Rósa Lúxembúrg

Kosningaréttur kvenna og stéttabarátta

1912


Source: Gefið út á 2. þingi sósialiskra kvenna, Stuttgart 12. mai, 1912.
Translation: Örn Ólafsson
HTML Markup: Jonas Holmgren
Public Domain: Marxists Internet Archive (2008). You may freely copy, distribute, display and perform this work; as well as make derivative and commercial works. Please credit "Marxists Internet Archive" as your source.


"Hversvegna eru engin félög verkakvenna í Þýskalandi? Hversvegna heyrist svo fátt um hreyfingu verkakvenna?" Með þessum orðum hóf ein stofnenda hreyfingar öreigakvenna í Þýskalandi, Emma Ihrer, rit sitt: Verkakonur í stéttabaráttu, 1898. Síðan eru tæp fjórtán ár, og hreyfing öreigakvenna í Þýskalandi hefur nú þróast mjög. Meira en hundrað og fimmtíu þúsund konur eru skipulagðar í verkalýðsfélögum, og þær eru meðal framvarðarsveita öreiganna 1 kjarabaráttu. Margir tugir þúsunda kvenna eru pólitískt skipulagðir undir fána sósíalismans, kvennablað sósíalista hefur yfir hundrað þúsund áskrifendur, krafan um kosningarétt kvenna er ævinlega á dagskrá í pólitísku lífi sósíalista.

Einmitt þessar staðreyndir gætu orðið mörgum manni tilefni til að vanmeta baráttuna fyrir kosningarétti kvenna. Hugsa mætti sem. svo: Jafnvel þótt konur hafi ekki haft pólitískt jafnrétti, höfum við náð glæsilegum framförum í upplýsingu kvenna og skipulagningu. Framvegis er því varla heldur nein knýjandi nauðsyn á kosningarétti kvenna. En að hugsa þannig væri að láta blekkjast. Hin stórfenglega vakning fjölda öreigakvenna, faglega og pólitískt, undanfarinn hálfan annan áratug, var aðeins möguleg vegna þess að vinnandi alþýðukonur tóku ákaft þátt í stjórnmálalífi og þinglegri baráttu stéttar sinnar þrátt fyrir réttleysi sitt. Öreigakonur hafa hingað til neytt kosningaréttar manna sinna, þær taka raunverulega þátt í honum, þótt óbeint sé. Kosningabaráttan er nú þegar sameiginleg miklum fjölda kvenna sem karla í verkalýðsstétt. Á öllum kosningafundum sósíalista eru konur fjölmennar, oft í meirihluta, jafnan eru þær áhugasamir áheyrendur, ákafir þátttakendur. Í öllum kjördæmum þar sem starfa traust samtök sósíalista, taka konur þátt í kosningastarfinu. Og þær hafa unnið mikið starf við dreifingu flugrita og söfnun áskrifenda fyrir blöð sósíalista, sem eru mikilvægasta vopnið í kosningabaráttunni.

Auðvaldsríkið hefur ekki getað varnað alþýðukonum þess að taka á sig allt þetta erfiði og skyldur stjórnmálalífs. Það hefur sjálft neyðst til að auðvelda þeim það og tryggja, skref fyrir skref, með því að veita félaga- og fundafrelsi. Aðeins hinstu stjórnmálaréttindin vill ríkið ekki veita konum, réttinn til að beita kjörseðli, taka beinar ákvarðanir um fulltrúa fólksins í löggjafar- og stjórnsýslusamkomum, og verða kjörnar á þessar samkomur. En hér er það eins og á öllum öðrum sviðum þjóðlífsins: Að gefa eftir þumlung í upphafi, kostar alin. Nútímaríkisvald vék þegar fyrir öreigakonum, þegar það hleypti þeim inná opinbera fundi og í stjórnmálafélög. Raunar gerði það þetta ekki af fúsum vilja, heldur af beiskri neyð, vegna óviðráðanlegs þrýstings frá verkalýðsstétt á uppleið. Það var ekki síst stormandi sókn öreigakvennanna sjálfra fram, sem neyddi prússnesk-þýska lögregluríkið til að falla frá hinum fræga "kvennageira" á fundum stjórnmálasamtaka[1] og til að opna konum hurðir stjórnmálasamtaka uppá gátt. En þá fór steinninn að velta enn hraðar. Óstöðvandi framrás stéttabaráttu öreiganna hefur hrifið vinnandi konur beint inn í hringiðu stjórnmálalífsins. Með því að nota sér samtaka- og fundarétt hafa öreigakonur náð mikilli þátttöku í þingræðislífinu, í kosningabaráttunni. Og það er bara óhjákvæmileg niðurstaða, eðlileg afleiðing hreyfingarinnar, að milljónir öreigakvenna skuli nú hrópa í sjálfsöryggi og þverúð: Við heimtum kosningarétt kvenna!

Í gömlu góðu dagana fyrir 1848, meðan einveldið ríkti, var venjulega sagt um alla vinnandi alþýðu, að hún væri "enn ekki nógu þroskuð" til að njóta stjórnmálaréttinda. Nú er ekki hægt að segja þetta um öreigakonur, því þær hafa sýnt þroska sinn til að njóta stjórnmálaréttinda. Því allir vita að án þeirra, án ákafrar þátttöku öreigakvenna, hefðu þýskir sósíalistar aldrei unnið þennan glæsilega sigur 12. janúar, þessi 41/4 milljón atkvæði. Hins er þó að minnast, að vinnandi alþýða varð hverju sinni að sýna þroska sinn fyrir stjórnmálafrelsi með sigursælli, byltingarsinnaðri fjöldahreyfingu. Þegar einvaldur af guðsnáð og göfgustu og bestu menn þjóðarinnar fengu siggróinn hnefa öreigastéttarinnar upp í andlitið og fundu kné hennar á kviði sér, þá fyrst fengu þeir allt í einu trú á "stjórnmálaþroska" alþýðunnar. Nú er komið að konum öreigastéttarinnar að gera auðvaldsríkinu ljósan þroska sinn. Það gerist með langvarandi öflugri fjöldahreyfingu, þar sem beita verður öllum aðferðum baráttu öreiganna og þrýstings frá þeim.

Takmarkið er kosningaréttur kvenna. En fjöldahreyfingin fyrir honum er ekki bara mál kvenna, heldur sameiginlegir stéttarhagsmunir kvenna og karla í öreigastétt. Því réttleysi kvenna í Þýskalandi nú er aðeins einn hlekkur í keðju afturhaldsins, sem hlekkjar líf alþýðunnar. Auk þessa réttleysis byggist afturhaldið á konungdæminu. Í Þýskalandi tuttugustu aldar, landi stórauðvalds og háþróaðs iðnaðar, á tímum rafmagns og loftsiglinga, er pólitískt réttleysi kvenna samskonar afturhaldsleifar úrelts ástands einsog konungsdæmi af guðs náð. Bæði þessi fyrirbæri: að handbendi himnaríkis sé forystuafl stjórnmálalífsins, og konan sem siðsöm sat í helgi heimilisins og lét sig engu varða storma þjóðlífsins, stjórnmál og stéttabaráttu; bæði eiga þau rætur sínar í feysknum aðstæðum fortíðarinnar, á tímum átthagabanda i sveitum og gildabanda í borgum. Á þeim tímum voru þau skiljanleg og nauðsynleg. Hvort tveggja, konungsveldi og réttleysi kvenna eru nú rótlaus orðin við nútíma auðvaldsþróun, hlægilegar skrípamyndir af mannkyninu. Þau standa þó áfram í nútímasamfélagi, ekki vegna þess að gleymst hefði að ryðja þeim á brott, ekki vegna tómrar tregðu og festu ástandsins. Nei, þau standa enn, því bæði konungsveldi og réttleysi kvenna eru orðin máttug tæki afla sem eru fjandsamleg alþýðunni. Á bak við hásætið og altarið, á bak við pólitíska þrælkun kvenna, búast nú um verstu og grófustu fulltrúar arðráns og þrælkunar á öreigastéttinni. Konungsveldi og réttleysi kvenna eru orðin mikilvægustu tæki stéttadrottnunar auðvaldsins.

Fyrir nútímaríki er málið það að halda vinnandi konum frá kosningarétti, og þeim einum. Það óttast með réttu að þær myndu setja allar hefðbundnar stofnanir stéttardrottnunar í hættu. Hernaðarstefnuna, því sérhver hugsandi öreigakona hlýtur að verða eindreginn fjandmaður hennar, konungsveldið, ránkerfi tolla og skatta á lífsnauðsynjum, o. s. frv. Kosningaréttur kvenna er ógn og skelfing fyrir nútíma auðvaldsríki, því honum fylgja milljónir kvenna sem myndu styrkja innri óvininn, byltingarsinnaða sósíalista. Snerist þetta um dömur borgarastéttarinnar, þyrfti auðvaldsríkið ekki að búast við öðru af þeim en virkum stuðningi við afturhaldið. Flestar borgaralegar konur, sem bera sig að einsog ljónynjur í baráttunni gegn "forréttindum karla", myndu trítla einsog þæg lömb með afturhaldi klerka og íhalds, fengju þær kosningarétt. Já, þær yrðu áreiðanlega töluvert afturhaldssamari en hinn karlmannlegi hluti stéttar þeirra. Fyrir utan þær fáu sem eru í störfum, taka konur borgarastéttarinnar engan þátt í framleiðslu samfélagsins, þær taka aðeins þátt í að neyta gildisaukans, sem menn þeirra kreista út úr öreigastéttinni, þær eru sníkjudýr á sníkjudýrum á þjóðarlíkamanum. Og meðneytendur eru venjulega enn ólmari og grimmari við að verja "rétt" sinn til sníkjulífs en þeir sem beinlínis halda uppi stéttardrottnun og arðráni. Þetta hefur saga allra mikilla byltingarbardaga staðfest hryllilega. Eftir fall jakobína í frönsku byltingunni miklu var Robespierre ekið hlekkjuðum til aftökustaðarins. Naktar gleðikonur sigurdrukkinnar borgarastéttarinnar stigu þá blygðunarlaust gleðidans á götum úti, umhverfis fallna byltingarhetjuna. Og þegar hetjudjörf verkalýðskommúnan í París var sigruð með vélbyssum 1871, þá yfirstigu trylltar konur borgarastéttarinnar jafnvel dýrslega menn sína í blóðugri hefnd á sigraðri öreigastéttinni. Konur eignastéttanna verða alltaf ofstækisfullir verjendur arðráns og kúgunar á vinnandi alþýðu, frá henni fá þær í annan lið efnin fyrir félagslega gagnslausa tilveru sína.

Efnahagslega og félagslega eru konur í arðránsstéttum ekki sjálfstæður þjóðfélagshópur. Félagslegt hlutverk þeirra er bara að annast eðlilega viðkomu ríkjandi stétta. Hinsvegar eru konur í öreigastétt efnahagslega sjálfstæðar, þær eru jafnvirkar körlum í framleiðslu fyrir samfélagið. Ekki í þeim skilningi að þær hjálpi mönnum sínum með húsverkum til þess að fjölskyldan megi lifa dag frá degi af lágum launum, og ala upp börn. Þessi vinna er ekki framleiðin í skilningi nútíma auðvaldshagkerfis, hversu gífurlegt afrek í sjálfsfórn og áreynslu sem hún er, í þúsundum smárra erfiðisverka. Hún er bara einkamál öreigans, hamingja hans og blessun, og einmitt þessvegna er hún loftið tómt í augum nútíma samfélags. Meðan drottnun auðmagns og launakerfi standa, er sú vinna ein framleiðin, sem skapar gildisauka, auðvaldsgróða. Frá þessu sjónarmiði er glysbúin dansmærin, sem með fótleggjunum sópar gróða í vasa atvinnurekanda síns, framleiðin verkakona, en allt erfiði kvenna og mæðra öreigastéttarinnar, innan fjögurra veggja heimilis þeirra, telst óframleiðin starfsemi. Þetta hljómar ruddalega og brjálæðislega, en það samsvarar nákvæmlega ruddaskap og brjálæði nútíma auðvaldshagkerfis, og fyrsta nauðsyn öreigakvenna er að skilja þennan ruddalega veruleika skýrt og nákvæmlega.

Því einmitt frá þessu sjónarmiði er krafa öreigakvenna núna um pólitískt jafnrétti byggð á traustum efnahagslegum grundvelli. Milljónir öreigakvenna skapa nú auðvaldsgróða jafnt körlum í verksmiðjum, vinnustöðum, í búskap, heimaframleiðslu, skrifstofum, verslunum. Þær eru því framleiðnar í strangasta fræðilegum skilningi nútíma samfélags. Hver dagur stækkar skara kvenna sem eru arðrændar af auðvaldinu, hverjar nýjar framfarir í iðnaði, í tækni skapa konum nýjan stað í kerfi gróðabralls auðvaldsins. Og þannig leggur hver dagur og hverjar iðnaðarframfarir nýjan stein í fastan grundvöll pólitísks jafnréttis kvenna. Skólamenntun kvenna og andlegar gáfur eru nú orðnar nauðsynlegar sjálfu efnahagskerfinu. Takmörkuð kona, fjarlæg umheiminum, fylgdi "helgi heimilisins" í gamla daga. En hún stenst nú kröfur stóriðnaðar og verslunar jafnilla og kröfur stjórnmálalífsins. Raunar hefur auðvaldsríkið vanrækt skyldur sínar einnig hvað þetta varðar. Hingað til hafa fagleg og sósíalísk samtök unnið mest og best að andlegri og siðferðislegri vakningu kvenna. Fyrir áratugum voru sósíalistar þegar orðnir kunnir sem duglegustu og gáfuðustu verkamennirnir. Á sama hátt hafa nú sósíalísk og fagleg samtök hafið öreigakonur upp úr loftleysi þröngskorðaðrar tilveru, upp úr vesællegu andleysi og smámunasemi heimilishaldsins. Stéttabarátta öreiganna hefur víkkað sjóndeildarhring þeirra, gert anda þeirra sveigjanlegri, þroskað hugsun þeirra og vísað viðleitni þeirra á mikilfengleg markmið. Sósíalisminn hefur valdið andlegri endurfæðingu alls fjölda öreigakvenna, og þannig tvímælalaust gert þær duglegar, framleiðnar verkakonur fyrir auðvaldið.

Í ljósi alls þessa er pólitískt réttleysi öreigakvenna þeim mun svívirðilegra ranglæti, sem það er þegar orðið hálfgerð lýgi. Því mikill fjöldi kvenna tekur virkan þátt í stjórnmálalífinu. En sósíalistar beita ekki þeim rökum að benda á "ranglæti". Grundvallarmunurinn á okkur og tilfinningalegum draumsæissósíalisma fyrri tíðar liggur einmitt í því, að við treystum ekki á réttlæti ríkjandi stéttar, heldur einvörðungu á byltingarafl verkalýðsfjöldans og á gang samfélagsþróunar, sem skapar grundvöll þess afls. Þannig er ranglæti útaf fyrir sig engin rök fyrir því að steypa afturhaldskerfi. En þegar miklir hópar samfélagsins finna fyrir ranglæti, þá er það jafnan öruggt merki um að víðtækar breytingar hafi orðið á efnahagslegum grundvelli samfélagsins, að ríkjandi ástand er þegar komið í mótsögn við gang þróunarinnar, svo vitnað sé til Friedrich Engels sem átti þátt í að skapa hinn fræðilega sósíalisma. Máttug hreyfing milljóna öreigakvenna núna, sem skynja pólitískt réttleysi sitt sem æpandi ranglæti, hún er ótvírætt merki af þessu tagi um að samfélagslegur grundvöllur núverandi ríkiskerfis sé þegar orðinn feyskinn, og dagar hans taldir.

Einn mesti boðberi hugsjóna sósíalista, Frakkinn Charles Fourier, skrifaði þessi eftirminnilegu orð fyrir hundrað árum: Í sérhverju samfélagi er það eðlilegasti mælikvarðinn á almenna frelsun, hve langt kvenfrelsi hefur þróast. Þetta á fullkomlega við um núverandi samfélag. Fjöldabaráttan núna fyrir pólitísku jafnrétti kvenna er bara eitt stig, einn hluti af almennri frelsisbaráttu öreigastéttarinnar. Styrkur hennar og framtíð felst einmitt í því. Svo er kvenhluta öreigastéttarinnar fyrir að þakka að almennur, jafn og beinn kosningaréttur kvenna myndi fleyta stéttarbaráttu öreiganna óskaplega fram á við og skerpa hana. Þessvegna hatar borgaralegt samfélag og óttast kosningarétt kvenna og þessvegna viljum við og skulum ná honum. Einnig með baráttu fyrir kosningarétti kvenna flýtum við þeirri stund, þegar núverandi samfélag hrynur i rúst undan hamarshöggum byltingarsinnaðra öreiga.

 


Athugasemdir:

[1] Árið 1902 gaf innanríkisráðherra Prússlands út tilskipun um að á stjórmmálafundum mættu konur aðeins vera í sérstökum hluta salarins, "kvennageiranum".

 


Last updated on: 10.03.2008