, heldur voru þær þvert á móti til að undirbúa hana, leiða til hennar. Formleg umbylting, pólitískt og félagslega, var óhjákvæmileg, jafnt til að afnema bændaánauð sem lénskerfið.

En nú er málum allt öðruvísi háttað. Engin lög þvinga öreigana til að gangast undir ok auðvaldsins, heldur aðeins neyðin, skortur á framleiðslutækjum. Innan ramma borgaralegs samfélags geta engin lög veitt þeim framleiðslutækin, því þeir voru ekki sviptir þeim með löggjöf, heldur við efnahagslega þróun.

Innan launakerfisins byggist arðránið heldur ekki á lögum, því upphæð launanna er ekki ákveðin með löggjöf heldur af efnahagslegum atriðum. Og sjálft fyrirbærið arðrán grundvallast ekki á lagasetningu, heldur á þeirri efnahagsstaðreynd að vinnuaflið birtist sem vara sem hefur m. a. það viðkunnanlega einkenni að framleiða gildi, og reyndar meira gildi en þarf til að framleiða hana sjálfa í mynd neysluvarnings verkalýðs. Í stuttu máli sagt, engar grundvallaraðstæður stéttadrottnunar auðvaldsins er hægt að umskapa með umbótalöggjöf á borgaralegum grunni. Það er útilokð vegna þess að þær komust hvorki á við borgaralega löggjöf, né hafa þær verið mótaðar í þvílíkum lögum. Þetta veit Bernstein ekki, þegar hann semur áætlanir um sósíalískar "umbætur", en það sem hann ekki veit, segir hann þó á bls. 10 í bók sinni, þegar hann ritar "að hreyfiafl efnahagslífsins komi nú frjálst fram, en hafi áður verið dulið af allskyns drottnunar- og hugmyndakerfi".

En hér kemur annað til. Það er annað sérkenni auðvaldsskipulagsins að í því birtast allir þættir framtíðarsamfélagsins fyrst í þeirri mynd að nálgast ekki sósíalismann, heldur fjarlægjast hann. Framleiðslan einkennist æ meir af félagslegu eðli. En í hvaða mynd? Frá stórfyrirtæki um hlutafélag, og sölusamband, þar sem mótsetningar auðvaldsins, arðrán og kúgun á vinnuaflinu, magnast til hins ítrasta.

Í varnarmálum leiðir þróunin til þess að almenn herskylda kemst á og herskyldutíminn styttist, efnislega nálgast þetta alþýðuher. En það er í mynd nútíma hernaðarstefnu, þar sem stéttareðli ríkisins birtist skýrast í kúgun herríkisins á alþýðu manna.

Í stjórnmálalífinu kemur til þátttöku allra þjóðfélagshópa við þróun lýðræðisins, finni það góðan jarðveg. Þetta er á vissan hátt "alþýðuríki". En þetta gerist í mynd borgaralegs þingræðis, þar sem stéttadrottnun er ekki upphafin, heldur þróast þvert á móti og birtast skýrt. Vegna þess að öll auðvaldsþróunin verður í togstreitu andstæðna, verður öreigastéttin að grípa pólitísk völd og afnema auðvaldskerfið algerlega, til að losa kjarna sósíalísks samfélags úr þessum auðvaldsumbúðum, sem eru í mótsögn við hann.

Bernstein dregur reyndar aðrar ályktanir. Ef þróun lýðræðis leiðir til að skerpa andstæður auðvaldsins í stað þess að slæva þær, svarar hann mér, "þá yrðu sósíalistar að reyna að hindra félagslegar umbætur og útvíkkun lýðræðis, svo að þeir geri sér ekki erfiðara fyrir" (bls. 71). Jú, vissulega, ef sósíalistar hefðu smekk fyrir þeirri smáborgaralegu ónytjuiðju að velja góðar hliðar allra hluta í veraldarsögunni en kasta burt vondum hliðum. Rökrétt væri þá að þeir "reyndu að hindra" allt auðvaldið, því það er þó óumdeilanlega aðalbölvaldurinn, sem reisir allar hindranir á leiðinni til sósíalismans. En fyrir utan hindranir og jafnframt þeim gefur auðvaldið líka einu möguleikana á að framkvæma stefnu sósíalista. Hið sama gildir líka alveg um lýðræðið.

Sé lýðræðið orðið borgarastéttinni a. n.l. óþarft og að nokkru leyti þröskuldur (eins og ég rakti í síðara hluta síðasta kafla), þá er það aftur á móti orðið nauðsynlegt verkalýðsstéttinni og ómissandi. Í fyrsta lagi af því að það skapar stjórnmálaform (sjálfstjórn, kosningarétt o. þ. u. l.) sem koma öreigastéttinni að gagni við ummyndun borgaralegs samfélags. Í öðru lagi er það ómissandi vegna þess að einungis í því, þegar öreigastéttin neytir réttinda sinna í baráttunni fyrir lýðræði, kemst hún til meðvitundar um stéttarlega hagmuni sína og sögulegt hlutverk.

Í stuttu máli sagt, lýðræðið er nauðsynlegt, ekki vegna þess að það geri valdatöku öreigastéttarinnar óþarfa, heldur þvert á móti vegna þess að það gerir þessa valdatöku nauðsynlega, og aðeins lýðræðið gerir hana mögulega. Þegar Engels endurskoðaði baráttuaðferðir verkalýðsins nú á dögum í formála Stéttabaráttunnar í Frakklandi og hélt fram löglegri baráttu gegn götuvirkjum[27], þá var hann ekki að fjalla um endanlega valdatöku, heldur um daglega baráttu núna. Þetta sést á hverri línu inngangsins. Hann var ekki að tala um framgöngu öreigastéttarinnar andspænis auðvaldsríkinu, þegar hún tekur ríkisvaldið, heldur framgöngu hennar innan ramma auðvaldsríkisins. Í stuttu máli sagt, Engels var að leggja undirokuðum öreigalýð línuna, ekki sigursælum.

Hin kunnu orð Marx um jarðnæðismál í Englandi, sem Bernstein vitnar einnig til, "það yrði líklegast ódýrast að kaupa landeigendurna af sér", þau[28] eiga hinsvegar ekki við framgöngu öreigastéttarinnar fyrir sigurinn, heldur eftir hann. Því augljóslega er þá aðeins hægt að tala um að "kaupa af sér ríkjandi stéttir, að verkalýðsstéttin sitji við stjórnvölinn. Það sem Marx sá hér sem möguleika var friðsamlegt alræði öreiganna en ekki að félagslegar umbætur auðvaldsins kæmu í stað þess.

Fyrir bæði Marx og Engels var ævinlega hafið yfir allan efa að öreigastéttin yrði nauðsynlega að taka pólitísk völd. Og það beið Bernsteins að útnefna hænsnakofa borgaralegs þingræðis sem kjörinn vettvang fyrir mestu umbyltingu veraldarsögunnar, að umskapa samfélagið úr auðvaldsmynd í sósíalíska.

En Bernstein hóf kenningar sinar einungis af ótta um að öreigastéttin kæmist of fljótt til valda, og við því varaði hann! Færi svo, segir Bernstein, yrði hún að láta borgaralegar aðstæður eiga sig óbreyttar, og bíða sjálf hroðalegan ósigur. Það sem skín fyrst og fremst út úr þessum ótta er að ef aðstæður leiddu öreigastéttina til valda, þá hefði hún aðeins eitt "hagnýtt" ráð að sækja til kenninga Bernsteins: að fara að hátta. Þar með fellir kenning Bernsteins dóminn yfir sjálfri sér: þetta er afstaða sem dæmir öreigastéttina til aðgerðaleysis þegar helst reynir á í baráttunni, þ.e. til að svíkja sinn eiginn málstað með aðgerðarleysi.

Reyndar væri öll stefnuskrá okkar ómerkilegur pappírssnepill, ef hún ætti ekki að duga okkur hvað sem upp kann að koma í baráttunni, hvenær sem er, og þá á ég við að hún dugi sem leiðsögn í starfi, ekki leiðsögn um aðgerðarleysi. Eigi stefna okkar að setja fram sögulega þróun samfélagsins frá auðvaldi til sósíalisma, þá verður hún greinilega líka að setja fram öll umbreytingarskeið þessarar þróunar, fela þau í sér í megindráttum. Hún verður sem sé að sýna hvernig öreigastéttin eigi að stefna að sósíalisma við sérhverjar aðstæður. Af því leiðir, að sú stund getur ekki runnið upp yfir öreigastéttina, að hún neyddist til að víkja frá stefnu sinni, eða að þessi stefna brygðist henni.

Þetta kæmi þannig fram í reynd, að hefði atburðarásin leitt öreigastéttina til valda, þá kæmi aldrei sú stund að stéttin gæti ekki og þyrfti ekki að grípa til vissra aðgerða til að framkvæma stefnu sína, að hún væri ekki að gera vissar umbreytingar í átt að sósíalisma. Á bak við fullyrðinguna um að undir pólitískri drottnun öreigastéttarinnar gæti stefna sósíalista einhverntíma brugðist algerlega svo að engar ábendingar væri að hafa um framkvæmd hennar; bakvið hana býr ómeðvitað önnur fullyrðing: að stefna sósíalista sé yfirleitt alltaf óframkvæmanleg.

Og yrði nú of fljótt gripið til umbreytingarðgerða? Þessi spurning felur í sér margfaldan misskilning á því hvernig félagsleg umbylting gengur raunverulega fyrir sig.

Það verður í fyrsta lagi ekki gert að vild, að öreigastéttin, mikill samfélagshópur, taki völdin. Forsenda þess er viss þroski, efnahags- og stjórnmálalífs, nema í undantekningartilvikum einsog Parísarkommúnunni. En þar var drottnun öreigastéttarinnar ekki afleiðing markvissrar valdabaráttu hennar, heldur féll henni í skaut einsog yfirgefið óðal. Hér liggur aðalmunurinn á blanquísku valdráni "einbeitts minnihluta" sem alltaf kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og einmitt þessvegna alltaf á röngum tíma, og svo hinsvegar því er mikill, stéttvís alþýðufjöldi tekur völdin. Sjálfur er hann einungis afleiðing þess að borgaralegt samfélag er farið að hrynja og því er hann í sjálfum sér sönnun þess, efnahagslega og stjórnmálalega, að hann komi á réttum tíma.

Miðað við samfélagslegar forsendur getur það þá alls ekki gerst "of fljótt" að verkalýsstéttin taki pólitísk völd, en hlýtur hinsvegar að gerast "of fljótt" miðað við pólitísk áhrif: að halda völdunum. Ótímabær bylting sem varnar Bernstein svefns, ógnar okkur einsog sverð Demklesar og gegn því duga hvorki áköll né andvörp, hik né bænir. Og það er af tveimur mjög einföldum ástæðum.

Í fyrsta lagi er svo feiknleg umbylting sem ummyndun samfélagsins frá auðvaldskerfi til sósíalísks, alveg óhugsandi í einni atrennu, í einni sigursælli atlögu öreigastéttarinnar. Það sýndi sanna blanquíafstöðu að gera ráð fyrir þvílíkum möguleika. Forsenda sósíalískrar umbyltingar er löng og hörð barátta. Allt bendir til þess að öreigastéttin verði þar að láta undan síga oftar en einu sinni. Miðað við endanlegan árangur allrar baráttunnar, hlýtur hún því að komast "of fljótt" til valda fyrsta sinni.

Því er í öðru lagi ekki hægt að forðast "ótímabæra" valdatöku, að þessar "ótímabæru" árásir öreigastéttarinnar eru einmitt sjálfar þáttur í að skapa pólitísk skilyrði lokasigursins, og raunar mjög mikilvægur þáttur.

Öreigastéttin getur aðeins náð þeim pólitíska þroska, sem hún þarf til hinnar miklu, endanlegu umbyltingar, í báli langrar og harðrar baráttu, í þeirri pólitísku kreppu, sem fylgir valdatöku hennar. Þannig reynast þessar "ótímabæru" árásir öreigastéttarinnar á hið pólitíska ríkisvald sjálfar vera mikilvægir sögulegir atburðir, sem einnig leiða til endanlegrar sigurstundar og móta hana að nokkru. Frá þessu sjónarmiði birtist hugmyndin um að vinnandi alþýða geti tekið pólitísk völd of snemma, sem pólitísk öfugmæli, sem gera ráð fyrir vélrænni þróun samfélagsins, að sigurstundin í stéttabaráttunni ákvarðist utan við stéttabaráttuna og óháð henni.

En þar sem öreigastéttin getur þá ekki tekið ríkisvaldið nema "of snemma", eða með öðrum orðum, þarsem hún verður óhjákvæmilega að taka það einu sinni eða oftar "of snemma", til þess að geta loks náð þeim varanlega, þá er andstaðan gegn "ótímabærri" valdatöku ekkert annað en andstaða gegn tilraunum öreigastéttarinnar almennt til að ná ríkisvaldinu.

Eins og allar leiðir lágu til Rómar, þá leiðir einnig þessi hlið á kenningum Bernsteins okkur rökrétt til þeirrar niðurstöðu að boðskapur endurskoðunarsinna um að falla frá lokatakmarki sósíalista, felur einnig í sér hinn, að gefa líka alla stéttarbaráttu sósíalista upp á bátinn[29].

 

4. Hrunið

Bernstein hóf endurskoðun sína á stefnu sósíalista með því að falla frá kenningunni um hrun auðvaldsins. En hrun borgaralegs samfélags er hornsteinn fræðilegs sósíalisma. Þegar Bernstein tók þennan hornstein burt, hlaut öll hans sósíalíska afstaða að hrynja. Eftir því sem deilurnar þróuðust áfram hvarf hann frá einni afstöðu sósíalista af annarri, til þess að geta staðið við upphaflega fullyrðingu sína.

Án hruns auðvaldsins er ómögulegt að svipta auðstéttina eignum hennar. Bernstein fellur frá eignaupptökunni og setur verkalýðshreyfingunni það markmið að koma "félagshyggjusjónarmiðinu" smám saman á.

En félagshyggju er ekki hægt að koma á mitt í auðvaldsframleiðslunni - Bernstein fellur frá því að gera framleiðsluna félagslega og snýr sér að endurbótum á verslun, að kaupfélögum.

En samfélagið verður ekki umskapað af kaupfélögum, ekki heldur þótt þau tengist verkalýðsfélögum. Það samrýmist ekki raunverulegri efnislegri þróun auðvaldssamfélagsins. - Bernstein fellur frá efnislegri söguskoðun.

En skoðun hans á þróun efnahagsmála rekst á kenningu Marx um gildisaukann - Bernstein fellur frá kenningunni um gildi og gildisauka og þar með frá gervöllum efnahagskenningum Karls Marx.

En án ákveðins markmiðs og án efnahagslegs grundvallar í samfélagi nútímans er ekki hægt að leiða stéttabaráttu öreiganna - Bernstein fellur frá stéttabaráttunni og boðar sættir við borgaralega frjálshyggju.

En í stéttasamfélagi er stéttabarátta eðlileg og óhjákvæmileg - þar af leiðir að Bernstein neitar því meira að segja að stéttir séu til í samfélagi okkar: samkvæmt honum er verkalýðsstéttin bara samansafn einstaklinga sem eru sundraðir, ekki aðeins pólitískt og andlega, heldur einnig efnahagslega. Og einnig borgarastéttin loðir skv. honum saman ekki vegna innri, efnahagslegra hagsmuna, heldur helst hún saman pólitískt aðeins vegna ytri þrýstings að ofan eða neðan.

En sé ekki efnahagslegur grundvöllur fyrir stéttabaráttu, og í rauninni ekki til neinar stéttir, þá kemur í ljós að ekki er aðeins framtíðarbarátta öreigastéttarinnar við borgarastéttina ómöguleg, heldur einnig baráttan hingað til, hreyfing sósíalista og sigrar hennar verða óskiljanleg. Eða þá að hún verður einungis skiljanleg sem afleiðing af pólitískum þrýstingi ríkisstjórnarinnar, ekki rökrétt afleiðing sögulegrar þróunar, heldur tilviljunarkennd afleiðing af stefnu Hohenzollerna, ekki eðlilegt afkvæmi auðvaldssamfélagsins, heldur afstyrmi afturhaldsins. Þannig leiðist Bernstein alveg rökrétt frá söguskoðun efnishyggjunnar til söguskoðunar Frankfurter Zeitung og Vossische Zeitung.

Eftir að menn hafa hafnað allri sósíalískri gagnrýni á auðvaldssamfélagið er ekki annð eftir en að finnast ríkjandi aðstæður í stórum dráttum fullnægjandi. Og einnig það fælir Bernstein ekki frá: Honum finnst afturhaldshneigðin hafa minnkað í Þýskalandi, "einnig sé pólitískt afturhald ekki áberandi í ríkjum V-Evrópu." "Um nær öll vesturlönd er afstaða borgarastéttanna til sósíalískrar verkalýðshreyfingar í mesta lagi varnarstaða ekki kúgun" (Vorwärts 26/3 1899). Verkalýðurinn verður ekki snauðari, heldur þvert á móti sífellt efnaðri, borgarastéttin er framsækin pólitískt og meira að segja siðferðilega heilbrigð, ekkert ber á afturhaldi eða kúgun og allt er í allrabesta lagi í þessum besta heimi allra heima.

Þannig leiðist Bernstein alveg rökrétt frá A til Ö. Hann hafði byrjað á því að fórna takmarkinu vegna hreyfingarinnar. En þar sem sósíalísk hreyfing getur ekki verið til án sósíalísks takmarks, þá endar hann óhjákvæmilega á því að fórna líka sjálfri hreyfingunni.

Sósíalísk afstaða Bernsteins er þannig öll hrunin. Tíguleg, samræmd, dásamleg bygging kerfis Marx er nú í meðförum hans orðin mikill sorphaugur, þar sem brot úr öllum kerfum, molar úr hugsunum allra anda, mikilla og lítilla, hafa fengið sameiginlega gröf. Marx og Proudhon, Leo von Buch og Franz Oppenheimer, Friedrich Albert Lange og Kant, Prokopowitsch og Dr. Ritter von Neupaner, Herkner og Schulze-Gävernitz, Lassalle og professor Julius Wolf - allir hafa þeir lagt sinn litla skerf til kerfis Bernsteins, af öllum hefur hann lært. Og það er ekki að undra! Með því að hverfa frá stéttarsjónarmiðinu hefur hann misst pólitískan áttavita, með því að hverfa frá fræðilegum sósíalisma hefur hann misst þann andlega kristöllunarás sem einstakar staðreyndir raðast um til að mynda skipulega heild samræmdrar lífsskoðunar .

Þessi kenning, tínd gagnrýnislaust saman úr allskyns kerfamolum, virðist alveg hleypidómalaus við fyrstu sýn. Bernstein vill heldur ekkert heyra um "flokksfræði" eða réttara sagt, stéttarfræði, ekki frekar en um stéttarfrjálshyggju eða stéttarsiðgæði. Hann álítur sig fulltrúa sammannlegra óhlutbundinna fræða, óhlutbundinnar frjálshyggju, óhlutbundins siðgæðis. En þar sem raunverulegt samfélag er myndað af stéttum sem hafa alveg gagnstæða hagsmuni, viðleitni og viðhorf, þá eru sammannleg fræði í félagslegum efnum, óhlutbundin frjálshyggja og óhlutbundið siðgæði, fyrst um sinn hugarórar, sjálfsblekking. Það sem Bernstein telur vera sammannleg fræði, lýðræði og siðgæði, er bara ríkjandi fræði, þ.e. borgaraleg fræði, borgaralegt lýðræði, borgaralegt siðgæði.

Nema hvað! Þegar hann hafnar efnahagskerfi Marx en lofsyngur kenningar Brentano, Böhm-Jevans, Say, Julius Wolf, hvað gerir hann þá annað en að skipta á fræðilegum grundvelli frelsunar verkalýðsstéttarinnar og málssvörum borgarastéttarinnar? Þegar hann talar um sammannlegt eðli frjálshyggjunnar og gerir sósíalismann að undirflokki hennar, hvað gerir hann þá annað en að svipta sósíalismann stéttareðlinu, þ. e. sögulegu inntaki, þ. e. öllu inntaki? Með því gerir hann hinsvegar borgarastéttina sem á sínum tíma bar uppi frjálshyggjuna, að fulltrúa sameiginlegra hagsmuna mannkynsins.

Og þegar hann berst gegn því að "efnislegir þættir séu gerðir að almáttugum öflum þróunarinnar", gegn "fyrirlitningu sósíalista á hugsjónum" (bls. 187), þegar hann talar fyrir hönd hugsjóna og siðgæðis, en hamast þó um leið gegn einu leið öreigastéttarinnar til siðferðislegrar endurfæðingar, gegn byltingarsinnðri stéttabaráttu, hvað er hann þá í rauninni að gera annað en að boða verkalýðsstéttinni kjarna siðgæðis borgarastéttarinnar: að sætta sig við ríkjandi skipan og binda vonir sínar við annan heim siðferðislegra hugmynda ?

Þegar hann loks beinir beittustu örvum sínum gegn díalektíkinni, hvað gerir hann þá annað en berjast gegn sérstökum hugsunarhætti stéttvísra öreiga á uppleið? Hann ræðst gegn því sverði sem dugði öreigastéttinni til að sundra myrkri sögulegrar framtíðar sinnar, gegn því andlega vopni sem hún sigrar borgarastéttina með, þótt hún sé enn undir okinu efnislega. Því með því sýnir öreigastéttin fram á forgengileika borgarastéttarinnar, að öreigastéttin hljóti að sigra, með því hefur hún þegar gert byltinguna í ríki andans. Með því að Bernstein kveður díalektíkina og fer upp í hugmyndaróluna: annarsvegar - hinsvegar, reyndar - en, enda þótt - þá, meira - minna, fellur hann alveg rökrétt í sögulega skilyrtan hugsunarhátt hrörnandi borgarastéttar, hugsunarhátt sem er sönn andleg eftirmynd félagslegrar tilveru hennar og pólitískrar starfsemi. Þetta pólitíska annnarsvegar - hinsvegar, ef og en borgarastéttarinnar núna lítur út nákvæmlega eins og hugsunarháttur Bernsteins, og hugsunarháttur Bernsteins er fíngerðasta og öruggasta einkenni borgaralegra lífsskoðunar hans .

En fyrir Bernstein er einnig orðið "borgaralegur" ekki lengur stéttarhugtak, heldur almennt samfélagshugtak. Það þýðir bara að hann hefur nú, alveg rökrétt, látið sögulegt málfar öreigastéttarinnar fyrir málfar borgarastéttarinnar, eins og hann hefur áður skipt á fræðum, pólitík, siðferði og hugsunarhætti þessara stétta. Með því að Bernstein skilur orðið "borgari" sem burgeis og öreigi án sundurgreiningar, þ.e. sem menn almennt, þá er hann raunar farinn að líta á menn almennt sem borgara, mannlegt samfélag er honum sama og borgaralegt[30].

 

5. Hentistefna í kenningu og framkvæmd.

Bók Bernsteins hefur haft mikla sögulega þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna í Þýskalandi og um heim allan: þetta var fyrsta tilraun til að skapa hentistefnu fræðilegan grundvöll í röðum sósíalista.

Hentistefnuhneigðin hefur lengi verið til í flokki okkar, ef litið er á einstök útbrot eins og hið kunna gufuskipastyrksmál[31]. En yfirlýst, samfelld hreyfing af þessu tagi varð ekki til fyrr en uppúr 1890, eftir að sósíalistalögin mistókust og sósíalistar náðu á ný lagalegum grundvelli. Ríkissósíalismi Vollmars, þátttaka í afgreiðslu fjárlaga í Bayern, landbúnaðarsósíalisminn suðurþýski, tillögur Heines um hrossakaup og loks tolla- og varnarsveitaafstaða Schippels[32], þetta eru helstu áfangar í framkvæmd hentistefnunnar.

En hvert var helsta einkenni hennar út á við? Fjandskapur gegn "fræðunum". Og þetta er ósköp eðlilegt, því "fræði" okkar, þ. e. grundvöllur fræðilegs sósíalisma setja starfinu mjög þröngar skorður, bæði hvað varðar markmiðin sem keppt er að, tækin sem beita má og baráttuaðferð. Þeir sem nú vilja aðeins keppa að áþreifanlegum árangri, reyna því eðlilega að losa hendur sínar þ.e. að aðskilja starf okkar frá "fræðunum", gera það óháð þeim.

En þessi sömu fræði slógust í hausinn á þeim við hverja hagnýta tilraun: Ríkissósíalisminn, landbúnaðarsósíalisminn, hrossakaupastefnan, varnarsveitamálið, þetta eru tómir ósigrar endurskoðunarinnar. Því er ljóst, að eigi þessi stefna að fá staðist gegn grundvelli okkar, hlaut hún að ráðast gegn fræðunum sjálfum, grundvellinum í stað þess að ganga hjá honum. Hún varð að reyna að mola hann með því að skapa eigin fræði. Tilraun í þá veru voru einmitt kenningar Bernsteins, og því söfnuðust öll endurskoðunaröfl umsvifalaust um fána Bernsteins á flokksþinginu í Stuttgart [í okt. 1898]. Hentistefna í starfi er alveg eðlilegt fyrirbæri sem rís úr baráttuaðstæðum okkar og vexti baráttunnar. Kenningar Bernsteins eru ekki síður eðlileg tilraun til að ná þessum hentistefnustraumum saman í almenna, fræðilega heild, finna fræðilegar forsendur þeirra og gera upp reikningana við fræðilegan sósíalisma. Kenningar Bernsteins voru því frá fyrstu tíð fræðileg eldskírn hentistefnunnar, fyrsta réttlæting hennar fræðilega.

Hvernig tókst nú þessi tilraun? Við höfum séð það. Hentistefnan getur ekki sett fram neina leiðsögn sem stenst gagnrýni. Það sem hún getur er aðeins að berjast gegn kenningum Marx fyrst í ýmislegum grundvaIlaratriðum og loks, af því að þessar kenningar mynda samræmda byggingu, að rústa allt kerfið frá risi niður í grunn. Þarmeð er sannað að hentistefna í framkvæmd er í grundvaIlaratriðum ósamrýnanleg kenningum Marx.

En þar með er ennfremur sannað að hentistefnan er allsendis ósamrýnanleg sósíalismanum. Eðli hennar er að þröngva verkalýðshreyfingunni á borgaralegar brautir, þ. e. að lama stéttabaráttu öreiganna algjörlega. Raunar er stéttabarátta öreiganna sögulega séð ekki hið sama og kerfi Marx. Óháð Marx og fyrir hans tíð var til verkaIýðshreyfing og ýmiskonar sósíalísk kerfi sem hvert á sinn hátt samsvöruðu aðstæðum síns tíma sem fræðileg hlið á frelsisbaráttu verkalýðsins. Að grundvalla sósíalismann á siðferðislegum hugmyndum um réttlæti, að berjast gegn dreifingarháttum fremur en gegn framleiðsluháttum, að skilja stéttaandstæður sem andstæður milli fátækra og ríkra, að reyna að tylla "samvinnu" á hagkerfi auðvaldsins, allt sem er að finna í kerfi Bernsteins, hefur áður verið til. Og svo ófullkomnar sem þessar kenningar eru, þá voru þær, á sínum tíma raunverulega fræðikenningar stéttabaráttu öreiganna. Þær voru risastórir barnsskór, sem öreigastéttin lærði að ganga á, á sviði sögunnar.

En þróun stéttabaráttunnar sjálfrar og félagslegra forsenda hennar hafði slitið þessum kenningum út, og leitt til þess að meginatriði fræðilegs sósíalisma voru sett fram. Eftir það fær a. m. k. í Þýskalandi, enginn sósíalismi staðist nema marxískur, engin sósíalísk stéttabarátta nema hinn sósíalíski flokkur. Nú eru sósíalismi og marxismi orðin eitt, frelsisbarátta öreiganna og flokkur sósialista eru orðin hið sama. Að taka nú aftur upp formarxískar kenningar um sósíalisma, það er ekki einu sinni að fara aftur í risastóra barnaskó öreigastéttarinnar, nei, það er að fara í dvergvaxna, útvaðna inniskó borgarastéttarinnar.

Kenningar Bernsteins voru fyrsta tilraun til að leggja fræðilegan grundvöll að hentistefnunni, en þær eru jafnframt hin hinsta. Það segi ég vegna þess að í kerfi Bernsteins er gengið svo langt að ekkert er ógert. Það gildir jafnt á neikvæðan hátt - afneitun fræðilegs sósíalisma - sem jákvæðan -samtíningur eins mikils ruglings fræðilega og nokkur leið er. Með bók Bernsteins er fræðileg þróun hentistefnunnar fullkomnuð[33]. Lokaályktanir hafa verið dregnar.

Og kenningar Marx geta ekki aðeins afsannað hentistefna fræðilega, heldur geta þær einar skýrt hentistefnuna sögulega sem skeið í þróun flokksins. Framsókn öreigastéttarinnar á heimsmælikvarða allt til sigurs er reyndar "ekkert einfalt mál". Sérstaða þessarar hreyfingar felst í því, að hér er það í fyrsta skipti í sögunni sem alþýðufjöldinn sjálfur nær fram vilja sínum gegn öllum ríkjandi stéttum. Þessum vilja nær hann aðeins fram handan við samfélagið sem nú er, en þennan vilja getur fjöldinn einungis öðlast í sífelldri baráttu gegn ríkjandi skipan, og þó innan ramma hennar. Sameining alþýðufjöldans um markmið sem ná út yfir alla hina ríkjandi skipan, sameining daglegrar baráttu og hinna miklu endurbóta á veröldinni, það er hið mikla vandamál sósíalískrar hreyfingar. Því er öll þróun hennar sigling milli tveggja skerja: annað er missir fjöldahreyfingarinnar, hitt er missir markmiðsins, annað er afturhvarf til sértrúarsafnaðar, hitt er að falla niður í borgaralega umbótahreyfingu. Það verður að sigla fram milli stjórnleysisstefnu annarsvegar, en hentistefnu hinsvegar.

Vissulega hafa kenningar Marx reynst vera gjöreyðandi vopn gegn báðum þessum öfgum í hálfa öld. En hreyfing okkar er fjöldahreyfing og hætturnar sem að henni steðja koma ekki úr höfðum manna heldur spretta þær upp af samfélagsaðstæðum. Einmitt þessvegna gátu kenningar Marx ekki í eitt skipti fyrir öll bægt henni frá hliðarstökkum til stjórnleysis og hentistefnu. Þá fyrst, þegar þessar stefnur höfðu holdgast í starfi, gat hreyfingin sjálf yfirunnið þær, og raunar aðeins með þeim vopnum sem Marx lagði til. Hina minni hættu, barnasjúkdóma stjórnleysisins yfirunnu sósíalistar þegar með "hreyfingu óháðra". Hina meiri hættu - vatnssótt hentistefnunnar yfirvinna þeir núna.

Hreyfingin hefur breiðst svo geysimikið út undanfarin ár, verkefni hennar eru svo flókin, eins og aðstæður baráttu hennar, að það hlaut að koma að því að efasemdir breiddust út í hreyfingunni um að hin miklu markmið myndu nást, það hlaut að koma upp tvístígandi gagnvart hugsjónum hreyfingarinnar. Þannig gerist hin mikla hreyfing öreigalýðsins, og öðruvísi getur hún ekki gerst. Tvístígandi hennar og hik eru engin furða samkvæmt marxismanum, þvert á móti, Marx hafði fyrir löngu séð þau og sagt fyrir. "Borgaralegar byltingar", skrifaði Marx fyrir meira en hálfri öld, "til að mynda byltingar átjándu aldar, geysast æ hraðar fram og vinna hvern sigurinn eftir annan, dramatísk áhrif þeirra verða sterkari og sterkari, menn og hlutir virðast greyptir í logandi demanta, hrifningin er andrúmsloft sérhvers dags; en þær eru skammæjar, brátt hafa þær náð hátindinum, og langvarandi timburmenn ná taki á þjóðfélaginu áður en það hefur lært að nýta með algáðum huga árangur umbrotatímabilsins. Öreigabyltingar, svo sem byltingar nítjándu aldar, gagnrýna aftur á móti sjálfar sig í sífellu, nema einlægt staðar á rás sinni, snúa aftur til þess sem virtist aflokið og byrja á því enn á ný, hæða af fullkomnu miskunnarleysi hálfkák, veikleika og vesaldóm fyrstu tilrauna sinna, virðast fella andstæðinginn til þess eins að hann sjúgi nýja krafta úr jörðinni og rísi aftur gegn þeim, tröllslegri en fyrr. Þær hopa sífellt fyrir ómældri ógn markmiða sinna, uns ástandið er orðið þannig, að ekki er hægt að snúa við, og aðstæðurnar sjálfar hrópa: Hic Rhodus, hic salta! Hér er rósin, dansaðu hér!" (18. brumaire ... M/E: Úrvalsrit II, 122)

Þetta lögmál stendur áfram, einnig eftir tilkomu fræðilegs sósíalisma. Hreyfing öreiganna varð ekki skyndilega sósíalísk við hann, ekki einu sinni í Þýskalandi. Hún verður sósíalísk með hverjum degi, hún verður það líka með því að yfirvinna hliðarstökkin í öfgar stjórnleysis og hentistefnu, en hvorttveggja er aðeins skeið í sósíalismanum sem ferli.

Í ljósi þessa kemur ekki á óvart að hentistefnan skuli koma upp, heldur öllu fremur hve veik hún er. Á meðan hún birtist aðeins í einstökum tilvikum í starfi flokksins, mátti enn gera ráð fyrir að hún hefði fræðilegan grundvöll hennar, sem væri marktækur á einhvern hátt. En nú þegar hún hefur komið fyllilega fram í bók Bernsteins, hljóta menn að hrópa í undrun: Hvað, er þetta allt og sumt, sem þið hafið að segja? Örlar ekki á nýrri hugsun? Ekki ein einasta hugsun sem marxisminn hefði ekki fyrir áratugum troðið niður, sparkað í sundur, hlegið í tætlur, leyst upp í ekkert.

Það nægði að endurskoðunarstefnan talaði til að sýna að hún hafði ekkert að segja. Og það var hlutverk bókar Bernsteins í sögu flokksins.

Svo þegar Bernstein kveður hugsunarhátt byltingarsinnaðra öreiga, díalektík og efnislega söguskoðun, má hann þakka þessum hugsunarhætti að kringumstæður milda dóminn yfir breytni hans. Því einungis díalektík og efnisleg söguskoðun eru nógu göfugar til að líta á hann sem tilvalið tæki öreigastéttarinnar, ómeðvitað um tilgang sinn. En hann er að tjá augnablikshik öreigastéttarinnar er hún geysist fram. Svo þegar hún hefur séð það í dagsbirtu, hendir hún því langt í burt með hæðnishlátri[34].

 


Viðbætir

Varnarsveitir og hernaðarstefna

I

Þetta er ekki í fyrsta skipti og vonandi ekki í síðasta sinn heldur, sem flokksmenn gagnrýna einstök stefnuskrármál okkar og baráttuaðferð. Því verður ekki nógsamlega fagnað, út af fyrir sig. En þá skiptir öllu máli hvernig gagnrýnin er, og þá á ég ekki við "tóninn", en því miður er orðin tíska í flokki okkar að æsa sig út af honum við hvert tækifæri. Ég á við margfalt mikilvægari hlut: almennan grundvöll gagnrýninnar, þá sérstöku lífsskoðun sem kemur fram í gagnrýninni.

Krossferð Isegrim Schippel gegn varnarsveitum og fyrir hernaðarstefnu byggist reyndar á samræmdri afstöðu til félagsmála.

Almennasta sjónarmið Schippels við vörn hernaðarstefnunnar er sannfæring um nauðsyn herkerfisins. Hann sannar með öllum mögulegum rökum hernaðartækni, félagslegum og efnahagslegum, að fastaherir séu ómissandi[35]. Og frá vissu sjónarmiði hefur hann rétt fyrir sér. Fastaher, hernaðarstefna eru raunverulega ómissandi en fyrir hvern? Fyrir þær stéttir sem drottna núna og fyrir núverandi ríkisstjórnir. En hvað leiðir af því annað er að fyrir núverandi ríkisstjórn og ríkjandi stéttir, frá stéttarsjónarmiði þeirra, er ómögulegt, hlægilegt að afnema fastaherinn og koma á varnarsveitum, þ.e. að vopna alþýðuna. Og þegar Schippel telur einnig að varnarsveitir séu ómögulegar, hlægilegar, þá sýnir hann bara með því að einnig hann hefur borgaraleg sjónarmið gagnvart hernaðarstefnunni, að hann lítur á hana með augum ríkisstjórnar auðvaldsins eða borgaralegra stétta. Þetta sanna líka öll einstök rök hans greinilega. Hann fullyrðir að ómögulegt yrði að vopna alla ríkisborgara - en það er hornsteinn varnarsveitakerfisins - af því að við hefðum ekki efni á því, "menningarútgjöldin eru þegar nógu naumt skömmtuð." Þá miðar hann einfaldlega við núverandi fjármálastefnu Prússlands-Þýskalands. Hann getur alls ekki ímyndað sér aðra stefnu en Miquels[36], svo sem að skattleggja auðvaldsstéttina meira, ekki heldur í sambandi við varnarsveitakerfið.

Schippel álítur hernaðaruppeldi æsku - en það er annar hornsteinn varnarsveitakerfisins - óæskilegt, því hann telur að undirforingjar í hernum myndu hafa hin skaðvænlegustu áhrif á æskuna sem uppalendur í herþjálfun. Þá miðar hann auðvitað við prússneska herforingja einsog þeir gerast núna og flytur þá einfaldlega inn í tilbúið varnarsveitakerfið sem uppalendur. Með þessu minnir hann sláandi á prófessor Júlíus Wolf sem sér þýðingarmikil rök gegn sósíalismanum í því að tilkoma hans myndi skv. útreikningum Wolfs leiða til almennrar vaxtahækkunar.

Schippel álítur hernaðarstefnu nútímans ómissandi efnahagslega, vegna þess að hún "losi" samfélagið við efnahagslegan þrýsting. Kautsky hlífir sér hvergi við að giska á hvernig sósíalistinn Schippel hafi hugsað sér þessa "lausn" með hernaðarstefnu, og sérhverri sögulegri túlkun fylgir prýðilegt andsvar Kautskys. En Schippel hefur greinilega alls ekki nálgast málið sem sósíalisti, alls ekki frá sjónarmiði vinnandi fólks. Þegar hann talaði um "lausn", þá hugsaði hann augljóslega um auðmagnið. Og það er reyndar rétt hjá honum: Fyrir auðmagnið er hernaðarstefnan ein hin mikilvægasta fjárfesting, frá sjónarmiði auðmagnsins er hernaðarstefnan sannarlega lausn undan þrýstingi. Og að Schippel talar hér sem sannur fulltrúi auðvaldshagsmuna, sést þegar á því að hér kemur heimildarmaður einsog kallaður:

"Ég fullyrði reyndar, herrar mínir",var sagt í þinginu, 12. janúar 1899, "að það er alrangt þegar sagt er að tveggja milljarða skuld hins opinbera sé eingöngu vegna óhagnýtra útgjalda, í stað þeirra komi ekki hagnýtar tekjur. Ég fullyrði að það eru ekki til hagnýtari útgjöld en útgjöld til hermála!" (auðkennt af R. L.). Í þingtíðindum segir þá reyndar: "kátína meðal vinstrimanna'! Ræðumaður var Freiherr von Stumm[37].

Það er nefnilega dæmigert fyrir allar fullyrðingar Schippels, að þær eru ekki bara rangar, heldur byggjast þær líka á sjónarmiðum borgaralegs samfélags. Frá sjónarniði sósíalista stendur því allt á haus hjá Schippel: fastaher ómissandi, hernaðarstefnan heilsusamleg fyrir efnahagslífið, varnarsveitir óraunhæfar o. s. frv.

Það er sláandi hvað sjónarmið Schippels gagnvart hernaðarstefnu falla saman við afstöðu hans til mikilvægasta atriðis pólitískrar baráttu - afstöðu hans til tollastefnunnar.

Fyrst og fremst neitar hann í báðum málefnum eindregið að tengja hina eða þessa afstöðu við lýðræði eða afturhald. Á flokksþinginu í Stuttgart sagði hann rangt að tengja frjálsa verslun við framfarir og verndartolla við afturhald. Langar og breiðar sögulegar útleggingar áttu að sanna að fríverslunarsinnar gætu mætavel jafnframt verið afturhaldsmenn, hinsvegar gætu verndartollamenn jafnframt verið eldheitir lýðræðisvinir. Með nánast sama orðalagi heyrum við núna: "Til eru draumóramenn um varnarsveitir sem endalaust eru að trufla núverandi efnahagslíf og vilja koma hugsunarhætti herforingja inn í hverja skólastofu drengjanna okkar - þeir eru miklu verri en nútíma hernaðarstefna. Til eru andstæðingar varnarsveita sem eru allir hatramir gegn slíkum ofvexti hernaðaráhrifa og -kröfugerðar."

Borgaralegir stjórnmálamenn taka enga grundvallarafstöðu í þessum málum fremur en öðrum, þeir fylgja hentistefnu. Af þessari staðreynd ályktar sósíalistinn Schippel að einnig honum sé rétt og skylt að loka augunum fyrir því að kjarni verndartollastefnu og hernaðarstefnu er afturhald, sem og að loka augunum fyrir framsæknu hlutverki fríverslunar og varnarsveita. Það er, hann tekur heldur enga grundvallarafstöðu til þessara mála.

Hann sýnir vissulega andstöðu gegn einstökum göllum verndartollastefnu og hernaðarstefnu, en er jafnframt eindregið andvígur baráttu gegn slíkri stefnu í heild. Í Stuttgart heyrðum við Schippel ræða um nauðsynina á að berjast gegn einstökum óhóflegum tollum, en vara jafnframt við því "að festa sig", "að binda hendur sínar", þ.e. að berjast alltaf og allsstaðar gegn verndartollum. Nú heyrum við að Schippel vill að vísu "reka áróður og þingsalabaráttu gegn einstökum beinum hernaðarkröfum" (auðkennt af R. L.), en að hann varar við að líta á "tilviljunarkennd ytri einkenni hernaðarstefnunnar og mjög lítilfjörleg áhrif hennar á önnur svið samfélagsins sem eðli hennar og kjarna, af því einu að þau eru áberandi."

Í þriðja lagi loks, og það er grundvöllur hinna sjónarmiðanna tveggja, eru bæði fyrirbærin eingöngu metin í ljósi fyrri borgaralegrar þróunar, þ. e. þegar þau voru sögulega framsækin. Ekkert er litið á þróunina framundan, og í samhengi við hana á afturhaldshlið þessara fyrirbæra. Verndartollar eru í augum Schippels enn það sem þeir voru á dögum Friedrich sáluga List, fyrir meira en hálfri öld: framfarirnar miklu frá miðaldalegri og lénskri sundrungu Þýskalands efnahagslega. Hitt sér Schippel ekki, að almenn fríverslun er núna samskonar nauðsynlegt skref framávið til sameiningar efnahagskerfis heimsins, og að tollamúrar um þjóðríki eru þar af leiðandi afturhaldsstefna núna.

Eins er með hernaðarstefnuna. Schippel sér hana enn sem þær miklu framfarir sem fastaherir á grundvelli almennrar herskyldu voru frá málaliðaherjum og lénskum herjum áður. En þar með stöðvast þróunin að mati Schippels: Hann álítur að sagan haldi ekki áfram að gerast; eftir að fastaherir eru komnir á, verði almenn herskylda aðeins nánar útfærð.

En hvað felst í þessari dæmigerðu afstöðu, sem Schippel tekur bæði í tolla- og hermálum? Í henni felst að taka afstöðu frá einu tilviki til annars, í stað þess að taka grundvallarafstöðu. Í framhaldi af því er aðeins barist gegn ágöllum tolla- og hernaðarkerfisins í stað þess að berjast gegn kerfinu sjálfu. En hvað er slík stefna annað en okkar gamli kunningi frá síðasta skeiði flokkssögunnar, hentistefnan?

Enn er það hin "hagnýta pólitík" sem sigrar þegar Isegrim Schippels opinberlega hafnar varnarsveitum, sem hafa verið meginatriði pólitískrar stefnu okkar. Þessa þýðingu hefur upphlaup Schippels fyrir stefnu flokksins. Aðeins í samhengi við allan þann straum og miðað við almennan grundvöll hentistefnunnar og afleiðingar er hægt að meta og dæma þessa nýjustu yfirlýsingu sósíalista um ágæti hernaðarstefnunnar.

 

II

Helsta einkenni hentistefnunnar er að hún leiðir ævinlega rökrétt til að fórna lokamarki hreyfingarinnar, frelsun verkalýðsstéttarinnar fyrir nánustu hagsmuni hennar, raunar ímyndaða. Þessi lýsing á við stefnu Schippels í smæstu atriðum. Það sést best á einum helstu rökum hans um hernaðarstefnuna. En það sem einkum þvingar menn efnahagslega til að halda í hernaðarkerfið skv. Schippel, er að það losi samfélagið undan efnahagslegum þrýstingi. Við lítum nú hjá því, að þessi undarlega fullyrðing stríðir gegn einföldustu staðreyndum efnahagslífsins. Til að átta okkur á þessum hugsunarhætti skulum við um stund ganga út frá að þessi ranga fullyrðing se rétt, að hernaðarstefnan "losi samfélagið" í rauninni við óþörf framleiðsluöfl.

Hvernig kemur þetta við verkalýðsstéttina? Greinilega þannig að hún losnar við hluta af varaliði sínu í herinn, atvinnuleysingja sem héldu laununum niðri. Þannig batna vinnuskilyrði hennar. Hvað táknar það? Aðeins þetta: Til að minnka framboðið á vinnumarkaðinum,samkeppnina, láta verkamenn í fyrsta lagi hluta launa sinna af hendi í formi skatta til að halda keppinautum sínum uppi sem hermönnum. Í öðru lagi skapa þeir auðvaldsríkinu verkfæri úr þessum keppinaut þeirra, til að halda niðri öllum hreyfingum verkamanna til að bæta stöðu sína (verkföll, verkalýðsfélög), til að drekkja þeim í blóði ef með þarf. Það er verkfæri til að hindra þá bót á stöðu verkalýðsins, sem hernaðarstefnan átti að leiða til skv. Schippel. Í þriðja lagi gera verkamenn þessa keppinauta sína að traustustu stoð pólitísks afturhalds, þ. e. félagslegrar undirokunar þeirra sjálfra.

Með öðrum orðum: hernaðarstefnan bjargar verkamönnum frá lækkun launa um ákveðna upphæð í augnablikinu, en í staðinn glata þeir að miklu leyti möguleikum á að berjast stöðugt fyrir hækkun launa sinna og bættri stöðu. Þeir vinna sem seljendur vinnuafls, en tapa um leið pólitísku frelsi sínu sem borgarar og tapa þá endanlega líka sem seljendur vinnuafls. Þeir losa sig við keppinauta af vinnumarkaðinum en fá í staðinn varðmenn yfir launaþrældómi sínum. Þeir forðast launalækkun en draga jafnframt úr möguleikum á að bæta stöðu sína varanlega, sem og á möguleikum á endanlegri frelsun sinni efnahagslega, pólitískt og félagslega. Þetta felst raunverulega í því að hernaðarstefnan "létti" efnahagslegum þrýstingi af verkalýðsstéttinni. Hér, einsog við allar vangaveltur hentistefnumanna sjáum við hinum miklu markmiðum sósíalískrar frelsunar stéttarinnar fórnað fyrir smávægilega stundarhagsmuni, og við nánari athugun reynast þeir vera mestmegnis ímyndun.

En spurningin vaknar: hvernig fékk Schippel þá fáránlegu hugmynd að hernaðarstefnan yrði einnig verkalýðsstéttinni léttir ? Minnumst þess hvernig þetta sama mál lítur út frá bæjardyrum auðvaldsins. Við höfum sýnt fram á að hernaðarstefnan skapar auðvaldinu hina arðvænlegustu fjárfestingu, sem það má síst án vera. Raunar er ljóst, að það skattfé sem ríkisstjórnin heimtir til að fylgja hernaðarstefnu, hefði hún einnig getað notað til að verja meiru til menningarmála, og það hefði skapað samsvarandi eftirspurn eftir samfélagslegri vinnu. Hefði fólkið fengið að halda þessu fé, hefði það skapað aukna eftirspurn eftir neysluvörum. Raunar er ljóst, að þannig séð, "léttir" hernaðarstefnan engu af samfélaginu í heild. En málið lítur öðruvísi út frá sjónarmiði auðvaldsgróðans, frá sjónarmiði atvinnurekenda. Auðherrum er alls ekki sama hvort þeir fá vissa eftirspurn eftir vörum frá dreifðum einkaaðiljum eða frá ríkinu. Eftirspurn ríkisins einkennist af öryggi, miklu magni, og hagstæðu verðlagi, oftast einokunarkenndu. Því er ríkið hagstæðasti kaupandi auðvaldsins og viðskiptin við það ákjósanlegustu.

En framleiðsla til hernaðarþarfa hefur annan, sérlega mikilvægan kost fram yfir opinber útgjöld til menningarmála (skóla, samgöngur o. s. frv.). Það eru stöðugar tæknibyltingar og óstöðvandi vöxtur útgjalda. Því er hernaðarstefnan óþrotleg uppspretta auðvaldsgróða og verður sífellt ríkulegri. Þannig gerir hún auðvaldið að því mikla félagslega afli sem stendur andspænis t. d. verkamönnum Krupps og Stumms. Fyrir samfélagið er hernaðarstefnan efnahagslega alveg fáránleg sóun á gífurlegum framleiðsluöflum. Fyrir verkalýðsstéttina þýðir hún versnandi afkomu tiI að þrælka hana félagslega. En auðvaldsstéttinni er hún efnahagslega ómissandi fjárfesting, sú sem af ber, og pólitískt er hún besta stoð stéttarveldis hennar. Þegar því Schippel kallar hernaðarstefnuna einfaldlega nauðsynlegan "létti" efnahagslega, þá leggur hann greinilega samfélagshagsmuni að jöfnu við auðvaldshagsmuni, og tekur þannig, einsog ég sagði í upphafi, borgaralega afstöðu. En ekki nóg með það. Þar sem hann gerir ráð fyrir að sérhver hagnaður atvinnurekenda sé óhjákvæmilega einnig hagnaður verkalýðsstéttarinnar, gengur hann út frá kenningunni um að hagsmunir auðvalds og verkalýðs fari saman.

Þetta er enn sama afstaða og við höfum áður kynnst hjá Schippel - í tollamálum. Þar vildi hann vernda verkamenn sem framleiðendur fyrir skaðvænlegri samkeppni erlends iðnaðar og tók því í grundvallaratriðum afstöðu með verndartollum. Alveg eins og í hermálum sér hann hér aðeins beinan efnalegan hag verkamanna og sést yfir víðtækari félagslega hagsmuni þeirra, sem fara saman við almennar félagslegar framfarir til fríverslunar og afnáms fastaherja. Og á báðum sviðum telur hann beinan efnalegan hag verkarnanna einfaldlega vera sama og hagsmuni auðvaldsins. Því hann álítur að allt sem sé atvinnurekendum í hag, sé verkalýðsstéttinni það líka. Að fórna lokatakmarki hreyfingarinnar fyrir stundarhagsmuni út frá sjónarmiði sameiginlegra hagsmuna auðvalds og verkalýðsstéttar - þessar tvær meginreglur mynda eina heild, og hún er megineinkenni allrar endurskoðunarstefnunnar.

Við fyrstu sýn má það koma á óvart að talsmaður þessarar stefnu skuli geta stuðst við höfunda stefnuskrár sósíalista og litið í alvöru á Friedrich Engels sem heimild sína í hermálum, þegar hann þó byggir á Freiherr von Stumm. Það sem Schippel þykist eiga sameiginlegt með Friedrich Engels er skilningur á sögulegri nauðsyn og sögulegri þróun hernaðarstefnunnar. En þetta sannar bara enn einu sinni að einsog illa melt díalektík Hegels áður, þannig leiðir nú illa melt söguskoðun Marx til hins herfilegasta ruglings í höfðum manna. Það sýnir sig ennfremur, að svo byltingarsinnaður sem díalektískur hugsunarháttur er almennt, og efnisleg söguspeki sérstaklega, sé rétt skilið, þá leiðir misskilningur á þeim til háskalegrar afturhaldssemi. Lesi menn tilvitnanir Schippels í Engels, sérstaklega í Anti-Dühring, um þróun hernaðarkerfisins til afnáms þess sjálfs og til alþýðuhers, þá virðist við fyrstu sýn óljóst í hverju munurinn liggur á venjulegri túlkun flokksins annarsvegar og Schippels hinsvegar. Við lítum á hernaðarstefnuna í núverandi mynd sem eðlilegan og óhjákvæmilegan ávöxt samfélagsþróunarinnar - það gerir Schippel líka. Við fullyrðum að þróun hernaðarstefnunnar leiði til alþýðuhers - Schippel líka. Hvar er þá munurinn sem gat leitt Schippel til afturhaldssamrar andstöðu sinnar við kröfuna um varnarsveitir? Það er mjög einfalt. Eins og Engels sjáum við í innri þróun hernaðarstefnunnar til varnarsveita einungis forsendur afnáms hennar. En Schippel telur að alþýðuher framtíðarinnar munu af sjálfu sér vaxa "innan úr" núverandi herskipulagi. Við byggjum á efnislegum skilyrðum sem leiðir af hlutlægri þróun, af útbreiðslu almennrar herskyldu og styttingu herþjónustu - og viljum koma á varnarsveitum með pólitískri baráttu. En Schippel treystir á eigin þróun hernaðarstefnunnar með því sem henni fylgir, og stimplar allar meðvitaðar aðgerðir til að koma á varnarsveitum sem draumóra og bjórstofupólitík.

Það sem við fáum út úr þessu er ekki söguskoðun Engels, heldur Bernsteins. Einsog Bernstein álítur að hagkerfi auðvaldsins muni "vaxa" af sjálfu sér inn í sósíalismann stig af stigi, án skyndilegra breytinga, þannig álítur Schippel að alþýðuherinn muni vaxa af sjálfu sér úr nútíma hernaðarskipan. Schippel skilur ekki, hvað varðar hernaðarstefnuna, að hlutlæg þróun færir okkur aðeins skilyrði æðra þróunarstigs. Eins lítur Bernstein á auðvaldið í heild. En án markvissrar baráttu okkar, án pólitískrar baráttu verkalýðsstéttarinnar fyrir sósíalískri byltingu eða fyrir varnarsveitum verður hvorki eitt né annað nokkurn tíma að raunveruleika. En þarsem þessi þægilegi "vöxtur" er bara tálsýn, fyrirsláttur endurskoðunarmanna til að víkja af braut markvissrar byltingarbaráttu, þá skreppur sú félagslega og pólitíska umbylting sem náð verður eftir þessum leiðum saman í vesældarlegt, borgaralegt umbótastagl. Einsog í kenningum Bernsteins um "hægfara félagslega þróun" hvarf allt úr hugtakinu sósíalismi sem við meinum með því, og sósíalisminn varð að "samfélagslegu eftirliti" þ.e. að bitlausum borgaralegum þjóðfélagsumbótum, þannig breyttist "alþýðuherinn" í skilningi Schippels. Okkar takmark er frjáls, vopnuð alþýða, sem sjálf tekur ákvarðanir um stríð og frið. En hann skilur orðið sem almenna herskyldu allra vígra þegna um skamma hríð samkvæmt núverandi kerfi fastahersins. Sé skoðun Schippels beitt á öll markmið pólitískrar baráttu okkar, leiðir hún einfaldlega til að gefa alla stefnuskrá sósíalista upp á bátinn.

Málsvörn Schippels fyrir hernaðarstefnuna er áþreifanlegt dæmi um allan hentistefnustrauminn í flokki okkar, og jafnframt mikilvægt skref í þróun hans. Og áður hafði heyrst frá þingmanni sósíalista, Heine, að við vissar aðstæður mætti samþykkja hernaðarlegar fjárveitingar til auðvaldsstjórnar. En það átti bara að vera tilslökun vegna æðri markmiða lýðræðisins. Heine hafði alltént hugsað sér að láta fallbyssur í skiptum fyrir lýðréttindi. Nú lýsir Schippel því yfir, að fallbyssurnar séu nauðsynlegar sem fallbyssur. Þótt þetta komi út á eitt - stuðning við hernaðarstefnuna, þá byggist hann þó hjá Heine á misskilningi á baráttuaðferð sósíalista, en Schippel beinir baráttunni einfaldlega að öðru markmiði. Hinn fyrri stakk upp á borgaralegri baráttuaðferð í stað sósíalískrar, en hinn seinni lætur sér ekki bregða við að setja borgaralega stefnu í stað sósíalískrar.

Í "vantrú" Schippels á varnarsveitir er "hin hagnýta pólitík" komin á leiðarenda. Hún kemst ekki nær afturhaldinu, nú á hún aðeins eftir að þenjast yfir á önnur stefnumál og kasta þannig af sér síðustu ræflunum af hinni sósíalísku skikkju, sem enn skrýða hana. Þá birtist hún í klassískri nekt sinni sem - séra Naumann[38].

 

III

Væri sósíalistaflokkurinn umræðuklúbbur um þjóðfélagsmál, þá gæti hann álitið mál Schippels afgreitt eftir að hafa fjallað um það fræðilega. En þar sem hann er flokkur pólitískrar baráttu þá leysir það ekki málið að sýnt er fram á að afstaða Schippels sé fræðilega röng. Þvert á móti, með því er málið aðeins lagt fyrir. Rit Schippels um varnarsveitirnar er ekki bara birting ákveðinna hugsana, hún er líka pólitísk athöfn. Því getur flokkurinn ekki svarað henni með því einu að hrekja þessar skoðanir, heldur verður einnig að svara með pólitískri athöfn. Og sú athöfn verður að vera í samræmi við mikilvægi yfirlýsinga Schippels.

Undanfarið ár varð nokkurn veginn allt sem hingað til hefur talist hornsteinar sósíalismans fyrir árásum úr röðum okkar sjálfra. Eduard Bernstein lýsti því yfir að hann mæti lokatakmark hreyfingar öreiganna einskis. Wolfgang Heine sýndi með hrossakaupstillögum sínum að hefðbundin baráttuaðferð sósíalista er honum í rauninni einskis virði. Nú sannar Schippel að hann er líka beinlínis hafinn yfir pólitíska stefnu flokksins. Næstum ekkert grundvallaratriði baráttu öreiganna fékk frið fyrir eyðingartilraunum einstakra fulltrúa flokksins. Heildarmyndin er hreint ekki ánægjuleg. En út frá hagsmunum flokksins verður að gera greinarmun á þessum þýðingarmiklu yfirlýsingum. Gagnrýni Bernsteins á fræðilegu góssi okkar er tvímælalaust mjög örlagaríkur atburður. En hentistefnan í starfi er hreyfingunni ólíkt hættulegri. Efasemdum um lokatakmarkið getur hreyfingin sjálf feykt burtu, svo fremi hún sé heilbrigð og öflug í beinni baráttu. En þegar nánustu markmið eru dregin í efa, sem sé sjálf hin beina barátta, þá verður allur flokkurinn, lokatakmark og hreyfing "ekkert", ekki bara í einstaklingsvitund þessa eða hins flokksspekings, heldur einnig í hinum áþreifanlega hlutveruleika.

Árás Schippels beinist aðeins gegn einu atriði í pólitískri stefnuskrá okkar. En í ljósi grundvallarþýðingar hernaðarstefnunnar fyrir nútímaríki, þá felst í þessu eina atriði raunverulega afneitun á allri pólitískri baráttu sósíalista.

Í hernaðarstefnunni kristallast máttur og drottnun auðvaldsríkisins sem og borgarastéttarinnar, og þar sem sósíalistar eru eini flokkurinn sem berst gegn henni af grundvallarástæðum þá er á hinn bóginn grundvallarbarátta gegn hernaðarstefnunni í eðli sósíalismans. Að falla frá baráttu gegn hernaðarkerfinu þýðir í reynd að hafna baráttu gegn ríkjandi samfélagskerfi. Í lok síðasta kafla sagði ég að hentistefnan ætti einungis eftir að færa afstöðu Schippels til varnarsveita yfir á önnur stefnuskráratriði, þar með hefði hún hafnað sósíalismanum algerlega. Þá átti ég einungis við huglæga, meðvitaða þróun fylgismanna þessarar stefnu. Hlutlægt hefur þessi þróun þegar gerst með yfirlýsingu Schippels.

Rétt er að víkja að enn einu atriði í yfirlýsingum hentistefnumanna undanfarið, og einkum í framgöngu Schippels, þó ekki væri nema vegna þess hve dæmigert það er. En það er hve leikandi létt, með óbifanlegri ró, í síðasta tilviki með glaðværum yndisþokka, menn tæta í sundur grundvallaratriði sem runnin eru í merg og blóð hverjum félaga flokksins sem ekki sér málefni hans aðeins að ofan. Að hrófla við þessum grundvallaratriðum ætti að vekja hverjum einlægum sósíalista a.m.k. alvarlegar samviskuspurningar. Þessi léttleiki er ótvíræð merki, burtséð frá öllum öðrum, um hve lágt risið er á byltingarvitundinni, hve sljó hún er. Slíka hluti má kalla óskynjanlega og lítilsháttar, en heir eru áreiðanlega meginatriði fyrir flokk einsog sósíalista, sem um sinn hlýtur að stefna að hugmyndalegum sigrum en ekki raunverulegum, og sem hlýtur að gera miklar kröfur til anda einstakra félaga sinna. Borgaralegum hugsunarhætti hentistefnumanna fylgja eðlilega borgaralegar tilfinningar.

Alhliða áhrifamáttur yfirlýsingar Schippels krefst samsvarandi yfirlýsingar á móti frá flokkinum. Hvað þarf að felast í þessari gagnaðgerð? Í fyrsta lagi þarf greinilega og ótvíræða afstöðu allra flokksblaða til málsins, sem og umræður um málið á flokksfundum. Fylgi ekki flokkurinn í heild afstöðu Schippels, þeirri að almannafundir séu aðeins til að kasta beinum "slagorða" fyrir fjöldann svo að hann kjósi pólitískt "æðri veru" á þingið, þá getur flokkurinn ekki litið á umræður um mikilvægustu stefnumál sín sem e. k. sérrétt fyrir fína fólkið, aðeins fyrir úrvalið, ekki fyrir allan þorra flokksfélaga. Þvert á móti, aðeins það að vekja umræðurnar upp meðal flokksfjöldans getur hindrað útbreiðslu skoðana Schippels.

Í öðru lagi, og það er enn mikilvægara, þarf þingflokkur sósíalista að taka afstöðu. Hann þarf öllum fremur að segja úrslitaorðin í máli Schippels, annarsvegar vegna þess að Schippel er þingmaður og í þingflokkinum, hinsvegar vegna þess að málið, sem hann fjallaði um, er eitt helsta viðfangsefni hinnar þinglegu baráttu. Við vitum ekki hvort þingflokkurinn hefur gert eitthvað í málinu eða ekki. En fljótlega eftir að grein Isegrims birtist, var opinbert leyndarmál hver stóð bak við dulnefnið. Líklegast er því að þingflokkurinn hafi ekki horft bara á það með krosslagða arma að hæðst væri að starfi hans sjálfs úr eigin röðum.

Og hafi þingflokkurinn ekki gert það áður, þá gat hann bætt úr vanrækslunni, eftir að Kautsky hafði dregið sauðargæruna af Schippel. En hvort sem þingflokkurinn hefur tekið afstöðu til máls Schippels eða ekki, þá kemur það út á eitt, á meðan flokkurinn í heild hefur ekki fengið vitneskju um það. Sósíalistar neyðast tilað hrærast á parketgólfi borgaralegs þingræðis, sem er eðli þeirra framandi. Að því er virðist óviljandi og ómeðvitað hafa þeir tekið upp margar siðvenjur þessa þingræðis, sem stríða þó í rauninni gegn lýðræðiseðli þeirra. Þar á meðal er að mínu viti það að þingflokkurinn skuli koma fram sem heild út á við ekki aðeins gagnvart öðrum flokkum, sem er bráðnauðsynlegt, heldur einnig gagnvart eigin flokki, en það getur leitt til óheilbrigðs ástands. Þingleg barátta borgaralegra flokka er mestmegnis fráhrindandi, hrossakaup o.þ.u.l. Þingflokkar þeirra hafa því fullkomna ástæðu til að forðast sviðsljósið. Þingflokkur sósíalista hefur hinsvegar hvorki þörf fyrir að líta á afrakstur samninga sinna sem innra mál, né tilefni til þess þegar um er að ræða meginreglur flokksins eða mikilvægar baráttuaðferðir. Það nægði að afgreiða slík mál bara á lokuðum fundi þingflokksins ef aðeins væri um ákveðna atkvæðagreiðslu hans í þinginu að ræða, eins og hjá borgaralegum flokkum. En sósíalistum er þingleg barátta miklu mikilvægari sem áróður, en sem beint starf. Formleg meirihlutaákvörðun þingflokksins skiptir þá því minna máli en sjálfar umræður hans, til að skýra málin. Flokkinum er a. m. k. jafnmikilvægt að vita hvað fulltrúar hans hugsa um þingmál, eins og hvernig þeir í heild greiða atkvæði um þau. Í allýðræðislegum flokki er ekki við neinar aðstæður hægt að líta svo á að sambandi kjósenda og þingmanna sé fullnægt með kosningum og formlegum, stuttorðum skýrslum á flokksþingum. Þingflokkurinn verður einmitt að halda sambandinu við almenna flokksmenn eins órófnu og lifandi og nokkur leið er. Þetta verður hreint og beint lífsskilyrði þegar litið er til hentistefnustraumanna sem komið hafa fram einmitt meðal þingmanna flokksins undanfarið. Opinber afstaða þingflokksins til yfirlýsinga Schippels var og er nauðsynleg einmitt vegna þess að flokkurinn almennt hefur einfaldlega ekki efnisleg tök á því að koma fram sem heild í þessu máli, hversu gjarnan sem hann vildi. Þingflokkurinn er útvalinn pólitískur fulltrúi flokksheildarinnar, og með því að ganga sjálfur opinskátt fram, hefði hann getað hjálpað flokkinum óbeint til að taka hina nauðsynlegu afstöðu.

Í þriðja lagi verður loks flokkurinn sjálfur að segja álit sitt á máli Schippels, á þann eina hátt sem hann getur á næsta flokksþingi.

Þegar greinar Bernsteins voru ræddar í Stuttgart var sagt að flokksþing gæti ekki tekið ákvarðanir um fræðileg efni. En í máli Schippels er nú um hreint framkvæmdaatriði að ræða. Sagt var að hrossakaupatillögur Heines hefðu aðeins verið óviðeigandi framtíðartónlist, sem flokkurinn þyrfti ekkert að skipta sér af. Nú kemur Schippel með samtímatónlist. Og með afstöðu Schippels til varnarsveitanna hefur hentistefnan sem sagt þróast til hins ítrasta, komið er að dómsúrskurði. Mér sýnist brýnt verkefni fyrir flokkinn að taka skýrt og ótvírætt afstöðu og draga þannig rétta ályktun af þessari þróun.

Hann hefur fyllilega ástæðu til þess. Hér er um að ræða trúnaðarmann flokksins, pólitískan fulltrúa hans. Hlutverk hans var að vera sverð flokksins í baráttu, starf hans að vera brimbrjótur flokksins gegn árásum hins borgaralega ríkisvalds. En breytist brimbrjóturinn sífellt í deigkenndan hlut, brotni sverðið í baráttu eins og það væri úr pappír, er þá ekki komið að flokkinum fyrir sitt leyti að hrópa að þessari stefnu.

Burt með suflið -
ég þarf þess ei,
Ég smíða' ekki úr pappa sverð[39].

 

[Letter from Max Schippel]

24. febrúar 1899 fékk Leipziger Volkszeitung þetta bréf Schippels með ósk um birtingu. Hann hafði þá lesið fyrstu tvær greinarnar:

Vinur minn Schoenlank!

Ég les greinar "rl" í Leipziger Volkszeitung alltaf af miklum áhuga. Ekki er það vegna þess að ég sé þeim alltaf sammála í öllum atriðum. En ég met mikils hinn ákafa baráttuanda þeirra, einlæga sannfæringu og örvandi díalektík.

Og nú fylgist ég líka með, ekki án undrunar, hvernig niðurstöðurnar hrannast upp, æ hærra og hraðar, á grundvelli þessarar einu forsendu:

Samkvæmt Schippel neyða okkur efnahagslegar ástæður til að viðhalda hernaðarkerfinu. En þær eru að þetta kerfi léttir efnahagslegum þrýstingi af samfélaginu. Schippel telur hernaðarstefnuna létti einnig frá sjónarmiði verkalýðsstéttarinnar ... þarsem hann gengur út frá því að hagsmunir auðmagns og vinnuafls fari saman.

Virðum niðurstöðurnar, en forsendan er bara alröng og haldlaus! Ég hafði einungis lýst því yfir í Neue Zeit að hin hrikalegu óframleiðnu útgjöld hvort heldur einkaaðilja í brjálæðislegan munað og fíflaskap, eða hins opinbera til hermála, bitlinga og alls kyns prjáls drægju úr hitasóttinni sem herjaði stöðugt á samfélag "offramleiðslu", ef ekki kæmi til óframleiðin sóun, stöðugt fyrirferðarmeiri við hlið upphleðslu til framleiðslu. Þar með hefi ég auðvitað ekki á nokkurn hátt fagnað sóun og óframleiðnum útgjöldum, enn síður hefi ég krafist þeirra í þágu verkalýðsstéttarinnar. Ég hefi aðeins reynt að benda á raunveruleg áhrif þeirra "á nútímasamfélag", önnur, en venjan er að leggja áherslu á.

Framanaf hélt ég öruggt, að enginn myndi telja mig forvígismann "þessa nútímasamfélags". En síðan hefi ég öðlast margháttaða reynslu af deilum sósíalista, og til þess að forðast alla mistúlkun, skaut ég eftir á inn í klausuna um offramleiðslu þessari litlu málsgrein:

Auðvitað gerir það hernaðarstefnuna mér ekki geðþekkari heldur þeim mun ógeðfelldari.

Það þýðir einfaldlega: þeim mun forsmánarlegri. En þessir yfirgengilegu fyrirvarar mínir virðast ekkert ætla að duga. "Þar við stendur" - rétt eins og verið væri að rökræða við borgaralegar konur.

En eftir að ég hefi nú skírskotað til hreinskilni "rl", dálkahöfundar Leipziger Zeitung, treysti ég á, að honum muni nú skiljast að hér hefur hann fullkomlega þjófstartað, og að kapphlaup okkar um verðlaun fyrir öreigalegasta og byltingarsinnaðasta hugarfar verður að hefjast að nýju.

Yðar
Max Schippel.

 

IV

Fylgist félagi Schippel undrandi "með niðurstöðunum sem hrannast upp, æ hærra og hraðar", á grundvelli einnar skoðunar, sem hann lét í ljós, þá sannar það bara enn einu sinni að skoðanir fara að ákveðnum rökum, jafnvel þótt menn geri það ekki.

Fyrst er þess að gæta, að svar Schippels hér næst á undan er merkileg viðbót við hugmyndir hans í Neue Zeit um að hernaðarstefnan sé efnahagslegur "léttir" fyrir auðvaldssamfélagið: Auk hernaðarstefnu birtast nú líka "bitlingar og allskyns prjál" sem og "brjálæðislegur munaður og fíflaskapur einkaaðilja" sem efnahagslegur léttir og aðferðir til að forðast kreppur. Hin sérstaka skoðun um efnahagslegt hlutverk hernaðarstefnunnar þróast þar með yfir í almenna kenningu um að sóun lagfæri efnahagslíf auðvaldsins. Það sannar að ég hefi gert Freiherr von Stumm rangt til sem þjóðhagfræðingi, þegar ég taldi hann leiðarljós Schippels í fyrstu grein minni. Þegar Stumm taldi útgjöld til hersins hin arðbærustu, var hann að minnsta kosti að hugsa um þýðingu hernaðarstefnunnar í baráttu um markaði og til að verja "iðnað föðurlandsins". Það kemur þá í 1jós að Schippel horfir alveg framhjá sérstöku hlutverki hernaðarstefnunnar í auðvaldssamfélagi, í henni sér hann aðeins andríka aðferð til að splundra ákveðnu magni félagslegrar vinnu árlega. Hernaðarstefnan er honum efnahagslega eitt og hið sama og t.d. sextán hundar hertogafrúarinnar d'Uzés í París, en þeir "létta" heilli íbúð, fáeinum þjónum og heilu fatabúri hunda af hagkerfi auðvaldsins.

Verst er að við hinar öru breytingar á tilhneigingum félaga Schippels í hagfræði og stjórnmálum hverfur hann hverju sinni svo gjörsamlega frá síðustu afstöðu sinni, að hann man ekki neitt. Annars hefði hann sem fyrrverandi Rodbertussinni hlotið að minnast hinna sígildu síðna Fjórða félagsmálabréfs til von Kirchmann[40], þar sem fyrrverandi leiðarljós hans rústar núverandi kenningu hans um kreppu og munað. En þessi kenning er miklu eldri en Rodbertus.

Hafi kenningin um að hernaðarstefnan sérstaklega sé léttir fyrir efnahagslífið þótt nýjung a. m. k. í röðum sósíalista þá er hin almenna kenning um að sóun bjargi efnahagslífi auðvaldsins eins gömul og sjálf borgaralega dólgahagfræðin.

Raunar hefur dólgahagfræðin alið af sér margar kreppukenningar á villugöngu þróunar sinnar. En sú sem Schippel okkar hefur nú tileinkað sér, er ein hin allra ómerkilegasta. Hvað varðar skilning á innra gangvirki efnahagslífs auðvaldsins er hún meira að segja á lægra stigi en kenning auvirðilegasta trúðs dólgahagfræðinnar, J. B. Say, um að offramleiðsla sé eiginlega vanframleiðsla.

Hver er almennasta forsenda kenningar Schippels? Kreppur verða til vegna þess að neyslan er of lítil, miðað við magn framleidds varnings, kreppurnar má því hemja með því að auka neyslu samfélagsins. Kreppumyndun auðvaldsskipulagsins er hér ekki skýrð með innri hneigð framleiðslunnar til að brjótast út fyrir takmarkanir markaðsins, ekki með stjórnleysi framleiðslunnar, heldur með endanlegu misræmi framleiðslu og neyslu. Vörumagn auðvaldssamfélagsins er hér svo að segja sett fram sem smjörfjall af ákveðinni stærð, sem samfélagið verður að éta sig í gegnum. Því meira sem neytt er, þeim mun minna hvílir eftir sem ómeltanlegt farg á efnahagslegri samvisku samfélagsins, þeim mun meiri er "léttirinn". Þetta er skilyrðislaus kreppukenning sem hefur sömu afstöðu til hinnar afstæðu kreppukenningar Marx, einsog fólksfjölgunarkenning Malthusar hefur til kenningar Marx um afstæða offjölgun.

En samkvæmt þessari andríku kenningu kemur ekki út á eitt fyrir samfélagið hver neytir. Verði neyslan bara til þess að auka enn framleiðsluna, þá vex smjörfjallið aftur, og "samfélagið" er engu bættara, kreppusóttin skekur það áfram. Það er ekki fyrr en varningsins er neytt endanlega, þegar hans er neytt af fólki sem framleiðir ekki sjálft, að samfélagið andar loks léttar, kreppumyndun eru reistar skorður.

Atvinnurekandinn Hinz veit ekki hvað hann á að gera við vörurnar sem hann (þ. e. verkamenn hans) framleiddi. Til allrar hamingju stundar atvinnurekandinn Kunz brjálæðislegan munað og kaupir þessar óþægilegu vörur af aðþrengdum stéttarfélaga sínum. Sjálfur hefur hann, Kunz, einnig ofgnótt af framleiddum varningi, sem "þjakar" hann. Svo vel vill til að fyrrnefndur Hinz eyðir einnig mjög miklu í "munað og fíflaskap" og býðst fyrir sitt leyti hinum áhyggjufulla Kunz sem þráður kaupandi. Eftir lukkulega afstaðin viðskipti horfa nú atvinnurekendur okkar forviða hvor á annan, og langar helst til að kalla upp: Ert þú brjálaður eða ég? Reyndar eru þeir það báðir. Því hverju hafa þeir náð með aðgerðunum sem Schippel ráðlagði þeim? Vissulega hafa þeir hjálpað hvor öðrum til að gereyða vissu magni af vörum. En æ!, tilgangur atvinnureksturs er ekki eyðilegging efnislegra verðmæta, heldur að raungera gildisaukann í gjallandi gulli. Og hvað það snertir jafngilda þessi snjöllu viðskipti því að hvor atvinnurekandi hefði gleypt í sig sinn eigin óþarfa gildisauka, neytt hans. Þetta er aðferð Schippels tilað milda kreppur. Eru kolabarónar Westfalens aðþrengdir vegna offramleiðslu á kolum? Aularnir! Þeir eiga bara að láta kynda betur í höllum sínum og þá er búið að "létta á" kolamarkaðinum. Kvarta eigendur marmaranámanna í Carrara yfir sölutregðu? Láti þeir þá gera hrossum sínum hesthús úr marmara, og þegar er aflétt "kreppusóttinni" á marmaramarkaðinum. Og dragi upp óveðursský almennrar verslunarkreppu, þá kallar Schippel til auðvaldsins: "Meiri ostrur, meira kampavín, fleiri einkennisklædda þjóna, fleiri ballettdansmeyjar, og ykkur er borgið." Ég óttast bara að þessir gömlu bragðarefir svari honum: "Herra minn, þér álítið okkur heimskari en við erum:"

Þessi andríka efnahagskenning leiðir ennfremur til merkilegrar niðurstöðu, félagslega og pólitískt. Því ef efnahagslífinu léttir og kreppur mildast við óframleiðna neyslu, þ. e. neyslu ríkisins og borgaralegra stétta, þá virðist það vera hagur samfélagsins og munu jafna hringrás framleiðslunnar að óframleiðin neysla þenjist sem mest út, en framleiðin verði takmörkuð sem mest, sá hlutur samfélagslegra verðmæta, sem auðherrar og ríkið tileinka sér, verði sem mestur, en hlutur vinnandi fólks sem minnstur, gróði og skattar verði sem mestir, launin sem lægst. Verkamenn eru efnahagsleg "byrði" á samfélaginu og hundar hertogafrúarinnar d'Uzés efnahagslegur bjargvættur - þetta leiðir af "léttis"kenningu Schippels.

Ég sagði að hún væri ómerkilegust kenninga jafnvel dólgahagfræðinnar. Hver er mælikvarðinn á ómerkileika í dólgahagfræði? Eðli dólgahagfræðinnar er að hún sér ferli hagkerfis auðvaldsins, ekki í djúplægu samhengi þeirra og innra eðli, heldur í sundrung þeirra á yfirborðinu í samkeppni; ekki í gegnum sjónauka vísindanna, heldur í gegnum gleraugu einstaklingshagsmuna borgaralegs samfélags. Alveg eins og sjónarhorn þessara einstaklinga er mynd samfélagsins breytileg, og endurspeglun þess í heila hagfræðingsins verður meira eða minna afskræmd. Því nær sem sjónarhóllinn er hinu eiginlega framleiðsluferli, þeim mun nær er skoðunin sannleikanum. Og því meir sem rannsakandinn nálgast markaðinn, svið algerrar drottnunar samkeppninnar, því fremur stendur mynd samfélagsins á haus, þaðan séð.

Kreppukenning Schippels er, eins og ég hefi sýnt framá, algerlega staðlaus frá sjónarmiði auðherranna sem stéttar: í henni felst einfaldlega að auðvaldsstéttin skuli sjálf neyta sinnar eigin ofgnóttar af vörum. En einstakur iðjuhöldur myndi einnig hrista hausinn yfir henni. Menn á borð við Krupp eða von Heyl eru alltof vitrir til að ganga í þeirri blekkingu að munaður þeirra sjálfra og stéttbræðra þeirra gæti á nokkurn hátt ráðið bót á kreppum. Sú skoðun gæti aðeins komið upp hjá kaupmanni í auðvaldskerfi, réttara sagt hjá kramara í auðvaldskerfi. Honum virðast beinir viðskiptavinir hans, "höfðingjarnir" með munaði sínum, vera burðarásar alls efnahagslífsins. Kenning Schippels er ekki einu sinni uppáhellingur af afstöðu atvinnurekenda í auðvaldshagkerfi, hún er beinlínis fræðilegur búningur sjónarmiðs kramara í auðvaldskerfi.

Rétt einsog útlistanir Ed. Bernsteins sýndu á sínum tíma að endurskoðunarstefnan leiðir til borgaralegrar stjórnmálaafstöðu, þannig sýnir hugmynd Schippels um að hernaðarstefnan "létti" á samfélaginu, að efnahagslegar forsendur hennar eru borgaralega dólgahagfræðin.

En Schippel afneitar pólitískum ályktunum mínum af "léttiskenningu" hans. Hann hefði bara talað um að létta af samfélaginu, en ekki verkalýðsstéttinni, til að forðast misskilning hefði hann ennfremur skotið því inn, skýrt og greinilega, að þetta "gerði honum hernaðarstefnuna ekki geðþekkari, heldur ógeðfelldari". Ætla mætti að Schippel teldi hernaðarstefnuna skaðlega efnahagslega frá sjónarmiði verkalýðsstéttarinnar.

Til hvers var hann þá að vísa á efnahagslegan létti? Hvaða ályktanir dregur hann af honum um afstöðu verkalýðsstéttarinnar til hernaðarstefnunnar? Hlýðum á: "Auðvitað gerir það [þessi efnahagslegi léttir -R. L.] hernaðarstefnuna ekki geðþekkari mér, heldur þeim mun ógeðfelldari. En frá þessu sjónarmiði get ég hinsvegar ekki tekið undir öskur smáborgaralegra frjálshyggjumanna um efnahagslegt hrun vegna óframleiðinna hernaðarútgjalda (Neue Zeit nr. 20, bls. 617, auðkennt af R. L.). Þá skoðun, að hernaðarstefnan rústi efnahagslífið, telur Schippel sem sagt smáborgaralega, ranga. Hernaðarstefnan þýðir þá ekkert hrun í hans augum, "að taka undir öskur smáborgaralegra frjálshyggjumanna" gegn hernaðarstefnu, þ.e. að berjast gegn henni, telur hann rangt, öll grein hans beinist að því að sýna verkalýðsstéttinni fram á að hernaðarstefnan sé ómissandi. Hvað merkir í ljósi þessa fyrirvarinn sem hann skýtur inn, um að þetta geri honum hernaðarstefnuna ekki geðþekkari, heldur þeim mun ógeðfelldari? Hann er aðeins fullyrðing um sálarástand: að Schippel verji hernaðarstefnuna ekki með nautn, heldur með ógeði, að hann hafi sjálfur enga gleði af hentistefnu sinni, að hjarta hans sé betra en höfuðið.

Þegar vegna þessarar staðreyndar gæti ég ekki tekið áskorun Schippels um kapphlaup "um hið öreigalegasta og byltingarsinnaðasta hugarfar". Drenglyndið bannar mér kapphlaup við mann sem tekur sér verstu hugsanlegu rásstöðu, þ. e. snýr baki í brautina.

Leipzig 1899.

 


Athugasemdir:

[1] Á þýsku: Probleme des Sozialismus í Die neue Zeit, 1897-8 og Die Voraussetzungen des Sozialismus und die Aufgahen der Sozialdemokratie. Um þá bók fjallar 2. hluti. RL.

[2] Þýskir stjórnmálamenn sem boðuðu hvað harðasta kúgun á verkalýðnum.

[3] Í neðanmgr. við 3. bindi Auðmagnsins skrifar Fr. Engels: "Frá því að þetta var ritað (1865) hefur samkeppni á heimsmarkaðinum harðnað verulega við hraða iðnþróun í öllum menningarlöndum, einkum þó Bandaríkjunum og Þýskalandi. Sjálfum auðherrunum verður æ ljósari sú staðreynd að nútímaframleiðsluöfl vaxa svo óskaplega að þau eru að yfirstíga lögmál vörudreifingar auðvaldskerfisins, sem áttu þó að rúma þau. Þetta birtist einkum í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi í þessu nýja, almenna verndartollaæði, sem greinist frá gömlu tollverndinni einkanlega í því að nú eru einkum verndaðar útflutningshæfar vörur. Í öðru lagi í samböndum ( samsteypum) framleiðenda í miklum iðngreinum, til að hafa stjórn á framleiðslunni og þá einnig á verði og gróða. Það segir sig sjálft að slíkar tilraunir geta aðeins tekist í tiltölulega góðu veðri, efnahagslega. Fyrsti stormurinn mun feykja þeim burt og sanna að enda þótt framleiðslan þurfi stjórnar, þá er auðvaldsstéttin síst til hennar fallin. En þangað til hafa þessar samsteypur aðeins þann tilgang að smáir verði étnir upp af stórum, enn hraðar en áður." M/E: Werke, 25. bindi, bls. 130. RL

[4] (Eftirfarandi kafla var sleppt í 2. útg., er klausan hér á undan bættist inn: )

Ég álít að á annan hátt megi útskýra lognið sem nú ríkir á heimsmarkaðnum. Menn hafa vanist því að líta á hinar miklu, endurteknu viðskiptakreppur hingað til sem ellikreppur auðvaldsins einsog Marx skilgreindi þær í megindráttum. Að þær skyldu birtast í framleiðsluferlinu á u. þ. b. tíu ára fresti, virtist besta staðfesting þeirrar skilgreiningar. En að minni hyggju byggist þessi skoðun á misskilningi. Ef skoðaðar eru nánar orsakir alþjóðlegu kreppnanna miklu, hverju sinni, hlýtur sú vissa að vakna um þær allar, að þær hafi ekki verið ellimörk efnahagslífs auðvaldsins, heldur barnasjúkdómar þess. Ekki þarf lengi að hugsa sig um til að sjá að auðvaldskerfi áranna 1825, 1836, 1847 gat ómögulega getið af sér þennan endurtekna árekstur fullþroskaðra framleiðsluafla á takmörk markaðsins, sem Marx dró upp í útlínum. Á þessum árum lá auðvaldskerfið nefnilega víðast hvar í reifum.

[5] (Eftirfarandi var sleppt i 2. útg.:)

En í heild á þetta kerfi fremur við um fullþróað efnahagslíf auðvalds, þar sem ganga má út frá heimsmarkaðinum sem sjálfsögðum hlut. Aðeins þá rísa kreppurnar af innri, sjálfstæðri hreyfingu framleiðslu- og dreifingarferlis á þennan vélræna hátt sem Marx gerði ráð fyrir. Þá þarf ekki ytra tilefni skyndilegra áfalla í aðstæðum framleiðslu eða markaðs. Ef við lítum á efnahagsástandið núna, verður að viðurkenna að enn er það ekki komið á þetta stig fullkomins þroska auðvaldsins, sem kenning Marx um reglubundna endurtekningu kreppna gengur út frá. Heimsmarkaðurinn er að myndast. Þýskaland og Austurríki komust ekki á stig eiginlegs stóriðnaðar fyrr en á áttunda áratuginum, Rússland á þeim níunda. Frakkland er enn að verulegu leyti á stigi smárekstrar. Balkanríkin hafa enn ekki einu sinni brotist úr hlekkjum frumframleiðslu, svo heitið geti. Það var fyrst á níunda áratuginum sem Ameríka, Ástralía og Afríka komust í mikil og stöðug vöruviðskipti við Evrópu. Annarsvegar höfum við þá að baki skyndilega víkkun á leiksviði efnahagslífs auðvaldsins, svo sem varð með reglubundnu millibili allt fram að áttunda áratuginum og leiddi til umliðinna kreppna, sem kalla má æskukreppur. Hinsvegar er heimsmarkaðurinn ekki enn kominn á það þróunarstig, þá tæmingu möguleika, sem gæti af sér örlögþrunginn, endurtekinn árekstur framleiðsluaflanna á takmörk markaðarins, raunverulegar ellikreppur auðvaldsins. Við erum nú á því stigi að kreppur fylgja ekki lengur uppgangi auðvaldsins, og enn ekki hnignun þess. Þetta millibilsástand einkennist af því, að viðskiptin hafa verið heldur daufleg að meðaltali síðustu tvo áratugi, stutt tímaskeið uppgangs skiptast á við löng lægðarskeið. En við nálgumst stöðugt upphaf endalokanna, tímaskeið lokakreppna auðvaldsins. Það leiðir einmitt af sömu fyrirbærum og halda kreppunum frá í bili. Því þegar heimsmarkaðurinn verður mótaður í megindráttum og getur ekki lengur stækkað skyndilega, og ef framleiðni vinnuaflsins eykst jafnframt stöðugt, þá hefjast fyrr eða síðar reglubundnar ýfingar framleiðsluaflanna við takmörk dreifingarinnar. Þær verða sjálfkrafa, vegna endurtekningarinnar, sífellt harðari og stormasamari. Og sé eitthvað sérstaklega til þess fallið að færa okkur nær þessu tímaskeiði, að koma heimsmarkaðinum skjótt á og tæma möguleika hans skjótt, þá eru það einmitt þau fyrirbæri sem Bernstein telur helstu "aðlögunartæki " auðvaldsins lánakerfið og samtök atvinnurekenda.

[6] Auðmagnið, III. M/E:Werke, 25. bindi, bls. 269 (sleppt í 2. útg.:) Aðlögunartæki Bernsteins reynast þá óvirk og það sem hann kallar dæmi um aðlögun verður að leiða af öðrum orsökum.

[7] Konrad Schmidt: Takmark og hreyfing (Endziel und Bewegung) í Vorwärts, 20/2 k9 1898. Ég tel mér þeim mun fremur heimilt að tengja kenningar K. Schmidts og Bernsteins, sem hinn síðarnefndi hefur ekki mótmælt einu orði þessum aths. við skoðanir hans í Vorwärts. RL.

[8] Sidney og Beatrice Webb:Theorie and Praxis der Englischen Gewerksvereine (Industrial democracy), Stuttgart 1898, annað bindi, b1s.100 o. áfr. RL

[9] Auðmagnið, III. M/E:Werke, 25.bindi, bls. 245.

[10] (sleppt í 2. útg.:) Í öllum mikilvægustu löndunum og einmitt í þeim sem mest beita tollum, er auðvaldsframleiðsla komin nokkurnveginn á sama stig.

[11] (sl.í 2.útg.:) Hernaðarstefnan hefur ekki lengur nein lönd að opna auðvaldinu.

[12] Kenning um friðsamlegt samstarf auðvalds og verkalýðs. Grunneiningar samfélagsins áttu að vera samvinnufélög í iðnaði og landbúnaði, undir sameiginlegri stjórn.

[13] Prófessorarnir Wagner, Schmoller, Brentano o. fl. héldu ráðstefnu í Eisenach 1872. Þar boðuðu þeir með miklum gauragangi félagslegar umbætur verkalýðsstéttinni til verndar. Hlutu þeir háðsglósuna "Kennaraborðssósíalistar" frá frjálshyggjumanninum Oppenheim, er þeir stofnuðu Samtök um félagslegar umbætur. Fáeinum árum síðar, þegar baráttan gegn sósíalistum harðnaði, greiddu leiðtogar þeirra atkvæði í ríkisþinginu með framlengingu laga gegn sósíalistum. Starfsemi samtakanna var annars eingöngu árleg þing þar sem lesnar voru upp álitsgerðir prófessoranna um ýmis mál. Þau hafa gefið út meira en hundrað þykk bindi um efnahagsmál. Loks gáfust þau upp á félagslegum umbótum og fást þess í stað við kreppur, samsteypur o. þ. u. l. RL

[14] (sl. í 2, útg.:) menn sjá þær fyrir, segja má að þeir taki frekari hlutlægri þróun einsog að kaupa skuldbréf með afföllum. Og ævinlega er gengið út frá andstæðunum einsog þær geta orðið skarpastar.

[15] Richard van der Borght: Handwörterbuch der Staatswissenschaften. I. RL

[16] Ath! Í mikilli útbreiðslu smáhlutabréfa sér Bernstein greinilega sönnun þess að félagsleg auðlegð sé farin að blessa jafnvel alþýðufólk með hlutabréfum. Því hverjir nema smáborgarar eða jafnvel verkamenn myndu kaupa hlutabréf fyrir smámuni einsog 1 £ eða 20 mörk? Því miður byggist þessi túlkun á einfaldri reikningsvillu, hér er reiknað með nafnverði hlutabréfa í stað markaðsverðs þeirra, en það er sitt hvað. Dæmi. Hlutabréf í suðurafrísku Randnámunum eru skráð á l£ eða 20 mörk, einsog flest námuhlutabréf. En verð þeirra er nú 43£ (sbr. Kauphallartíðindi í marslok), þ.e. ekki 20 mörk,heldur 860! Og svona er þetta yfirleitt allstaðar. "Litlu" hlutabréfin, svo lýðræðislega sem þetta hljómar, reynast þá vera"ávísanir" góðborgara" á samfélagslega auðlegð", en alls ekki smáborgara, hvað þá öreiga, því afar fáir fá þau á nafnverði.

[17] Í Leipziger Volkszeitung svarar Bernstein raunar nokkrum atriðum í greinaflokki mínum vítt og breitt, en svar hans er þannig, að það opinberar bara vandræði hans. Til að auðvelda sér svarið við gagnrýni minni á vantrú hans á kreppur, t.d., gerir hann mér upp þær skoðanir, að kreppukenningar Marx séu bara framtíðardraumar. En þetta er afar frjálsleg túlkun orða minna, því ég sagði aðeins, að reglubundin, vélræn endurtekning kreppnanna, nánar tiltekið kreppur á tíu ára fresti, ættu aðeins við um fullþróaðan heimsmarkað. Um innihald kreppukenningar Marx sagði ég að hún væri eina vísindalega framsetning á gangi kreppna sem gerð hefði verið, sem og á innri efnahagslegum orsökum allra umliðinna kreppna.

Enn undursamlegri eru svör Bernsteins við öðrum atriðum gagnrýni mínnar. Ég benti t.d. á að sölusambönd dygðu ekki gegn stjórnleysi auðvaldsins, þó ekki væri nema vegna þess að þau leiða bara til harðari samkeppni á heimsmarkaðinum, eins og sæist á dæmi sykuriðnaðarins. Þessu svarar Bernstein að það sé að vísu rétt, en hert samkeppni í sykuriðnaði í Englandi hafi vakið öfluga framleiðslu á ávaxtamauki og niðursuðuvörum (bls.78). Svarið minnir á samtalsæfingarnar í fyrrihluta Aðferðar Ollendorfs fyrir sjálfsnám í tungumálum:"Ermin er stutt, en skórinn er þröngur. Pabbi er stór, en mamma er farin að sofa."

Með ámóta röklegu samhengi svaraði Bernstein sönnunum mínum fyrir því að lánakerfið gæti heldur ekki verið "aðlögunartæki" gegn stjórnleysi auðvaldsins, vegna þess að það auki beinlínis á stjórnleysið. Hann sagði að lánakerfið hefði jafnframt eyðingareðlinu einnig jákvætt, "skapandi" hlutverk, svosem einnig Marx hefði viðurkennt. Ekki eru þetta beinlínis nýjar fréttir þeim sem á grundvelli kenninga Marx finna yfirleitt alla sprota komandi sósíalískrar umbreytingar samfélagsins í efnahagslífi auðvaldsins, einnig hvað varðar lánakerfið. Það sem deilan snerist um, var hvort þetta jákvæða eðli lánakerfisins, sem myndi ná út yfir auðvaldskerfið, reyndist líka jákvætt í efnahagslífi auðvaldsins. Það er, hvort það gæti sigrast á stjórnleysi auðvaldsins eins og Bernstein hélt fram, eða hvort það myndi öllu fremur leiða til mótsagna og auka aðeins á stjórnleysið, einsog ég sýndi fram á. Í ljósi þessa er tilvísun Bernsteins til "sköpunargetu lánakerfisins" upphafsatriðis deilunnar - einungis "fræðilegur flótti til þess sem er handan við" - umræðuefnið. RL.

[18] "Samvinnuverksmiðjur verkamannanna sjálfra eru fyrstu brestirnir í hinni gömlu skipan, þótt raunverulegt skipulag þeirra hljóti auðvitað hvarvetna að endurskapa alla ágalla ríkjandi kerfis." Auðmagnið, III. M/E:Werke, 25. bindi, bls. 456. RL.

[19] Carl Rodbertus-Jagetzow þjóðhagfræðingur, var hugsuður prússneskra júnkara í borgarastétt. Gegn marxískri byltingu boðaði hann ríkisauðvald.

[20] Carl Rodbertus-Jagetzow þjóðhagfræðingur, var hugsuður prússneskra júnkara í borgarastétt. Gegn marxískri byltingu boðaði hann ríkisauðvald.

[21] (sl. í 2. útg.): sem virðist nú vera í andarslitrunum.

[22] (sl. í 2. útg.): 9. og 14. gr. sanna best hve lítt það snertir eiginlegt lýðræði (14. grein austurrísku stjórnarskrárinnar, svokölluð neyðarástandsgrein, frá 16/7 1876 leyfði keisara og ríkisstjórn að gefa út tilskipanir, án þess að þingið kæmi þar nærri. Tilskipanir þessar beindust einkum að því að berja niður alþýðuuppreisnir í þessu fjölþjóðaríki með öllum tiltækum ráðum).

[23] (s1. í 2. útg.): ... nútímastórríkjum er hún orðin ónauðsynleg. Efnahagsþróunin ... samruna og því má nú taka af umbúðir pólitísks lýðræðis, án hættu fyrir borgaralegt samfélag.

[24] (sl.í 2.útg.): af því að þau eru í beinu sambandi við efnahagslegar þarfir og stefnu auðvaldsins. Af því ... niðurleið. Sláandi dæmi: Bandaríkin eftir stríðið við Spánverja. Í Frakklandi byggist tilvera lýðveldisins einkum á alþjóðlegu stjórnmálaástandi, en það útilokar stríð í bili. Kæmi að slíku stríði er svo að sjá sem Frakkland myndi ekki reynast viðbúið alþjóðastjórnmálum. Svarið við fyrsta ósigri Frakklands á vígvellinum yrði þá að lýsa yfir konungdæmi í París.

[25] 14/11 1898 neyddi þýska stjórnin hina kínversku til að láta af hendi Kjátsjúflóa og uppland hans sem herstöð til 99 ára.

[26] (sl., í 2.útg.): Bernstein segir í lokum "svars" sins til Kautsky, í Vorwärts 26/3 1899, að hann sé alveg sammála aðgerðaáætlun stefnuskrár sósíalista, hann sé einungis með nokkrar mótbárur við fræðilegan hluta hennar. Samt sem áður telur hann sig greinilega hafa fullan rétt tilað ganga í röðum flokksins, því hvaða "máli" skipti, "þótt í fræðilegum [hluta] sé setning sem samrýmist ekki lengur hugmyndum mínum um þróunarleiðina?" Þessi yfirlýsing sýnir í besta lagi hve gjörsamlega Bernstein er búinn að missa skyn á samhengi daglegs starfs sósíalista við almenna grundvallarstefnu þeirra, að sömu orð hafa mismunandi merkingu fyrir flokkinn og Bernstein. Reyndar leiða kenningar Bernsteins sjálfs, einsog við höfum séð, til þeirrar grundvallarskoðunar sósíalista að án grundvallarstefnunnar sé öll daglega baráttan einskis nýt og tilgangslaus, að sé horfið frá lokatakmarkinu, hljóti öll hreyfingin að farast.

[27] Sjá M&E: Úrvalsrit II, bls. 7-24. R. L. þekkti aðeins falsaða gerð inngangins (sbr. tilv. rit, bls. 7), þar sem sleppt var öllu byltingartali, samt skilur hún anda hans réttilega.

[28] "Skaðabætur teljum við alls ekki útilokaðar í öllum tilfellum, Ég veit ekki hve oft Marx sagði mér að það yrði okkur ódýrast að kaupa af okkur allan lýðinn." (Fr. Engels: Málefni bænda í Frakklandi og Þýskalandi. M/E: Werke 22.bindi, bls. 504). RL.

[29] (sl. í 2. útg.): Ráð hans til sósíalista, "að fara að sofa", nái þeir völdum, felur hitt í sér: að fara nú að sofa og bara yfirleitt, þ. e. að gefast upp á stéttabaráttunni.

[30] (sl. í 2. útg.:) Hafi einhver í upphafi rökræðnanna við Bernstein enn vonast til að hann yrði sannfærður með rökum úr vopnabúri fræða sósíalista, hann yrði aftur unninn fyrir hreyfinguna, þá verður nú alveg að falla frá þessari von. Því sömu orðin tákna nú ekki lengur sömu hugtök fyrir báða málsaðilja, sömu hugtök tákna þeim ekki lengur sömu félagslegu staðreyndir. Rökræðurnar við Bernstein eru orðnar að átökum tveggja lífsskoðana, tveggja stétta, tveggja samfélagsmynda. Bernstein og sósíalistar standa nú alveg á sinn hvorum grundvellinum.

[31] 1884 vildi meirihluti þingliðs þýska sósíalistaflokksins styðja útgerðarfyrirtæki í einkaeign. Engels barðist gegn þessu og því var hrundið.

[32] Síðasttalda atriðið er rætt í næstu köflum, Heine í lok 12. k. Vollmar taldi verulega þjóðnýtingu auðvaldsfyrirtækja ásamt smávægilegum tilslökunum við verkalýðsstéttina vera félagslegar umbætur, en flokksþing sósíalista í Berlin, 1892, ályktaði að þessi kenning um ríkissósíalisma beindist að því að kljúfa verkalýð frá sósíalistum. Landbúnaðarsósíalisminn: hugmyndir um að auðvaldsríkið ætti að styðja smáfyrirtæki, það væri sósíalískt.

[33] (sl. í 2. útg.): Einsog hún hefur fullkomnast í framkvæmd í afstöðu Schippels til hernaðarstefnunnar.

[34] (s1. í 2. útg.): Ég hefi sagt: Hreyfingin verður sósíalísk, er hún yfirvinnur hliðarstökk þau til stjórnleysis og hentistefnu, sem óhjákvæmilega hljótast af vexti hennar. En að yfirvinna er ekki hið sama og að láta allt danka. Til að yfirvinna núverandi hentistefnu verður að vísa henni á bug. Bernstein lýkur bók sinni á því ráði til flokksins að hann þori að sýna sig einsog hann sé: lýðræðislegur og sósíalískur umbótaflokkur. Að mínu viti þyrfti flokkurinn, þ.e. æðsta vald hans, flokksþingið, að endurgjalda þetta ráð með því að láta Bernstein fyrir sitt leyti koma til dyranna eins og hann er klæddur: smáborgaralegur, lýðræðislegur framfarasnakkur.

[35] Þessar greinar birtust í Leipziger Volkszeitung (20.-22. og 25.feb.1899) sem svar við greinum Max Schippel (sem skrifaði undir nafninu Isegrim): Trúði Friedrich Engels á varnarsveitir? og annarri grein gegn svari Kautskys við þeirri grein. Fyrstu grein Schippels lauk á orðunum: "Burt með suflið Ég þarf þess ei! Úr pappa ég smíða ekki sverð!"

Til að IV. grein skiljist, set ég á undan henni svar Schippels við hinum fyrri, það birtist í sama hefti af Leipziger Volkszeitung og IV. RL.

[36] Johannes von Miquel, fjármálaráðherra Prússlands 1890-1901 gerði tekjuskatt að þungamiðju beinna skatta 1891, tekjur voru skattfrjálsar uppað 900 mörkum. Á tekjur þar fyrir ofan mátti í mesta lagi leggja 4% skatta.

[37] Hann var iðnjöfur í hergagnaframleiðslu.

[38] Hann boðaði smáborgaralegar umbætur til að sætta verkalýðsstéttina við heimsvaldasinnað ríkisvaldið ("kristilega heimsvaldastefnu"). Hann hafði náið samstarf við fjármálaauðvaldið og tengsl við endurskoðunarsinnaða leiðstoga þýskra sósíalista.

[39] Í 2. útg. var 13. k. sleppt allt aftur að bréfi Schippels.

[40] Carl Rodbertus-Jagetzow: Das Kapital ... Berlin 1884, bls. 32 o.áfr.

 


Last updated on: 10.03.2008