Rósa Lúxembúrg

Skipulagsmál rússneskra sósíalista

1904


Source: Die Neue Zeit (Stuttgart) 22. árgangur, 1903-4, annað bindi. I: b1s. 484-492; II: bls. 529-535.
Translation: Örn Ólafsson
HTML Markup: Jonas Holmgren
Public Domain: Marxists Internet Archive (2008). You may freely copy, distribute, display and perform this work; as well as make derivative and commercial works. Please credit "Marxists Internet Archive" as your source.


Það telst til fornhelgra sanninda, að sósíalísk hreyfing vanþróaðra landa verði að læra af eldri hreyfingu þróaðri landa. Ég dirfist að bæta andstæðunni við þessa setningu: Hinir eldri og þróaðri sósíalistaflokkar geta lært alveg jafnmikið af nánari kynnum af yngri systurflokkum sínum, og eiga að gera það. Fylgjendur sígildrar borgaralegrar hagfræði líta svo á að efnahagskerfi sem voru á undan auðvaldshagkerfinu séu bara "vanþróun" miðað við kórónu sköpunarverksins auðvaldskerfið. Andstætt þeim, og þó sérstaklega dólgahagfræðingum, líta marxískir hagfræðingar á þessi fyrri stig sem sögulega mismunandi, en þó jafnrétthá hagkerfi. Á sama hátt líta marxískir stjórnmálamenn á sósíalískar hreyfingar, sem þróast hafa á mismunandi vegu, sem ákveðna sögulega einstaklinga, hverja fyrir sig. Og því betur sem við kynnumst sömu grundvallareinkennum sósíalista í allri fjölbreytni mismunandi félagslegs umhverfis þeirra, þeim mun betur áttum við okkur á meginatriðum sósíalískrar hreyfingar, grundvallareinkennunum. Því fremur víkur hvers kyns þröngsýni sem stafar af staðbundnum sérkennum. Ekki að ósekju er hinn alþjóðlegi hljómur svo sterkur í marxískri byltingarstefnu, ekki að ósekju endar endurskoðunarhugsunin alltaf á hljómi þjóðaraðskilnaðar. Greinin sem hér fer á eftir var skrifuð í Iskra, málgagn rússneska sósíalistaflokksins, að beiðni ritstjórnarinnar. Hún ætti einnig að höfða nokkuð til þýskra lesenda.

 

I

Rússneskir sósíalistar hafa hlotið einkennilegt verkefni, einstakt í sögu sósíalismans: að skapa baráttuaðferð sósíalista fyrir stéttabaráttu öreiganna í einvaldsríki. Það er venja að jafna aðstæðum í Rússlandi nú við þær sem ríktu í Þýskalandi þegar lögin gegn sósíalistum voru í gildi. Það er að því leyti útí hött, að þá er litið á rússneskar aðstæður út frá sjónarmiði lögreglu, en ekki stjórnmála. Hindranirnar í götu fjöldahreyfingarinnar, þ.e, skortur á lýðræðislegum réttindum, eru tiltölulega lítilvægar. Einnig í Rússlandi hefur fjöldahreyfingunni tekist að brjóta af sér skorður "stjórnarskrár" einveldisins og skapa sína eigin "stjórnarskrá götuóeirðanna", þótt ófullkomin sé. Og henni tekst það áfram, þangað til hún vinnur lokasigur á einveldinu. Helstu örðugleikar fyrir baráttu sósíalista í Rússlandi stafa af því að drottnun borgarastéttarinnar er falin á bak við ógnarstjórn einveldisins. Þetta ljær eiginlegum boðskap sósíalista um stéttabaráttu óhjákvæmilega blæ óhlutbundins áróðurs og beinum pólitískum áróðri þeirra svip lýðræðisbyltingar fyrst og fremst. Lögin gegn sósíalistum áttu einungis að halda verkalýðsstéttinni utan við stjórnarskrána mitt í háþróuðu, borgaralegu samfélagi, þar sem stéttaandstæðurnar voru fullkomlega afhjúpaðar og blómstruðu í þingsalabaráttu. Í því lá einmitt hve fráleitar, hlægilegar þessar aðgerðir Bismarcks voru. Í Rússlandi á nú að reyna andstæðu þessa, að skapa sósíalistahreyfingu þó að borgarastéttin drottni ekki beinlínis, pólitískt.

Þetta hefur mótað mjög sérkennilega hvernig fræði sósíalismans eru aðlöguð rússneskum aðstæðum, en það hefur einnig mótað áróðursmál, og skipulagsmál. Í hreyfingu sósíalista er líka skipulagið, ólíkt draumsæissósíalisma fyrri tíma, ekki eitthvað sem búið er til með áróðri, heldur er það söguleg afurð stéttabaráttunnar, sósíalistar gæða hana einungis pólitískri meðvitund. Við eðlilegar aðstæður, þ. e. bar sem pólitísk drottnun borgarastéttarinnar nær þroska á undan hreyfingu sósíalista, annast borgarastéttin í ríkum mæli pólitískan samruna verkalýðsins framan af. "Á þessu stigi", segir í Kommúnistaávarpinu, "þjappast verkamenn saman í miklum fjölda ... ekki vegna einingar þeirra sjálfra, heldur er sameiningin á vegum borgarastéttarinnar". (M/E: Úrvalsrit I, 33). Í Rússlandi hafa sósíalistar hlotið það verkefni, að láta meðvitað starf sitt koma í stað sögulegs skeiðs, og leiða öreigastéttina beint frá þeirri pólitísku sundrungu í frumeindir, sem er grundvöllur einveldisins, til hins æðsta skipulagsstigs stéttar í markvissri baráttu. Skipulagið er því sérlega örðugt mál fyrir rússneska sósíalista, ekki bara vegna þess, að þeir verða að skapa það án allra formlegra réttinda borgaralegs lýðræðis, heldur umfram allt vegna þess að þeir verða á vissan hátt að skapa það "úr engu", einsog guð almáttugur, í tómarúmi, án þess pólitíska hráefnis sem borgaralegt samfélag útbýr venjulega.

Vandamálið, sem rússneskir sósíalistar hafa verið að glíma við í nokkur ár, er einmitt umskipti í skipulagi. Dreifðir hópar og staðbundnar hreyfingar, algerlega óháð hvert öðru, samsvöruðu undirbúningsskeiði hreyfingarinnar, en það einkenndist einkum af áróðursstarfi. En nú þarf að hverfa til skipulags fyrir sameiginlegar pólitískar fjöldaaðgerðir um allt ríkið. Gamla skipulagið var orðið pólitískt úrelt og óviðunandi. Þar sem mest áberandi einkenni þess var sundrung og algert sjálfstæði, staðbundinna hreyfinga sem voru sjálfum sér nægar, þá varð kjörorð hins nýja skeiðs eðlilega: miðstýring, er skipulagningin mikla hófst. Áherslan á miðstýringu var leiðiminni Iskra í þriggja ára glæsilegri herferð hennar fyrir undirbúning síðasta flokksþings, sem raunverulega setti flokkinn á stofn[1]. Sama hugsun drottnaði hjá öllu ungliði sósíalista í Rússlandi. En brátt kom í ljós, á flokksþinginu og þó enn frekar eftir flokksþingið, að miðstýring er slagorð, sem er fjarri því að ná yfir sögulegt inntak og sérkenni skipulags sósíalista. Enn einu sinni kom í ljós, að marxískur skilningur á sósíalisma verður ekki settur fram í föstum formúlum á neinu sviði, ekki heldur í skipulagsmálum.

Ég fjalla hér um bók félaga Leníns, einhvers fremsta leiðtoga og baráttu manns Iskra í undirbúningi rússneska flokksþingsins. Bókin er kerfisbundin framsetning á skoðunum eindregnustu miðstjórnarsinna í rússneska flokkinum. Það sem hér er boðað, ákaft og tæmandi, er hömlulaus miðstýring. Meginatriði hennar eru annarsvegar að aðgreina skipulagðar liðsveitir yfirlýstra og virkra byltingarmanna skarpt frá umhverfi þeirra, sem er óskipulagt, en virkt í byltingunni. Hinsvegar er strangur agi, og bein úrslitaáhrif miðstjórnar á allt sem staðbundnar deildir flokksins gera. Það nægir sem dæmi, að samkvæmt þessu hefur miðstjórn vald til að skipuleggja allar deildir flokksins, og þá líka að ráða því hver er í hverju einasta rússneska flokksfélagi, frá Genf og Lüttich til Tomsk og Irkutsk. Hún hefur vald til að semja því reglur, leysa þau alveg upp með valdboði og stofna ný. Miðstjórn getur þannig óbeint ráðið því hvaða flokksdeildir sitja flokksþing, æðstu valdastofnun flokksins. Samkvæmt þessu er miðstjórnin hinn eiginlegi, virki kjarni flokksins, allar aðrar deildir eru einungis verkfæri hennar[2].

Lenín telur að einmitt það að tengja svo harða miðstýringu skipulagsins við fjöldahreyfingu sósíalista sé sérlega byltingarsinnaður marxismi, og tilfærir margar staðreyndir máli sínu til stuðnings. En skoðum málið aðeins betur.

Enginn vafi er á því að mikil miðstjórnarhneigð er almenn með sósíalistum. Hreyfing þeirra sprettur upp af efnahagsgrundvelli auðvalds sem hneigist til miðstýringar. Barátta þeirra er innan pólitísks ramma miðstýrðs, borgaralegs stórríkis. Því eru sósíalistar frá upphafi ákveðnir andstæðingar alls aðskilnaðar og bandalagsríkja. Hlutverk þeirra er að gæta heildarhagsmuna öreigastéttarinnar í tilteknu ríki gagnvart öllum sérhagsmunum einstakra hópa hennar. Þeir hneigjast því eðlilega allsstaðar til að bræða saman í samfelldan flokk alla þá hópa sem verkalýðsstéttin skiptist í eftir þjóðerni, trúarbrögðum og starfsgreinum. Það er aðeins við sérstakar, óeðlilegar aðstæður einsog t.d. í Austurriki, sem þeir neyðast til að gera undantekningu og fylgja bandalagsskipaninni.

Hvað þetta varðar, þá hefur aldrei verið neitt vafamál fyrir sósíalista í Rússlandi að þeir mynduðu ekki sundurleitt bandalag ótal hreyfinga, aðskilinna eftir þjóðerni og héruðum, heldur yrðu þeir að mynda samstæðan, samheldinn verkamannaflokk rússneska ríkisins. Allt annað mál er hinsvegar meiri eða minni miðstýring, og hvernig henni sé háttað, innan sameinaðs og samheldins sósíalistaflokks Rússlands[3].

Miðað við formleg verkefni sósíalísks baráttuflokks virðist miðstýring forsenda baráttuhæfni hans og framkvæmdaþróttar, þau fara beinlínis eftir því að hve miklu leyti þetta skilyrði er uppfyllt. En sérstakar sögulegar aðstæður baráttu öreiganna eru hér mun mikilvægari en tillit til formlegra skilyrða allra baráttuhreyfinga.

Í sögu stéttasamfélaga er hreyfing sósíalista hin fyrsta sem á öllum stigum beinist að skipulagningu fjöldans og beinu, sjálfstæðu starfi hans.

Þessvegna skapa sósíalistar nú allt aðra skipulagsgerð en fyrri sósíalískar hreyfingar svosem jakobínar og blanquistar.

Lenín virðist vanmeta þetta, þegar hann segir í bók sinni, (CW 7, bls. 381), að byltingarsinnaður sósíalisti sé ekkert annað en "jakobíni, órjúfanlega tengdur skipulagðri hreyfingu stéttvísra öreiga" Lenín álítur að munurinn á sósíalistahreyfingunni og blanquisma sé annarsvegar skipulagning og stéttarvitund öreiganna, hinsvegar samsæri lítils minnihluta. En hann gleymir að í þessu felst alveg nýtt mat á skipulagshugmyndum, ný merking orðsins miðstýring, og alveg nýr skilningur á gagnkvæmu sambandi skipulags og baráttu.

Bæði var að Blanquisminn miðaðist ekki við beinar aðgerðir verkalýðsstéttarinnar, né þurfti hann þarafleiðandi fjöldaskipulag. Þvert á móti, þar sem alþýðufjöldinn átti ekki að birtast á vígvellinum fyrr en byltingin hæfist, en aðdragandinn var að lítill minnihluti undirbyggi byltingarsinnað valdrán, þá var beinlínis nauðsynlegt að aðgreina þann minnihluta skarplega frá fjöldanum, ætti verk þeirra að takast. Þessi aðgreining var möguleg vegna þess að ekkert innra samhengi var milli samsæris, sem var starfsemi blanquískra hreyfinga, og daglegs lífs alþýðunnar.

Baráttuaðferð hreyfingarinnar og næstu verkefni mátti ákvarða frjálslega, einsog mönnum datt í hug, því þau voru ekki tengd grundvelli stéttabaráttunnar sjálfrar. Því mátti ákveða þetta fyrirfram í smáatriðum, sem ákveðna áætlun. Þessvegna urðu virkir félagar hreyfingarinnar eðlilega aðeins framkvæmdaaðiljar stefnu sem var mörkuð fyrirfram, utan starfssviðs þeirra sjálfra, þeir urðu verkfæri miðstjórnar. En þarmeð var komið annað atriði miðstýringar samsærisins, að einstakar flokksdeildir skuli lúta miðstjórn flokksins algerlega, blint, og úrslitavald miðstjórnar skuli ná út á ysta jaðar flokksins.

Sósíalistar starfa við gerólík skilyrði. Sögulega séð vex starf þeirra upp af upprunalegri stéttabaráttu. Það þróast í þeim díalektísku andstæðum að öreigaherinn safnast ekki saman fyrr en í baráttunni sjálfri, og áttar sig fyrst í henni á verkefnum baráttunnar. Skipulagning, upplýsing og barátta eru hér ekki aðskilin stig, vélrænt og tímalega, einsog hjá blanquískri hreyfingu, heldur eru þetta mismunandi hliðar eins og sama ferlis. Annarsvegar er - fyrir utan almennar baráttureglur - ekki til nein tilbúin baráttuaðferð, fyrirfram fastákveðin í smáatriðum, sem miðstjórnin gæti hamrað inn í félaga sósíalistaflokksins. Baráttuferlið, sem skapar skipulagið, veldur hinsvegar stöðugum sveiflum á áhrifasvæði sósíalista.

Af því leiðir að miðstýring sósíalistaflokksins getur ekki byggst á blindri hlýðni baráttumanna flokksins, að þeir skipist vélrænt undir miðstjórnarvald hans. Ennfremur verður aldrei hægt að gera hrein skil á milli þess kjarna stéttvísra öreiga sem hefur þegar skipulagst í fastar liðssveitir flokksins, og lagsins umhverfis þennan kjarna, lags sem er þegar gripið af stéttarbaráttunni og er að öðlast stéttarvitund. Að byggja miðstýringu sósíalista á grunni þessara tveggja reglna, sem Lenín berst fyrir - á blindri undirskipan allri flokksdeilda, og starfi þeirra í smáatriðum, undir miðstjórnarvald, sem eitt hugsar, skapar og ákveður fyrir alla; ennfremur á skörpum skilum á milli skipulagðs kjarna flokksins og byltingarsinnaðs umhverfis hans - þetta virðist mér því vélræn yfirfærsla á skipulagsreglum blanquískrar hreyfingar samsærishópa yfir á sósíalíska hreyfingu verkalýðsfjöldans. Og Lenín hefur kannski skilgreint sjónarmið sitt af meiri skarpskyggni en nokkur andstæðinga hans gat, þegar hann skilgreindi, "byltingarsinnaða sósíalista" sem "jakobína tengda skipulagðri hreyfingu stéttvísra verkamanna[4]. En raunar eru sósíalistar ekki tengdir skipulagðri hreyfingu verkalýðsstéttarinnar, heldur eru þeir sjálf hreyfing verkalýðsstéttarinnar. Miðstýring sósíalista hlýtur því að vera allt öðruvísi að gerð en hin blanquíska. Hún getur ekki verið neitt annað en bindandi sameining vilja hins upplýsta stríðandi framvarðar verkalýðsins gagnvart einstökum hópum hans og einstaklingum. Þetta er svo að segja miðstýring leiðandi lags öreigastéttarinnar "á sjálfu sér", meirihlutavald þess innan eigin skipulagðrar hreyfingar[5].

Það verður ljóst af þessari athugun á því hvað felst í miðstýringu sósíalista, að nauðsynlegar forsendur hennar geta ekki að öllu leyti verið til í Rússlandi nú. Því þær eru: að til sé verulegt lag öreiga, sem þegar hafa skólast í pólitískri baráttu, og að þeir geti haft bein áhrif (á opinberum flokksþingum, í flokksblöðum, o. s. frv.) til að móta starf sitt.

Síðara skilyrðið verður greinilega ekki uppfyllt fyrr en pólitískt frelsi kemst á í Rússlandi. En hið fyrra - myndun stéttvíss, dómbærs framvarðar öreigastéttarinnar - er að verða til, og efling þess hlýtur að verða leiðarljós starfsins framundan í áróðri og skipulagningu.

Þeim mun meiri furðu vekur fullvissa Leníns um að í Rússlandi séu nú þegar allar forsendur til að koma upp miklum og mjög miðstýrðum verkamannaflokki[6]. Og það sýnir aftur allt of vélrænar hugmyndir um skipulag sósíalista þegar hann kallar af bjartsýni að nú þegar sé "ekki öreigunum, heldur mörgum menntamönnum meðal rússneskra sósíalista nauðsyn á sjálfsuppeldi í skipulagningu og aga (CW 7 bls. 387), þegar hann rómar uppeldisgildi verksmiðja fyrir öreigana, sem þroski með þeim aga og skipulagningu frá upphafi (bls. 389)[7]. "Aginn", sem Lenín á við, er hamraður inn í öreigana, ekki aðeins í verksmiðjum, heldur einnig í herbúðum, einnig af skrifræði nútímans, í stuttu máli, af öllu kerfi miðstýrðs, borgaralegs ríkis. En það er ekkert annað en misnotkun á slagorði að nota orðið "agi" um svo andstæð fyrirbæri sem annarsvegar vilja- og hugsunarleysi fjölfætts og fjölarma holdmassa sem hreyfir sig vélrænt eftir sprota, og hinsvegar frjálst samspil meðvitaðra pólitískra aðgerða samfélagshóps; annarsvegar um vélræna hlýðni kúgaðrar stéttar, hinsvegar um skipulagða uppreisn stéttar í frelsisbaráttu. Ekki með því að fylgja áfram aganum sem auðvaldsríkið innrætti honum og færa sprotann bara úr höndum borgarastéttarinnar í hendur miðstjórnar sósíalista - heldur með því að brjóta þennan aga, rífa hann upp með rótum, þannig öðlast öreigar hinn nýja aga - frjálsan sjálfsaga sósíalista.

Það er ennfremur ljóst af þessum sömu hugleiðingum að miðstýring í sósíalískum skilningi getur ekki verið algert hugtak sem sé framkvæmanlegt í sama mæli á öllum stigum verkalýðshreyfingarinnar, heldur verður að skilja hana sem hneigð. Framkvæmd hennar þróast áfram í takt við upplýsingu og pólitíska skólun verkalýðsfjöldans, eftir því sem barátta hans þróast.

Vissulega getur það truflað mjög starf rússnesku hreyfingarinnar hve mjög vantar á forsendur þess að miðstýringu verði fyllilega beitt. En þótt ekki verði nú viðkomið meirihlutavaldi upplýstra verkamanna innan flokks þeirra, þá væri að minni hyggju rangt að halda að "staðgengill þess að sinni" geti verið alræði miðstjórnarvalds flokksins og að þegar verkalýðsfjöldinn geti ekki haft opinbert eftirlit með starfi flokksstofnana, þá geti miðstjórn bara í staðinn haft eftirlit með starfi byltingarsinnaðs verkalýðs.

Sjálf saga rússnesku hreyfingarinnar sýnir mörg dæmi um vafasamt gildi miðstýringar í þessari síðastnefndu merkingu. Lenín dreymir um almáttugt miðstjórnarvald með nær ótakmörkuðum rétti til afskipta og eftirlits. En það væri greinilega til ills, ef vald þess ætti eingöngu að ná til tæknilegrar hliðar starfs sósíalista, vera stjórn á ytri tækjum og hjálpargögnum áróðurs - svo sem að úthluta flokksritum og skipta skynsamlega niður fjármagni og áróðursgögnum. Það hefði því aðeins skiljanlegan tilgang pólitískt, ef valdið væri notað til að skapa sameiginlega baráttuaðferð, til að koma af stað miklum stjórnmálaaðgerðum í Rússlandi. En hvað sjáum við af umbrotum rússnesku hreyfingarinnar hingað til? Mikilvægustu og frjóustu breytingar á baráttuaðferð hennar undanfarinn áratug voru hreint ekki "fundnar upp" af ákveðnum leiðtogum hreyfingarinnar, hvað þá af leiðandi samtökum, heldur voru þær ævinlega sjálfsprottin afurð hreyfingarinnar sjálfrar, eftir að hún hafði rifið af sér hlekkina. Þannig hófst fyrsta skeið eiginlegrar hreyfingar öreiganna í Rússlandi, sem braust út af frumafli í hinu feiknamikla verkfalli í Pétursborg 1896 og var upphaf kjarabaráttu öreigafjöldans í Rússlandi. Eins var með annað skeiðið - pólitískar mótmælaaðgerðir á götum úti - það var alveg sjálfsprottið uppúr stúdentaóeirðunum í Pétursborg í mars 1901. Næst urðu mikilvæg hvörf í baráttuaðferðinni og opnuðust nýjar víddir, þegar fjöldaverkfallið braust út "af sjálfu sér" í Rostow við Don. Áróður úti á götum var skipulagður á staðnum, mikill mannsöfnuður úti undir beru lofti, opinberar ræður. Þetta hefði djarfasti eldhugi meðal sósíalista ekki þorað að hugsa sér, fáeinum árum áður hefði hann kallað þetta draumóra. "Í upphafi var dáðin" í öllum þessum tilvikum. Frumkvæði og meðvituð leiðsögn sósíalískra hreyfinga gegndu ákaflega lítilfjörlegu hlutverki. Þessi sérstöku samtök voru ekki undir hlutverk sitt búin, og það má hafa haft töluverða þýðingu. En það var þó ekki aðalástæðan og síst hitt að þá var ekki yfir rússneskum sósíalistum alvoldugt miðstjórnarvald samkvæmt áætlun Leníns. Þvert á móti, þvílíkt vald hefði langsennilegast aðeins orðið til þess að gera einstakar deildir flokksins enn óákveðnari, og til að kljúfa sundur stormandi fjöldann og hikandi sósíalistana[8]. Þetta sama sést ennfremur í Þýskalandi og hvarvetna, meðvitað frumkvæði flokksforystunnar skiptir litlu máli við að móta baráttuaðferð. Í öllum megindráttum er baráttuaðferð sósíalista ekki "fundin upp" heldur er hún útkoman úr sífelldum, miklum sköpunarverkum stéttabaráttu á tilraunastigi, oft frumstæðrar. Einnig hér fer ómeðvitað á undan meðvituðu, rök hlutlægs, sögulegs ferlis eru á undan huglægum rökum gerenda þess. Hlutverk forystu sósíalista er þá einkum íhaldssemi, því það er, einsog reynslan hefur sýnt, fólgið í því að nýta út í ystu æsar nýja ávinninga baráttunnar hverju sinni og gera þá brátt að virkisvegg gegn frekari nýjungum í stórum stíl. Almennt er t. d. dáðst að núverandi baráttuaðferð þýskra sósíalista fyrir það hve merkilega fjölbreytt hún er, sveigjanleg, og um leið örugg. En það merkir bara að flokkur okkar hefur í dægurbaráttunni aðlagað sig dásamlega að núverandi þingræðisgrundvelli í smáatriðum. Hann kann að nýta sér allan þann vígvöll sem þingræðið býður upp á, og ráða honum samkvæmt grundvallarreglum sínum. En jafnframt dylur þessi sérstaka mótun baráttuaðferðarinnar svo mjög víðari sjóndeildarhring, að mikið ber á tilhneigingu til að líta á hina þingræðislegu baráttuaðferð sem hina einu eilífu baráttuaðferð sósíalista. Það sýnir best þessa afstöðu, að Parvus hefur árum saman árangurslaust reynt að fá fram umræður í flokksblöðunum um hvernig skyldi haga baráttuaðferðinni ef almennur kosningaréttur yrði afnuminn. Og þó gera flokksleiðtogarnir ráð fyrir þeim möguleika af fullkominni alvöru. Þessa tregðu má reyndar að miklu leyti skýra með því að það er erfitt að sýna í tómu lofti óhlutbundinnar hugsunar útlínur og áþreifanlega mynd pólitískra aðstæðna sem eru enn ekki til, eru sem sagt ímyndaðar. Einnig er sósíalistum mikilvægast hverju sinni, ekki að sjá fyrir og semja fyrirfram tilbúna uppskrift að komandi baráttuaðferð, heldur að halda lifandi í flokkinum réttu, sögulegu mati á baráttuaðferðum, lifandi tilfinningu fyrir því að viðkomandi skeið baráttunnar er ekki endanlegt, og að nauðsynlegt sé að magna hvert byltingarkennt atriði með tilliti til lokamarks baráttu öreigastéttarinnar.

Í eðli hverrar flokksforystu felst óhjákvæmilega íhaldssemi. En hún yrði óþarflega mögnuð á hættulegasta hátt, ef hún ætti að fá svo algert neitunarvald sem Lenín vill. Fyrst baráttuaðferð sósíalista er ekki samin af miðstjórn, heldur af flokkinum í heild, réttara sagt, af hreyfingunni í heild, þá er einstökum flokksdeildum greinilega nauðsynlegt þvílíkt svigrúm, að þær geti notfært sér fyllilega allt sem aðstæður bjóða upp á hverju sinni til að efla baráttuna og tilað geta örvað sem mest byltingarfrumkvæði. En í eðli þess mikla miðstjórnarvalds, sem Lenín boðar, virðist mér ekki vera jákvæð sköpunargáfa, heldur ófrjór næturvarðarandi. Hugsunarháttur hans beinist einkum að eftirliti með flokksstarfinu, ekki að því að frjóvga það. Hann beinist að því að þrengja hreyfinguna, ekki að því að láta hana blómstra, að því að hrella hana, en ekki að því að þjappa henni saman. Sérstaklega bíræfin virðist þvílík tilraun rússneska sósíalista einmitt núna. Þeir standa á þröskuldi mikillar byltingarbaráttu til að kollvarpa einveldinu, frammi fyrir, eða réttara sagt á skeiði ákafrar sköpunar á sviði baráttuaðferða og - svo sem sjálfsagt er á byltingartímum - flughraðrar útvíkkunar og sveiflna á áhrifasvæði sínu. Að fjötra frumkvæði flokksandans á slíkum tímum, og vilja girða með gaddavír um útþensluhæfni hans er hann gæti tekið stökk, það væri að gera sósíalista að verulegu leyti fyrirfram ófæra um hin miklu verkefni stundarinnar.

Af þessum almennu hugleiðingum um sérstakt inntak miðstýringar sósíalista er auðvitað ekki hægt að leiða skipulagsákvæði fyrir rússneska flokkinn. Eðlilega fer gerð þeirra ákvæða endanlega eftir raunverulegum aðstæðum starfsins á viðkomandi tímabili. Og þar sem þetta er fyrsta tilraun til að skapa mikinn öreigaflokk í Rússlandi er tæpast að búast við gallaleysi fyrirfram, skipulagið verður að standast eldraun raunveruleikans. En það sem má leiða af þessum almennu hugmyndum um skipulag sósíalista, það eru megindrættirnir, það er andi skipulagsins. Og hann útheimtir, sérstaklega í upphafi fjöldahreyfingar, sósíalíska miðstýringu sem samræmir, dregur saman, en ekki niðurskurð og útilokun. En hafi flokksmenn öðlast þennan anda pólitísks svigrúms, ásamt skarpri sjón á stefnufestu hreyfingarinnar og innra samræmi, þá munu hornin heflast af hvaða skipulagi sem er, hversu klaufalega sem það kann að vera orðað. Það er ekki orðalag reglanna sem ræður gildi tiltekins skipulags, heldur merkingin og andinn sem virkir baráttumenn leggja í þessi orð.

 

II

Við höfum nú hugleitt miðstýringu með tilliti til almenns grundvallar sósíalista og núverandi aðstæðna í Rússlandi að nokkru. En næturvarðarandinn í hugmyndum Leníns og félaga hans um hina ítrustu miðstýringu er svosem engin tilviljunarkennd útkoma af mistökum. Hann er tengdur andstöðu við endurskoðunarstefnuna, sem nær til smáatriða í skipulagsmálum.

"Tilgangurinn með ákvæðinu um skipulagsmál er að smíða nokkuð hvasst vopn gegn hentistefnunni", segir Lenín (CW 7, bls 271-2). "Því dýpra sem rætur hentistefnunnar ná, þeim mun hvassara þarf vopnið að vera". Í alræði miðstjórnar og strangri afmörkun flokksins með reglugerð sér Lenín líka þann flóðgarð sem dugi gegn straumi endurskoðununnar. En sérstök einkenni hennar telur hann vera meðfædda tilhneigingu háskólamanna til sjálfræðis, til skipulagsleysis, og andúð þeirra á ströngum flokksaga, á hverskyns "skrifræði" í flokkslífinu. Einungis sósíalískir "menntamenn" geta staðið gegn svo óheftu valdi miðstjórnar, segir Lenín, vegna meðfædds upplausnareðlis þeirra og einstaklingshyggju. Sannir öreigar hljóti hinsvegar, vegna byltingarsinnaðrar stéttarvitundar sinnar, að finna hreint og beint til vissrar sælu við þessa stjórnsemi, strangleika og röskleika æðstu flokksstjórnar sinnar. Þeir skipi sér glaðir, luktum augum, undir allar hinar veigamiklu aðgerðir "flokksagans". "Skrifræðið gegn 1ýðræði", segir Lenín, "það er einmitt skipulagsgrundvöllur byltingarsinnaðra sósíalista gegn skipulagsgrundvelli hentistefnumanna" (CW 7, bls.394)[9]. Hann leggur áherslu á að sömu andstæður miðstýringar og sjálfræðis komi fram hjá sósíalistum allra landa, þar sem um sé að ræða andstæður milli byltingarstefnu annarsvegar og endurbóta eða endurskoðunarstefnu hinsvegar. Sérstaklega tekur hann dæmi af síðustu atburðum í Þýskalandi og umræðum sem þar hafa spunnist um meira eða minna sjálfræði kjördæma. Þótt ekki kæmi annað til, mætti athugun á hliðstæðum Leníns vera til nokkurs gagns og fróðleiks.

Fyrst verður að benda á að í fullyrðingum um meðfædda hæfileika öreiga til sósíalísks skipulags og í tortryggni í garð "háskólamanna" í sósíalískri hreyfingu, felst í sjálfu sér enginn "byltingarsinnaður marxismi", heldur mætti alveg eins sýna fram á skyldleika þessara skoðana við endurskoðunarstefnu. Andúðin milli hreinna öreigaafla og sósíalískra menntamanna, sem ekki eru úr öreigastétt hún er einmitt samnefnari eftirtalinna strauma: hálfgerðu stjórnleysingjanna frönsku, sem vilja binda sig við faglega baráttu einvörðungu og alltaf hafa kallað: "Méfiez vous des politiciens:" [varist stjórnmálamenn] ; tortryggni enskra stéttarfélagshyggjumanna í garð sósíalískra "draumóramanna;" og loks, skjátlist mér ekki, efnahagshyggju[10] Rabotschaja Mysl" (verkalýðshugsun), sem áður starfaði í Pétursborg og flutti þrönga stéttarfélagshyggju til rússneska einvaldsríkisins.

Vissulega er ekki hægt að neita því að í starfsemi vesturevrópskra sósíalista hingað til er greinilegt samband milli endurskoðunarstefnu og háskólamanna, og einnig milli endurskoðunarstefnu og miðflótta í skipulagsmálum. En þessi fyrirbæri urðu til við sérstakar sögulegar aðstæður. Leysi menn þau úr þessu samhengi og hefji þau upp í almennar, algildar reglur, þá er það höfuðsynd gegn "heilögum anda" marxismans, þ. e. gegn hugsunarhætti hans, sögulegri díalektík.

Almennt er einungis hægt að slá því föstu að þar sem "háskólamenn" eru öreigastéttinni framandi að uppruna, komnir úr borgarastétt, þá ná þeir ekki til sósíalismans í samræmi við eigin stéttarvitund, heldur aðeins með því að yfirvinna hana, í gegnum hugmyndakerfi. Því hneigjast þeir fremur til hliðarstökkva hentistefnu en upplýstir öreigar. Svo fremi þeir síðarnefndu hafi ekki glatað lifandi tengslum við félagslegan jarðveg sinn, öreigafjöldann, gerir bein stéttarvitund þeirra byltingarafstöðuna traustari. En í hvaða formi þessi hneigð menntamanna til hentistefnu birtist, hvaða áþreifanlega mynd hún fær, sérstaklega í skipulagsstefnu, það fer eftir félagslegu umhverfi hverju sinni.

Fyrirbærin sem Lenín vitnar til meðal þýskra, franskra og ítalskra sósíalista, eru sprottin úr sérstökum félagslegum jarðvegi, það er úr borgaralegu þingræði. Það er almennt talað, sérstök uppspretta núverandi hentistefnustraums sósíalískrar hreyfingar í Vestur-Evrópu, og því er sérleg hneigð hentistefnunnar til skipulagsleysis runnin uppúr því.

Þingræðið styður allar hinar kunnu blekkingar nútíma endurskoðunarstefnu sem við höfum kynnst í Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi: ofmat á umbótum, samvinnu stétta og flokka, friðsamlegri þróun o. s. frv. En jafnframt er það grundvöllur þess að geta lifað í þessum blekkingum, því jafnvel innan sósíalískrar hreyfingar skilur það háskólamenn frá öreigafjöldanum sem þingmenn, og hefur þá á vissan hátt yfir hann. Með vexti verkalýðshreyfingarinnar gerir þingræðið hana loks að stökkbretti til stjórnmálaframa, gerir hana því gjarnan að hæli metnaðargjarnra borgaralegra skipbrotsmanna. Af öllum þessum atriðum leiðir líka ákveðna hneigð hentistefnusinnaðra háskólamanna meðal vesturevrópskra sósíalista til skipulagsleysis og agaleysis. Því önnur forsenda hentistefnunnar nú er að sósíalísk hreyfing er á háu þróunarstigi, þ. e. til eru áhrifamiklir sósíalistaflokkar. Þeir eru þá sá varnarveggur byltingarsinnaðrar stéttarhreyfingar gegn borgaralegum þingræðistilhneigingum, sem þarf að mola og dreifa, til að hægt verði að leysa virkan kjarna öreigastéttarinnar aftur upp í myndlausa kjósendamergð. "Sjálfræðishneigð" og miðflótti nútíma endurskoðunarstefnu verða því til af mikilvægum, sögulegum ástæðum og aðlagast prýðilega ákveðnum pólitískum tilgangi. Þessa hneigð ber því ekki að skýra með meðfæddu lauslæti og ræfildómi "menntamanna", eins og Lenín gerir ráð fyrir, heldur með þörfum borgaralegra þingmanna, ekki með sálarlífi háskólamanna, heldur með stjórnmálastefnu endurskoðunarsinna.

En þessar aðstæður eru allar aðrar í Rússlandi einveldisins. Þar er hentistefnan í verkalýðshreyfingunni ekki tilkomin vegna mikils vaxtar hreyfingar sósíalista, upplausnar borgaralegs samfélags, einsog í vestri, heldur vegna pólitísks vanþroska hreyfingarinnar.

Eins og skiljanlegt er, þá hafa rússneskir háskólamenn, sem sósíalískir menntamenn eru hluti af, miklu óljósara stéttareðli en vesturevrópskir, eru miklu fremur stéttleysingjar í bókstaflegri merkingu. Af því hlýst vissulega sem og af æsku öreigahreyfingarinnar í Rússlandi, almennt miklu víðara svigrúm fyrir fræðilegt ístöðuleysi og hentistefnuráf en annarsstaðar gerist. Ýmist er pólitískri hlið verkalýðshreyfingarinnar algerlega afneitað eða hlaupið þvert yfir í trúna á hermdarverk sem eina sáluhjálparatriðið og loks kemur hvíldin í fúafenjum frjálshyggjunnar pólitískt, eða í hughyggju Kants heimspekilega. En til sérstakrar virkrar tilhneigingar til skipulagsleysis skortir rússneska, sósíalíska háskólamenn að mínu viti ekki aðeins beint tangarhald í borgaralegu þingræði, heldur líka viðeigandi umhverfi félagssálfræðilega. Nútímamenntamaður í Vestur-Evrópu sem helgar sig ræktun þess sem hann telur vera "sjálf" sitt, og dregur þetta "ofurmennisviðhorf" einnig inn í sósíalíska baráttu og hugmyndaheim, hann er ekki dæmigerður fyrir borgaralega menntamenn yfirleitt, heldur fyrir visst stig í sögu þeirra. Því hann er sprottinn uppúr úrkynjaðri, rotinni borgarastétt sem þegar er föst í vítahring stéttardrottnunar sinnar. En skiljanlega hneigjast draumórar og hentistefnuórar rússneskra, sósíalískra háskólamanna í þveröfuga átt fræðilega, og taka á sig mynd sjálfsafneitunar og sjálfspíningar. Þegar "alþýðuvinirnir" hér áður fyrr "fóru til fólksins" þ. e. í skyldubundinn grímudans háskólamanna í gervi bænda, þá var það örvæntingaruppátæki þessara menntamanna, eins og gróf dýrkun "siggborinna handa" hjá fylgismönnum hreinnar efnahagshyggju nýlega.

Reyni menn að átta sig á skipulagsmálunum, ekki með því að yfirfæra vélrænt stirðnaðar hugmyndir frá Vestur-Evrópu til Rússlands, heldur með því að rannsaka raunverulegar aðstæður í Rússlandi sjálfu, þá kemur allt annað á daginn. Að eigna hentistefnunni, einsog Lenín gerir, hrifningu af einhverju sérstöku skipulagi, segjum miðflótta, það væri að villast á innra eðli hennar. Hentistefnan er söm við sig, einnig í skipulagsmálum er eina stefnan - stefnuleysið. Tækin velur hún alltaf eftir aðstæðum, að því leyti sem þau henta tilgangi hennar. En sé hentistefnan skilgreind að hætti Leníns sem viðleitni til að lama sjálfstæða byltingarhreyfingu öreigastéttarinnar svo að hún þjóni drottnunargirnd borgaralegra menntamanna, þá yrði á upphafsstigi verkalýðshreyfingarinnar auðveldast að ná þessu marki, ekki með miðflótta, heldur þvert á móti með styrkri miðstýringu. Hún myndi ofurselja ómótaða öreigahreyfinguna fáeinum leiðandi menntamönnum. Það segir sína sögu, að einnig í Þýskalandi var til hvor tveggja stefnan í skipulagsmálum í upphafi hreyfingarinnar. En þá skorti enn harðan kjarna upplýstra öreiga og þaulreynda baráttuaðferð sósíalista. Almennt þýskt verkamannafélag Lasalles boðaði ítrustu miðstýringu, en Eisenachmenn hinsvegar "sjálfræði". Og þótt ýmis grundvallaratriði væru vissulega óljós hjá Eisenachmönnum, þá ræktaði þessi baráttuaðferð þeirra ólíkt virkari þátttöku öreiganna í andlegu lífi flokksins, meira frumkvæði verkamanna sjálfra, yfirleitt miklu sterkari og heilbrigðari fjöldaáhrif en aðferðir Lassallesinna, sem urðu fyrir sífellt sorglegri reynslu af "einræðisherrum" sínum. Sönnun þessa er m. a. hve hratt töluverður blaðakostur Eisenachmanna óx út um allt land.

Almennt talað um aðstæður bar sem byltingarsinnaður hluti verkalýðsfjöldans er enn losaralegur, hreyfingin sjálf reikul, í stuttu máli, þar sem aðstæður eru svipaðar og nú í Rússlandi, þá er samsvarandi hneigð hentistefnusinnaðra menntamanna í skipulagsmálum einmitt hörð, drottnunargjörn miðstýring, einsog auðveldlega verður sýnt fram á. Rétt eins og á seinna stigi í þingræðisumhverfi og gagnvart sterkum samheldnum verkamannaflokki er miðflótti þvert á móti samsvarandi tilhneiging hentistefnusinnaðra menntamanna.

Einmitt út frá ótta Leníns við háskaleg áhrif menntamanna á öreigahreyfinguna, er skipulagshugmynd hans sjálfs mesta hættan fyrir rússneska sósíalista.

Ekkert ofurselur raunar unga verkalýðshreyfingu drottnunargirnd menntamanna svo auðveldlega og örugglega einsog að þröngva hreyfingunni[11] inní brynju skrifræðislegrar miðstýringar, sem beygir stríðandi verkalýð niður í að vera þægt verkfæri "nefndar". Og ekkert ver hinsvegar verkalýðshreyfinguna eins örugglega fyrir misnotkun af hálfu metnaðargjarnra og hentistefnusinnaðra menntamanna, eins og að virkjast í byltingarstarfi, það eflir pólitíska ábyrgðartilfinningu hennar.

Og það sem Lenín sér í vofulíki núna, getur mjög auðveldlega orðið áþreifanlegur veruleiki á morgun.

Gleymum ekki að við stöndum frammi fyrir byltingu í Rússlandi, ekki öreigabyltingu, heldur borgaralegri. Hún mun gerbreyta öllu umhverfinu fyrir baráttu sósíalista. Þá munu rússneskir menntamenn skjótt fyllast mótaðri, borgaralegri stéttarvitund. Nú eru sósíalistar einu leiðtogar verkalýðsfjöldans, en þegar eftir byltinguna hlýtur borgarastéttin og fyrst og fremst menntamenn hennar að vilja gera fjöldann að fótstalli þingræðislegrar drottnunar sinnar. Því minna sem sjálfstjáning, frjálst frumkvæði og pólitískur skilningur upplýstasta hluta verkalýðsstéttarinnark er vakinn á núverandi baráttuskeiði, því meira sem hann verður leiddur í bandi pólitískt og taminn af miðstjórn sósíalista, þeim mun auðveldari verður leikurinn fyrir borgaralega lýðskrumara í endurnýjuðu Rússlandi. Þeim mun fremur fer uppskeran af erfiði sósíalista núna í hlöður borgarastéttarinnar í haust.

En umfram allt er sjálf grundvallarhugsunin í þessum miðstýringaröfgum röng. Hún birtist einkum í því að vilja halda hentistefnunni frá verkalýðshreyfingunni með skipulagsákvæðum. Undir beinum áhrifum síðustu atburða meðal franskra, ítalskra og þýskra sósíalista, hefur greinilega myndast tilhneiging meðal hinna rússnesku til að líta á endurskoðunarstefnuna sem utanað komna í verkalýðshreyfinguna, hún hafi borist þangað með borgaralegum lýðræðisöflum, í rauninni sé hún framandi sjálfri öreigahreyfingunni. Enda þótt þetta væri rétt, þá myndu reglugerðarskorður reynast ónýtar gegn innrás hentistefnuafla. Því þessi mikli straumur manna sem ekki eru úr öreigastétt, inn í raðir sósíalista, á sér djúpar uppsprettur, félagslega. En þær eru ört efnahagshrun smáborgarastéttarinnar, enn örara pólitískt hrun borgaralegrar frjálshyggju, og loks það að borgaralegt lýðræði er að deyja út. Því er barnaleg blekking að telja sér trú um að þessari flóðbylgju verði varist með hinu eða þessu orðalagi í flokksreglum. Reglugerðarákvæði stjórna aðeins tilveru lítilla sértrúarhópa eða einkaklúbba. Hversu klókindaleg sem ákvæði eru, hafa þau aldrei getað stöðvað strauma sögunnar. Það væri ennfremur alrangt að halda að það gæti verið í hag verkalýðshreyfingarinnar að verjast hinu mikla aðstreymi afla sem losna við áframhaldandi upplausn borgaralegs samfélags. Sósíalistar eru fulltrúar öreigastéttarinnar, en jafnframt fulltrúar allra framsækinna afla samfélagsins og allra hinna kúguðu fórnarlamba borgaralegrar samfélagsskipunar. Þessa kunnu málsgrein ber ekki aðeins svo að skilja að í stefnuskrá sósíalista sameinist allir þessir hagsmunir hugmyndalega. Þessi setning sannast í sögulegu þróunarferli þannig, að sósíalistaflokkurinn verður smámsaman hæli sundurleitustu óánægjuafla, svo hann verður sannkallaður flokkur fólksins gegn örlitlum minnihluta ríkjandi borgarastéttar. En nútíðarþjáningum þessa fjölskrúðuga hóps meðreiðarsveina verður að skipa algerlega undir lokatakmark verkalýðsstéttarinnar, þá andstöðu, sem ekki er öreigastéttarinnar,verður að fella inn í byltingaraðgerðir öreiganna. Í stuttu máli, sósíalistar verða að geta aðlagað sér þessi aðkomuöfl, melt þau. En það er því aðeins mögulegt, að öflugt skólað einvalalið öreiga sé þegar ráðandi meðal sósíalista, einsog nú er í Þýskalandi, og kunni tökin á að draga niðurdrabbaða og smáborgaralega fylgifiska sína í byltingarátt. Þegar svo stendur á eru ströng miðstýringarákvæði í skipulaginu og strangar reglur um flokksaga mjög hentug sem flóðgarður gegn straumi hentistefnunnar. Við slíkar aðstæður geta skipulagsreglur vafalaust verið tæki í baráttunni gegn hentistefnunni. Þannig hafa þær reyndar dugað frönskum byltingarsinnuðum sósíalistum gegn flóði samsullsins frá Jaurès, og það er líka orðið nauðsynlegt að endurskoða reglur þýska flokksins í þessum tilgangi. En einnig þegar svona stendur á, eru flokksreglur ekki í sjálfum sér vopn gegn hentistefnunni, heldur eru þær aðeins ytra valdatæki þess meirihluta byltingarsinnaðra öreiga sem þegar er í flokkinum. Sé hann ekki fyrir hendi, þá geta ekki reglur á pappír komið í stað hans, hversu stífar sem þær eru.

En einsog áður sagði er aðstreymi borgaralegra afla alls ekki eina uppspretta hentistefnunnar meðal sósíalista. Önnur uppspretta felst í sjálfu eðli sósíalískrar baráttu, í innri mótsögnum hennar. Framrás öreigastéttarinnar til sigurs er heimssögulegt ferli með þá sérstöðu, að í fyrsta skipti framkvæmir alþýðufjöldinn sjálfur vilja sinn, gegn öllum ríkjandi stéttum. En hann verður að framkvæma hann handan við núverandi samfélag, yfirstíga það. Hinsvegar getur fjöldinn einungis öðlast þennan vilja í daglegri baráttu gegn ríkjandi kerfi, sem sagt einungis innan ramma þess. Að sameina mikinn alþýðufjölda um markmið sem liggja handan við allt hið ríkjandi kerfi, að sameina dægurbaráttu og byltingu, það eru díalektískar andstæður sósíalískrar hreyfingar. Þessvegna verður öll þróun hennar sigling á milli tveggja skerja, milli þess að fórna annarsvegar fjöldaeðlinu, en hinsvegar lokamarkmiðinu, annarsvegar að hrynja niður í sértrúarsöfnuð, en hinsvegar að falla yfir í borgaralega umbótahreyfingu.

Það er því blekking, og sýnir skort á söguskilningi, að halda að byltingarsinnuð baráttuaðferð sósíalista verði tryggð fyrirfram, í eitt skipti fyrir öll, að verkalýðshreyfingunni verði haldið frá hliðarstökkum hentistefnu í eitt skipti fyrir öll. Raunar leggja marxísk fræði til gereyðingarvopn gegn öllum grundvallaratriðum hentistefnu. En einmitt af því að sósíalísk hreyfing er fjöldahreyfing og skerin sem ógna henni rísa ekki upp úr mennskum höfðum, heldur af samfélagslegum aðstæðum, þá er ekki unnt að varast hentistefnuvillur fyrirfram. Hreyfingin verður að yfirvinna þær sjálf, eftir að þær hafa öðlast áþreifanlega mynd í starfi. En vissulega yfirvinnur hún þær með vopnum sem marxisminn leggur til. Sé litið á hentistefnuna frá þessu sjónarmiði, sést líka, að hún er sköpuð af verkalýðshreyfingunni sjálfri, óhjákvæmilegt stig í sögulegri þróun hennar. Einmitt í Rússlandi, þar sem hreyfing sósíalista er enn ung og stjórnmálaaðstæður verkalýðshreyfingarinnar svo óeðlilegar, ætti hentistefnan að spretta að miklu leyti af þessari uppsprettu um sinn, af óhjákvæmilegri leit og tilraunum með baráttuaðferðina, af nauðsyninni á að samræma dægurbaráttuna sósíalískri meginstefnu við alveg sérstakar, dæmalausar aðstæður.

En sé þetta svo, þá virðist þeim mun furðulegri sú hugmynd, að í upphafi verkalýðshreyfingar sé hægt að banna uppkomu hentistefnustrauma með þessu eða hinu orðalagi í skipulagsskrá. Tilraun til að verjast hentistefnu með slíkum pappírstækjum bítur ekki á hana, heldur bítur sjálfa hreyfingu sósíalista til blóðs. Og sé heilbrigð blóðrás hennar hindruð þannig, veikir það mótstöðuafl hennar í baráttunni - ekki aðeins gegn hentistefnu - heldur líka gegn ríkjandi samfélagskerfi, og það ætti sömuleiðis að hafa nokkra þýðingu. Tækið beinist gegn tilganginum. Rússnesk verkalýðshreyfing sækir fram, vondjörf og lífsglöð. Í þessari kvíðafullu viðleitni hluta rússneskra sósíalista til að varna henni víxlspora með umsjón alviturrar og sínálægrar miðstjórnar, virðist mér reyndar koma fram sama huglægni og oft hefur gert sósíalískri hugsun í Rússlandi skráveifur. Skrítileg eru vissulega þau loftköst sem háttvirtum mannlegum geranda sögunnar þóknast stundum að taka í sögulegu ferli sjálfs sín. Sjálfið, niðurbrotið og mölvað af rússneska einveldinu, hefnir sín með því að setjast í hásæti í byltingarlegum hugmyndaheimi sínum og lýsa sig almáttugt sem nefnd samsærismanna í nafni "þjóðarvilja" sem ekki er til. En "hluturinn" reynist sterkari, brátt sigrar hnútasvipan, þar sem hún reynist vera "sönn" mynd viðkomandi stigs söguferlisins. Loks birtist á sviðinu enn réttbornara afkvæmi söguferlisins, rússnesk verkalýðshreyfing, og fer mjög vel af stað með að skapa nú loksins raunverulegan þjóðarvilja í fyrsta skipti í sögu Rússlands, En þá steypir "sjálf" rússneskra byltingarmanna sér umsvifalaust á haus og lýsir sig aftur almáttugan mótanda sögunnar og nú sem hennar hátign, miðstjórn sósíalískrar verkalýðshreyfingar. Hinum djarfa loftfimleikamanni sést bara yfir að eini gerandinn sem nú getur skipað þetta hlutverk mótandans er fjöldasjálf verkalýðsstéttarinnar, sem þráast við að gera sínar eigin skyssur og læra sjálf sögulega díalektík. Og segjum að lokum hreinskilnislega, okkar í milli: Víxlspor sem raunverulega byltingarsinnuð verkalýðshreyfing stígur, eru ómælanlega frjósamari og mikilsverðari sögulegra en óskeikulleiki hinnar allrabestu "miðstjórnar".

 


Athugasemdir:

[1] Á árinu 1903 (30/7 23/8) var 2. þing rússneska sósíalistaflokksins haldið í Brüssel og London. Þar klofnaði flokkurinn í flokka bolsévíka og mensévíka.

[2] Lenín neitar þessu í svari sínu (CW 7, bls. 472-3) og bendir á að andstæðingar hans hafi sett inn þetta mikla miðstjórnarvald. Sjálfur hafi hann boðað þau frumatriði sem nauðsynleg séu hverjum skipulögðum samtökum, en ekki eitt skipulag gegn öðru.

[3] Þessu neitar Lenín (CW 7, 473-4) og bendir á skjöl því til sönnunar, að deilan hafi staðið um hvort miðstjórn skyldi bundin af meirihlutaákvörðun flokksins (hans sjónarmið) eða ekki.

[4] Neitað af Lenín (CW 7, 475), hann hafi einungis sagt að skipting sósíalista nú í byltingarmenn og hentistefnumenn samsvari að vissu leyti skiptingu frönsku byltingarmannanna í jakobína og gírondína, talað um svipaðar afstæður, en ekki jafnað byltingarsinnum nú við jakobína.

[5] Ég sé nú ekki betur en að þetta sé kjarni flokkskenninga Leníns sjálfs, sbr. t. d. Bréf til félaga um skipulagsmál (sept.1902, CW 6,233-50, sérstaklega þó bls. 246-50, um sjálfstæði staðbundinna félaga), ennfremur: Eitt skref áfram ... kafli N og Q (CW 7, bls. 345-7 og 385). Þýð.

[6] Neitað af Lenín (CW 7, 474), hann hafi aðeins sagt að allar forsendur væru fyrir því að fara eftir ákvörðunum flokksþinga, það gangi ekki lengur að hver hópur fari sínu fram, hvað sem æðsta vald flokksins segi.

[7] Neitað af Lenín (CW 7, 474): "ekki ég, heldur andstæðingur minn hélt því fram að ég hugsaði mér flokkinn sem verksmiðju. Ég hló að honum og sýndi fram á að hann ruglaði saman tvennskonar verksmiðjuaga. Því miður verður að segja hið sama um félaga Rósu Lúxemburg."

[8] Sjá gegn þessu: Lenín, Hvað ber að gera, bls. 175-233, sérstaklega þó bls. 220-233. Ég veit ekki hversu mikinn ágreining er um að ræða, sbr. rit Rósu hér: Fjöldaverkfall, flokkur og verkalýðsfélög, einkum lok 6. kafla.

[9] Þarna segir Lenín að Lúxembúrg missi marks (CW 7, 476), hún haldi honum almennan fyrirlestur um hentistefnu í þingræðislöndum, en segi ekki orð um sérstakt afbrigði hentistefnunnar í Rússlandi, og þá ekki orð um þær skipulagstillögur sem hann og aðrir hafi fjallað um á flokksþinginu 1903.

[10] Með orðinu "efnahagshyggja" reyni ég að íslenska orðið "ökonomismi", en það er sú stefna, að verkalýður og sósíalistar skuli stunda kjarabaráttu fyrst og fremst, þá komi frelsun verkalýðsins að öðru leyti í kjölfarið. Sbr. Lenín: Hvað ber að gera, t.d. bls. 76-89. Þýð.

[11] Í Englandi eru einmitt Fabianar áköfustu talsmenn skrifræðismiðstýringar og andstæðingar lýðræðislegs skipulags. Sérstaklega þó Webbs-hjónin. (Ritstjórn Neue Zeit).

 


Last updated on: 10.03.2008